16. júní 2021
Skemmtilegur og góður dagur í blómabænum.
Hopp deilihjólaleiga tók nýverið til starfa hér í Hveragerði og nú má sjá rafskutlurnar þeirra út um allan bæ. Ég fékk að fara fyrstu ferðina og skemmti mér konunglega. Þetta er afar snjall ferðamáti þó hreyfingin sem maður fær á meðan sé lítil sem engin sem í mínu tilfelli allavega er ekki gott :-) Aftur á móti er það engin spurning að við hér í Hveragerði getum nýtt okkur umhverfisvæna samgöngumáta í miklu meira mæli en nú er gert. Bærinn okkar er af þeirri stærðargráðu að við getum gengið eða hjólað allt það sem þurfum að fara og tala nú ekki um fólk eins og ég sem bý í 101 Hveragerði!
Engir fundir fyrir hádegi í dag og lítil truflun af símtölum þannig að ég gat kraflað mig aðeins fram úr listanum óendanlega yfir tölvupósta sem þarf að vinna úr. Reyni að svara strax erindum sem berast og þá sérstaklega ef þau koma frá bæjarbúum en oft er í póstunum ýmislegt sem ég ætla að gera seinna og þá koma svona dagar sér vel eins og í dag.
Fórum eftir hádegi, leikskólastjórnendur, byggingafulltrúi, formaður fræðslunefdnar og ég í vettvangsheimsókn í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu til að skoða lausar kennslustofur. Þetta var skemmtileg ferð og afar gagnleg. Það er gott að sjá aðstæður í öðrum skólum og reyndar að sjá að við erum að gera ansi vel hér í Hveragerði í þessum málaflokki. Annars var ferðin skrautlega af ýmsum ástæðum og mikið rosalega er ég glöð, enn og aftur, að það eru ekki bæjarþorrablót í Hveragerði...
Matarboð í kvöld með góðum vinum. Mikið hlegið, spjallað og skrafað. Alltaf svo skemmtilegt.