29. júní 2016
Erum lögð af stað í langferð enn og aftur. Áhugasamir geta fylgst með hér....
15. júní 2016
Undirbúningur fyrir Blóm í bæ tekur mikinn tíma hjá öllum þessa dagana. Sýning sem þessi er ekki einföld í sniðum og sérstaklega ekki þegar allir starfsmenn þurfa að bæta á sig fjölmörgum verkum vegna hennar. Fólkið okkar sem kemur að þessu verkefni á heiður skilinn fyrir dugnaðinn og allt mun þetta verða vel lukkað þegar á hólminn er komið. Auður Ottesen er að vinna kraftaverk í íþróttahúsinu og vona ég að sýningin þar komi vel út.
Mannskapurinn verður án vafa örþreyttur þegar helgin brestur á en mikið lifandis býsn eru allir að standa sig vel. Þúsund, þúsund þakkir til ykkar allra !
Fundur fyrir hádegi um hönnun sundlaugarbyggingarinnar. Eftir hádegi hittum við lögmann bæjarins en nú er hafin matsvinna vegna Friðarstaða og yfirtöku bæjarins á erfðafesturéttindum ábúenda þar.
Hitti einnig Davíð Samúelsson sem er að vinna að ýmsum verkefnum fyrir okkur í Hveragerði þessa dagana. Við gerum ráð fyrir að vígja goshverinn í Hveragarðinum á laugardeginum á Blómum í bæ, það verður spennandi að sjá hvernig þar tekst til. Nýtt stórt þjónustuskilti við Breiðumörk er komið í vinnslu og skilti á Kvennaskólatorgið. Söguskilti mun fara upp við Þinghúsið (Skyrgerðina), við ætlum að laga skiltið í Vigdísarlundi og Pjetur Hafstein Lárusson er að klára skilti um Egilsstaði (Gamla barnaskólann). Allt feykilega flott og skemmtileg verkefni.
Kom alltof seint heim úr vinnunni en fór svo í dágóðan hjólatúr um bæinn og kom endunærð heim eftir skemmtilegt spjall hjá Sigurbjörgu systur, Helga og litlu skvísunum þeirra.
14. júní 2016
Fundur í morgun með fulltrúum SASS þar sem farið var yfir Atlas verkefnið svokallaða. Sveitarfélög á Suðurlandi samþykktu á fundi sínum í vetur að fara í sameiginlega kortagerð af Suðurlandi með það fyrir augum að samræma aðalskipulög og tengingar á milli sveitarfélaga. Á fundinn í morgun mætti einnig fulltrúi Loftmynda sem unnið hafa kortavefsjá sem fjöldi sveitarfélaga notar. Við hér í Hveragerði höfum aftur á móti nýtt okkur þjónustu Granna sem Verkfræðistofa Suðurlands hannaði þó að forrit Loftmynda megi einnig nálgast á forsíðu www.hveragerdi.is.
Komst ekki á fundi í kjaramálanefnd Sambandsins sem haldinn var í hádeginu og var því í símanum með þeim í staðinn. Þar var umræðuefnið niðurstaða kosningar Kennarasambandsins um nýundirritaðann kjarasamning, en kennarar kolfelldu samninginn. Heilmikil umræða spannst um málið en greinilegt er að betur þarf að kanna forsendur og viðhorf áður en lengra er haldið.
Síðdegis fylgdi ég Hrafnhildi Björnsdóttur síðasta spölinn í Fossvogskirkju. Hún og Gúndi eiginmaður hennar komu á hvert einasta opið hús okkar Sjálfstæðismanna hér í Hveragerði og auk þess var hún formaður Félags eldri borgara og mjög virk sem slík. Mér þótti vænt um að sjá hversu margir Hvergerðingar mættu til jarðarfararinnar og studdu þannig við félaga sinn og vin hann Gúnda sem nú hefur misst svo mikið.
