21. júní 2021
Í dag vann ég í samningi um kaup á Öxnalækjarlandi sem samþykkt var að ráðast út í á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Er þar um að ræða ca. 100 ha land og hlut í félagi sem heldur utan um eignarrétt á stóru svæði til viðbótar. Þetta er vonandi allt að smella saman en með þessum kaupum mun bæjarfélagið eignast stóran hluta af landinu innan bæjarmarka. Það er stór áfangi og mikilvægur.
Átti einnig símtöl vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Tívolí reitnum en þar halda sömu aðilar um lóðarréttinn og nú eru að byggja upp á Eden reitnum. Það verður spennandi uppbygging og gaman að sjá þegar þær hugmyndir fara að koma fram.
Fór yfir mál tengd götulýsingu, ræddi slátt á opnumg rænum svæðum í bænum, prófarkalas skilti, fór yfir atriði tengd málefnum fatlaðs fólks og ræddi málefni Suðurlandsvegar svo fátt eitt sé talið. Auk þess er ég enn að krafla mig niður listann yfir ófrágengna tölvupósta sem er svo gott að klára.
Í kvöld var nokkuð langur fundur meirihlutans. Alltaf skemmtilegt og alltaf vel mætt. Þetta er góður hópur með miklar skoðanir þar sem málin eru rædd fram og til baka og frá öllum hliðum. Ég fer alltaf ánægð af þessum fundum sem er dýrmætt þegar unnið er með stórum hópi mismunandi einstaklinga.