30. júní 2021
Allt að gerast í blómabænum
22. júní 2021
Af malbiki, veitingastöðum og Vinnuskólanum
Malbikað við Gróðurhúsið |
Fór yfir vinnutíma yfirmanna í Tímon. Þetta er ekki það skemmtilegasta sem ég geri en nú er þetta verk komið í rútínu og ég að klára löngu fyrir mánaðamót. Launafulltrúinn var líka ansi kát með mig í morgun :-)
Samkvæmt tilmælum endurskoðenda bæjarins fer bæjarstjóri yfir útborguð laun allra starfsmanna. Í dag var ungmennum í Vinnuskólanum greidd fyrsta launagreiðsla ársins. Nú eru 56 börn á launaskrá í Vinnuskólanum en hann er fyrir börn fædd 2005, 2006 og 2007. Ef krakkarnir eru dugleg að mæta geta þau nælt sér í ágætis pening fyrir þessi störf sem þar fyrir utan eru oft á tíðum afar skemmtileg. Það munar um þessar duglegu hendur þegar kemur að umhirðu í bæjarfélaginu svo ég hlakka alltaf til þegar þessir ungu sumarboðar mæta á svæðið.
Vinna við að endurskoða umferðaröryggisáætlun Hveragerðisbæjar er að hefjast í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar. um málið. Það er ljóst að umferðarhraði hér í okkar litla bæjarfélagi er of mikill og því verður að breyta. Vegalengdir eru undantekningalaust það stuttar að það á enginn að þurfa að flýta sér með þeim hætti sem við sjáum alltof oft á götum bæjarins.
Í dag var malbikað allt í kringum Gróðurhúsið, hið nýja hótel og Mathöll Suðurlands. Nú er svæðið að taka á sig endanlega mynd og það er augljóst að þetta hús og umhverfi þess verður staðarprýði. Það verður spennandi þegar allir veitingastaðirnir opna og ekki síður þær verslanir sem þarna munu koma.
Átti fund í dag þar sem ákveðið var hvaða götur yrðu lagfærðar í sumar og eins hvaða göngustígar yrðu malbikaðir. Þetta eru nokkuð stórir áfangar hvað stígana varðar til dæmis stór tenging úr efra Kambahrauni í það neðra, göngustígar í Heiðarbrún, úr Bjarkarheiði í Réttarheiði svo fáeinir séu nefndir. Það að malbika göngustíga gerir þá sýnilegri og ætti vonandi að vera hvetjandi til gönguferða fyrir íbúa. Svo er þetta svo miklu snyrtilegra :-)
21. júní 2021
Í dag vann ég í samningi um kaup á Öxnalækjarlandi sem samþykkt var að ráðast út í á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Er þar um að ræða ca. 100 ha land og hlut í félagi sem heldur utan um eignarrétt á stóru svæði til viðbótar. Þetta er vonandi allt að smella saman en með þessum kaupum mun bæjarfélagið eignast stóran hluta af landinu innan bæjarmarka. Það er stór áfangi og mikilvægur.
Átti einnig símtöl vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Tívolí reitnum en þar halda sömu aðilar um lóðarréttinn og nú eru að byggja upp á Eden reitnum. Það verður spennandi uppbygging og gaman að sjá þegar þær hugmyndir fara að koma fram.
Fór yfir mál tengd götulýsingu, ræddi slátt á opnumg rænum svæðum í bænum, prófarkalas skilti, fór yfir atriði tengd málefnum fatlaðs fólks og ræddi málefni Suðurlandsvegar svo fátt eitt sé talið. Auk þess er ég enn að krafla mig niður listann yfir ófrágengna tölvupósta sem er svo gott að klára.
Í kvöld var nokkuð langur fundur meirihlutans. Alltaf skemmtilegt og alltaf vel mætt. Þetta er góður hópur með miklar skoðanir þar sem málin eru rædd fram og til baka og frá öllum hliðum. Ég fer alltaf ánægð af þessum fundum sem er dýrmætt þegar unnið er með stórum hópi mismunandi einstaklinga.
20. júní 2021
Helgin var viðburðarík en þær eru nú flestar þannig.
