<$BlogRSDUrl$>

31. maí 2005

Nýtt aðalskipulag ! !

Fundað var í dag um drög að aðalskipulagi Hveragerðisbæjar með bæjarstjórn, skipulags- og bygginganefnd og skipulagsfulltrúum. Um vel flest atriði eru allir sammála enda gríðarleg vinna verið lögð í undirbúning og vinnslu tillagnanna. Helst stendur styr um staðsetningu íþróttasvæða og mannvirkja og hversu mikið land á að taka undir slíkt.
Allir eru sammála um uppbyggingu svæðisins undir Hamrinum sem útivistarsvæðis en skiptar skoðanir eru um hversu nálægt svæðinu byggðin á að fara. Það er nokkuð ljóst að Ullarþvottastöðin mun víkja annað hvort undir grænt svæði eða íbúðabyggð. Verði það úr að allur reiturinn verði gerður grænn mun það kalla á heilmikla fjárfestingu fyrir bæjarfélagið vegna uppkaupa á Ullarþvottastöðinni og minni tekna af gatnagerðargjöldum. Slík ákvörðun mun aftur á móti sýna ákveðna djörfung og framsýni. Verði aftur á móti byggð meðfram Dynskógunum verður kostnaður bæjarfélagsins vegna gatnagerðar óverulegur en hugsanlega rýrist svæðið sem útivistarsvæði, aðkoma að því verður erfiðari og útsýni til Hamarsins skerðist. Þetta ásamt fleiri atriðum verður betur skoðað fyrir næsta fund.
(Fyrir þá sem ekki þekkja til er rétt að geta þess að Dynskógarnir eru enn ómalbikaðir, ein af því miður of mörgum götum hér í bæ sem þannig er ástatt um)!!!

Á fundinum kom fram að á núverandi bæjarstæði, Bæjarflötinni, eru 36 hektarar óbyggðir. Miðað við fjölgun íbúa um 2,5% á ári verður það svæði fullbyggt árið 2026, með rétt tæplega 4000 íbúa. Á öðrum skipulagssvæðum höfum við 103 hektara þannig að það er langur vegur frá því að Hveragerði sé landlaust eins og oft hefur verið haldið fram.
Við erum í forréttinda hópi sveitarfélaga. Hveragerði er tiltölulega lítill bær, vel staðsettur, sem gæti byggst mjög hratt upp. Nú eru í byggingu eða á döfinni um 200 íbúðir
þar sem munu búa um 600 íbúar, miðað við 2,63 íbúa pr. íbúð. Það verður spennandi að fylgjast með þróun mála hér á næstu árum. Allavega er alveg ljóst að það er enginn hörgull á fólki sem vill setjast hér að ! !

Seinni borgarafundur um aðalskipulagstillöguna hefur verið ákveðinn 12. júlí kl. 20.

30. maí 2005

Blogg, stafganga og Landbúnaðarstofnun !

Það er gaman að sjá hversu margir eru farnir að líta reglulega við á blogginu og fylgjast með því sem ég set hér inn. Ef þið hafið einhverjar athugasemdir þá hikið ekki við að senda mér línu. Ætlun mín er að halda áfram að skrifa eitthvað á hverjum degi, en auðvitað eru sumir dagar viðburðarríkari en aðrir og færslurnar því afar mismunandi. Þið munuð aftur á móti ekki fá að vita hvenær ég fer í klippingu eða hvað var í kvöldmatinn enda tel ég það hvorki áhugavert né koma neinum við !

Aftur á móti gæti verið áhugavert að vita það að ég fór í kennslustund í stafgöngu hjá vinkonu minni í dag. Hún er sprenglærð í faginu og þrömmuðum við(hún) faglega um túnið á Heilsustofnun. Sá staður varð fyrir valinu þar sem hann er í góðu skjóli frá vökulum augum vegfarenda :-) Hef nefnilega enga sérstaka ánægju af því að stunda líkamsrækt fyrir allra augum þó að mér hafi nú vinsamlega verið bent á það að skrýtnara fólk en ég hljóti nú að hafa sést í Hveragerði ! ! !
Entumst reyndar ekki lengi á túninu og enduðum á að labba hringinn uppí Ölfusborgir. Mjög skemmtileg gönguleið og ekki spillti veðrið fyrir, sólskin og hiti.
---------------------------------
Það kom mér ekki á óvart en olli mér samt vonbrigðum að Guðni Ágústsson skyldi ekki nota tækifærið sem honum gafst til að styrkja rekstur Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi. Það hefði hann getað gert með því að staðsetja hina nýju Landbúnaðarstofnun að Reykjum. Það tækifæri nýtti hann ekki heldur verður stofnunin staðsett á Selfossi. Einhverjum kann að finnast að ekki skipti máli hvort Selfoss eða Reykir urðu fyrir valinu, enda stutt á milli þessara staða. En eins og ég hef áður sagt þá þarfnast skólinn á Reykjum þess að fleiri stoðum verði skotið undir reksturinn, þetta hefði verið gullið tækifæri til þess . Nú vona ég að landbúnaðarráðherra og aðrir ráðamenn sjái til þess að áfram verði öflugt skólastarf að Reykjum í þessum eina háskóla sem við Sunnlendingar eigum.
--------------------------------
Rakst á þessa heimasíðu á netinu, þarna er komin frábær leið til að nýta betur heita potta sem hér eru í öllum görðum :-) Allt er nú til ...

28. maí 2005

Hellisheiði

Fylltist öfund þegar ég keyrði til Reykjanesbæjar í dag. Nýja tvöfalda Reykjanesbrautin er ekkert minna en bylting. Það finnur maður best þegar fyrst er keyrt yfir Hellisheiðina á degi eins og í dag.
Umferðin þar var engu lík, bíll við bíl á leið út úr borginni og ekki viðlit að komast framúr. Lestin í bæinn mjakaðist áfram á 70 því fremst fóru einhverjir í huggulegri skoðunarferð sem hægðu á sér í tíma og ótíma. Það er með ólíkindum að ekki skuli verða fleiri slys á Hellisheiðinni miðað við umferðina sem þarna er orðin. Af því að mér blöskraði umferðin um Heiðina þá kíkti ég á vef Vegagerðarinnar og sá að um Sandskeið hafa farið 10.378 bílar í dag, þar af fóru rúmlega 1500 um Þrengsli. Um Reykjanesbrautina hafa farið 8615 bílar. Þetta sýnir enn og aftur hversu mjög umferðin um Hellisheiði hefur aukist á síðustu árum. Nú er unnið að vegbótum á Hellisheiði og vegurinn verður breikkaður í 2+1 á löngum köflum. Mesta umbyltingin verður samt tilkoma nýrra mislægra Þrengslavegamóta sem leysa af hólmi stórhættulega gatnamót. Þó að við gleðjumst yfir þeim áföngum sem nú er unnið að þá getum við samt ekki annað en undrast það hvers vegna skrefið er ekki stigið til fulls. Við óttumst það Sunnlendingar að tvöföldun vegarins yfir Hellisheiði verði seint að veruleika miðað við þær áætlanir sem nú eru uppi.
Verð líka að taka undir með Guðjóni frænda mínum sem ritaði góða grein í Morgunblaðið um samgöngumál á Hellisheiði þar sem hann krafðist þess að akreinarnar(2+1)yrðu aðskildar með vírleiðara því aðeins þannig væri hægt að tryggja öryggi á vegum sem hannaðir eru með þessum hætti.

Ágæt mæting var á fundinn í Keflavík sem haldinn var í hádeginu. Að honum loknum rölti ég aðeins um aðalgötuna í góða veðrinu en miðbær Keflavíkur hefur tekið miklum breytingum undanfarið.

Var miklu fljótari heim enda engir dratthalar á ferðinni austur í það skiptið.

