26. maí 2021
Byrjaði daginn á teams fundi þar sem nokkuð stór hópur fór yfir hugmyndir um viðbyggingu við leikskólann Óskaland og staðsetningu á lausum kennslustofum við sama skóla. Með viðbyggingunni á að bæta úr þörf fyrir stoðrými og vinnuaðstöðu starfsmanna. Með lausum kennslustofum verður bætt úr brýnni þörf fyrir aukin rými fyrir þau börn sem þurfa pláss í haust og næsta vetur. Leikskólastjórar munu fljótlega hefja boðun nýrra barna á leikskólann og munu þau börn sem verða orðin 1 árs í sumar fá boð um leikskólavistun. Ég held að það sé óhætt að segja að hér sé staðið afar vel að þessum málum enda víða í kringum okkur er ástandið í dagvistunarmálum með allt öðrum og verri hætti en hér er.
Var mætt á Selfoss klukkan 10 þar sem ég flutti ávarp á landsfundi eldri borgara. Fjallaði þar heilmikið um góða stöðu Hveragerðisbæjar í þeim málaflokki en ég er alltaf svo ánægð með það hversu hátt Hveragerðisbær skorar í hinni frægðu Capacent könnun þegar spurt er um ánægju íbúa með þjónustuna sem eldri borgurum er veitt. Þar trónum við á toppnum ár eftir ár. Það er ánægjulegt finnst mér. Ræddi auðvitað einnig um stöðu málaflokksins almennt, um stöðu hjúkrunarheimilanna og ekki síður um mikilvægi aukinnar atvinnuþátttöku eldra fólks.
Fékk seinni Covid sprautuna strax eftir að ég hafði flutt ávarpið. Það var gaman að koma inn í FSu en þar var ég formaður skólanefndar í um áratug. Hitti Olgu Lísu hinn röggsama skólameistara og áttum við skemmtilegt spjall ekki síst um konur og mikilvægi þess að við styðjum við bakið hver á annarri þegar á þarf að halda.
Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins flögra nú um héruð og í dag heimsóttu bæði Jarl úr Vestmannaeyjum bæjarskrifstofuna sem og Guðrún systir. Ég hvet auðvitað alla til að kjósa hana systur mína því ég veit að við yrðum svo vel sett með hana sem leiðtoga okkar í kjördæminu. Drífandi, skynsöm, heiðarleg, skelegg og réttsýn. Það eru eiginleikar sem eru mikilvægir á Alþingi. Muna bara að kjósa á laugardaginn :-)
Síðdegis hittum við Eyþór, forseti bæjarstjórnar, þá Brynleif og Valgarð sem eru að leggja lokahönd á Gróðurhúsið hótel en einnig reka þeir Skálann upp í Dal sem er afar skemmtilegur staður. Þeir eru með miklar og skemmtilegar hugmyndir til framtíðar sem gaman var að ræða.