<$BlogRSDUrl$>

31. ágúst 2017

Dagurinn byrjaði á fundi í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins í Valhöll á Háaleitisbraut. Það munaði nú reyndar minnstu að ég snéri við og færi aftur austur þegar ég kom inn á Vesturlandsveginn og sá umferðarteppuna sem þar var. Ég var rúmar 20 mínútur yfir heiðina en 25 mínútur að silast frá Árbæjarhverfinu og niður á Háaleitisbraut. Gat ekki annað en hugsað um þau gríðarlegu lífsgæði sem fólgin eru í því að búa hér fyrir austan fjall þar sem hægt er að labba eða hjóla allt og maður þarf ekki að eyða dýrmætum tía í að hanga í bílnum örstuttat vegalengdir.
En fundurinn í miðstjórn var góður en þar var fjallað um málefni SUS sem undirbúa nú aðalfund sinn.
--------
Átti svo fund með Ástu í Árborg og Róberti Ragnarssyni en hann vinnur nú að Fjárhaglegri úttekt á starfsemi þeirra heimila sem sinna búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk á Suðurlandi. Það verður fróðlegt að sjá hans niðurstöðu en ljóst er að milljóna tugi vantar til að reksturinn nái endum saman.
---------
Í framhaldi af fundinum með Róbert hittum við fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jöfnunarsjóðnum og Mosfellsbæ þar sem staða sjálfstæðra rekstraraðila í málefnum fatlaðs fólks var rædd. Þar er fjárþörfin mikil og fátt um lausnir þegar kemur að þeim þætti.
----------
Enn meiri tiltekt á bæjarskrifstofunni í dag. Var að fram að kvöldmat og núna er ég búin að tæma allar hillur og skápa. Það er alveg hreint með ólíkindum hvað hefur safnast upp af pappírum, mismikilvægum, á undanförnum árum.

30. ágúst 2017

Stundum gerist eitthvað sem kemur manni verulega á óvart. Í dag fékk ég símtal frá fréttamanni sem starfar á Fréttablaðinu. Hann hefur stundum samband ef hann sér að eitthvað áhugavert er um að vera í bæjarfélaginu sem er mjög jákvætt. Í dag hringdi hann sem sagt og sagðist hafa verið að lesa bloggið mitt. Sem líka er verulega jákvætt því þá les það allavega einn einstaklingur - sem er betra en enginn :-)

Ég tók honum að sjálfsögðu vel og hélt að hann ætlaði að fjalla um flutning bæjarskrifstofunnar, málefni fatlaðs fólks, íþróttamannvirkin eða allavega eitthvað úr bæjarlífinu. EN, nei, þá var erindið að fá viðtal um örlög kattarins Gosa! Ég hélt nú að hann væri að grínast og hafði nú ekki mikla trú á að kötturinn sá væri fréttaefni en sú varð nú samt raunin þannig að nú bíð ég spennt eftir því að sjá hvernig í ósköpunum þetta verður matreitt ofan í lesendur blaðsins. Já það er enginn dagur eins, það er víst ábyggilegt !
---------------

Annars er tiltekt hafin og pökkun á bæjarskrifstofunni. Löngu tímabært að henda og taka til í öllum skápunum enda er margt að fara á haugana núna. Passa samt að sjálfsögðu öll merkileg skjöl ;-) En ég er að finna alls konar skemmtiefni frá fyrirrennurum mínum i embætti og meðan annars skýrslu frá Hálfdáni þar sem hann fjallar um framtíð Hveragerðis en þar er þessa flottu mynd að finna. Reyndar enginn texti en ætli hann hafi verið að velta fyrir sér bæjarskrifstofunum í Búnaðarbankahúsið fyrir tæpum 20 árum?


