19. maí 2021
Nóg um að vera í vaxandi bæ
Hiti við frostmark þegar ég gekk í vinnuna í morgun. Það ætlar bara ekki að hlýna þetta vorið !
Dagurinn byrjaði á fundi með Ríkiskaupum þar sem við Höskuldur, umhverfisfulltrúi, fórum yfir endanleg gögn varðandi fyrirhugað útboð á úrgangsþjónustu Hveragerðisbæjar (sorphirðu og förgun/endurnýtingu/endurnotkun). Útboðið verður nú auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og innanlands. Vonumst til að geta tekið tilboði á fundi bæjarráðs í júlí ef allt gengur upp.
Næsti fundur var um nýja staðsetningu tjaldsvæðis í Hveragerði en það mál er á vinnslustigi. Væntanlega verða ýmsar tillögur kynntar bæjarbúum innan skamms og þá er nú um að gera að hafa á þeim skoðun. Til þess er leikurinn gerður.
Átti síðan fund um hraðalækkandi aðgerðir hér í Hveragerði en nokkur umræða er nú í bænum varðandi of hraðan akstur á götum bæjarins. Fljótlega verða settar upp þrengingar á tveimur stöðum og í framhaldinu hraðahindrun yfir Heiðmörk ofan við Laufskóga. Nýjar merkingar munu síðan verða settar upp við Finnmörk sem hvetja eiga til hægari aksturs. Vonandi bætir þetta eitthvað úr skák.
Nú stendur yfir ráðningarferli vegna stöðu forstöðumanns Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Ég er formaður í NOS, nefnd oddvita og sveitarstjóra sem stýrir þeirri stofnun. Í morgun tókum við framhaldsviðtöl við þrjá umsækjendur alla mjög góða. Það er ávallt mikill vandi að ráða fólk og mér finnst það aldrei einfalt ferli. Hagvangur aðstoðar okkur við ráðningarferlið og það er mikill styrkur að þeirra faglegu nálgun á viðfangsefnið.
Undirbjó fund í NOS sem haldinn verður í Þorlákshöfn á morgun. Svaraði tölvupóstum og vann í málefnum fatlaðs fólks sem er ansi viðamikill og vandmeðfarinn málaflokkur.
Síðdegis vann ég í ræðu sem ég mun halda á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður næstkomandi föstudag. Langur dagur enda nóg um að vera í vaxandi bæjarfélagi.