25. febrúar 2015
Á ákveðnum tímapunkti þegar maður er lasinn þá fær maður þá óþægilegu tilfinningu að heilsan verði aldrei í lagi aftur. Þunglyndið nær heljar tökum á manni og maður vorkennir sjálfum sér óskaplega. Sem betur fer er ég komin uppúr þeim leiðinda pytti í dag enda á 10 degi flensu!! En þessi inflúensa er ansi skæð. Ég er nú samt alveg alvön því að fá pestir enda týni ég þær flestar upp mjög samviskulega. Eins og ég hafi tekið það að mér ein og sér að prufukeyra flestar umgangspestir sem hingað berast. Já og ekki bara að prufukeyra því svo til undantekningalaust enda svona flensur í mínu tilfelli í lungunum. Held að það sé arfur barnsáranna þegar ég fékk fyrstu svæsnu lungnabólguna. Ætli það hafi ekki verið veturinn sem ég var alltaf lasin, níu ára! Rauðir hundar og mislingar með tilheyrandi leiðindum og lungnabólgu, tók margar vikur. Man sérstaklega eftir mislingunum því þá varð ég að vera í myrkri í þó nokkuð langan tíma. Mátti alls ekki vera í birtu þar sem hún fór svo illa í augun og höfðuðið. Sennilega hef ég verið ansi heppin að fara ekki verr út úr mislingunum en að áskotnast lungnabólgu árátta fyrir lífstíð. Nú eru i gangi miklar umræður um gildi bólusetninga fyrir börn. Óskiljanleg umræða þegar maður hugsar um afleiðarnar sem þessir sjúkdómar geta haft. Á mínu heimili eru allir bólusettir í bak og fyrir. Varð því pínulítið vonsvikin með flensusprautuna en þar var giskað á vitlausan stofn í bólusetningununni.
Þessi vetur ætlar að verða með eindæmum leiðinlegur. Veðrið er alla að drepa og svo bætist við að ótrúlega margir eru svo skelfilega veikir af þessari flensu. Held það þyrfti að setja gleðivítamín í vatnsbólið ef vel ætti að vera :-)
Þessi vetur ætlar að verða með eindæmum leiðinlegur. Veðrið er alla að drepa og svo bætist við að ótrúlega margir eru svo skelfilega veikir af þessari flensu. Held það þyrfti að setja gleðivítamín í vatnsbólið ef vel ætti að vera :-)
14. febrúar 2015
Með ömmu og fjörugu frænkunum tveimur á bókasafninu. Vigdís tók þessa fínu mynd en hún er 4 ára.
Það er nú alveg ágætt að vera með ömmu í vinnunni. Góður staður til að lesa :-)
13. febrúar 2015
Vaknaði í meira lagi undrandi kl. 6 í morgun, ennþá í fötunum og með málningu dagsins í gær. Lagði mig sem sagt með Haraldi Fróða þegar ég kom heim í gærkvöldi af bæjarstjórnarfundinum með þessum líka stórkostlega árangri :-) Útsofin reyndar og hress sem aldrei fyrr :-)
Gunnvör leikskólastjóri Óskalands og Fanney, skólastjóri Grunnskólans í starfsmannasamtölum í dag. Þetta eru sem fyrr afskaplega góð samtöl, hreinskiptin og skemmtileg. Fyrir mig afar gagnleg.
Síðdegis kom hingað blaðamaður frá nýju héraðsfréttablaði sem ber það merkilega nafn; Sámur frændi!. Á ekkert skylt við Bandaríki norður Ameríku skilst mér ! Ræddum við um Hveragerði, framtíð og horfur. Þá er nú gott að geta vísað í þjónustukönnun Capacent.
Sótti Harald Fróða á leikskólann og við fórum aftur í vinnuna. Honum fannst nú ekkert sérstaklega skemmtilegt enda amma ekki góður félagsskapur á skrifstofunni. Fórum svo saman á afskaplega skemmtilega tónleika í Listasafni Árnesinga þar sem fjöldi fólks naut flutnings nemenda Tónlistarskóla Árnesinga á léttum og skemmtilegum lögum. Haraldur var ótrúlega góður þó hann væri nú ekki til í að setjast niður. Það verður að venja börnin strax við listsýningar og tónleika :-)
Gunnvör leikskólastjóri Óskalands og Fanney, skólastjóri Grunnskólans í starfsmannasamtölum í dag. Þetta eru sem fyrr afskaplega góð samtöl, hreinskiptin og skemmtileg. Fyrir mig afar gagnleg.