29. ágúst 2017

Í upphafi dags áttum við Jóhanna, menningar og frístundafulltrúi, góðan fund og fórum meðal annars yfir starfsmannamál í íþróttamannvirkjum. Þar eru að bætast við nýir starfsmenn í stað þeirra nú hverfa á braut.
Ræddum einnig risa viðburð sem hér verður væntanlega haldinn Í vetur og betur kynntur síðar. Spennandi !

Átti fund með fulltrúum Árborgar um stöðuna vegna móttökuk sýrlensku flóttamannanna. Það gengur allt alveg ljómandi vel en nú er þriðja fjölskyldan er núna loksins væntanleg á Selfoss vel rúmlega hálfu ári á eftir hinum. Það setur verkefnið í önuga stöðu þar sem samlegðaráhrifin af því að taka á móti öllum í einu eru þá ekki til staðar. En það mun auðvitað leysast farsællega, til þess er öll vinnan !

Hitti leikskólastjórana á Undralandi eftir hádegi en þar standa nú flutningar fyrir dyrum í nýja leikskólann. Í mörg horn er að líta við þær aðstæður. Eitt af skemmtilegri verkefnunum er að finna nöfn á sex deildir. Við ræddum það aðeins og fengum brillíant hugmynd að því að okkur fannst :-)

Fundur um sjálgbærni verkefnið sem undirritað var nýverið. Þar er Baldvin Jónasson á fullu að mynda tengingar víða í samfélaingu en það er afskaplega gaman að sjá hversu öflugur hann er í þessari vinnu.

Í kvöld var svo fyrirlestur í grunnskólanum sem Alexander Wiium hélt um jákvæðni og gott sjálfstraust. Skellti mér að hlusta á unga manninn sem stóð sig alveg glimrandi vel.
---------

Fyrir þá sem hafa fylgst með stóra kattamálinu á Heiðmörkinni þá er best að láta vita að Gosi náðist undan eldhúsinnréttingunni þar sem hann var ennþá jafn veiklaður þá var eina leiðin sú að sjá til þess að hann stundi nú fuglaveiðar sínar á grænum grundum sumarlandins. Við söknum hans auðvitað en þetta gekk ekki lengur ...

Ég er samt ennþá furðulostin yfir því hvað hefur eiginlega gerst með köttinn. Þetta verður ráðgátan mikla !
-----------

Reiðhjólahjálmurinn minn vekur mikla athygli og fyrir unga fólkið sem spurði þá er slóðin á búðina hér....


28. ágúst 2017

Áttum góðan fund með Margréti og Hrefnu frá Arkibúllunni vegna hönnunar gluggans á efri hæð sundlaugarhússins í Laugaskarði. Mér til ánægju mætti Eggert Marínósson á fundinn en hann hef ég þekkt af góðu einu frá því í menntaskóla. Hann er fulltrúi Glerborgar í verkefniun, nú efast ég ekki um að við finnum farsæla leið til að ýta þessu verki áfram en þó er að verða ljóst að framkvæmdir geta ekki hafist í ár eins og til stóð. Það er mikilvægt að við finnum þá leið til að bæta aðstöðu starfsmanna í sundlauginni enda er efri hæðin komin á tíma til framkvæmda fyrir löngu.

Hitti fulltrúa frá Reitum til að fara yfir lokaskref fyrir flutning bæjarskrifstofunnar sem fara mun fram strax eftir næstu helgi. Það er ekki alveg einfalt að flytja heila bæjarskrifstofu og í mörg horn á líta. Ekki síst þarf að fleygja alveg hreint ókjörum af ýmislegu sem dagað hefur uppi í þau ár sem skrifstofan hefur verið hér. Það er nauðsynlegt af og til að fara í slíka hreinsun.

Fundur í orkunýtingarnefnd SASS eftir hádegi. Þar hittum við fulltrúa frá Landsvirkjun og áttum með þeim góðan fund. Þar mættu bæði Einar Mathiessen, fyrrverandi bæjarstjóri í Hveragerði og Ragna Árnadóttir sem einnig var í MA á svipuðum tíma og ég. Það má segja að MA´ingar hafi verið fyrirferðamiklir í dag...

