15. júní 2016
Undirbúningur fyrir Blóm í bæ tekur mikinn tíma hjá öllum þessa dagana. Sýning sem þessi er ekki einföld í sniðum og sérstaklega ekki þegar allir starfsmenn þurfa að bæta á sig fjölmörgum verkum vegna hennar. Fólkið okkar sem kemur að þessu verkefni á heiður skilinn fyrir dugnaðinn og allt mun þetta verða vel lukkað þegar á hólminn er komið. Auður Ottesen er að vinna kraftaverk í íþróttahúsinu og vona ég að sýningin þar komi vel út.
Mannskapurinn verður án vafa örþreyttur þegar helgin brestur á en mikið lifandis býsn eru allir að standa sig vel. Þúsund, þúsund þakkir til ykkar allra !
Fundur fyrir hádegi um hönnun sundlaugarbyggingarinnar. Eftir hádegi hittum við lögmann bæjarins en nú er hafin matsvinna vegna Friðarstaða og yfirtöku bæjarins á erfðafesturéttindum ábúenda þar.
Hitti einnig Davíð Samúelsson sem er að vinna að ýmsum verkefnum fyrir okkur í Hveragerði þessa dagana. Við gerum ráð fyrir að vígja goshverinn í Hveragarðinum á laugardeginum á Blómum í bæ, það verður spennandi að sjá hvernig þar tekst til. Nýtt stórt þjónustuskilti við Breiðumörk er komið í vinnslu og skilti á Kvennaskólatorgið. Söguskilti mun fara upp við Þinghúsið (Skyrgerðina), við ætlum að laga skiltið í Vigdísarlundi og Pjetur Hafstein Lárusson er að klára skilti um Egilsstaði (Gamla barnaskólann). Allt feykilega flott og skemmtileg verkefni.
Kom alltof seint heim úr vinnunni en fór svo í dágóðan hjólatúr um bæinn og kom endunærð heim eftir skemmtilegt spjall hjá Sigurbjörgu systur, Helga og litlu skvísunum þeirra.
Comments:
Skrifa ummæli