14. júní 2016
Fundur í morgun með fulltrúum SASS þar sem farið var yfir Atlas verkefnið svokallaða. Sveitarfélög á Suðurlandi samþykktu á fundi sínum í vetur að fara í sameiginlega kortagerð af Suðurlandi með það fyrir augum að samræma aðalskipulög og tengingar á milli sveitarfélaga. Á fundinn í morgun mætti einnig fulltrúi Loftmynda sem unnið hafa kortavefsjá sem fjöldi sveitarfélaga notar. Við hér í Hveragerði höfum aftur á móti nýtt okkur þjónustu Granna sem Verkfræðistofa Suðurlands hannaði þó að forrit Loftmynda megi einnig nálgast á forsíðu www.hveragerdi.is.
Komst ekki á fundi í kjaramálanefnd Sambandsins sem haldinn var í hádeginu og var því í símanum með þeim í staðinn. Þar var umræðuefnið niðurstaða kosningar Kennarasambandsins um nýundirritaðann kjarasamning, en kennarar kolfelldu samninginn. Heilmikil umræða spannst um málið en greinilegt er að betur þarf að kanna forsendur og viðhorf áður en lengra er haldið.
Síðdegis fylgdi ég Hrafnhildi Björnsdóttur síðasta spölinn í Fossvogskirkju. Hún og Gúndi eiginmaður hennar komu á hvert einasta opið hús okkar Sjálfstæðismanna hér í Hveragerði og auk þess var hún formaður Félags eldri borgara og mjög virk sem slík. Mér þótti vænt um að sjá hversu margir Hvergerðingar mættu til jarðarfararinnar og studdu þannig við félaga sinn og vin hann Gúnda sem nú hefur misst svo mikið.
Við fórum saman á jarðarförina við mamma og úr því við vorum nú komnar saman í höfuðborgina brugðum við okkur í Perluna og nutum dagsins. Yndislegt þegar maður nær að gefa þeim tíma sem manni þykir vænst um.
Við Lárus horfðum saman á leikinn sen var ótrúlega spennandi og frábær skemmtun. Mikið sem þetta lið er að gera góða hluti. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu :-)
Verð síðan að deila með ykkur þessari mynd af flotta heggnum hennar mömmu. Ég man varla eftir því að gróður hafi verið jafn fallegur og nú...
Comments:
Skrifa ummæli