Alltof stór garðurinn sá síðan til þess að engu öðru en garðvinnu var sinnt í dag ! !

27. maí 2005

Útskrift FSU, Hollverðir og sameining

Rétt tæplega 100 nemendur voru útskrifaðir/brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Suðurlands í dag. Venju samkvæmt afhenti ég viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi en í þetta skipti hlaut Elín Magnúsdóttir frá Selfossi bókina góðu. Ég og Hjörtur Þórarinsson frá Laugardælum förum yfirleitt saman upp en þegar ég hef tilkynnt bestan árangur afhendir hann styrk frá Hollvarðasamtökum skólans til þess sem efstur var á stúdentsprófi. Gerðum okkur grein fyrir því í dag að stelpur hafa algjörlega einokað þetta en strákur hefur ekki, frá því þessi siður var tekinn upp, orðið efstur á stúdentsprófi við FSU, það er umhugsunarefni!
Annað sem vakti athygli var hversu fjölbreytilegur útskritarhópurinn var. Um helmingur útskrifaðist sem stúdentar. Aðrir voru að klára grunndeildir hinna ýmsu iðngreina, nokkrir að útskrifast úr meistaraskóla og áfram mætti telja. Fólk var líka á ýmsum aldri sem setti skemmtilegan svip á hópinn og sannar það að þegar menntun er annars vegar þá er mikið lagt á sig.

Útskriftarathöfnin í FSU markar orðið sumarbyrjun í mínum huga. Þetta er mikil hátíðarstund og virkilega gaman að fá að taka þátt í þessum tímamótum í lífi fólks.
----------------------------------------
Hollvarðasamtök skólans héldu aðalfund sinn að loknu hinu hefðbundna kaffiboði sem skólinn heldur útskriftarnemum sínum. Á fundinum var stjórnin einróma endurkjörin þannig að við Hjörtur höldum hvort öðru selskap á útskritarathöfnum enn um sinn og er það vel. Þessi samtök eru sífellt að eflast og greinilegt að skólinn á marga velvildarmenn sem vilja veg hans sem mestann.
---------------------------------------------------------
Það er þegar kominn kraftur í vinnu sameiningarnefndar en að öllum líkindum fannst ráðgjafi í dag sem getur tekið til starfa nú þegar. Ráðgjafinn heitir Sigurður Tómas Björgvinsson. Hann gjörþekkir það umhverfi sem við búum í hér á svæðinu en hann hefur verið í vinnu fyrir Árborg, Hveragerði og Ölfus undir merkjum Sunnan3. Að auki er það kostur að hann hefur stjórnað ferli sem þessu áður fyrir sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar. Það er skynsamlegt að reyna að hraða ráðningunni sem mest því tíminn flýgur og næg verkefni framundan fyrir bæði ráðgjafa og nefndarmenn.
! ... ! ... ! ... ! ... ! ... ! ... ! ... ! ... ! ... !

26. maí 2005

Hótel Þóristún, sameining, fundur og afmæli ! !

Eftir hádegi gengum við Sigurður Sigursveinsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, frá sölu á Hótel Þóristúni til Vicusar ehf. Hótel Þóristún hefur verið notað sem heimavist fyrir FSU en nú hefur nýtt húsnæði, Fosstún, tekið við því hlutverki. Söluverðið var 25,5 milljónir en bæði ríki og sveitarfélög á Suðurlandi hafa samþykkt að söluandvirðið gangi til uppbyggingar Fjölbrautaskólans.
Það er húmor í þessu hjá Vicus´ar mönnum því að sögn er Vicus latína og þýðir "Þyrping" sem er eins og flestir vita nafnið á eignarhaldsfélagi þeirra Baugsmanna ! !
--------------------
Fyrsti fundur nefndarinnar sem vinna á að sameiningu sveitarfélaganna í neðanverðri Árnessýslu var haldinn í dag. Þetta var góður fundur þar sem fulltrúar skiptust á skoðunum varðandi framkvæmd og markmið í þeirri vinnu sem framundan er. Það sjónarmið heyrðist að alltof lítill tími væri til stefnu, en kosningarnar á að halda þann 8. október. Flestir voru á þeirri skoðun að þetta væri gerlegt en halda þyrfti vel á spöðunum ef að það á að nást fagleg kynning og vinna meðal íbúa á öllu svæðinu. Sérstaklega sé litið til þess að megnið af þeim tíma sem er undir er á sumarleyfistíma landsmanna.
Ákveðið var að stofna vinnuhóp sem myndi hittast milli funda í stóru nefndinni. Þar eiga sæti einn aðili frá hverju sveitarfélagi. Þorsteinn Hjartarsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, var einróma valinn formaður sameiningarnefndarinnar.
---------------------
Ný hyllir undir lok fundarherferðarinnar "Stillum saman strengi". Fór í kvöld á fund í Þorlákshöfn, gat reyndar ekki verið lengi þar sem Hafsteinn frændi minn er 11 ára í dag og var búinn að bjóða í kvöldkaffi. Þar hittist fjölskyldan hress að vanda. Valdimar og Sigrún mættu reyndar ekki fyrr en undir miðnætti gjörsamlega úrvinda eftir ansi ævintýralega gönguferð með tæplega 40 tíundu bekkinga yfir Fimmvörðuháls.

25. maí 2005

Ís, enn um ársreikninginn og körfubolta ! !

Sölustjórinn og aðstoðarsölustjórinn lögðu upp í hringferð um landið á mánudag. Á tveimur bílum fullum af auglýsingaefni. Sölustaðir Kjörís vítt og breitt um landið verða eftir þessa ferð vel skreyttir auglýsingaefni frá okkur og Wall´s. Það er gaman þegar allt gengur upp og í þetta sinn tókst að tolla allar sendingar á réttum tíma, prenta pinnaplakatið og hafa allt til reiðu. Það er alltaf jafn spennandi að sjá endanlega útkomu á pinnaplakatinu sem er okkar besta og útbreiddasta auglýsing. Í ár er það annar stjórnandi Djúpu laugarinnar á Skjá einum sem prýðir plakatið.
-----------------------
Seinni umræða um ársreikning Hveragerðisbæjar fer fram þann 9. júní. Okkur gefst því góður tími til að fara yfir ársreikninginn og notfærum við okkur þann tíma vel !!
Í dag áttum við Sjálfstæðismenn góðan fund með endurskoðanda bæjarins og fórum við yfir forsendur og niðurstöðu reikningsins. Það er ljóst að reksturinn er arfaslakur og salan á hitaveitunni hefur ekki orðið sú björgun á skuldastöðu sem meirihlutinn vonaðist eftir. Langtímaskuldir bæjarins hafa þvert á móti aukist um rúmar 33 milljónir milli ára, sem hljóta að vera meirihlutanum mikil vonbrigði. Heildarskuldir bæjarsjóðs (A og B hluta fyrirtækja) nema nú rúmum 1,2 milljörðum króna eða 605 þúsundum á hvern íbúa.
Það getur verið fróðlegt að glugga í gamlar fundargerðir sérstaklega þegar núverandi meirihluti á í hlut. Samkvæmt ársreikningi 2001 eða við lok síðasta kjörtímabils voru heildarskuldir bæjarfélagsins og stofnana þess 668 milljónir eða 360 þús. á hvern íbúa. Þá áttu framsóknar og samfylkingarmenn í minnihlutanum ekki til nógu sterk lýsingarorð til að lýsa þeirri óstjórn og skuldasöfnun sem ríkti. Ætli þeim hinum sömu líði jafnvel í dag þegar þeir sjálfir halda um stjórnartaumana og skila jafn lélegri niðurstöðu og raun ber vitni? Ætli fyrrum leiðtoga Framsóknarmanna í Hveragerði og núverandi félagsmálaráðherra líði ekki hálf sérkennilega þegar hann gagnrýnir skuldasöfnun sveitarfélaga, hafandi átt stóran hlut í þeim ákvörðunum sem setja Hveragerðisbæ í þá stöðu sem nú er raunin?
---------------------------
Stelpurnar í meistaraflokk Hamar/Selfoss urðu HSK meistarar í körfubolta á dögunum, til hamingju stelpur !
9. og 10. flokkur kvenna og karla hjá Hamar/Selfoss hyggur á ferð í æfingabúðir til Serbíu í sumar. Það er ekki spurning að þau mæta sterk til leiks næsta vetur en unga fólkið hefur þegar skipað sér í hóp þeirra bestu í körfubolta á landsvísu.