Haraldur og Steingrímur ömmu og afastrákar voru löngu búnir að panta helgargistingu hjá ömmu og afa og svo bættust Óliver og Stefán ömmur og afastrákarnir okkar úr Kópavogi óvænt í hópinn. Þetta eru líflegir og skemmtilegir ungir menn sem gaman er að vera með. Dýragarðurinn í Slakka var heimsóttur, sundlaugin í Þorlákshöfn og margt fleira en merkilegt sem það er þá slógu korktapparnir allt út í skemmtilegheitum. Heill haugur af korktöppum er endalaus uppspretta leikja hjá þessum ungu mönnum og það er hrein unun að fylgjast með því.
Vona nú að "haust" kvefið fari að gefa eftir. Það er ekki góð skemmtun að vera illa kvefuð um mitt sumar.
18. júní 2021
Fundur "á Ítalíu" í dag
Á síðasta ári var ég kosin einn af varaforsetum evrópsku sveitarfélagasamtakanna, fulltrúi Norðurlandanna. Þetta var á fundi í Orleans í Frakklandi í janúar á síðasta ári og síðan þá hef ég ekki farið til útlanda, út af dottlu!
Í dag flutti ég ræðu um jafnréttismál á þingi þessara sömu samtaka sem fram fór í Bologna á Ítalíu. Gekk hreint ágætlega. Ég aftur á móti sat nú bara í mínum góða stól hér við Breiðumörkina á meðan.
Það er alltaf gaman að deila reynslu okkar Íslendinga í þessum málum með öðrum þjóðum enda erum við hvað fremst í heiminum hvað jafnréttismál varðar. Á fundinum ræddum við einnig um ofbeldi og þar sagði einn at Bretunum frá því að þar rétt eins og hér hefði heimilisofbeldi aukist mikið á covid tímanum. Í ljósi þess að nú er EM í fótbolta í fullum gangi sagði hann einnig frá því að það lægju fyrir niðurstöður rannsókna um það að ef að breska landsliðið tapar leik þá yrði 38% aukning í heimilisofbeldi og því miður tapar liðið þeirra of oft, bætti hann við. Heimilið er því miður ekki sá griðarstaður fyrir alla sem við viljum og höldum að það sé. En hvað varðar jafnréttismálin þá kom einnig fram að fæstir kvenkyns leiðtogar í heiminum sitja tvö kjörtímabil eða lengur, þykir það mjög slæmt því karlarnir sitja svo sannarlega miklu lengur í embætti. Hér þarf að gera miklu betur því reynslan í þessum geira er svo mikilvæg og ekki síður samfella sem skiptir einnig miklu máli.
Horfði á fjóra þætti af Kötlu í gærkvöldi. Mér finnast þeir mjög góðir, passlega ógnvekjandi. Kvefið sá til þess að ég hámhorfði á Kötlu en fór ekki í göngu um gömlu þjóðleiðirnar sem boðið var uppá í gærkvöldi. Vona bara að sú ganga verði endurtekin því ég hef mikinn áhuga á að heyra sögu þjóðleiðanna um Hveragerði. Vorum einmitt að fá 400.000 króna styrk frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands til að gera söguskilti um gömlu þjóðleiðirnar. Stefnum á vígslu þess á Blómstrandi dögum í ágúst.
17. júní 2021
17. júní í Blómabænum
Gleðilega þjóðhátíð kæru vinir!
17. júní er einn af mínum uppáhaldsdögum. Einhvern veginn dagurinn sem maður fer út, hittir alla, og gerir sér svo góða grein fyrir gildi samveru og samfélagsins í lífi okkar allra.