Fundur með öllum bæjarfulltrúum í kvöld þar sem farið var yfir þau verkefni sem framundan eru. Þetta er þéttur og góður hópur sem vinnur vel saman. Það er afskaplega dýrmætt og skilar öllu miklu betur áfram.
----------

Heimilið er í herkví þessa stundina enda er kötturinn orðinn klikkaður. Þetta er eins og að búa með villidýri! Það hefur augljóslea eitthvað komið fyrir hann. Fyrst stakk hann af í viku og kom svo heim eins og umskiptingur! Núna er hann aftur búinn að koma sér fyrir í sökklinum á eldhúsinnréttingunni og ekki viðlit að ná honum þaðan. Hann hvæsir, bítur og klórar ef við komum nálægt honum sem hann reyndar leyfir ekki því hann er annað hvort inní eldhúsinnréttingunni eða ofan á fatahengjunum í húsinu... Allir eru orðnir logahræddir við köttinn! Það er alveg ljóst hvað bíður þessa erfiða kattaeintaks þegar hann næst! Reyndar þætti mér afar fróðlegt að vita hvað kom eiginlega fyrir köttinn? Eitthvað er það því þessi hegðunarbreyting á núll einni er engu líK !


25. ágúst 2017

Dagurinn byrjaði á fundi með eigendum landsins sem er fyrir neðan þjóðveg. Þar hafa nýir aðilar eignast þetta land sem áður var kennt við Lífsval og ræddu þeir við okkur um hugmyndir sínar um nýtingu landsins til framtíðar. Það er ljóst að með tilfærslu Suðurlandsvegar skapast mikið byggingarland sem án vafa á eftir að gefa okkur alls konar tækifæri til lengri tíma litið.

Hingað kom einnig aðili sem kynnti hugmyndir sínar um uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn. Vandinn var að hann vill staðsetja sig á horni við hringtorgið og þá er spurning hvort ekki sé nú betra að bíða eftir nýja hringtorginu. En hugmyndirnar voru athyglisverðar.

Einar Bárðarson kom hingað á fund og kynnti fyrirkomulag hlaupsins Hengill Ultra sem hér verður haldið þann 2. september. Þar hafa nú þegar 15 aðilar skráð sig í 100 km hlaup sem er nú reyndar næstum því óskiljanlegt. En einnig er hægt að velja um styttri vegalengdir til dæmis 80 km og 50 km. Nei grínlaust þá er líka hægt að hlaupa "stutt" 25 km, 10 km og 5 km. Fullt af flottum gjöfum fyrir alla þátttakendur og brautarverðlaun glæsileg dregin út. Það verður gaman að fylgjast með þessu :-)

Átti einnig góðan fund með Víið Reynissyni, almannavarnafulltrúa okkar Sunnlendinga, en nú eru að fara í gang almannavarnavikur í hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem farið verður yfir áhættumat, viðbragðsáætlanir og einnig haldinn íbúafundur til að skerpa á kunnáttu íbúa á þessu sviði. Okkar vika verður 11.-14. september og íbúafundurinn líklega þriðjudaginn 12. september kl. 20.

Fór einnig í skoðunarferð um byggingaslóðir með Jóni Friðriki en við heimsóttum bæði tilvonandi bæjarskrifstofu og húsnæði Skóla- og velferðarþjónustunnar í Fljótsmörk. Fórum einnig yfir Skátaheimilið með tilliti til þess að fristundaskólinn mun hefja þar starfsemi á mánudaginn. Við búum við afar erfiða stöðu hvað varðar frístundaskólann þar til sú starfsemi getur flutt á Undraland en það verður ekki fyrr en um miðjan október.


24. ágúst 2017

Málþing um skóla án aðgreiningar á Reykjavik í dag var athyglisvert en þar komu fram mörg góða sjónarmið varðandi þetta mál sem svo oft hefur verið í umræðunni.