24. maí 2005

Fjörið er byrjað fyrir alvöru útí ísgerð. Frystarnir tómir og sölumennirnir hafa allt á hornum sér þess vegna! Kjörís slapp nokkuð vel við fyrra verðstríð stórmarkaðanna en nú er slagur í gangi sem sýnir sig í gríðarmikilli sölu á þeim vörum sem seldar eru á lækkuðu verði. Gott fyrir neytendur en heldur verra fyrir áætlanagerð okkar sem er erfið í svona stöðu.
---------------------------
Við Drífa, Kjartan, Helga Þorbergs, Unnur Brá og undirrituð gerðum góða reisu í Biskuptungurnar í gærkvöldi. Uppsveita fólkið stendur alltaf fast á sínum skoðunum og liggur heldur ekki á þeim sem er stór kostur. Miklar umræður urðu um hin ýmsu mál og varð ég margs vísari af þeim umræðum sem þar fóru fram. Hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir kostnaði og umfangi refaveiða fyrir sveitarfélögin, eða þeirri vinnu sem fram hefur farið við Hagavatn þar sem heimamenn vilja gera lón sem flæða myndi yfir aurana þarna uppfrá en úr þeim hefur rokið með tilheyrandi mekki yfir byggðina í mörg ár. Málefni Gjábakkavegar var ofarlega í hugum manna enda ekki skrýtið þar sem það virðist vera strand í Umhverfisráðuneytinu, nokkuð ljóst að það þarf að ýta við því máli á nýjan leik. Samgöngumál og tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga var síðan þarna sem annars staðar efst á baugi.
---------------------------
Síðdegis í dag kynnti Hálfdán, fyrrverandi bæjarstjóri, umfangsmiklar hugmyndir að uppbyggingu í landi Hlíðarhaga og Álfafells. Þar gerir hann ráð fyrir að byggja um 50 íbúðaeiningar, einbýlishús, raðhús og fjölbýlishús. Kynning Hálfdáns og Orra Árnasonar, arkitekts, var áhugaverð enda efast fáir um að þetta landsvæði hentar ákaflega vel til íbúðabyggðar. Miðað við þessar hugmyndir mun myndast samfelld byggð frá núverandi húsum inn að dalsmynninu. Við fyrstu sýn virðast gönguleiðir og útvistarsvæði haldast en auðvitað á eftir að fara fram frekari vinna við skipulag og hönnun svæðisins. Leiðinlegt að einungis einn fulltrúi meirihlutans skyldi sjá sér fært að vera viðstödd kynninguna en vonandi að Sigga Kristjáns. miðli fróðleiknum til sinna manna.
-----------------------
Á fundi skipulags- og bygginganefndar í dag voru til umfjöllunar teikningar að fjölmörgum húsum og þar á meðal teikningar að hinu nýja sambýli fyrir fatlaða við Bjarkarheiði. Ekki var þó hægt að samþykkja nokkrar af teikningunum þar sem þær annað hvort fóru útfyrir bygginareit eða uppfylltu ekki skilyrði laga og reglna. Finnst alltaf jafn undarlegt að lærðir og reyndir hönnuðir skuli ekki skila inn réttum teikningum til nefnarinnar. Það tefur óneitanlega framkvæmdir þegar nefndin þarf að hafna teikningum því ekki er fundað á hverjum degi í okkar ágætu nefnd.
Annars bar það helst til tíðinda að nefndin samþykkti niðurrif á tveimur garðyrkjustöðvum, Heiðmörk 66 og 68. Þar fyrirhugar nýr lóðarhafi að reisa íbúðabyggð. Þó að áformum um þéttingu byggðar sé alltaf vel tekið finnst mér eftirsjá að gróðrarstöðvunum úr bænum. Þær hafa með ljósadýrð sinni og fjölbreytileika sett svip á þetta bæjarfélag frá upphafi og því finnst manni eins og menningarverðmæti séu að tapast við niðurrif gamalla og rótgróinna gróðrarstöðva í bænum. Reyndar gaman að því að mikil uppbygging á sér nú stað í gróðrarstöðvum við Þelamörk. Þar breiða nú úr sér litríkar breiður sumarblóma sem bíða þess að verða potað niður í garða landsmanna!!!
-----------------

22. maí 2005

Vor í Árborg !

Um helgina hefur verið mikið um að vera hjá nágrönnum okkar í austri en þar fór fram hátíðin "Vor í Árborg". Við skruppum á Selfoss seinnipartinn og kíktum á handavinnu sýningu eldri borgara á Grænumörkinni. Þar hefur mamma kennt bókband mörg undanfarin ár og á sýningunni sýndi hún gestum réttu handbrögðin. Hún er ótrúlega flink við þetta enda hefur hún nóg að gera í faginu. Í gær færði hún mér Árnesing frá 1990 til dagsins í dag, innbundinn í leður með tilheyrandi gyllingu. Það er ólíkt skemmtilegra að eiga þessar góðu bækur svona fallega innbundnar heldur en í kilju.
Sýning eldri borgaranna var fjölsótt og meðal annars var þarna full rúta af gestum úr Rangárþingi sem skemmtu sér hið besta.
Við kíktum líka á ljósmyndasýningu í Tryggvaskála þar sem til sýnis voru myndir sem flestar voru teknar á Selfossi á sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta voru skemmtilegar myndir sem sýndu vel daglegt líf á þeim tíma.
Síðan var ekið sem leið lá niður á Stokkseyri þar sem Veiðisafnið var skoðað. Ég hef komið þarna áður en strákarnir sem voru að koma þarna í fyrsta sinn voru afskaplega hrifnir enda ekki á hverjum degi sem hægt er að sjá villidýr eins og þau sem þarna eru og hvað þá byssu kostinn sem ekki síður vakti athygli ungra manna. Þarna var mikið af fólki og meðal annars heill kvennakór. Það er ótrúlegt að fólk skuli opna svona heimili sitt fyrir gestum og gangandi því safnið er í stofunni hjá eigendum þess.
Ætluðum að heimsækja hinn ný opnaða Töfragarð en urðum of sein svo það bíður betri tíma. Okkur leist samt vel á það sem við sáum og yngsti maðurinn vill ólmur fara sem fyrst aftur og prufa hoppu púðann sem hann veit að er í garðinum ! !

21. maí 2005

Fundur, ljóð og meiri Evróvisjón !