Dagskrá 17. júní hér í Hveragerði er með hefðbundnum hætti eins og á að vera. Stundum fáum við gagnrýni fyrir öll þessi ræðuhöld og að börnunum leiðist á meðan. Ég er alin upp við það að dauðleiðast undir ræðu forseta bæjarstjórnar á sundlaugarbakkanum hér í Hveragerði bíðandi í ofvæni eftir laugargríninu. En sú bið var aldrei löng og alltaf þess virði. Ég held að börn dagsins í dag hafi bara gott af því að bíða. Bíða á meðan fjallkonan flytur ljóð. Bíða á meðan að nýstúdentinn flytur ræðu. Bíða á meðan við afhendum alls konar viðurkenningar og bíða á meðan við hlýðum á þjóðsönginn. Kannski er þetta eitt af því sem við höfum gleymt að kenna börnum okkar og það er gildi eftirvæntingar og nauðsyn þess að hafa þolinmæði og kunna að bíða. Svo er líka bráðhollt að láta sér leiðst í smá stund. Mættum öll gera meira af því :-)
En fyrir nokkrum árum var tekin sú ákvörðun að flytja hátíðarhöldin frá sundlaugarbakkanum þar sem þau hafa verið í áratugi og niður í Lystigarðinn Fossflöt. Ég var ein af þeim sem var afar hugsi yfir þessari breytingu. Sá þetta hreinlega ekki fyrir mér. En í dag sé ég að breytingin var til góðs. Aðgengi að svæðinu auðvitað miklu, miklu betra og umgjörðin öll dásamleg ekki síst núna þegar nýtt svið er komið í garðinn og aðstaðan öll orðin til fyrirmyndar. Sakna samt alltaf laugargrínsins og lýsi hér með eftir góðum hugmyndum að einhvers konar bæjargríni sem hægt er að framkvæma í Lystigarðinum!
En ég tók helling af myndum í gær og áhugasamir geta nálgast þær á facebook síðunni minni !
16. júní 2021
Skemmtilegur og góður dagur í blómabænum.
Hopp deilihjólaleiga tók nýverið til starfa hér í Hveragerði og nú má sjá rafskutlurnar þeirra út um allan bæ. Ég fékk að fara fyrstu ferðina og skemmti mér konunglega. Þetta er afar snjall ferðamáti þó hreyfingin sem maður fær á meðan sé lítil sem engin sem í mínu tilfelli allavega er ekki gott :-) Aftur á móti er það engin spurning að við hér í Hveragerði getum nýtt okkur umhverfisvæna samgöngumáta í miklu meira mæli en nú er gert. Bærinn okkar er af þeirri stærðargráðu að við getum gengið eða hjólað allt það sem þurfum að fara og tala nú ekki um fólk eins og ég sem bý í 101 Hveragerði!
Engir fundir fyrir hádegi í dag og lítil truflun af símtölum þannig að ég gat kraflað mig aðeins fram úr listanum óendanlega yfir tölvupósta sem þarf að vinna úr. Reyni að svara strax erindum sem berast og þá sérstaklega ef þau koma frá bæjarbúum en oft er í póstunum ýmislegt sem ég ætla að gera seinna og þá koma svona dagar sér vel eins og í dag.
Fórum eftir hádegi, leikskólastjórnendur, byggingafulltrúi, formaður fræðslunefdnar og ég í vettvangsheimsókn í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu til að skoða lausar kennslustofur. Þetta var skemmtileg ferð og afar gagnleg. Það er gott að sjá aðstæður í öðrum skólum og reyndar að sjá að við erum að gera ansi vel hér í Hveragerði í þessum málaflokki. Annars var ferðin skrautlega af ýmsum ástæðum og mikið rosalega er ég glöð, enn og aftur, að það eru ekki bæjarþorrablót í Hveragerði...
Matarboð í kvöld með góðum vinum. Mikið hlegið, spjallað og skrafað. Alltaf svo skemmtilegt.
15. júní 2021
Leikskólamál og lystigarðurinn
Átti góðan fund með leikskólastjórum í morgun. Fórum yfir ýmis mál meðal annars inntöku nýrra barna að loknu sumarfríi. Nú er verið að hringja út til foreldra barna á biðlistanum og tilkynna um upphaf leikskólagöngu. Um leið eru foreldrar barna sem boðið er pláss á Óskalandi látnir vita af því að sú staða gæti komið upp að ef að það vantaði mannskap í haust að þá gæti inntaka barna dregist eitthvað þess vegna. En þar með eru allavega öll þessi börn komin með pláss og komast inn um leið og búið er að manna allar stöður og enginn fer fram fyrir þau í röðinni. Ég hef fulla trú á að það takist að manna allra stöður og að ekki komi til neinna tafa þess vegna. Allavega hefur alltaf tekist að ráða starfsmenn á leikskólana og ég veit ekki af hverju það ætti ekki að takast núna.
