28. maí 2021
27. maí 2021
Undanfarnir dagar hafa verið undirlagðir umræðu um vanda hjúkrunarheimilanna. Eftir hádegi í dag flutti ég ávarp á málþingi um þetta mál sem haldið var í Laugarásbíó. Mjög góð og vönduð erindi en það sem situr eftir er óvissa um það hvernig ríkisvaldið ætlar að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er. Sveitarfélögin greiddu um 1 milljarð með rekstri hjúkrunarheimilanna árið 2019 og sú upphæð hækkar stöðugt. Málefni aldraðra eru ekki einu sinni á verksviði sveitarfélaga svo það er allt rangt við það að þetta skuli vera staðan.
Fór í viðtal við RÚV um málið sem síðan var sent út í Speglinum í kvöld. Var einnig gestur í hlaðvarpsþætti Þorkels Siglaugssonar "Velferðin" þar sem fjallað var um málefni aldraðra en þar ræddum við málin ég og Haraldur Benediktsson þingmaður.
Síðdegis áttum við Eyþór góðan fund í Reykjavík um mál sem við höfum unnið lengi að því að leysa og tókst það sýnist mér í dag. Það eru spennandi tímar framundan.
Í morgun ræddum við Jóhanna, menningar og frístundafulltrúi, um dagskrá 17. júní sem verður með nokkuð hefðbundnu sniði í ár semsagt í Lystigarðinum Fossflöt, það er að venjast! Fórum einnig yfir dreifibréf sem hún er að senda út með dagskrá hátíðahaldanna. Átti einnig fund með smiðunum sem þar eru að hefja smíði á nýju sviði sem kemur í stað euro brettanna sem eru aðeins farin að láta á sjá :-) Stefnt er að því að smíðinni verði lokið fyrir Hengil Ultra hlaupið sem fram fer fyrstu helgina í maí.
Nú er langt komin hellulögn í miðbænum sem gjörbreytir ásýnd aðalgötunnar og á næstunni verða miðlínur og gangbrautir málaðar. Það er alltaf gaman þegar að því er lokið.
Fór á skemmtilega heilsukynningu örstutt til nágrannakonu, kíkti í Sjálfstæðishúsið og bakaði svo tvær marenstertur fyrir kosningakaffið hennar Guðrúnar systur sem verður í Reykjafoss á laugardaginn. Endilega mæta. Það verður einhver að borða allar þessar veitingar :-D
26. maí 2021
Byrjaði daginn á teams fundi þar sem nokkuð stór hópur fór yfir hugmyndir um viðbyggingu við leikskólann Óskaland og staðsetningu á lausum kennslustofum við sama skóla. Með viðbyggingunni á að bæta úr þörf fyrir stoðrými og vinnuaðstöðu starfsmanna. Með lausum kennslustofum verður bætt úr brýnni þörf fyrir aukin rými fyrir þau börn sem þurfa pláss í haust og næsta vetur. Leikskólastjórar munu fljótlega hefja boðun nýrra barna á leikskólann og munu þau börn sem verða orðin 1 árs í sumar fá boð um leikskólavistun. Ég held að það sé óhætt að segja að hér sé staðið afar vel að þessum málum enda víða í kringum okkur er ástandið í dagvistunarmálum með allt öðrum og verri hætti en hér er.
Var mætt á Selfoss klukkan 10 þar sem ég flutti ávarp á landsfundi eldri borgara. Fjallaði þar heilmikið um góða stöðu Hveragerðisbæjar í þeim málaflokki en ég er alltaf svo ánægð með það hversu hátt Hveragerðisbær skorar í hinni frægðu Capacent könnun þegar spurt er um ánægju íbúa með þjónustuna sem eldri borgurum er veitt. Þar trónum við á toppnum ár eftir ár. Það er ánægjulegt finnst mér. Ræddi auðvitað einnig um stöðu málaflokksins almennt, um stöðu hjúkrunarheimilanna og ekki síður um mikilvægi aukinnar atvinnuþátttöku eldra fólks.
