10. júní 2013
Slóvenía -Króatía - Bosnía - 11
Lögðum af stað í bítið með rútu til Mostar. Svo til eingöngu heimamenn í rútunni enda ferðalangar flestir sofandi á þessum tíma eða að týnast heim af djamminu, mættum slatta af þeim þegar við röltum á rútustöðina. Rétt fyrir kl. 6 í morgun var hitinn um 20 stig.
Þetta er óskaplega falleg leið og gaman að sjá hversu fjölbreytt landslagið er. Vegurinn lá meðfram Adríahafinu enn og aftur "The Adriatic highway". En núna var hann heldur glannalegri enda er svo til ekkert undirlendi hér við ströndina. Það var afar stressandi þegar rútan klauf hlíðarnar og fleiri hundruð metrar voru þverhnípt ofaní sjó. Þetta er heldur óþægilegra heldur en að vera á einkabíl, hér er maður svo miklu hærra uppi. Stjórnsemina er líka nauðsynlegt að hemja í rútu þar sem það er frekar hallærislegt að fara að skipta sér af glannalegum akstri bílstjórans, þó það væri nú ekki vanþörf á...
Evrópusambandið kemur sterkt inn hér í Króatíu rétt eins og í Slóveníu og hér eru stórkarlalegar vegaframkvæmdir víða. Gríðarlegar brýr til þess eins að losna við dældir í landslaginu og annað í þeim dúr skera í augu. Set inn eina mynd af einni þeirra.
Sífellt hitnaði þegar innar dró í landið og þegar við komum til Mostar var hitinn orðinn 32 gráður í forsælu. Stranddagarnir í Split hafa sett mark sitt á hörundslitinn og því var engan veginn óhætt að fækka mikið fötum hér. Vorum að kafna úr hita í mollunni sem hér var í dag.
Byrjuðum á að að skoða frægustu brú Balkanskagans "The old bridge". Gríðarlega falleg og mikilfengleg. Hún var upphaflega byggð á tímum Ottoman veldisins eins og svo margt annað hér en 1993 var hún sprengd í tætlur af Króötum. Eftir stríð tók alþjóðasamfélagið sig saman um að endurbyggja brúna sem tákn um sáttina í samfélaginu. Það er sérstakt að ganga hér um götur og vita og sjá víða hvernig stríðið fyrir einungis 20 árum lék þetta svæði. Kirkjugarðarnir hér eru margir hverjir inní miðjum bæ og þar er gríðarlegur fjöldi fólks grafinn sem lést 1993 en þá hófst stríð Króata gegn Mostar og svæðinu hér í kring.
Skoðuðum líka tyrknest heimili og klifum einn turninn við mosku hér í bæ. ÞAÐ verður ekki endurtekið. Örmjór steinstigi uppí hæstu hæðir - ekki séns að mæta fólki á leiðinni og hrikalega langt upp... Útsýnið alveg þess virði en svalirnar svo mjóar að manni fannst maður vera að hrynja niður við hvert skref. Hrikalega glæfralegt.
Síðdegis fengum við okkur leigubíl og afar skemmtilegan leiðsögumann sem keyrði með okkur í bæina hér í kring. Heimsóttum smábæinn Pocitelj þar sem er moska, turn og virkisveggur í afar fallegum miðaldabæ. Klifum þetta allt saman þrátt fyrir stirðleika eftir átökin við mosku turninn. Þaðan fórum við til Blahinj en þar á áin Buna upptök sín. Þetta er stærsta uppspretta í Evrópu og þvílík uppspretta. Undan gríðarháu fjallinu streymir út um helli svo mikið vatn að ég hef aldrei séð annað eins. Allar uppsprettur heima blikna í þessum samanburði. Þarna var líka óvenjumikið vatn í ánni og útiveitingastaðirnir að nokkru leyti á kafi vegna þessa. Á leiðinni rákust við á stærðarinnar slöngu á veginum. Það minnti mig enn og aftur á það hvers vegna maður fer ekki útí skóg hér... Bæði eru enn fjölmargar jarðsprengjur ósprungar víða og svo eru allt krökkt hér af þessum kvikindum....
Dagurinn með okkar fína leiðsögumanni tók á heilasellurnar enda talaði hann ekki ensku heldur þýsku. Það þýddi að ég þurfti að spjalla við manninn hálfan dag á þýsku. Alltaf að fara útfyrir þægindarammann :-) Gekk reyndar alveg ótrúlega vel -
Í Mostar er einstaklega skemmtilegur basar í gamla bænum. Markaður þar sem reynt er að selja manni allt milli himins og jarðar. Virkilega skemmtilegur bær en hér nægir alveg einn dagur til að sjá þetta allt saman.
Hér er búinn að vera 32 stiga hiti í allan dag og brakandi sól. Aðeins og mikið fyrir okkur Frón búana. En hittum hér hjón frá Saudi Arabíu sem fannst þetta nú ekki neitt þar fer hitinn í um 50 gráður á sumrin. Hér verður reynar líka gríðarlega heitt á sumrin fer oft yfir 40 gráður svo við erum á góðum tíma.
Á morgun tökum við rútu til Sarajevo...
Útsýnið úr minorettunni..
Gamla brúin í Mostar - þarna stóður ungir strákur og buðu dýfingar fyrir 25 EUR. Þetta eru um 23 metrar niður.
Cevapi er hreint ómissandi hér í Bosníu. Frábærlega gott!
Á veitinastað við gömlu brúna.
Vegurinn mann lifandi að drepa við Adríahafið.
Sniðugt hjá þeim að nenna ekki að keyra ofan í þessa dæld....
Comments:
Skrifa ummæli