Í morgun var fundur hér í Hveragerði með þingmönnum, varaþingmönnum, sveitarstjórnarmönnum og öðrum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins. Miklar umræður urðu um hin ýmsu mál og virðast sömu málin brenna á öllum í hinu gamla Suðurkjördæmi. Efst á baugi eru samgöngumál og þá sérstaklega vegbætur um Hellisheiði sem og uppbygging Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þingmenn gerðu skilmerkilega grein fyrir störfum sínum og greinilegt að þeir hafa nógu að sinna. Við sveitarstjórnarmennirnir kynntum þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað í Hveragerði og framtíðarsýn okkar fyrir bæjarfélagið.
------------------------------------
Á neðri hæð Sjálfstæðishússins er Skagfirðingurinn Kristján Runólfsson að innrétta minjasafn. Hann hefur verið ötull safnari gamalla muna í Skagafirði en hefur nú flutt safn sitt suður yfir heiðar og áætlar að opna sýningu í byrjun maí. Það er mikil vinna á bakvið safn sem þetta og hægt að dást að þeirri elju sem Kristján sýnir. Kristján er einnig skáld gott og sýndi hann mér meðal annars kvæðabálk sem hann hefur ort undir einkennilegum bragarhætti sem ég hef ekki áður séð. Kallast það "Ljóðaþvaga". Sérstaða þessa háttar er í því fólgin að engu skiptir hvort ljóðin eru lesin ofan frá og niður eða hver lína frá vinstri til hægri. Ég náði ekki að leggja á minnið kvæði Kristjáns en fann á netinu eftirfarandi stöku eftir Atla Harðarson sem hann segir orta undir áhrifum af ljóðagerð Kristjáns:

Skáldin lofa ljóða þvögu,
lofa góðan þokka háttar.
Ljóða þokka þjóðir unna.
Þvögu háttar unna skáldin.

Sést betur ef vísurnar eru skrifaðar þannig að orðin raðist í dálka en þar sem blogg forritið býður ekki uppá svoleiðis lúxus þá verðið þið að finna út úr þessu sjálf, það er líka vel þess virði.
-----------------------------------------

Evróvisjón fagnaður á Heiðmörkinni í kvöld.
Tvíbbarnir voru þeir einu sem giskuðu rétt á úrslitin og héldu með þeirri grísku. Við hin töldum að undarlegar ástæður lægju þar að baki en þeir reyndust hafa rétt fyrir sér. Grannþjóðir okkar Danir og Norðmenn stóðu sig vel þrátt fyrir að ná ekki efstu sætum okkur til mikillar gremju. Gísli Marteinn átti mörg snilldarinnskot í útsendingunni í kvöld en hann er að verða algjörlega ómissandi í þessari keppni.

20. maí 2005

Landbúnaðarstofnun til Reykja

Á næstu mánuðum mun Guðni Ágústsson ákveða hvar hin nýstofnaða Landbúnaðarstofnun verður staðsett. Suðurland virðist koma mjög sterklega til greina og fáa sem undrar það. Suðurland er eitt blómlegasta landbúnaðarsvæði landsins og fyrirtæki sem tengjast matvælaiðnaði og landbúnaði eru hér fjölmörg. Nægir þar að nefna Mjólkurbú Flóamanna, Sláturfélag Suðurlands og Reykjagarð svo fátt eitt sé talið.

Reykir í Ölfusi hljóta að koma til greina sem fyrsti valkostur ráðherra þegar kemur að því að velja stað fyrir hina nýju stofnun. Þar er Landbúnaðarháskóli Íslands rekinn í dag. Þar eru tengslin við greinarnar og þar er fagþekking til staðar. Saman myndu þessar tvær stofnanir styrkja hvor aðra og mynda öflugan kjarna sem eflast myndi í því góða umhverfi sem í boði er að Reykjum. Það er afar mikilvægt að þingmenn okkar Sunnlendinga og sveitarstjórnarmenn stuðli að því með öllum ráðum að skólastarf eflist að Reykjum. Þar er í dag okkar Háskóli og öflugt skólasamfélag sem mikilvægt er að halda í héraði. Með staðsetningu Landbúnaðarstofnunar að Reykjum væri fleiri stoðum skotið undir starfsemina og þar með tryggt að miðstöð garðyrkju og landbúnaðar verður áfram á Suðurlandi.

19. maí 2005

Börn, FSU og Evróvisjón.

Í dag fæddist bæjarstjóranum okkar, Orra Hlöðverssyni og konu hans Helgu Dagnýju Árnadóttur stór og myndarlegur sonur.
Til hamingju með litla prinsinn.
Bæjarstjórnin hefur tekið áætlanir um fjölgun íbúa mjög alvarlega því það sem af er kjörtímabilinu hafa fæðst þrjú börn hjá bæjarfulltrúum og bæjarstjóra og eitt er væntanlegt í haust. Við konurnar höfum sagt við strákana að þeir þurfi nú ekki að taka loforðin svona bókstaflega, en allt kemur fyrir ekki :-)
-----
Bæjarráðsfundur í morgun var tíðindalítill einsog sést best á því að honum lauk eftir rétt rúman hálftíma. Gerist ekki oft en þó kemur þetta fyrir.
Nokkur umræða varð um byggingaframkvæmdir og ábyrð verktaka og byggingastjóra sé ekki farið eftir lögum og reglugerðum um frágang húsnæðis og fyrirmæli byggingafulltrúa hunsuð. Bæjaryfirvöld geta ekki annað en litið slík mál mjög alvarlegum augum og ljóst að standi verktakar sig ekki getur slíkt og á að hafa áhrif á lóðaúthlutanir til þeirra í framtíðinni.
--------------------
Síðdegis var fundur í skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands en þar hef ég verið formaður í nokkur ár. Þar voru mörg mál á dagskrá enda þetta síðasti fundur fyrir sumarfrí nefndarinnar. Örlygur Karlsson, aðstoðarskólameistari, mun láta af því starfi í sumar. Þakkaði nefndin honum góð störf og gott samstarf um leið og við fögnuðum því að hann er ekki að yfirgefa skólann heldur hverfur til annarra starfa innan hans. Skólameistari mælti með ráðningu Þórarins Ingólfssonar í stöðu aðstoðarskólameistara og gerði nefndin enga athugasemd við þá tilhögun.
Ennfremur kynntum við sölu Hótels Þóristúns(gömlu heimavistarinnar) en nú hefur Vicus ehf, gert tilboð í húsið uppá 25,5 milljónir. Reyndar er tilboðið háð því að leyfi bæjaryfirvalda í Árborg fáist til að breyta húsnæðinu í íbúðir. Teljum við að það mál ætti að vera auðsótt enda húsið staðsett í íbúðahverfi.

Guðmundur Sigurðsson í Hraungerði er með okkur í bygginganefndinni og hann sendi okkur hinum eftirfarandi stöku í tilefni samningsins:

Nefndin okkar frið mun finna,
fasteignin er núna seld.
Milljónir frá Magnús Ninna
munu nýtast, - að ég held.
---------------
Venju samkvæmt hittist stórfjölskyldan til að horfa á Evróvisjón keppnina. Og eins og alltaf uppfull af stolti yfir okkar þátttakendum og eins og aðrir Íslendingar óþreyjufull eftir því að þessu formsatriði, forkeppninni, lyki.
En annað kom á daginn, það var hneyksluð og hundfúl fjölskylda sem varð vitni af því að Selma okkar allra komst ekki áfram þrátt fyrir frábæra frammistöðu. Hvert atriðið öðru undarlegra hlaut brautargengi svo er nema von að maður spyrji, á hin íslenska þjóð virkilega enga vini í útlöndum ???
Höfum samt ákveðið að halda Evróvisjón partý á laugardaginn og halda með hinni gömlu herraþjóð okkar Dönum, flott lag og svo er söngvarinn frá Odense sem er nú ekki verra. Norðmenn og Króatar skoruðu líka hátt hjá fjölskyldumeðlimum þannig að við lifum laugardaginn af þó með herkjum sé.
En Selma og stöllur stóðu sig frábærlega og voru landi og þjóð til mikils sóma, um það voru allir sammála ! !

18. maí 2005

Stillum saman strengi.