Síðdegis kom hingað blaðamaður frá nýju héraðsfréttablaði sem ber það merkilega nafn; Sámur frændi!. Á ekkert skylt við Bandaríki norður Ameríku skilst mér ! Ræddum við um Hveragerði, framtíð og horfur. Þá er nú gott að geta vísað í þjónustukönnun Capacent.
Sótti Harald Fróða á leikskólann og við fórum aftur í vinnuna. Honum fannst nú ekkert sérstaklega skemmtilegt enda amma ekki góður félagsskapur á skrifstofunni. Fórum svo saman á afskaplega skemmtilega tónleika í Listasafni Árnesinga þar sem fjöldi fólks naut flutnings nemenda Tónlistarskóla Árnesinga á léttum og skemmtilegum lögum. Haraldur var ótrúlega góður þó hann væri nú ekki til í að setjast niður. Það verður að venja börnin strax við listsýningar og tónleika :-)
12. febrúar 2015
Undirbúningur bæjarstjórnarfundar tók drjúgan tíma í dag enda mörg mál á dagskrá og þar af leiðandi nokkrar bókanir sem þurfti að semja. Við Tolli sem eru formaður fræðslunefndar fórum samt á góðan fund með stjórnendum grunnskólans í morgun þar sem farið var yfir fjölmörg mál sem lúta að skólastarfinu. Við hittumst alls ekki nógu oft en í hvert skipti heitum við því að fjölga þessum fundum. Vonandi að það takist í þetta sinn.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Starfsmannasamtölin héldu áfram í dag og munu gera það áfram næstu daga. Þetta er heilmikil törn en mikið óskaplega finnst mér þetta gagnlegt.
Síðdegis héldum við fyrsta undirbúningsfund fyrir Blóm í bæ. Elínborg Ólafsdóttir hefur tekið að sér undirbúning en hún hefur séð um þetta áður og mun vinna náið með Ara umhverfisfulltrúa, bæjarstjóranum og formanni umhverfisnefndar. Næsta verkefni er að boða til fundar með hagsmunaaðilum og fulltrúum græna geirans.
Bæjarstjórnarfundurinn var afskaplega léttur og skemmtilegur. Það jók okkur gleði að kynntar voru ótrúlega góðar niðurstöður Capacent þjónustukönnunarinnar sem Hveragerði tók nú þátt í í fyrsta sinn.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn er afar ánægð með niðurstöður könnunarinnar fyrir Hveragerðisbæ sem sýnir að
90% íbúa er ánægður með Hveragerði sem stað til að búa á. Ánægja íbúa í öllum þeim
þjónustuþáttum sem spurt var um var ríflega yfir meðaltali í öllum tilfellum og ítrekað lendir
Hveragerðisbær í hópi efstu sveitarfélaga í könnuninni.
Það er mikils virði og góð kynning fyrir
bæjarfélagið að íbúar séu ánægðir með þá þjónustu sem veitt er.
Þegar spurt er um ánægju varðandi þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið lendir Hveragerði í
fjórða sæti á eftir Seltjarnarnesi, Garðabæ og Mosfellsbæ og þegar spurt er um líkurnar á að
viðkomandi myndi mæla með þjónustu sveitarfélagsins við vini og ættingja lendir Hveragerði
enn og aftur á toppnum í góðum hópi með Garðabæ og Seltjarnarnesi.
Það er ljóst að starfsmenn og stjórnendur hjá Hveragerðisbæ eru að vinna afar gott starf og fyrir það þakkar bæjarstjórn af heilum hug. Við getum samt enn gert betur og nú er verkefnið
framundan að viðhalda þessum góða árangri þannig að Hveragerðisbær verði áfram í hópi bestu
sveitarfélaga landsins hvað búsetuskilyrði varðar.
Bæjarstjórn felur bæjarráði og bæjarstjóra að
kynna könnunina fyrir bæjarbúum og öðrum þeim sem gagn gætu haft af niðurstöðunum.
