10. febrúar 2015
Ég er mjög upptekin af ömmuhlutverkinu þessa dagana enda finnst mér þetta vera mikið og merkilegt hlutverk. Fyrir nú utan hvað þetta er skemmtilegt! Er búin að vera einstæð amma í fullu starfi undanfarna tvo daga þar sem Lárus "skrapp" til Húsavíkur í blíðunni ! ! !
Sem betur fer þá er uppeldi barnanna í Þelamerkurhópnum í höndum stórfjölskyldunnar sem hleypur undir bagga með hver öðrum eftir því sem þarf. Algjörlega ómetanlegt :-)
En við Haraldur lesum alveg helling og núna er nýja uppáhaldsbókin Hefðarkettirnir, en teiknimyndina ættu allir að kunna utan að. Þetta móment er til dæmis ógleymanlegt hverjum sem hefur séð teiknóið :-)
Í gær var óvenju erilsamt á skrifstofunni þar sem strax uppúr 8 kom fyrsti aðilinn í heimsókn og eftir það tók hver við af öðrum. Flestir áttu erindi við bæjarstjórann án þess að hafa pantað tíma. Mér finnst það í góðu lagi ef ég á annað borð er ekki upptekin við annað. Mér þykir afar vænt um að fólk komi á bæjarskrifstofuna með alls konar erindi og furðulega oft getum við leiðbeint og liðsinnt jafnvel þó erindin séu oft harla sérkennileg. Átti til dæmis í gær samtal við konu sem var alveg sannfærð um að ég gæti hjálpað sér að finna aðila sem bjó í Hveragerði sennilega milli 1960 og 1970. Merkilegt nokk var hægt að svara erindinu :-)
Eftir hádegi í gær var fundur framkvæmdastjórnar Almannavarna Árnessýslu með nýjum lögreglustjóra á Suðurlandi, Kjartani Þorkelssyni. Góður fundur þar em við fórum yfir samskiptin við breytinguna sem orðið hefur á löggæslumálum á svæðinu.
Í dag byrjuðu starfsmannasamtöl mín við yfirmenn Hveragerðisbæjar. Þetta verður heilmikil törn en gagnleg vona ég og kannski líka svolítið skemmtileg :-)
Comments:
Skrifa ummæli