Bæjarráðsfundur er í fyrramálið klukkan 8 og fór drjúgur tími í að undirbúa hann. Fyrir nokkrum árum voru þessir fundir færðir frá klukkan 17 til 8 að morgni og var það mikil bót. Flestum þykir vart á bætandi alla þá fundi sem haldnir eru seinnipartinn og taka því fagnandi að einhverjir skuli haldnir á öðrum tímum. Fundahöld að morgni fela samt í sér fjarveru frá vinnu sem getur valdið vandkvæðum. Þessar fjarvistir bæjarfulltrúanna hafa þó verið litnar mildum augum enda má líkja starfinu við þegnskylduvinnu. En það er nokkuð ljóst að langir fundir á vinnutíma eru seint til þess fallnir að hvetja fólk til þátttöku í pólitísku starfi. Oftast eru bæjarráðsfundir búnir fyrir klukkan 10 en mikið lengri fundarseta er verulega illa séð af bæjarráðsfulltrúum. Stundum kemur þó fyrir að mál æxlast þannig að fundirnir eru mun lengri og þá reynir maður að koma sér svo lítið beri á í sætið sitt í vinnunni og vonar að ekkert stórvægilegt hafi komið þar uppá í millitíðinni.
-----

Í kvöld var fundur á Selfossi í fundaröðinni "stillum saman strengi".
Hver fundur hefur sitt yfirbragð og ber merki þess stjórnmálaumhverfis sem ríkir á hverjum stað. Í Árborg hafa Sjálfstæðismenn einungis tvo fulltrúa af níu í bæjarstjórn og því er verk að vinna þar fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Þegar er hafin þar vinna við málefnastarf og ljóst að Sjálfstæðismenn munu einskis láta ófreistað til að hlutur þeirra verði réttur við næstu kosningar.
---------------
Veðrið hefur verið yndislegt undanfarna daga, allur gróður er kominn af stað og tímabært að slá lóðina í fyrsta sinn. Hér eru líka allir á fullu við að taka til í görðum og undirbúa sumarið. Fyrir nokkrum árum datt fáum til hugar að planta út sumarblómunum fyrr en rétt fyrir 17.júní en undanfarin ár hefur sala á þeim hafist uppúr miðjum maí. Spurning hvort bjartsýni landans hafi aukist svona mikið eða veðurfarið breyst til hins betra ! ! !

17. maí 2005

Mikið vill meira.

Suma daga er meira að gera í fundahöldum en aðra og einhvern veginn finnst mér alltaf koma gríðarleg törn á vorin þegar öll félög og nefndir ætla að reka endahnútinn á vetrarstarfið með trukki.

Í dag var fundur í skólanefnd grunnskólans í Hveragerði. Það er ekki venjan að funda svona ört í nefndinni en vegna stórra mála á síðasta fundi varð að skipta fundinum og var fundurinn í dag því helgaður leikskólunum. Fjallað var um inntökureglur leikskólanna, dvalarsamning og skólanámskrár leikskólanna lagðar fram. Það er full ástæða til að hvetja foreldra og forráðamenn til að kynna sér námskrárnar en þær er hægt að nálgast hér: Undraland og Óskaland. Nokkur umræða varð um það hvort loka bæri leikskólunum á aðfangadag og gamlársdag. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að vísa því máli til bæjarstjórnar til ákvörðunar. Ég tel aftur á móti að á meðan þessir dagar eru almennir vinnudagar til hádegis þá geti leikskólarnir ekki annað en haft opið fyrir þau börn sem á þjónustunni þurfa að halda. Einhliða ákvörðun einstaka bæjarstjórna í þessa veru hlýtur líka að hafa áhrif á kjaraviðræður leikskólakennara og ætti því fremur heima á borði launanefndar sveitarfélaga heldur en hjá sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um landið.

Skrapp austur á Hellu í kvöld á fyrsta fund í fundaröð þingmanna, varaþingmanna og sveitarstjórnarmanna í Suðurkjördæmi. Fundaherferðin ber heitið "Stillum saman strengi" sem lýsir því ágætlega sem þar fer fram. Fundurinn var mjög góður, líflegur og skemmtilegur, enda settur upp með þeim hætti að allir tóku virkan þátt í umræðunum. Þingmenn kjördæmisins fóru vel yfir það sem áunnist hefur og er ljóst að framkvæmdir hér í Suðurkjördæmi hafa verið miklar undanfarin ár. En mikið vill meira og sú uppbygging og fólksfjölgun sem hér á sér stað kallar á enn frekari framkvæmdir á mörgum sviðum en þó sérstaklega samgöngumála og heilbrigðismála.
Það er hugur í Sjálfstæðismönnum og fundir sem þessir efla baráttuþrekið enn frekar.
Annað kvöld er fundur á Selfossi og verður gaman að sjá hvort sömu málefni verða efst á baugi þar.

16. maí 2005

Austurland um Hvítasunnu

Komin heim eftir skemmtilega ferð austur á land.

Valgerður og Orri sáu til þess að vel fór um sunnlenska hópinn í glæsilegu sumarhúsi í eigu Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi. Þar var umhverfið eins fallegt og hægt er að hugsa sér. Greniskógur myndaði ramma um húsið en að framanverðu var útsýni til Snæfells og bæjarlækur í hlaðvarpanum. Ekki hægt að hafa það betra! Veðrið þennan fyrsta dag spillti ekki fyrir, heitur andvari að sunnan og sólskin. Skógurinn er afar fallegur á þessu svæði, margar merktar gönguleiðir og búið er að auðkenna trjátegundir. Það er greinilegt að þarna eru meiri snjóþyngsli en við Sunnlendingar eigum að venjast og sér þess víða merki í skóginum.

Á laugardeginum komu Valgerður, Sóley og Fjóla með börnin og fórum við öll til Hallormsstaða þar sem sýning nemenda á skólanum stóð yfir.
Laufey Sif sló öll met í fjölda aðstandenda :-)
Það er gaman að skoða þetta aldna skólahús þar sem andi fortíðar svífur yfir vötnum. Ekki síður var gaman að sjá afrakstur annarinnar hjá nemendum. Ótrúlega margt fallegt sem þau hafa búið til þarna á ekki lengri tíma. Flott að þetta síðasta vígi kvenna er löngu fallið, en þarna eru oft strákar við nám og á þessari önn tveir. Sú hússtjórnarskóla gengna ætlar sér reyndar ekki heim í bráð, því hún er búin að ráða sig til Skógræktar ríkisins á Hallormsstað og ætlar að sinna umhverfi og gestum staðarins í sumar.

Á sunnudeginum brá okkur í brún þegar litið var út en þykkt snjólag lá yfir öllu, afskaplega fallegt en ekki eitthvað sem við áttum von á!
Skoðuðum Egilsstaði en þar á sér nú stað gríðarleg uppbygging. Heilu hverfin spretta upp eins og gorkúlur og greinilegt á öllu að mikill hugur er í Héraðsbúum. Renndum síðan yfir til Reyðarfjarðar þar sem framkvæmdir við fyrirhugað álver slá öllu við. Þar er nú búið að opna verslunarmiðstöðina Molann, sem gerir það að verkum að íbúar í Fjarðarbyggð hafa mun minna að sækja annað en áður var. Þar sem við keyrðum fyrir Hólmanesið var ekki annað hægt en að dáðst að dugnaði Sigurbjargar og Sóleyjar sem gengu á Hólmatind í fyrrasumar. Ótrúlega öflugar þessar tvær!
Það er alltaf notalegt að koma á Eskifjörð, en eftir því sem Sigurbjörg býr þarna lengur verður staðurinn kunnuglegri okkur hinum. Þarna er nú verið að byggja sundlaug með öllu tilheyrandi í dalbotninum og rétt fyrir innan rís byggð einbýlishúsa. Sóley og Villi eru hefja þar framkvæmdir við einbýlishús sem án vafa verður risið næst þegar leið mín liggur til Eskifjarðar. Í þetta skipti létum við verða af því að fara í Helgustaðanámuna en þar var silfurberg unnið fram á tuttugustu öld. Göngin eru mjög lág þannig að það er ekki fyrir hávaxna að skríða þarna inn en göngin víkka þegar innar er komið og hægt að ganga upprétt á köflum.
Virkilega gaman að skoða þennan sérstaka stað.
Ekki hægt að yfirgefa Fjarðarbyggð nema skoða Neskaupsstað þannig að þangað lá leiðin næst. Vegurinn yfir Oddsskarð er hlykkjóttur og hækkunin mikil og það verður ekki af því skafið að staðurinn er afskekktur þó stór og búsældarlegur sé. Þarna skoðuðum við snjóflóðavarnirnar sem eru gríðarleg mannvirki og ekki skrýtið þó þetta sé eitt aðal aðdráttarafl ferðamanna á staðnum. Manni finnst óskiljanleg sú tilhugusun að svo mikill snjór geti fallið að mannvirki af þessari stærðargráðu þurfi til að stöðva hann. Merkilegt samt að í fjarska virka snjóflóðavarnirnar alls ekki stórar það er ekki fyrr en komið er að þeim sem maður uppgötvar hversu tröllaukið þetta er.

