5. júní 2013
Slóvenía - Króatía - Bosnía - 7
Algjör letidagur í bongóblíðu. Hér er brakandi sól og þægilegur hiti. Leigðum okkur hjól í morgun og hjóluðum út með allri strandlengjunni. Þar fundum við ansi góðan stað þar sem við bökuðum okkur í sólinni. Ætlaði í sjóinn en þegar ég sá öll ígulkerin á botninum hætti ég snarlega við. Er ekki búin að gleyma því þegar að Bjarni Rúnar steig á ígulker í Svarfjallalandi hér um árið. Það var þvílíkt vesen...
En hér er ógrynni af þýskum túristum og nokkrir Ítalir en það er greinilegt að ferðamannatíminn fer hér hægt af stað. Þeir kvarta heil ósköp yfir því, heimamenn, að veðrið hafi verið svo vont og að allir séu svo blankir og þess vegna séu ferðamenn svona fáir. Við erum heppin bæta þeir við að vera hér akkúrat þegar veðrið batnaði. En við heima á Fróni erum alltaf að kvarta yfir stuttum ferðamannatíma! Hér er hann eiginlega ekki mikið meira en 2 mánuðir, júli og ágúst. Merkilegt að halda úti heilu veitingahúsunum og ísbúðunum fyrir svona stutta tíma.
En eins og ég sagði þá eru hér Þjóðverjar úti um allt. Þegar við hjóluðum út með ströndinni í morgun lá stígurinn í gegnum FKK svæði sem var alveg kjaftfullt af fólki. FKK stendur fyrir freie körper kultur. Nektarnýlendur hét þetta víst einu sinni. En þetta var ansi mikið öðruvísi en maður á að venjast úr sundlaugunum heima :-) Vorum að hugsa um að stoppa en sáum svo ekki alveg tilganginn :-)
Síðdegis fórum við á rúntinn og heimsóttum aðra strönd í smábænum Valun þar sem voru engin ígulker. Þar komst ég í sjóinn og synti slatta þar til fiskarnir fóru að synda utan í mig, Það þoli ég jafn illa og kóngulær !
Eftir allt þetta sólskin var ósköp notalegt að keyra uppí fjöllin og heimsækja miðaldabæinn Lubcinj. Útsýnið þaðan var stórkostlegt og þar sá maður strendur sem eru ótrúlega flottar. Alveg lokaðar og þessi tærblái sjór allt um kring.
Hér ilmar allt af jasmínum sem standa í blóma og lavender er úti um allt. Gamlar konur sitja í hverju dyragati og selja ólífuolíu og vilja að maður smakki afurðina úr glasi ! ! !
Fórum á veitingastað í kvöld, Bukaleti, sem er hér aðeins fyrir utan. Helga Kristjáns hafði verið hér í vetur og mælti með þessum stað. Var líka virkilega huggulegur þó að lambakjötið hér sé eiginlega alveg eins og heima ;-)
Comments:
Skrifa ummæli