23. ágúst 2017

Fundur í sameiningarnefnd Árnessýslu í dag. Það var eins og alltaf góður fundur en óneitanlega hefur hljóðið heldur dofnað í mönnum eftir því sem hefur liðið á vinnuna. Það er of mikið góðæri í gangi alls staðar til að sameiningar teljist fýsilegar.

Skoðaði húsgögn á nýju bæjarskrifstofuna í dag. Það er víst alveg ábyggilega úr nógu að velja. En það eru hagsýnar húsmæður í þessari deild :-)

Hitti tvo vini mína frá Eistalandi í Reykjavík síðdegis og eftir skoðunarferð um höfuðborgina fórum við austur fyrir fjall í mat í Hveragerði. Það var afar skemmtilegt og gaman að eyða kvöldstund með þessum skemmtilegu mönnum. Þeim hef ég kynnst í vinnu minni fyrir Evrópusamtök sveitarfélaga.

22. ágúst 2017

Átti góða fundi í Reykjavík í morgun. Sá seinni var í Ferðamálaráði þar sem gengið var frá tillögum til ráðherra um úrbætur í umhverfi ferðaþjónustunnar. Það verður spennandi að sjá hvaða framgang þessar tillögur munu fá.

Eftir hádegi sótti ég sveitarstjórnarráðstefnu Lex sem haldin var á Selfossi. Fjallað var einmitt um lagaleg atriði varðandi ferðaþjónustu, um útboðsmál, landshlutasamtök og fleira áhugavert. Fínn fundur.

Hamborgaraboð hjá góðum vinum var afar vel heppnað og góður endir á deginum

21. ágúst 2017


Blómstrandi dagar tókust einstaklega vel og allir voru himinsælir með helgina. Veðrið lék við hvern sinn fingur og það var auðvitað ekkert minna en stórkostlegt að besta helgi sumarsins, að ég tel, hafi verið í gær. Þúsund þakkir til allra sem gerðu þessa daga jafn góða og raun bar vitni.



Átti góðan fund með Höskuldi, umhverfisfulltrúa, í morgun þar sem við fórum yfir ýmis mál er varða hans deild. Nú verðum við til dæmis að fara að hafa hraðar hendur eigi að nást að lagfæra götur eins og til stóð í sumar.

Átti stuttan fund vegna öryggismála í Hveragarðinum sem verða að vera í lagi. Ræddi einnig við arkitekta um nýja gluggann á sundlaugarhúsinu en þar hefur þeim endurbótum því miður seinkað meira en góðu hófi gegnir.

Hitti fulltrúa frá Skátafélaginu Stróki en verið er að vinna að því að fá skátaheimilið lánað fyrir frístundaskólann þar til hann flytur í gamla Undraland.

... og margt annað eins og vera ber á stóru heimili :-)

18. ágúst 2017

Allt á fullu fyrir Blómstrandi daga og mestur tíminn fer í að auglýsa helgina.
Átti samt afar góðan fund með Sævari skólastjóra um upphaf skólastarfsins en nemendur sem mæta í haust stefna í að verða um 350 í ár. Hér er enginn skortur á kennurum enda vilja margir starfa við okkar góða skóla. Það sem gleður okkur ekki síst hér í Hveragerði er það hversu margir karlmenn eru starfandi við skólann en fjöldi karlmanna á öllum aldri starfar hér við kennslu sem er afar dýrmætt og gerir skólastarfið fjölbreyttara.

Við Sævar hittum síðan Elínu Ester sem er nýráðinn forstöðumaður frístundaskóla og félagsmiðstöðvar. Hún hefur unnið á Úlfljótsvatni undanfarin ár og stýrt þar skólabúðum skátanna. Við fórum á rúntinn og skoðuðum aðstöðuna en húsnæði leikskólans Undralands verður tekið undir þessa starfsemi þegar hann flytur í nýja húsið í október. Það verður sérlega gaman að sjá hvernig starfsemin mun þróast á nýjum stað með nýjum yfirmanni.