Fékk seinni Covid sprautuna strax eftir að ég hafði flutt ávarpið. Það var gaman að koma inn í FSu en þar var ég formaður skólanefndar í um áratug. Hitti Olgu Lísu hinn röggsama skólameistara og áttum við skemmtilegt spjall ekki síst um konur og mikilvægi þess að við styðjum við bakið hver á annarri þegar á þarf að halda.
Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins flögra nú um héruð og í dag heimsóttu bæði Jarl úr Vestmannaeyjum bæjarskrifstofuna sem og Guðrún systir. Ég hvet auðvitað alla til að kjósa hana systur mína því ég veit að við yrðum svo vel sett með hana sem leiðtoga okkar í kjördæminu. Drífandi, skynsöm, heiðarleg, skelegg og réttsýn. Það eru eiginleikar sem eru mikilvægir á Alþingi. Muna bara að kjósa á laugardaginn :-)
Síðdegis hittum við Eyþór, forseti bæjarstjórnar, þá Brynleif og Valgarð sem eru að leggja lokahönd á Gróðurhúsið hótel en einnig reka þeir Skálann upp í Dal sem er afar skemmtilegur staður. Þeir eru með miklar og skemmtilegar hugmyndir til framtíðar sem gaman var að ræða.
25. maí 2021
Tók mér sumarfrísdag í dag. Reyni oft að taka frí í nokkra daga á vorin til að koma garðinum í gott stand fyrir sumarið. Það hefur gengið illa í ár enda verkefnin ansi mörg þessa dagana. En þessi eini dagur var nú samt ansi drjúgur. Var úti allan daginn og er ansi ánægð með afraksturinn. Fæ seint garðaverðalaunin en mér finnst gaman að hafa garðinn bæði litríkan og gróskumikinn. Það hefur reyndar heldur fækkað trjánum og nú eru til dæmir engar aspir lengur í garðinum. Þær tvær síðustu féllu, risastórar og aldraðar, í fyrra. Í gróðurhúsinu þroskast alls konar suðrænir ávextir, kirsuber, plómur, bláber, ferskjur og epli og í gær eignaðist ég svo tvær tómatplöntur. Þetta verður gott gróðursumar sýnist mér :-)
19. maí 2021
Nóg um að vera í vaxandi bæ
Hiti við frostmark þegar ég gekk í vinnuna í morgun. Það ætlar bara ekki að hlýna þetta vorið !
Dagurinn byrjaði á fundi með Ríkiskaupum þar sem við Höskuldur, umhverfisfulltrúi, fórum yfir endanleg gögn varðandi fyrirhugað útboð á úrgangsþjónustu Hveragerðisbæjar (sorphirðu og förgun/endurnýtingu/endurnotkun). Útboðið verður nú auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og innanlands. Vonumst til að geta tekið tilboði á fundi bæjarráðs í júlí ef allt gengur upp.
Næsti fundur var um nýja staðsetningu tjaldsvæðis í Hveragerði en það mál er á vinnslustigi. Væntanlega verða ýmsar tillögur kynntar bæjarbúum innan skamms og þá er nú um að gera að hafa á þeim skoðun. Til þess er leikurinn gerður.
Átti síðan fund um hraðalækkandi aðgerðir hér í Hveragerði en nokkur umræða er nú í bænum varðandi of hraðan akstur á götum bæjarins. Fljótlega verða settar upp þrengingar á tveimur stöðum og í framhaldinu hraðahindrun yfir Heiðmörk ofan við Laufskóga. Nýjar merkingar munu síðan verða settar upp við Finnmörk sem hvetja eiga til hægari aksturs. Vonandi bætir þetta eitthvað úr skák.