Það jók síðan enn ánægju bæjarfulltrúa þegar kynnt var niðurstaða könnunar sem gerð var meðal foreldra og forráðamanna leikskólabarna. Bókun bæjarstjórnar var eftirfarandi:
Bæjarstjórn fagnar þeirri einstöku niðurstöðu að 91% þeirra sem tóku þátt í könnuninni segjast
ánægð með þjónustu leikskólanna. 9% hefur ekki skoðun en enginn svarar því til að
viðkomandi sé óánægður með þjónustuna. Er þetta mikil viðurkenning á því góða starfi sem
innt er af hendi á leikskólunum. Þegar spurt var um hvort að opnunartíminn hentaði
fjölskyldunni reyndist svo vera hjá 71,5% þeirra sem svara. Þegar rýnt er í óskir um breytingar
er ljóst að helst er óskað eftir opnun fyrr á morgnana.
Í ljósi þessa felur bæjarstjórn bæjarstjóra að gera tillögu til bæjarráðs um viðbrögð við
könnuninni þar sem kostnaði við mögulegar breytingar yrði lýst.
Við vorum sammála um það allir bæjarfulltrúar að starfsmenn og stjórnendur bæjarins væru að vinna afar góða vinnu og þar get ég heilshugar tekið undir. Niðurstöður sem þessar væru ekki staðreynd ef að allir væru ekki að leggja sig 100% fram um að veita framúrskarandi þjónustu.
Njörður bæjarfulltrúi Samfylkingar vakti síðan athygli á því að eining og samstaða bæjarfulltrúa undanfarinna ára væri klárlega einnig liður í jákvæðari og ánægðari viðhorfum bæjarbúa og þar get ég heilshugar verið sammála honum. Niðurrif og neiðkvæðni hefur áhrif á alla starfsemi. Það hefur margsýnt sig. What goes around - comes around ! ! ! !
11. febrúar 2015
Nú eru starfsmannasamtöl við yfirmenn Hveragerðisbæjar í fullum gangi. Maður á víst að reyna að hafa umhverfi viðtalanna huggulegt. Mér fannst skipulags- og byggingafulltrúinn ekkert rosalega kátur með hugmyndina um snarkandi arineld á fundinum! Er að hugsa um að hafa nýtt þema á morgun, fallandi lauf eða fiðrildi :-)
Dagurinn byrjaði með fundi bæjarstjóranna í Ölfusi, Hveragerði og Árborg með varaformanni FÍB. Við ræddum umferðaröryggismál og þá sérstaklega kaflann hér á milli Hveragerðis og Selfoss sem allar bæjarstjórnirnar gera nú kröfu um að verði settur í skilyrðislausan forgang.
Átti góðan fund með Kristni fasteignasala þar sem við fórum yfir horfur á fasteiganmarkaðnum hér í bæ. En nú seljast hús eins og heitar lummur og verðið fer nokkuð hratt upp á við. Þetta hefur auðvitað þau áhrif að verktakar sjá hag í því að byggja eins og gerst hefur við Dalsbrún. En þar vonumst við eftir nokkuð hraðri uppbyggingu á næstunni.
10. febrúar 2015
Ég er mjög upptekin af ömmuhlutverkinu þessa dagana enda finnst mér þetta vera mikið og merkilegt hlutverk. Fyrir nú utan hvað þetta er skemmtilegt! Er búin að vera einstæð amma í fullu starfi undanfarna tvo daga þar sem Lárus "skrapp" til Húsavíkur í blíðunni ! ! !
Sem betur fer þá er uppeldi barnanna í Þelamerkurhópnum í höndum stórfjölskyldunnar sem hleypur undir bagga með hver öðrum eftir því sem þarf. Algjörlega ómetanlegt :-)
En við Haraldur lesum alveg helling og núna er nýja uppáhaldsbókin Hefðarkettirnir, en teiknimyndina ættu allir að kunna utan að. Þetta móment er til dæmis ógleymanlegt hverjum sem hefur séð teiknóið :-)
Í gær var óvenju erilsamt á skrifstofunni þar sem strax uppúr 8 kom fyrsti aðilinn í heimsókn og eftir það tók hver við af öðrum. Flestir áttu erindi við bæjarstjórann án þess að hafa pantað tíma. Mér finnst það í góðu lagi ef ég á annað borð er ekki upptekin við annað. Mér þykir afar vænt um að fólk komi á bæjarskrifstofuna með alls konar erindi og furðulega oft getum við leiðbeint og liðsinnt jafnvel þó erindin séu oft harla sérkennileg. Átti til dæmis í gær samtal við konu sem var alveg sannfærð um að ég gæti hjálpað sér að finna aðila sem bjó í Hveragerði sennilega milli 1960 og 1970. Merkilegt nokk var hægt að svara erindinu :-)
Eftir hádegi í gær var fundur framkvæmdastjórnar Almannavarna Árnessýslu með nýjum lögreglustjóra á Suðurlandi, Kjartani Þorkelssyni. Góður fundur þar em við fórum yfir samskiptin við breytinguna sem orðið hefur á löggæslumálum á svæðinu.