Ágústa Eva var meiriháttar á tónleikunum í gærkvöldi, troðfullt hús og komust færri að en vildu. Í kvöld er það svo Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar sem spila á Skyrgerðinni. Enn eru eftir nokkrir miðar en það þarf að hafa hraðar hendur til að ná þeim !

Hentist heim í hádeginu til að setja út skreytingu ársins. Bókabæjaþema í ár !



17. ágúst 2017

Bæjarráð í morgun. Frekar þunnt fundarboð en samt var þó þar ákveðið að hefja framkvæmdir við endurbætur fráveitu í og við Breiðumörk og Bröttuhlíð. Sú framkvæmd mun hefjast strax eftir helgi en það er Arnon ehf sem átti lægsta boð í það verk.

Skoðaði framkvæmdir á nýju bæjarskrifstofunni eftir fundinn með Unni formanni bæjarráðs. Þar er allt á fullu enda eins gott því við stefnum á að flytja innan mánaðar í nýja húsið.

Fundur stjórnar Bergrisans, málefna fatlaðs fólks á Suðurlandi, með félagsmálaráðherra hófst kl. 11. Afar góður og gagnlegur fundur, við vorum ólíkt léttari í spori þegar við gengum af fundi en þegar við fórum á hann.

Hér fyrir austan hófst svo fundur með hópi íbúa vegna deiliskipulags Edenreitsins. Það var létt yfir hópnum og gaman að hitta þetta skemmtilega fólk. Vona að við munum ná góðri niðurstöðu í þeirra mál.

Stikaði síðan Friðarstaði og árbakkann frá Frost og funa til að fá tilfinningu fyrir svæðinu. Þetta er miklu grýttara en ég átti von á og reyndar bara alls ekki gott yfirferðar. En mikið rosalega er þetta fallegt svæði. Það verður gaman að deiliskipuleggja eitthvað skemmtilegt þarna. Myndina tók ég við Bauluna - ekki skrýtið þó að allir vilji eyða góðum dögum þarna.

Blómstrandi dagar eru núna formlega byrjaðir og hellingur framundan af skemmtilegum viðburðum. Það er virkilega gaman að því hversu íbúar eru duglegir og margir sem taka þátt og gera eitthvað frumlegt og skemmtilegt í og við sína garða.

Ágústa Eva og gömlu lögin hennar ömmu á Skyrgerðinni í kvöld - það verður eitthvað :-)

16. ágúst 2017

Byrjaði daginn á fundi með aðila sem hyggur á byggingu nokkuð stórs atvinnu og íbúðarhúsnæðis hér í Hveragerði. Núna er mörg slík verkefni í farvatninu og um komin í gang. Ein stærsta framkvæmd sem ráðist hefur verið í hér í bæ í áratugi er hafin með byggingu viðbyggingar við Hótel Örk. Þar er jarðvegsvinna nú í gangi en sem betur fer er fleygun þar í grunninum lokið. Allt útlit er síðan fyrir að byggingar muni hefjast í vetur á Edenreitnum en þar eru áætlaðar um 80 íbúðir af ýmsum stærðum og gerðum. Afar skemmtilegur valkostur sem henta mun fjölmörgum íbúðakaupendum vel. Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur lagt það til við bæjarstjórn að göturnar á reitnum verði látnar heita Aldinmörk og Edenmörk til heiðurs aldingarðinum Eden sem þarna stóð á árum áður.