Nú stendur yfir ráðningarferli vegna stöðu forstöðumanns Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Ég er formaður í NOS, nefnd oddvita og sveitarstjóra sem stýrir þeirri stofnun. Í morgun tókum við framhaldsviðtöl við þrjá umsækjendur alla mjög góða. Það er ávallt mikill vandi að ráða fólk og mér finnst það aldrei einfalt ferli. Hagvangur aðstoðar okkur við ráðningarferlið og það er mikill styrkur að þeirra faglegu nálgun á viðfangsefnið.
Undirbjó fund í NOS sem haldinn verður í Þorlákshöfn á morgun. Svaraði tölvupóstum og vann í málefnum fatlaðs fólks sem er ansi viðamikill og vandmeðfarinn málaflokkur.
Síðdegis vann ég í ræðu sem ég mun halda á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður næstkomandi föstudag. Langur dagur enda nóg um að vera í vaxandi bæjarfélagi.
18. maí 2021
Vorfundur Héraðsnefndar Árnessýslu var haldinn með stafrænum hætti í dag. Eins og alltaf fjallað um ársreikninga stofnana en héraðsnefnd rekur meðal annars byggðasafn, tónlistarskóla, héraðsskjalasafn, brunavarnir, almannavarnir og auðvitað listasafnið okkar góða hér í Hveragerði. Þetta er mikil og merk stofnun sem starfað hefur óslitið frá árinu 1874 en frá þeim tíma og fram til 1988 undir nafninu sýslunefnd. Ég hef verið nokkuð lengi í þessari frómu nefnd og þykir alltaf vænt um hana og ekki síður verkefnin mörgu og mikilvægu. En það er svolítið gaman að því að forfeður mínir frá Litlu Sandvík, pabbi þar á meðal, ömmu bróðir minn, langafi og langalangafi hafa allir setið í nefndinni og eftir að pabbi dó var frændi hans Páll Lýðsson í nefndinn. Þegar hann dó var ég komin þar inn. Held þess vegna að ættin frá Litlu Sandvík hafi lengst af ef ekki alltaf átt sæti í þessari nefnd. Þetta er verðugt verkefni fyrir frænda minn hann Lýð Pálsson að skoða og kanna betur :-)
Í héraðsnefnd sitja yfirleitt margir andans jöfrar og svo er einnig nú. Á fundinum í dag ræddum við einu sinni sem oftar um Alviðru og Öndverðarnes sem Árnesingar eiga ásamt Landvernd. Eftir fundinn fengum við senda þessa vísu frá Bjarna Þorkelssyni, sveitarstjórnarmanni í Grímsnes og Grafningshreppi:
Héraðsnefndin hélt sinn fund
hyggnir úr því lesi:
Til að eiga unaðsstund
Öndverðar- í -nesi.
Björgvin Skafti oddiviti í Skeiða og Gnúpverjahreppi var ekki lengi að setja saman nýja vísu og þessi mætti á skjáinn skömmu síðar:
Er hans vísa ekki
ljót
Enda af „þessu
kyni“
Það er mikil
bragarbót
Af Bjarna
Þorkelssyni.
Það er oft ansi skemmtilegt á fundum en mikið verður nú lífið líflegra þegar við megum hittast aftur.
7. maí 2021
Í morgun hélt Samband íslenskra sveitarfélaga snaggaralegt málþing
um sameiningar sveitarfélaga á Teams. Á þinginu fóru fulltrúar þriggja
sveitarfélagahópa; Þingeyings, Sveitarfélagsins Suðurlands og Húnvetnings, yfir
reynslu sína af yfirstandandi sameiningarferli og Róbert Ragnarsson, sem er
einn helsti ráðgjafi sveitarfélaga í sameiningarhug ræddi um það sem hafa ber í huga við sameiningu sveitarfélaga. Þetta voru fróðleg erindi og síðan voru góð
skoðanaskipti milli manna á eftir.
Mér finnst alltaf jafn athyglisvert að sjá stærðarmuninn á
sveitarfélögum á landinu. Þarna eru m.a.
að verða til 12-15.000 km2 sveitarfélög sem munu verða þau landfræðilega
stærstu á landinu. Miðað við þetta er
Hveragerðisbær ósköp smágerður með sína 9km2.
Hér er þó eitt þéttbýlasta sveitarfélag Íslands en 2.840 íbúar gera að hér eru 315 íbúar pr.
km2. Það eru ekki mörg sveitarfélög þéttbýlli
en þetta, Akranes ef ég man rétt og Seltjarnarnes gætu verið þéttbýlli. Það má því með sanni segja að hér nýtum við
plássið vel.
Eftir hádegi hitti ég forsvarmenn Gráa hersins eða forystu
eldri borgara á Íslandi þar sem þau kynntu fyrir okkur hjá Sambandinu sínar
áherslur. Það er greinilega orðinn mun
meiri þungi í málflutningi eldri borgara en áður og ljóst að þeir sem nú nálgast
eftirlaunaaldur munu ekki sætta sig við þau kjör sem nú bjóðast varðandi tekjur
og alla umgjörð þessa hóps. Ég gat í leiðinni farið vel yfir þá staðreynd að
hvergi eru eldri íbúar ánægðari með þjónustu síns byggðarlags en hér í Hveragerði
og ræddum við nokkuð hvers vegna það væri reyndin. Gaman að því.
Fór síðan síðdegis til Reykjanesbæjar þar sem ég sem
formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sveitarstjórnarráðherra,
félagmálaráðherra og formaður Öryrkjabandalagsins skrifuðum undir samstarfsyfirlýsingu
varðandi átaki á sviði aðgengismála
fatlaðs fólks. Felst átakið í að 363 m.kr.
verður ráðstafað úr Jöfnunarsjóði til verkefna á þessu sviði og sveitarfélög
mæta á móti með jafnháa upphæð. Með
þessum hætti verður hægt að lyfta grettistaki í aðgengismálum og stórbæta
aðbúnað og umhverfi íbúa landsins. Nú
þurfa sveitarstjórnir að kynna sér þetta úrræði og nýta þennan möguleika til að
gera enn betur í þessum mikilvæga málaflokki.
Átti fjölda góðra símtala í dag vegna ýmissa mála en listinn
er oft langur yfir þá sem þarf að hringja í.
Ég geymi oft símtölin þar til ég er í bílnum eða í lok vinnudags. Vona að fólk fyrirgefi þó ég hringi stundum
að loknum vinnudegi. Þar sem það teygðist
ansi á vinnudeginum þá fór kvöldið í að svara tölvupósti en það er líka ágætt
að nýta tímann þegar betri helmingurinn er í karlapartýi.
6. maí 2021
Bæjarráðsfundur í morgun. Þessir fundir eru nær undantekningalaust afar ánægjulegir. Góðar umræður og kafað ofan í málin. Í dag var meðal annars samþykkt að umferðaröryggismál í bæjarfélaginu yrðu skoðuð og þá ekki síst öryggi gangandi vegfarenda. Að skipulag á Kambalandi, efsta reitnum, yrði endurskoðað ekki síst með það í huga að fjölga þar íbúðum og bæta við par- og raðhúsum. Einnig var samþykkt lægsta tilboð í fráveitu að Hlíðarhaga en þar hefur skipulagi nú verið lokið á hverfi fyrir 47 íbúðir sem við eigum von á að fari í framkvæmdir frekar fyrr en seinna. Einkaaðilar eiga Hlíðarhagann, hafa séð um skipulag í samstarfi við Hveragerðisbæ og munu byggja upp allt hverfið.
Til fróðleiks má geta þess að mér telst til að nú séu hafnar framkvæmdir við eða skipulög i vinnslu á svæðum sem rúmað geta 373 íbúðir og þá er ég ekki að telja með íbúðir sem komið gætu í næsta áfanga Kambalands. Ef ég bæti svo við Hólmabrúninni og nýjum áfanga í Kambalandi þá er ekki óvarlegt að áætla að bætast munu við um 120 íbúðir. Þetta gera um 500 íbúðir á teikniborðinu. Það er afskaplega mikið og langt umfram þær áætlanir sem við höfum unnið eftir hingað til. Þess vegna þarf núna að skoða uppbyggingu innviða hratt og vel því ánægja íbúa er sú breyta sem við viljum fyrst og fremst horfa til.
Átti í hádeginu fund með byggingaraðilum á Edenreitnum en þar er uppbygging í fullum gangi. Allar tilbúnar íbúðir hafa verið seldar og mikil eftirspurn eftir þeim sem nú eru í byggingu. Hverfið þykir hafa heppnast vel og ibúar eru, að ég held, ánægðir. Það þrátt fyrir það rót sem fylgir framkvæmdum. Þessir sömu aðilar huga nú að uppbyggingu á Tívolí reitnum sem verður spennandi að fylgjast með.
Á sæti í Þjóðhagsráði sem formaður Sambands íslenskra
sveitarfélaga. Á fundi ráðsins í dag var
fjallað um loftslagsmál og húsnæðismál.
Varðandi húsnæðimál þá er ljóst að gríðarleg ófyrirséð eftirspurn eftir
húsnæði er á markaði og þar spilar lækkun vaxta stórt hlutverk. En einnig aukinn kaupmáttur og ekki síður
breytt neysla heimilanna. Vilji til hreiðurgerðar
stórjókst hjá íslensku þjóðinni í covid eins og enn orðaði það svo vel. .950
íbuðir þarf að byggja árlega til ársins 2030 og þá mun jafnvægi nást á markaðnum. Mjög mikilvægt að við sem samfélag tryggjum
að þetta framboð verði til staðar því ef að íbúðauppbygging verður minna en
þetta gæti það valdið hækkun fasteignaverðs, eins og við höfum séð, og þar með skerðast lífskjör
almennings verulega.
5. maí 2021
Nú vinnum við að því að fjölga leikskólaplássum og vonum við að það geti tekist á haustmánuðum. Nýi leikskólinn Undraland verður fullur í haust sem og Óskaland og því er nú verið að kanna möguleika á lausum kennslustofum til að hægt verði að fjölga plássum í haust. Við viljum gjarnan geta náð því að öll börn sem verða eins árs á árinu 2021 fái tilboð um leikskólavist á árinu. Ef að það tekst þá er það ansi góður árangur.
Kíkti á framkvæmdir í sundlauginni Laugaskarði. Þar er nú unnið hörðum höndum að endurnýjum búningsklefanna. Mikil framkvæmd og nokkur aukaverk hafa bæst við sem lengja þann tíma sem framkvæmdin mun taka. Það er því miður óumflýjanlegt að opnun laugarinnar mun dragast eitthvað fram í júní sýnist mér.
Átti fund um málefni fatlaðs fólks en sá málaflokkur er mjög umfangsmikill og mikilvægur.
Var með ávarp um stöðu hjúkrunarheimilanna og sameiningar sveitarfélaga hjá Rótarýklúbbi Reykjavíkur í hádeginu. Þökk sé teams þurfti ég ekki að standa upp úr stólnum. Þvílíkur munur.
Vaknaði kl. 6 í morgun sem í mínu lífi er frekar óvanalegt. Gerist þó æ oftar sem er óþolandi. Fór þess vegna í langan göngutúr meðfram Reykjafjalli sem er var dásamlegt í morgunsárið. Umhverfið hér í kring er engu líkt. Þessar fínu páskaliljur blómstuðu svona fallega á lóð HNLFÍ í morgun og áttu svo sannarlega skilið að fá tekna af sér mynd.