Í dag byrjuðu starfsmannasamtöl mín við yfirmenn Hveragerðisbæjar. Þetta verður heilmikil törn en gagnleg vona ég og kannski líka svolítið skemmtileg :-)
8. febrúar 2015
Þessi klár lenti í öðru sæti. Hann heitir Lárus og er til hægri á myndinni :-)
Þorrablót Seyluhrepps í Miðgarði á laugardagskvöldið var frábærlega skemmtilegt. Allir með sín eigin trog og flöskur í pokum. Dansað eins og enginn væri morgundagurinn, þrátt fyrir að eiginmaðurinn hafi hvergi verið sjáanlegur mestallt kvöldið enda var hann skiljanlega upptekinn við að spjalla við fólk. Það geta nú fleiri Skagfirðingar verið skemmtilegir - það er nokkuð augljóst :-)
4. febrúar 2015
Fundur með stjórnendum Hveragerðisbæjar í morgun. Fengum heimsókn frá Motus en Hveragerðisbær hefur gert samning um innheimtu vanskilakrafna við fyrirtækið. Það var gaman að sjá það að 86% allra greiðenda greiða reikninga sína á réttum tíma og 95% er búinn að greiða áður en til milliinnheimtu kemur. Það er í raun ríkur greiðsluvilji hjá miklum meirihluta alls landsmanna enda flestir vel meðvitaðir um að greiða þarf fyrir veitta þjónustu.
Á fundinum fórum við einnig yfir fjárhagsáætlun ársins 2015 og helstu verkefnin sem eru framundan. Ég þarf nauðsynlega að gefa mér tíma til að slá saman einni grein þar sem gert er grein fyrir því sem framundan er. Á árinu er áformað að byggja litla viðbyggingu við grunnskólann sem hýsa mun mötuneyti skólans. Leggja á bundið slitlag á veginn inn að bílastæði við Dalakaffi. Lagfæra götur og lóð skólasels, fjárfesta í húsnæði nálægt skólanum, taka upp frístundastyrki og fjölmargt fleira.
Þetta verður gott ár - það liggur í loftinu :-)
Á fundinum fórum við einnig yfir fjárhagsáætlun ársins 2015 og helstu verkefnin sem eru framundan. Ég þarf nauðsynlega að gefa mér tíma til að slá saman einni grein þar sem gert er grein fyrir því sem framundan er. Á árinu er áformað að byggja litla viðbyggingu við grunnskólann sem hýsa mun mötuneyti skólans. Leggja á bundið slitlag á veginn inn að bílastæði við Dalakaffi. Lagfæra götur og lóð skólasels, fjárfesta í húsnæði nálægt skólanum, taka upp frístundastyrki og fjölmargt fleira.
Þetta verður gott ár - það liggur í loftinu :-)
3. febrúar 2015
Góður dagur á skrifstofunni sem þó var rofinn af tannlæknaheimsókn. Ég hef aldrei verið hrifin af tannlæknum en Þórður er samt ágætur (það er virkilega jákvæð lýsing á tannlækni). Hann notar alltaf tækifærið og ræðir við mig um Evrópusambandsumsóknina sem hann er ekki hrifinn af og um pólitíkna almennt. Notar auðvitað tækifærið þegar ég get ekki tekið þátt í umræðunum. Aftur á móti vorkenndi ég aumingja manninum sem átti tímann á eftir mér. Held að seinkunin hafi slagað í hálftíma. EN það var ekki mér að kenna, það var nú ekki eins og ég gæti tekið mikinn þátt í þessu samtali :-)
Á fundi skipulags- og bygginganefndar síðdegis var deiliskipulagstillaga Grímsstaðareitsins til umfjöllunar. Sífellt færast tillögurnar nær endanlegri mynd og húsagerðir og skipulag að fá á sig betra útlit. Allt útlit er fyrir að íbúðir verði þarna milli 50 og 60 og velflestar í einbýlishúsum. Það verður gaman að kynna hverfið fyrir íbúum enda er yfirbragð þess ansi ólíkt því sem við eigum að venjast hér í bæ.