Í dag fórum við meðal annars á skemmtilega sýningu í nýja fjölnotahúsinu í Fellabæ en þar sýnir nú Norðmaður nokkur myndir af daglegu lífi samafjölskyldu í Finnmörku.
Fallegar myndir af lífi hreindýrabænda í umhverfi sem er afar ólíkt okkar. Signý Ormarsdóttir sýndi líka fatnað úr hreindýraskinni sem sýnir manni vel hversu mikið má nýta af afurðum hreindýrsins.

Það er ómetanlegt að eiga góða að og við vorum rækilega minnt á það um helgina hversu heppin við erum að því leyti. Hafið kæra þökk fyrir frábærar móttökur Sigurbjörg, Valgerður og Orri, Sóley og Villi, Fjóla og Viðar og litlu stýrin öll.

Skoðið nýjar myndir að austan á myndasíðunni!
-------------------
Nú tekur við annasöm vika með miklum fundahöldum en þingmenn, varaþingmenn og sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins halda nú fundi vítt og breitt um Suðurkjördæmi, hitta flokksmenn, skiptast á skoðunum og heyra viðhorf heimamanna. Annað kvöld er fundur á Hellu, miðvikudag verður fundur í Árborg og svo koll af kolli.

12. maí 2005

Bæjarstjórn, ís ársins og ITC

Bæjarstjórnarfundur var stórtíðindalaus að þessu sinni. Lítil umræða varð um ársreikninginn enda er það ekki venjan við fyrri umræðu. Endurskoðendur bæjarins þeir Ólafur Kristinsson og Ólafur Gestsson, mættu báðir á fundinn og fóru yfir reikninginn. Samkvæmt lögum þarf tvær umræður um ársreikning og nú verður farið betur yfir forsendur og niðurstöður. Bókanir og frekari umræður fara síðan fram við seinni umræðu í júní. Minnihlutinn mun funda með endurskoðendum milli umræðna og fá frekari útskýringar á nokkrum liðum.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að hefja vinnu við stefnumótun á sviði fræðslu- og uppeldismála. Skólanefnd verður leiðandi í stefnumótunarvinnunni en að henni koma allir þeir sem láta sig málaflokkinn varða t.d. foreldrar, foreldraráð, starfsmenn og nemendur skólanna. Ég lagði á það ríka áherslu að við þessa vinnu yrði sérstaða Hveragerðisbæjar látin njóta sín og skólastefnan myndi endurspegla það samfélag sem hér er og við viljum sjá hér til framtíðar.
Eitthvað fóru bókanir mínar frá bæjarráðsfundinum síðasta fyrir brjóstið á forseta bæjarstjórnar, alla vega fannst honum ástæða til að leggja fram sérstaka bókun þar sem hann "hvatti bæjarfulltrúa til að gæta hófs í orðavali við bókanir sínar í nefndum og ráðum bæjarfélagsins. Á það ekki síst við þegar fjallað er um störf bæjarstarfsmanna sem leggja sig fram við að vinna þau samviskusamlega."
Okkur Sjálfstæðismönnum fannst full ástæða til að bóka í tilefni af þessum orðum forseta.
"Við fögnum góðum ábendingum forseta um leið og við bendum á að bókun varðandi umhverfi og hirðingu bæjarfélagsins síðastliðið sumar var ætlað að hvetja meirihlutann til dáða á þessu sviði en var ekki beint gegn einstökum starfsmönnum. Meirihlutinn hefur væntanlega rétt eins og við fengið fjölmargar ábendingar í þessa veru frá bæjarbúum undanfarið ár."
Það er oft hálf skondið hversu illa núverandi meirihluti tekur gagnrýni, kannski er það rétt sem sagt er að "sannleikanum verður hver sárreiðastur."

Magnús Ágústsson, hinn ágæti bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, fékk í dag leyfi frá störfum í bæjarstjórn til 1. nóvember. Vonandi hressist hann fljótt og mætir galvaskur til starfa í haust. Við sæti hans í bæjarstjórn tekur Sigríður Kristjánsdóttir en Þorsteinn Hjartarson tekur sæti Magnúsar í bæjarráði.
----------------
Fréttamolar frá Kjörís

Ótrúlegt hversu vel salan fer í gang þetta vorið. Ýmsar tegundir eru uppseldar og er sérlega gaman að sjá hversu vel Ís ársins 2005 er að seljast. Það er greinilegt að hann fellur fólki vel í geð enda er eins gott að njóta hans nú, því nýr ís ársins lítur dagsins ljós á haustmánuðum en sölu verður hætt á 2005 útgáfunni um áramót.
----------------
Samstarfskona mín, Anna Kristín Kjartansdóttir, var nú nýverið kosin landsforseti ITC. Til hamingju!
Hvet ég alla til að kynna sér starfsemi þessara frábæru samtaka. Í nokkur ár var hér í Hveragerði starfandi deild innan ITC og var starfið þar með því skemmtilegra sem ég hef tekið þátt í.
Anna Kristín mun án alls efa efla starf samtakanna á komandi ári enda með eindæmum dugleg kona.
---------------------------
Nú verður nokkurra daga frí frá bloggi, því ég og strákarnir ætlum austur á land á morgun. Við ætlum á kíkja á sýninguna hjá nemendunum á Hallormsstað, heimsækja Sigurbjörgu á Eskifjörð og auðvitað hitta austfirska ættbálkinn allan. Mamma er líka með í för en við erum búnar að leigja okkur bústað á Einarsstöðum þannig að góður hluti Hreiðursættarinnar verður fyrir austan um helgina.
Óþreyjufullir aðdáendur bloggsíðunnar fá frekari fréttir ásamt myndum á mánudag.

11. maí 2005

Kíkið á nýjar myndir af Hauki Davíðssyni á myndasíðunni.

