6. maí 2021
Bæjarráðsfundur í morgun. Þessir fundir eru nær undantekningalaust afar ánægjulegir. Góðar umræður og kafað ofan í málin. Í dag var meðal annars samþykkt að umferðaröryggismál í bæjarfélaginu yrðu skoðuð og þá ekki síst öryggi gangandi vegfarenda. Að skipulag á Kambalandi, efsta reitnum, yrði endurskoðað ekki síst með það í huga að fjölga þar íbúðum og bæta við par- og raðhúsum. Einnig var samþykkt lægsta tilboð í fráveitu að Hlíðarhaga en þar hefur skipulagi nú verið lokið á hverfi fyrir 47 íbúðir sem við eigum von á að fari í framkvæmdir frekar fyrr en seinna. Einkaaðilar eiga Hlíðarhagann, hafa séð um skipulag í samstarfi við Hveragerðisbæ og munu byggja upp allt hverfið.
Til fróðleiks má geta þess að mér telst til að nú séu hafnar framkvæmdir við eða skipulög i vinnslu á svæðum sem rúmað geta 373 íbúðir og þá er ég ekki að telja með íbúðir sem komið gætu í næsta áfanga Kambalands. Ef ég bæti svo við Hólmabrúninni og nýjum áfanga í Kambalandi þá er ekki óvarlegt að áætla að bætast munu við um 120 íbúðir. Þetta gera um 500 íbúðir á teikniborðinu. Það er afskaplega mikið og langt umfram þær áætlanir sem við höfum unnið eftir hingað til. Þess vegna þarf núna að skoða uppbyggingu innviða hratt og vel því ánægja íbúa er sú breyta sem við viljum fyrst og fremst horfa til.
Átti í hádeginu fund með byggingaraðilum á Edenreitnum en þar er uppbygging í fullum gangi. Allar tilbúnar íbúðir hafa verið seldar og mikil eftirspurn eftir þeim sem nú eru í byggingu. Hverfið þykir hafa heppnast vel og ibúar eru, að ég held, ánægðir. Það þrátt fyrir það rót sem fylgir framkvæmdum. Þessir sömu aðilar huga nú að uppbyggingu á Tívolí reitnum sem verður spennandi að fylgjast með.
Á sæti í Þjóðhagsráði sem formaður Sambands íslenskra
sveitarfélaga. Á fundi ráðsins í dag var
fjallað um loftslagsmál og húsnæðismál.
Varðandi húsnæðimál þá er ljóst að gríðarleg ófyrirséð eftirspurn eftir
húsnæði er á markaði og þar spilar lækkun vaxta stórt hlutverk. En einnig aukinn kaupmáttur og ekki síður
breytt neysla heimilanna. Vilji til hreiðurgerðar
stórjókst hjá íslensku þjóðinni í covid eins og enn orðaði það svo vel. .950
íbuðir þarf að byggja árlega til ársins 2030 og þá mun jafnvægi nást á markaðnum. Mjög mikilvægt að við sem samfélag tryggjum
að þetta framboð verði til staðar því ef að íbúðauppbygging verður minna en
þetta gæti það valdið hækkun fasteignaverðs, eins og við höfum séð, og þar með skerðast lífskjör
almennings verulega.