Við fórum saman á jarðarförina við mamma og úr því við vorum nú komnar saman í höfuðborgina brugðum við okkur í Perluna og nutum dagsins. Yndislegt þegar maður nær að gefa þeim tíma sem manni þykir vænst um.
Við Lárus horfðum saman á leikinn sen var ótrúlega spennandi og frábær skemmtun. Mikið sem þetta lið er að gera góða hluti. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu :-)
Verð síðan að deila með ykkur þessari mynd af flotta heggnum hennar mömmu. Ég man varla eftir því að gróður hafi verið jafn fallegur og nú...
13. júní 2016
Það segja mér garðplöntusalar hér í Hveragerði að þetta vor sé alveg einstaklega gott. Meira að segja ganga þeir svo langt að jafna því við 2007. Fólk virðist hafa mun meira á milli handanna en áður, versla meira og spá minna í verðið. Góðviðrið hefur síðan klárlega gert mikið fyrir söluna í ár en vorið kom hreinlega 3 vikum fyrr en í fyrra að minnsta kosti.
Núna er ekki einu sinni kominn 17. júní sem var hér áður opinber útplöntunardagur sumarblóma á mínu heimili en sumarblómin mín í ár hafa baðað sig í blíðunni vikum saman þegar þetta er skrifað.
Það var mikið um að vera um helgina. Garðvinnan tekur reyndar allar frístundir enda er svo gaman að stússast í garðinum þegar veðrið leikur svona við mann. Ég fjárfesti í gróðurhúsi sem núna er komið upp og ég get ekki beðið eftir að fara að vinna í því. Búinn að vera draumur í mörg ár og nú loksins lét ég verða af þessu. Já, ég skrifa ég, en ekki við, því þó að Lárus sé alveg liðtækur í garðinum þá held ég nú ekki að draumur hans hafi verið gróðurhús í garðinn :-)
Skyrgerðin og Skyr hostel opnaði um helgina í gamla Hótel Hveragerði. Elfa Dögg á heiður skilinn fyrir það hversu vel hún hefur tekið húsið í gegn og mér sýnist sem að reksturinn lofi góðu. Matseðillinn girnilegur og innréttingar einstaklega smekklegar. Þetta verður flott viðbót við flóru veitinga og gististaða í Hveragerði.
Í dag vann ég í ýmsum málum á bæjarskrifstofunni. Gekk meðal annars frá nýjum ráðningarsamning við Sævar Þór Helgason, sem er nýráðinn skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði og hitti fjárfesta sem hafa áhuga á uppbyggingu í Hveragerði og ýmislegt fleira.
Meirihlutafundur venju samkvæmt í kvöld og nóg um að vera á morgun ...
7. júní 2016
Samhliða vinnu við endurskoðun aðalskipulags er nú verið að endurskoða umferðaröryggisáætlun Hveragerðisbæjar. Síðasta áætlun var unnin 2007 en síðan hefur nokkuð markvisst verið unnið í samræmi við þá áætlun. Hér geta fróðleiksfúsir rennt yfir áætlunina sem í gildi er.
http://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/umferdaroryggisaaetlun/sveitarfelog/
Eins og sjá má erum við þarna í góðum félagsskap nokkurra sveitarfélaga sem einnig hafa gert svipað.
Annars lutu verkefni dagsins m.a. að Blómum í bæ, undirbúningi fyrir hátíðarfund bæjarstjórnar sem verður næstkomandi fimmtudag og mörgu fleiru :-)
6. júní 2016
Góður dagur á skrifstofunni.
Vann í ýmsum málum fyrir hátíðarfund bæjarstjórnar sem halda á næstkomandi fimmtudag. Þetta er auðvitað venjubundinn bæjarstjórnarfundur í aðeins betri búningi í tilefni af 70 ára afmæli bæjarin, en í teilefni dagsins verður fundurinn haldinn í Þinghúsinu við Breiðumörk. Þar munu nokkur góð mál vonandi verða samþykkt og ýmis afgreiðslu mál einnig.
