15. júní 2021
Leikskólamál og lystigarðurinn
Átti góðan fund með leikskólastjórum í morgun. Fórum yfir ýmis mál meðal annars inntöku nýrra barna að loknu sumarfríi. Nú er verið að hringja út til foreldra barna á biðlistanum og tilkynna um upphaf leikskólagöngu. Um leið eru foreldrar barna sem boðið er pláss á Óskalandi látnir vita af því að sú staða gæti komið upp að ef að það vantaði mannskap í haust að þá gæti inntaka barna dregist eitthvað þess vegna. En þar með eru allavega öll þessi börn komin með pláss og komast inn um leið og búið er að manna allar stöður og enginn fer fram fyrir þau í röðinni. Ég hef fulla trú á að það takist að manna allra stöður og að ekki komi til neinna tafa þess vegna. Allavega hefur alltaf tekist að ráða starfsmenn á leikskólana og ég veit ekki af hverju það ætti ekki að takast núna.
Miðað við þetta þá verður nú hringt í alla foreldra sem eiga börn sem verða eins árs út september. Inntaka barna tekur aftur á móti tíma þar sem einungis fjögur-fimm eru aðlöguð að leikskólastarfinu í einu. Í dag eru því á biðlistanum börn sem verða eins árs í október (1) og síðar á árinu 2021 (7). Held ég að fá sveitarfélög séu að gera betur en það núna. Síðan er rétt að geta þess að nú er unnið að því að hér verði settar upp lausar kennslustofur sem munu svo geta tekið við enn fleiri börnum þegar þær verða komnar upp sem ætti að vera í október/nóvember ef allt gengur eftir.
Skoðaði sviðið sem nú er verið að byggja í Lystigarðinum en þar gengur verkið mjög hratt og þetta líka stóra og flotta svið er risið í garðinum. Það mun gefa fjölbreytta möguleika til nýtingar í báðar áttir en einng sjáum við fyrir okkur að þarna verði huggulegt að sitja og borða nestið sitt, liggja í sólbaði og njóta lífsins. Þarna er einnig verið að ganga frá og helluleggja í kring svo þetta verður allt fínt og flott á 17. júní.
Fór síðan rúnt um byggingasvæðin í bænum sem er alltaf skemmtilegt.
Í húsi átti ég fund um málefni fatlaðs fólks, svaraði ýmsum tölvupóstum og ýtti á eftir málum eins og til dæmis lausu kennslustofunum svo fátt eitt sé talið.