Ársreikningur, ESPA og athugasemdir

Það er fátt sem gerir manni eins gramt í geði eins og veikindi. Það má enginn vera að því í hinu erilsama nútímalífi að liggja lasinn. Varð því miður að segja pass í dag líka og senda varamann á skipulags- og byggingarnefndarfund og fresta vinnufundi minnihlutans sem vera átti í kvöld. Það er eins gott að þessi pest fari að gefa eftir því að á morgun er bæjarstjórnarfundur þar sem fram mun fara fyrri umræða um ársreikninga bæjarins. Venju samkvæmt kynnir endurskoðandi bæjarins Ólafur Kristinsson, reikningana og skoðunarmenn leggja fram skoðunarbréf sitt.
Það er fátt sem kemur á óvart við lestur ársreikningsins. Staða bæjarfélagsins er slæm, rekstrarniðustaðan er neikvæð um 138 milljónir og tekjur og gjöld svotil á pari. Ekkert er eftir af tekjum til að standa straum af fjármagnsliðum eða afskriftum.
Það er ekki flókið hvað yrði um venjulegt fyrirtæki sem rekið væri með þessum hætti. Meira um þetta síðar.
------------------------------
Aðalfundur ESPA, The European Spa Association, hefst í dag í Reykjavík. Hérlendir aðilar að þessum samtökum eru Reykjavíkurborg, Bláa lónið og Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Ráðstefnugestir sem eru um 140 talsins frá hinum ýmsu löndum munu sækja Hveragerði heim á laugardag eftir að hafa farið í dagsferð um Suðurland. Fulltrúar Hvergerðisbæjar munu bjóða til móttöku í húsnæði bókasafnsins þar sem gestir geta virt fyrir sér hina sérkennilegu jarðsprungu sem klýfur verslunarmiðstöðina nýju við Sunnumörk.
Heilsustofnun NLFÍ á vel heima í þessum góða félagsskap því þar á bæ hefur með markvissum hætti verið byggt upp metnaðarfullt og gott starf í gegnum tíðina.
------------------------------
Hef fengið nokkrar góðar athugasemdir við bloggsíðuna:
Í fyrsta lagi: Nei, ég vil ekki hafa "commment" eða gestabók á síðunni. Þeir sem vilja tjá sig geta/eiga að senda mér póst, sjá krækjuna hér til hliðar.
Í öðru lagi: Flotta tréð á myndasíðunni er hér útí garði, þetta er EKKI tekið í Brüssel um daginn ! !
Í þriðja lagi: Skal reyna að vera leiðinlegri og beittari, liggur bara svo skrambi langt frá eðlinu :-)

9. maí 2005

Það er að verða ansi vorlegt á Heiðmörkinni ! !

Þrátt fyrir pestina fór ég á skólanefndarfund Grunnskólans í dag. Nokkur stór mál lágu fyrir fundinum og fór skólanefnd vel yfir forsendur sem þar voru lagðar fram. Nefndin ræddi ennfremur bætt samskipti heimila og skóla, nauðsyn þess að endurvekja námsefniskynningar á haustin til að treysta samskipti þessara aðila, útivistartíma unglinga hér í bæ, málefni félagsmiðstöðvarinnar og fleira.

Nýverið kom upp alvarlegt mál varðandi fíkniefna notkun ungmenna og er afar brýnt að á slíku sé tekið samstundis. Lögreglan á svæðinu hefur ávallt brugðist vel við öllum ábendingum sem hún hefur fengið og svo var einnig nú. Úrræði lögreglunnar eru aftur á móti ekki mörg. Brotamenn teknir til yfirheyrslu en látnir lausir um leið því "málið telst að fullu upplýst". Litlar líkur eru aftur á móti á því að þeir láti af fyrri iðju.
Hlutverk okkar foreldra er stórt okkur ber að virða lögboðinn útivistartíma barna og unglinga. Við sem búum hér í nágrenni stór Reykjavíkursvæðisins verðum áþreifanlega vör við ásókn hingað um helgar og á kvöldin.
Með því að virða útivistartíma forðum við börnum okkar frá því að lenda í aðstæðum sem þau ráða ekki við !!

-------------------------------------

Okkur Alberti tókst að næla okkur í ansi myndarlega pest sem ekki ætlar að láta undan síga í dag.
Má auðvitað ekki vera að þessu, frekar en nokkur annar, þannig að ég lét senda mér vinnuna heim og ætla að tolla og panta að heiman í dag. Þökk sé tölvutækninni !!
Nú er mesti annatíminn í minni deild hjá Kjörís þegar nýjungar sumarsins eru að detta inn. Kistur, skápar og ísvélar streyma inn og allt þarf að komast í verslanir ekki seinna en í gær.
Það er nú gallinn við okkar annars ágæta land hvað sumarið er stutt og þar af leiðandi sumarsölutíminn. Hvort sem er á ís eða ferðatengdri þjónustu.
Það er markmið okkar að lengja þennan tíma í báða enda og hefur það borið ágætan árangur undanfarin ár.

7. maí 2005

Fjölmenni var við jarðarför Ingólfs Pálssonar sem fram fór frá Hveragerðiskirkju í dag.
Ingólfur og kona hans Steinunn Runólfsdóttir hafa búið hér frá árdögum byggðar í Hveragerði en þau fluttust hingað árið 1959. Í þá daga þekktust allir Hvergerðingar en í þannig samfélagi skiptir hver einstaklingur miklu máli. Ingólfur var alla tíð mjög virkur í starfi Sjálfstæðismanna hér í bæ og minningarnar um góðan dreng eru margar. Hugur okkar allra er hjá konu hans, börnum og fjölskyldum þeirra í dag.
------------------------------
Fann ansi sniðuga leið til að koma myndum á bloggið. Kíkið á linkinn hér til hliðar.
Þar er hægt að smella á myndalistann og fá myndirnar upp til skoðunar. Mun bæta inná safnið síðar ! !

6. maí 2005

Líffæragjöf

Lítið innslag í kvöldfréttum Stöðvar 2 vakti athygli mína í kvöld. Þar var fjallað um rannsókn sem gerð hefur verið á líffæragjöf hér á landi. Það sem sló mig við umfjöllunina var hversu mjög það hefur færst í vöxt að aðstandendur neiti að líffæri séu gefin úr látnum ættingja. Að fenginni reynslu veit ég að það er erfitt að ákveða slíkt þegar og ef til kastanna kemur. Skilgreining á heiladauða er fjarlæg okkur og því auðvelt að finnast ástvinur sinn enn á lífi þegar spurningin er borin upp. Tillitsleysi læknanna getur því virkað með ólíkindum.
Ég hef alla tíð haft þá skoðun að umræðan um heiladauða hafi verið alltof lítil þegar sú skilgreining var tekin upp hér á landi.
Eins og svo oft hefur gerst sýndi þjóðin lítil sem engin viðbrögð við breytingunni.

"Langflestir deyja þegar hjarta þeirra hættir að slá því að þá hættir heilinn að starfa eftir nokkrar mínútur. Liggi manneskja í öndunarvél á gjörgæsludeild kemur fyrir að heilastarfsemin hætti þótt hjartað slái enn og dæli blóði um líkamann. Þetta er kallað heiladauði og má staðfesta hann óyggjandi með rannsóknum og lýsa manneskjuna látna. Þegar svo er komið er unnt að fjarlægja starfhæf líffæri til ígræðslu áður en slökkt er á öndunarvél."


Við eigum að hlífa ættingjum okkar við ákvörðunum sem þessum. Þetta ákveðum við sjálf, tökum afstöðu til líffæragjafar og komum þar með í veg fyrir að nánustu ættingjar þurfi að velkjast í vafa um vilja okkar á sorgarstundum sem þessum. Landlæknisembættið hefur gefið út bækling um efnið og er gagnlegt að kynna sér hann.

Hamingjusamt ísfólk.

Þetta höfum við alltaf vitað, en aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Þessi frétt var í danska "Ekstra bladet" í gær.Du bliver lykkelig af is
Vi bliver faktisk lidt lykkeligere af at spise is. Det har et hold britiske forskere fra institut for psykiatri i London fundet ud af.

Når vi spiser den kolde is, aktiverer vi det samme lystcenter i hjernen, som når vi vinder penge eller lytter til vores yndlingsmusik. Under forsøgene fulgte forskerne blodstrømmen i hjernen ved hjælp af såkaldt magnettomografi (MRI).

MRI-maskinen bruger et stærkt magnetfelt til at tegne et billede af hjernen. Forskerne vil bl.a. bruge teknikker til at afsløre løgn ved hjælp af MRI-maskinen.

