12. febrúar 2015
Undirbúningur bæjarstjórnarfundar tók drjúgan tíma í dag enda mörg mál á dagskrá og þar af leiðandi nokkrar bókanir sem þurfti að semja. Við Tolli sem eru formaður fræðslunefndar fórum samt á góðan fund með stjórnendum grunnskólans í morgun þar sem farið var yfir fjölmörg mál sem lúta að skólastarfinu. Við hittumst alls ekki nógu oft en í hvert skipti heitum við því að fjölga þessum fundum. Vonandi að það takist í þetta sinn.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Starfsmannasamtölin héldu áfram í dag og munu gera það áfram næstu daga. Þetta er heilmikil törn en mikið óskaplega finnst mér þetta gagnlegt.
Síðdegis héldum við fyrsta undirbúningsfund fyrir Blóm í bæ. Elínborg Ólafsdóttir hefur tekið að sér undirbúning en hún hefur séð um þetta áður og mun vinna náið með Ara umhverfisfulltrúa, bæjarstjóranum og formanni umhverfisnefndar. Næsta verkefni er að boða til fundar með hagsmunaaðilum og fulltrúum græna geirans.
Bæjarstjórnarfundurinn var afskaplega léttur og skemmtilegur. Það jók okkur gleði að kynntar voru ótrúlega góðar niðurstöður Capacent þjónustukönnunarinnar sem Hveragerði tók nú þátt í í fyrsta sinn.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn er afar ánægð með niðurstöður könnunarinnar fyrir Hveragerðisbæ sem sýnir að
90% íbúa er ánægður með Hveragerði sem stað til að búa á. Ánægja íbúa í öllum þeim
þjónustuþáttum sem spurt var um var ríflega yfir meðaltali í öllum tilfellum og ítrekað lendir
Hveragerðisbær í hópi efstu sveitarfélaga í könnuninni.
Það er mikils virði og góð kynning fyrir
bæjarfélagið að íbúar séu ánægðir með þá þjónustu sem veitt er.
Þegar spurt er um ánægju varðandi þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið lendir Hveragerði í
fjórða sæti á eftir Seltjarnarnesi, Garðabæ og Mosfellsbæ og þegar spurt er um líkurnar á að
viðkomandi myndi mæla með þjónustu sveitarfélagsins við vini og ættingja lendir Hveragerði
enn og aftur á toppnum í góðum hópi með Garðabæ og Seltjarnarnesi.
Það er ljóst að starfsmenn og stjórnendur hjá Hveragerðisbæ eru að vinna afar gott starf og fyrir það þakkar bæjarstjórn af heilum hug. Við getum samt enn gert betur og nú er verkefnið
framundan að viðhalda þessum góða árangri þannig að Hveragerðisbær verði áfram í hópi bestu
sveitarfélaga landsins hvað búsetuskilyrði varðar.
Bæjarstjórn felur bæjarráði og bæjarstjóra að
kynna könnunina fyrir bæjarbúum og öðrum þeim sem gagn gætu haft af niðurstöðunum.
Það jók síðan enn ánægju bæjarfulltrúa þegar kynnt var niðurstaða könnunar sem gerð var meðal foreldra og forráðamanna leikskólabarna. Bókun bæjarstjórnar var eftirfarandi:
Bæjarstjórn fagnar þeirri einstöku niðurstöðu að 91% þeirra sem tóku þátt í könnuninni segjast
ánægð með þjónustu leikskólanna. 9% hefur ekki skoðun en enginn svarar því til að
viðkomandi sé óánægður með þjónustuna. Er þetta mikil viðurkenning á því góða starfi sem
innt er af hendi á leikskólunum. Þegar spurt var um hvort að opnunartíminn hentaði
fjölskyldunni reyndist svo vera hjá 71,5% þeirra sem svara. Þegar rýnt er í óskir um breytingar
er ljóst að helst er óskað eftir opnun fyrr á morgnana.
Í ljósi þessa felur bæjarstjórn bæjarstjóra að gera tillögu til bæjarráðs um viðbrögð við
könnuninni þar sem kostnaði við mögulegar breytingar yrði lýst.
Við vorum sammála um það allir bæjarfulltrúar að starfsmenn og stjórnendur bæjarins væru að vinna afar góða vinnu og þar get ég heilshugar tekið undir. Niðurstöður sem þessar væru ekki staðreynd ef að allir væru ekki að leggja sig 100% fram um að veita framúrskarandi þjónustu.
Njörður bæjarfulltrúi Samfylkingar vakti síðan athygli á því að eining og samstaða bæjarfulltrúa undanfarinna ára væri klárlega einnig liður í jákvæðari og ánægðari viðhorfum bæjarbúa og þar get ég heilshugar verið sammála honum. Niðurrif og neiðkvæðni hefur áhrif á alla starfsemi. Það hefur margsýnt sig. What goes around - comes around ! ! ! !
Comments:
Skrifa ummæli