6. júní 2016
Góður dagur á skrifstofunni.
Vann í ýmsum málum fyrir hátíðarfund bæjarstjórnar sem halda á næstkomandi fimmtudag. Þetta er auðvitað venjubundinn bæjarstjórnarfundur í aðeins betri búningi í tilefni af 70 ára afmæli bæjarin, en í teilefni dagsins verður fundurinn haldinn í Þinghúsinu við Breiðumörk. Þar munu nokkur góð mál vonandi verða samþykkt og ýmis afgreiðslu mál einnig.
Bæjarfulltrúar vonast til þess að Hvergerðingar mæti á fundinn og til að lokka þá á staðinn verður boðið upp á þjóðlegar veitingar, flatkökur, kleinur og lagköku !
Í dag sendi ég boðsbréf á ýmsa aðila vegna setningar Garðyrkju- og blómasýningarinnar Blóma í bæ. Undirbúningur fyrir hana er í fullum gangi og nóg um að vera.
Flokkstjórar, Vinnuskólinn og starfsmenn umhverfisdeildar og áhaldahúss eru búin að vinna hörðum höndum að því að gera umhverfi okkar fallegt og það sést svo sannarlega. Ég ætla nú samt með Ara í minn árlega "umhverfis-rúnt" þar sem smámunasemi mín fær hina fullkomnu útrás :-)
Myndina hér til hliðar tók ég í blíðviðrinu í dag, en hitinn fór hér yfir 20° og varla bærðist hár á höfði. Yndislegt að fá svona daga.
Skemmtilegur fundur allra bæjarfulltrúa í kvöld þar sem farið var yfir dagskrá bæjarstjórnarfundarins og fyrirkomulag. Einnig var rætt um ýmislegt annað að vanda. Þetta er bæði skemmtilegur og góður hópur sem gaman er að vinna með.
Zumba kl. 6, líkamsrækt kl. 18, hjólað í vinnuna 2x og í ræktina 2x gerir að verkum að háttatími fyrir kl. 23:00 er lífsnauðsynlegur :-)
Comments:
Skrifa ummæli