Miðað við þetta þá verður nú hringt í alla foreldra sem eiga börn sem verða eins árs út september. Inntaka barna tekur aftur á móti tíma þar sem einungis fjögur-fimm eru aðlöguð að leikskólastarfinu í einu. Í dag eru því á biðlistanum börn sem verða eins árs í október (1) og síðar á árinu 2021 (7). Held ég að fá sveitarfélög séu að gera betur en það núna. Síðan er rétt að geta þess að nú er unnið að því að hér verði settar upp lausar kennslustofur sem munu svo geta tekið við enn fleiri börnum þegar þær verða komnar upp sem ætti að vera í október/nóvember ef allt gengur eftir.
Skoðaði sviðið sem nú er verið að byggja í Lystigarðinum en þar gengur verkið mjög hratt og þetta líka stóra og flotta svið er risið í garðinum. Það mun gefa fjölbreytta möguleika til nýtingar í báðar áttir en einng sjáum við fyrir okkur að þarna verði huggulegt að sitja og borða nestið sitt, liggja í sólbaði og njóta lífsins. Þarna er einnig verið að ganga frá og helluleggja í kring svo þetta verður allt fínt og flott á 17. júní.
Fór síðan rúnt um byggingasvæðin í bænum sem er alltaf skemmtilegt.
Í húsi átti ég fund um málefni fatlaðs fólks, svaraði ýmsum tölvupóstum og ýtti á eftir málum eins og til dæmis lausu kennslustofunum svo fátt eitt sé talið.
14. júní 2021
Leikskólamál, Pure North og Kjörís
Það er nóg um að vera í bæjarmálefnum og dagurinn í dag var engin undantekning þar á. Kláraði að lesa yfir bréfaskriftir lögmanna varðandi tvö mál hér í bænum en við vinnum afskaplega vel með lögmanni bæjarins, Óskari Sigurðssyni, á Lex lögmannsstofu.
Ræddi við tvo aðila varðandi lausar kennslustofur sem stefnt er að því að setja upp við leikskólann Óskaland komandi haust. Tillaga að breytingu á byggingareitum er að fara í grenndarkynningu og vonandi getum við komið þessum stofum upp í haust einhvern tíma. Nú er verið að hringja í foreldra barna sem verða 1. árs núna í júní og láta vita af upphafi leikskólagöngu. Það er vel gert miðað við flest sveitarfélög hér um kring. Aftur á móti er jafn ljóst að hér er skortur á dagforeldrum þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Hveragerðisbær býður tryggar greiðslur óháð barnafjölda, eina sveitarfélagið sem það gerir, Eingreiðslur við upphaf starfs og árlega eftir það en þrátt fyrir þetta þá eru viðbrögðin engin. Alveg stórmerkilegt og þá sérstaklega þegar tekið er tillit til atvinnuástands og fjölda atvinnulausra í samfélaginu.
Ekki þar fyrir að þá vantar víða fólk til starfa. Síðast þegar ég vissi þá vantaði starfsmenn í sundlaugina þegar hún opnar, það vantar á Upplýsingamiðstöðina, það vantar sálfræðing og félagsráðgjafar eru af skornum skammti svo fátt eitt sé talið. Fáir sóttu líka um flokksstjóra í vinnuskólanum þannig að okkur finnst ástand á vinnumarkaði harla undarlegt þessa dagana.
Eftir hádegi heimsótti ég Pure North, endurvinnslufyrirtækið, en þar var verið að skrifa undir samning á milli fyrirtækisins, sveitarfélaganna, Strandabyggðar og Skaftárhrepps og Bændasamtakanna um aðkomu þeirra að söfnun heyrúlluplasts sem síðan er komið í örugga endurvinnslu hjá Pure North. Áslaug Hulda, framkvæmdastjóri Pure North birtist svo skyndilega með franska kvikmyndagerðarmenn sem voru að gera heimildamynd um hringrásarhagkerfið og alveg óvænt vildu þeir viðtal við mig og Vigdísi Häsler um það! Það var skondin uppákoma og óvænt. Vona bara að enginn sem ég þekki sjái þetta viðtal :-)
Aðalfundur Kjörís og Steingerðis síðdegis og fram á kvöld. Þar skipum við systkinin stjórnir svo þetta eru ágætir fundir með endurskoðanda fyrirtækjanna.