Bæjarfulltrúar vonast til þess að Hvergerðingar mæti á fundinn og til að lokka þá á staðinn verður boðið upp á þjóðlegar veitingar, flatkökur, kleinur og lagköku !
Í dag sendi ég boðsbréf á ýmsa aðila vegna setningar Garðyrkju- og blómasýningarinnar Blóma í bæ. Undirbúningur fyrir hana er í fullum gangi og nóg um að vera.
Flokkstjórar, Vinnuskólinn og starfsmenn umhverfisdeildar og áhaldahúss eru búin að vinna hörðum höndum að því að gera umhverfi okkar fallegt og það sést svo sannarlega. Ég ætla nú samt með Ara í minn árlega "umhverfis-rúnt" þar sem smámunasemi mín fær hina fullkomnu útrás :-)
Myndina hér til hliðar tók ég í blíðviðrinu í dag, en hitinn fór hér yfir 20° og varla bærðist hár á höfði. Yndislegt að fá svona daga.
Skemmtilegur fundur allra bæjarfulltrúa í kvöld þar sem farið var yfir dagskrá bæjarstjórnarfundarins og fyrirkomulag. Einnig var rætt um ýmislegt annað að vanda. Þetta er bæði skemmtilegur og góður hópur sem gaman er að vinna með.
Zumba kl. 6, líkamsrækt kl. 18, hjólað í vinnuna 2x og í ræktina 2x gerir að verkum að háttatími fyrir kl. 23:00 er lífsnauðsynlegur :-)
5. júní 2016
Lok síðustu viku einkenndust af miklum fundahöldum sem eru nú reyndar alvanaleg og svo sem ekki í frásögur færandi.
En að hafa bæði bæjarráðs- og bæjarstjórnarfund fyrir kl. 10 á fimmtudaginn var nú samt vel gert !
Fundur bæjarstjórnar var aukafundur haldinn til að ráða nýjan skólastjóra, Sævar Þór Helgason, en bæjarstjórn samþykkti ráðningu hans samhljóða. Ég er þess fullviss að Sævar muni verða farsæll skólastjóri hér í Hveragerði. Hann er vel menntaður og reynslumikill úr skólastarfinu, en hann hefur starfað hér í skólanum um árabil. Sævar hefur líka svo einlægan áhuga á nærsamfélaginu og Hveragerði að þetta getur ekki annað en gengið vel.
Síðdegis var aukafundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem samþykktur var nýr kjarasamningur við grunnskólakennara.
------------------
Á föstudaginn hitti ég bæði Fanneyju, fráfarandi skólastjóra og Sævar Þór þann nýja á góðum fundi.
Átti síðan gagnlegan fund með Maríu, forstöðumanni skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings þar sem við fóum yfir ýmis mál, m.a. komu flóttamanna.
Hitti Hjalta Helgason, formann íþróttafélagsins Hamars, en félagið er með góðar hugmyndir varðandi andlitslyftingu á íþróttahúsinu við Skólamörk.
Deginum og þar með vinnuvikunni lauk svo með fundi í starfshópi um endurskoðun aðalskipulags.
-------------------
Helginni var síðan allri eytt í garðvinnu - og mikið rosalega er þetta skemmtilegt :-)
En að hafa bæði bæjarráðs- og bæjarstjórnarfund fyrir kl. 10 á fimmtudaginn var nú samt vel gert !
Fundur bæjarstjórnar var aukafundur haldinn til að ráða nýjan skólastjóra, Sævar Þór Helgason, en bæjarstjórn samþykkti ráðningu hans samhljóða. Ég er þess fullviss að Sævar muni verða farsæll skólastjóri hér í Hveragerði. Hann er vel menntaður og reynslumikill úr skólastarfinu, en hann hefur starfað hér í skólanum um árabil. Sævar hefur líka svo einlægan áhuga á nærsamfélaginu og Hveragerði að þetta getur ekki annað en gengið vel.