Var svo ljónheppin að vera boðin í kvöldmat til Guðrúnar systur og sátum við síðan og skröfuðum fram undir miðnætti. Enginn sem beið heima en Lárus keyrði fram og til baka á Akureyri í dag með ís fyrir norðlendinga :-)
Á fundi skipulags- og bygginganefndar síðdegis var deiliskipulagstillaga Grímsstaðareitsins til umfjöllunar. Sífellt færast tillögurnar nær endanlegri mynd og húsagerðir og skipulag að fá á sig betra útlit. Allt útlit er fyrir að íbúðir verði þarna milli 50 og 60 og velflestar í einbýlishúsum. Það verður gaman að kynna hverfið fyrir íbúum enda er yfirbragð þess ansi ólíkt því sem við eigum að venjast hér í bæ.
Var svo ljónheppin að vera boðin í kvöldmat til Guðrúnar systur og sátum við síðan og skröfuðum fram undir miðnætti. Enginn sem beið heima en Lárus keyrði fram og til baka á Akureyri í dag með ís fyrir norðlendinga :-)
2. febrúar 2015
Það varð ekkert úr sundinu í dag þrátt fyrir góðan ásetning og sérlega góðan vilja í gær :-)
Ákvað að taka undirbúning fyrir meirihlutafund kvöldsins framyfir enda veitti ekki af þar sem dagskráin var algjörlega þéttpökkuð. Svo sem ekki við öðru að búast að ýmislegt þyrfti að ræða eftir óvanalega langt hlé.
Annars var fundur í stjórn Sorpstöðvar í morgun þar sem meðal annars var fjallað um málefni Orkugerðarinnar, sem oftast gengur undir nafninu Kjötmjöl. Þarna eiga sveitarfélög á Suðurlandi um 35% hlut svo eðlilega koma mál fyrirtækisins inn á borð Sorpstöðvar sem heldur utan um eignarhlutinn.
Á undan Sorpstöðvarfundinum hitti ég Guðrúnu Tryggavadóttur og Einar Bergmund sem reka fyrirtækið natturan.is en þau vinna nú hörðum höndum að því að kynna endurvinnslu-appið fyrir sveitarfélögum landsins. Það er þegar hægt að sækja appið fyrir Iphone svo nú er um að gera að prufa. Erindi frá þeim um þátttöku Hveragerðisbæjar í verkefninu mun verða tekið fyrir á fundi bæjarráðs í vikunni.
Hitti mann í dag og í samtali spannst umræða um það að Hveragerði væri umlukið Ölfusinu á alla kanta. Ég sagði honum að þetta væri stórgott, við værum auðvitað bara eins og Monaco og ekki hefur nú hingað til verið kvartað þar á bæ yfir aðstæðunum. Hann sagði að ég hefði kolrangt fyrir mér við værum ekki eins og Monaco, við værum í raun eins og Vatikanið og bæjarstjórinn þar af leiðandi eins og páfinn - ekki slæmt hlutskipti það ;-)
1. febrúar 2015
Paddington með dætrum Sigurbjargar systur stóð fyllilega undir væntingum. Matarboð á föstudag og laugardag með góðum vinum í bæði skiptin og fullt hús af fólki í kvöldmat hér á sunnudagskvöldið. Enn ein annasöm helgi að baki. Haraldur Fróði fór til ömmu og afa á Seltjarnarnesi síðdegis á föstudag og samkvæmt facebook er mikið fjör þar núna. Við söknum samt líflega guttans en það er vika í að hann komi aftur hingað og þá verður hann hér í um 10 daga áður en foreldrarnir skila sér heim.
-----
Ég er í átaki til varnar hugarhrörnun ! ! Kláraði krossgátu Moggans og geymi mér DV gátuna. Er semsagt farin að gera krossgátur hvar sem ég næ í þær. Lærði sudoku í haust en þarf að æfa mig meira! Er eins og áður hefur komið fram að læra íhugun svo þetta er allt að koma :-)
---------
Byrja á morgun í sjúkraþjálfun með hnéð og er alvarlega að hugsa um að mæta í sund ! Þetta er svo sannarlega allt á réttri leið !