18. maí 2021
Vorfundur Héraðsnefndar Árnessýslu var haldinn með stafrænum hætti í dag. Eins og alltaf fjallað um ársreikninga stofnana en héraðsnefnd rekur meðal annars byggðasafn, tónlistarskóla, héraðsskjalasafn, brunavarnir, almannavarnir og auðvitað listasafnið okkar góða hér í Hveragerði. Þetta er mikil og merk stofnun sem starfað hefur óslitið frá árinu 1874 en frá þeim tíma og fram til 1988 undir nafninu sýslunefnd. Ég hef verið nokkuð lengi í þessari frómu nefnd og þykir alltaf vænt um hana og ekki síður verkefnin mörgu og mikilvægu. En það er svolítið gaman að því að forfeður mínir frá Litlu Sandvík, pabbi þar á meðal, ömmu bróðir minn, langafi og langalangafi hafa allir setið í nefndinni og eftir að pabbi dó var frændi hans Páll Lýðsson í nefndinn. Þegar hann dó var ég komin þar inn. Held þess vegna að ættin frá Litlu Sandvík hafi lengst af ef ekki alltaf átt sæti í þessari nefnd. Þetta er verðugt verkefni fyrir frænda minn hann Lýð Pálsson að skoða og kanna betur :-)
Í héraðsnefnd sitja yfirleitt margir andans jöfrar og svo er einnig nú. Á fundinum í dag ræddum við einu sinni sem oftar um Alviðru og Öndverðarnes sem Árnesingar eiga ásamt Landvernd. Eftir fundinn fengum við senda þessa vísu frá Bjarna Þorkelssyni, sveitarstjórnarmanni í Grímsnes og Grafningshreppi:
Héraðsnefndin hélt sinn fund
hyggnir úr því lesi:
Til að eiga unaðsstund
Öndverðar- í -nesi.
Björgvin Skafti oddiviti í Skeiða og Gnúpverjahreppi var ekki lengi að setja saman nýja vísu og þessi mætti á skjáinn skömmu síðar:
Er hans vísa ekki
ljót
Enda af „þessu
kyni“
Það er mikil
bragarbót
Af Bjarna
Þorkelssyni.
Það er oft ansi skemmtilegt á fundum en mikið verður nú lífið líflegra þegar við megum hittast aftur.