5. maí 2005

Samfylkingin, Lions og ferming

Á mánudaginn var haldinn framhaldsaðalfundur Samfylkingarinnar hér í bæ. Sem þykir auðvitað í frásögur færandi. Ekki hefur verið haldinn fundur í félaginu lengi og ekki lagðir fram ársreikningar í nokkur ár. Síðan þegar loksins á að halda aðalfund eru reikningarnir ekki áritaðir. Ekki gott afspurnar í félagi sem stjórnar heilu bæjarfélagi, því var ákveðið að fresta fundi. Það kom sjálfsagt engum á óvart að félögum þætti þetta ekki nógu gott og ákveðið var að reyna að breyta um yfirstjórn í félaginu. Sitjandi formaður "Kiddi Rótari" hafði ekki hug á því að láta af störfum enda hefur hann verið prímus mótor í félaginu síðan hann tók við og meðal annars staðið fyrir umfangsmikilli blaðaútgáfu. Hann mætti því tvíefldur á framhaldsaðalfundinn og hafði betur í slagnum við Ármann Ægi sem bauð sig fram á móti honum. Það er greinilegt að það er tekist á á vinstri vængnum og ljóst að ekki eru allir á eitt sáttir í þeim herbúðum.
-------------------------------------------------
Lionsballið víðfræga var haldið á Hótel Örk í gærkvöldi. Fulltrúar tíu fyrirtækja stigu þar á stokk og fluttu lög frá hippatímanum með tilheyrandi útbúnaði. Vel var vandað til dagskrár enda hefur þessi skemmtum fyrir löngu fest sig í sessi sem ein sú skemmtilegasta sem hér er haldin. Fyrir ágóðann í ár verða keypt hjartastuðtæki fyrir sundlaugina og íþróttahúsið. Hafið kæra þökk fyrir framtakið Lionsmenn.
-------------------------------------------------
Jón Hjalti, bóndasonur í Gýgjarhólskoti, var fermdur í Haukadalskirkju í dag.
Kirkjan er mjög falleg, en ansi lítil, og hentar því afar vel þegar einungis er verið að ferma einn dreng. Veisluhöld fóru fram á nýkeypta sumarsetrinu hennar Gunnu. Hentaði svona líka glimrandi vel fyrir veislu. Það verður virkilega gaman að sjá hvort það henti jafn vel fyrir "réttarsúpuna" sem búið er að bjóða til í haust ! !

3. maí 2005

Hvar er sumarið?

Nú er spurning hvort full snemma hafi verið fagnað sumri í gær. Í morgun var föl yfir öllu og ansi kuldalegt um að litast, svo mjög að ég sneri við í dyrunum á leið í morgungönguna og skipti á íþróttaskónum fyrir gönguskóna. Hafði reyndar lítið uppúr því annað en hælsæri. Þrátt fyrir nýlærðar varúðarráðstafanir!

Ég hef gengið meðfram Reykjafjallinu undanfarið en sú gönguleið er með þeim skemmtilegri sem hægt er að finna, hæfilega löng og hólar og hæðir við allra hæfi. Þarna hefur Garðyrkjuskólinn gróðursett myndarlega í gegnum tíðina og eru trén orðin margra metra há. Skjólið sem trén mynda er ótrúlegt en þrátt fyrir það er nauðsynlegt að grisja. Á nokkrum stöðum eru trén farin að taka völdin með full afgerandi hætti. Eins og til dæmis í Stórkonugili þar sem maður sér varla gilið fyrir afar stórvöxnu elri. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að skógrækt taki mið af umhverfinu og verði ekki til þess að náttúruperlur hverfi sjónum.

Hér í Hveragerði er afar auðvelt að rækta og njótum við forréttinda að því leiti. Við segjum oft að ef plantan þrífst ekki hér þá þrífst hún ekki á landinu.
Skógræktarfélag Hvergerðinga hefur starfað um árabil og staðið fyrir mikilli trjárækt bæði fyrir sunnan Hamarinn og nú hin síðari ár fyrir norðan hann einnig.
Göngustígar hafa verið lagðir um skóginn og er þar nú bæði fjölsótt og skemmtilegt útivistarsvæði. Er mikilvægt að hafa þessa sérstöðu bæjarins til hliðsjónar nú þegar vinna við nýtt aðalskipulag er í fullum gangi. Nýverið hittist bæjarstjórn ásamt skipulags- og bygginganefnd tvo laugardaga í röð og fór yfir markmið og væntingar til framtíðarþróunar byggðar í Hvergerði. Þetta var mjög skemmtileg vinna og skoðanir fólks sköruðust þvers og kruss á allar flokkslínur. Í skipulagsmálum sýnist sitt hverjum en fyrst og fremst eru allir að vinna eftir sinni sannfæringu. En það sem einum finnst rétt finnst öðrum rangt, þannig er það nú bara. Verður gaman að fylgjast með því í hvaða átt skipulagið þróast nú þegar lokasprettur aðalskipulagsvinnunnar hefst.
Gert er ráð fyrir að nýtt aðalskipulag taki gildi í upphafi árs 2006.


Vinnufundur bæjarstjórnar og skipulags- og bygginganefndar í apríl 2004.

2. maí 2005

Sumarið er komið

Sumarið er komið þrátt fyrir kuldakast undanfarið.
Það finnum við ávallt á því að símtölum fjölgar og lætin aukast útí ísgerð. Skyndilega setja allir ísbúðaeigendur saman vélarnar sínar og allir þurfa pinnakistur og það helst í gær. Bestu dagarnir eru oft snemma á vorin þegar enn er kalt í lofti en sólskin og bjart. Þá fara allir á stjá, uppgötva að það er enn of kalt til að vera úti við en fara samt í bíltúr og fá sér ís.
Það er virkilega gaman þegar allt fer á fullt. Reyndar er ekki lengur jafn mikill vertíðarbragur á ísnum eins og var. Fyrir um 15 árum síðan var hægt að loka verksmiðjunni í janúar og starfsmenn fengu frí eða dyttað var að húsum. Þetta er löngu liðin tíð. Nú er framleitt alla daga ársins og dugar varla til. Sumarið er reyndar mikill álagstími en þá bætist líka við hópinn fjöldi skólakrakka sem flest koma ár eftir ár.
Sumir vilja meina að það sé mikil uppeldisleg vöntun að hafa aldrei unnið í fiski, verandi Íslendingur.
Ég sem er alin upp hér í Hveragerði segi á móti að jafnmikið sé hægt að læra á því að vinna í gróðurhúsi, nú eða í ísgerð. Aðalatriðið er að unga fólkið fái vinnu og að einhver sinni þeim og kenni, bæði réttu vinnubrögðin og eins hvað felst í því að vera í vinnu. Það er heilmikill lærdómur fólginn í því að mæta, taka við verkefnum, sinna þeim vel, læra frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð.
Við höfum verið heppin hér í Hveragerði að yfirleitt fá skólakrakkar vinnu á sumrin. Hér er ákveðin vertíð, ferðamannavertíð, og vinnustaðir eins og Eden, garðyrkjustöðvarnar og hótelin fara á fullt þear vorar. Hér eru líka stórar og glæsilegar stofnanir eins og Dvalarheimilið Ás og Heilsustofnun NLFÍ sem sífellt eru að bæta við sig fólki. Nú eru að hefjast framkvæmdir við þvottahús á Ási en þar munu væntanlega skapast um 10 störf. Stórfelld uppbygging á sér einnig stað á HNLFÍ en þar var nýlega tekin í notkun ný baðálma með innisundlaug, heitum pottum, gufuböðum og fleiru. Teikningar hafa nú verið samþykktar af stórri útisundlaug þannig að enn ekkert lát er á uppbyggingu þar á bæ. Sú nýbreytni að opna síðan þessa aðstöðu alla fyrir almenningi mun án alls vafa auka hróður stofnunarinnar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet