5. maí 2021
Nú vinnum við að því að fjölga leikskólaplássum og vonum við að það geti tekist á haustmánuðum. Nýi leikskólinn Undraland verður fullur í haust sem og Óskaland og því er nú verið að kanna möguleika á lausum kennslustofum til að hægt verði að fjölga plássum í haust. Við viljum gjarnan geta náð því að öll börn sem verða eins árs á árinu 2021 fái tilboð um leikskólavist á árinu. Ef að það tekst þá er það ansi góður árangur.
Kíkti á framkvæmdir í sundlauginni Laugaskarði. Þar er nú unnið hörðum höndum að endurnýjum búningsklefanna. Mikil framkvæmd og nokkur aukaverk hafa bæst við sem lengja þann tíma sem framkvæmdin mun taka. Það er því miður óumflýjanlegt að opnun laugarinnar mun dragast eitthvað fram í júní sýnist mér.
Átti fund um málefni fatlaðs fólks en sá málaflokkur er mjög umfangsmikill og mikilvægur.
Var með ávarp um stöðu hjúkrunarheimilanna og sameiningar sveitarfélaga hjá Rótarýklúbbi Reykjavíkur í hádeginu. Þökk sé teams þurfti ég ekki að standa upp úr stólnum. Þvílíkur munur.
Vaknaði kl. 6 í morgun sem í mínu lífi er frekar óvanalegt. Gerist þó æ oftar sem er óþolandi. Fór þess vegna í langan göngutúr meðfram Reykjafjalli sem er var dásamlegt í morgunsárið. Umhverfið hér í kring er engu líkt. Þessar fínu páskaliljur blómstuðu svona fallega á lóð HNLFÍ í morgun og áttu svo sannarlega skilið að fá tekna af sér mynd.