Síðdegis var aukafundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem samþykktur var nýr kjarasamningur við grunnskólakennara.
------------------
Á föstudaginn hitti ég bæði Fanneyju, fráfarandi skólastjóra og Sævar Þór þann nýja á góðum fundi.
Átti síðan gagnlegan fund með Maríu, forstöðumanni skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings þar sem við fóum yfir ýmis mál, m.a. komu flóttamanna.
Hitti Hjalta Helgason, formann íþróttafélagsins Hamars, en félagið er með góðar hugmyndir varðandi andlitslyftingu á íþróttahúsinu við Skólamörk.
Deginum og þar með vinnuvikunni lauk svo með fundi í starfshópi um endurskoðun aðalskipulags.
-------------------
Helginni var síðan allri eytt í garðvinnu - og mikið rosalega er þetta skemmtilegt :-)
1. júní 2016
Hann Haraldur Fróði er mikill gleðigjafi sem kemur í heimsókn til önnum kafinnar ömmu sinnar þegar það hentar okkur báðum :-)
Hann fór í heimsókn í Gýgjarhólskot nýlega og þá gaf Skírnir honum þessa forláta bíla sem hafa verið í miklu uppáhaldi síðan enda eðal farartæki báðir tveir.
Mér fannst hann svo flottur á þessari mynd að ég ákvað að deila henni með ykkur.
Annars sleppti ég eina fundi dagsins sem hefði dregið mig út af skrifstofunni og fyrir vikið vannst vel í dag í hinum ýmsu málum.
Átti stórgóðan fund með Ara, umhverfisfulltrúa og Auði Ottesen sem hefur tekið að sér utanum hald um sögusýningu blómanna og aðrar sýningar sem verða munu í íþróttahúsinu á Blómum í bæ. Hún mun einnig sjá um sölubása og samskipti við þá aðila svo það verður nóg að gera hjá henni. Ég hef þá trú að hún muni gera góða hluti á sýningunni þó að hún hefði vafalaust þegið að fá lengri fyrirvara.
Það er á dagskrá að setja upp sýningu nokkurra stássstofa frá mismunandi tímabilum þar sem gerð verður grein fyrir samspili blóma og húsbúnaðar frá árinu 1900. Einnig hefur hún hug á að gera blómadrottningum skil, afleggjurum og erðagripum auk kaktusa. En allt mun þetta skýrast í næstu viku.
Hann fór í heimsókn í Gýgjarhólskot nýlega og þá gaf Skírnir honum þessa forláta bíla sem hafa verið í miklu uppáhaldi síðan enda eðal farartæki báðir tveir.
Mér fannst hann svo flottur á þessari mynd að ég ákvað að deila henni með ykkur.
Annars sleppti ég eina fundi dagsins sem hefði dregið mig út af skrifstofunni og fyrir vikið vannst vel í dag í hinum ýmsu málum.
Átti stórgóðan fund með Ara, umhverfisfulltrúa og Auði Ottesen sem hefur tekið að sér utanum hald um sögusýningu blómanna og aðrar sýningar sem verða munu í íþróttahúsinu á Blómum í bæ. Hún mun einnig sjá um sölubása og samskipti við þá aðila svo það verður nóg að gera hjá henni. Ég hef þá trú að hún muni gera góða hluti á sýningunni þó að hún hefði vafalaust þegið að fá lengri fyrirvara.
Það er á dagskrá að setja upp sýningu nokkurra stássstofa frá mismunandi tímabilum þar sem gerð verður grein fyrir samspili blóma og húsbúnaðar frá árinu 1900. Einnig hefur hún hug á að gera blómadrottningum skil, afleggjurum og erðagripum auk kaktusa. En allt mun þetta skýrast í næstu viku.