27. maí 2021
Undanfarnir dagar hafa verið undirlagðir umræðu um vanda hjúkrunarheimilanna. Eftir hádegi í dag flutti ég ávarp á málþingi um þetta mál sem haldið var í Laugarásbíó. Mjög góð og vönduð erindi en það sem situr eftir er óvissa um það hvernig ríkisvaldið ætlar að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er. Sveitarfélögin greiddu um 1 milljarð með rekstri hjúkrunarheimilanna árið 2019 og sú upphæð hækkar stöðugt. Málefni aldraðra eru ekki einu sinni á verksviði sveitarfélaga svo það er allt rangt við það að þetta skuli vera staðan.
Fór í viðtal við RÚV um málið sem síðan var sent út í Speglinum í kvöld. Var einnig gestur í hlaðvarpsþætti Þorkels Siglaugssonar "Velferðin" þar sem fjallað var um málefni aldraðra en þar ræddum við málin ég og Haraldur Benediktsson þingmaður.
Síðdegis áttum við Eyþór góðan fund í Reykjavík um mál sem við höfum unnið lengi að því að leysa og tókst það sýnist mér í dag. Það eru spennandi tímar framundan.
Í morgun ræddum við Jóhanna, menningar og frístundafulltrúi, um dagskrá 17. júní sem verður með nokkuð hefðbundnu sniði í ár semsagt í Lystigarðinum Fossflöt, það er að venjast! Fórum einnig yfir dreifibréf sem hún er að senda út með dagskrá hátíðahaldanna. Átti einnig fund með smiðunum sem þar eru að hefja smíði á nýju sviði sem kemur í stað euro brettanna sem eru aðeins farin að láta á sjá :-) Stefnt er að því að smíðinni verði lokið fyrir Hengil Ultra hlaupið sem fram fer fyrstu helgina í maí.
Nú er langt komin hellulögn í miðbænum sem gjörbreytir ásýnd aðalgötunnar og á næstunni verða miðlínur og gangbrautir málaðar. Það er alltaf gaman þegar að því er lokið.
Fór á skemmtilega heilsukynningu örstutt til nágrannakonu, kíkti í Sjálfstæðishúsið og bakaði svo tvær marenstertur fyrir kosningakaffið hennar Guðrúnar systur sem verður í Reykjafoss á laugardaginn. Endilega mæta. Það verður einhver að borða allar þessar veitingar :-D