Langur fundur í stjórn Bergrisans um málefni fatlaðs fólks á Selfossi í dag. Þar er málum nú svo komið að það er óendanlega fjarri lagi að þeir fjármunir dugi sem veittir voru frá ríki til sveitarfélaga til reksturs þeirra stofnana sem hér eru. Hér á Suðurlandi eru margir sjálfstæðir rekstraraðilar og það skekkir okkar mynd í samanburði við önnur svæði. Við í stjórninni eigum fund á morgun með Þorsteini Víglundssyni ráðherra um þá grafalvarlegu stöðu sem hér stefnir í.

Hitti Sólveigu og Omran sem starfa að móttöku flóttamanna frá Sýrlandi. Það verkefni gengur afar vel og okkar fólk er ánægt hér í Hveragerði. Það er ánægjulegt að svo sé.

Nóg að gera við undirbúning Blómstrandi daga þó að hann mæði nú óneitanlega mest á Jóhönnu M. Hjartardóttur en hún stendur sig frábærlega í skipulagi þessarar skemmtilegu bæjarhátíðar okkar Hvergerðinga.


Myndin er tekin á Blómstrandi dögum og sýnir vel fjölmennið sem hingað mætir af því tilefni.

15. ágúst 2017

Fundur í dag í Ferðamálaráði þar sem ég er fulltrúi sveitarfélaga ásamt Hjálmari Sveinssyni. Ég og hann ásamt Evu Björk úr Skaftárhreppi vorum í starfshópi sem fjallaði um gistingu í deilihagkerfinu og áhrif hennar á ferðaþjónustu og samfélagið. Aðrir i ráðinu tóku að sér að skoða önnur atriði sem ráðherra vildi sérstaklega fá tillögur um til úrbóta. Þetta var fyrst og fremst vinnufundur þar sem ítarlega var farið yfir þær tillögur sem hóparnir og starfsmenn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins lögðu fram. Ætlum að hittast aftur í næstu viku og klára tillögurnar sem fara síðan til ráðherra til nánari skoðunar.

Íbúðalánasjóður á nokkur hús hér í Hveragerði og fregnir hafa borist um að sjóðurinn ætli að selja húsin. Það væri vond staða enda er næstum vonlaust að fá hér leiguhúsnæði og fáar eignir til sölu og því myndi það skjóta skökku við ef að sjóðurinn verður til þess að stór hópur fólks verður húsnæðislaust. Er í viðræðum við Íbúðalánasjóð um þá stöðu sem þarna gæti komið upp en veit líka að önnur sveitarfélög eru einnig að ræða við sjóðinn um slíkt hið sama eins og yfirlýsingar ráðherra bera vitni um.

14. ágúst 2017

Nóg að gera um helgina, en haldnir voru nokkrir fundir til að taka stöðuna á málefnum skátanna 181 sem dvöldu í grunnskólanum.
Í dag mánudag hafa þeir allir verið útskrifaðir og skólinn verið þrifinn og sótthreinsaður hátt og lágt. Þessi atburður sýndi hversu vel Rauði krossinn er mannaður og hversu skilvirkt það kerfi sem byggt hefur verið upp er. En samt má læra af öllu sem gerist og svo er einnig nú. En við munum klárlega fjalla um þetta verkefni í stjórn Almannavarna og meta hvað má gera með öðrum hætti. Ég set spurningamerki við það hvort að rétt sé að nýta skólabyggingar sem fjöldahjálparstöð þegar um smitsjúkdóma er að ræða. Það rt riyy af því sem við þurfum að ræða.

Var fengin í viðtal í hádegisfréttum RÚV þar sem fjallað var um tvöföldun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss. Það er morgunljóst í mínum huga að það verður að hefja framkvæmdir þarna á næsta ári eins og reyndar er búið að ákveða. Tryggja þarf fjármagn svo þau áform verði að veruleika. Hér má lesa viðtalið.

Eftir hádegi fórum við Helga til Reykjavíkur að skoða húsgögn og innréttingar í nýju bæjarskrifstofuna. Þar miðar framkvæmdum vel þó að enn sjáum við engan veginn fyrir hvenær flutningur getur átt sér stað.

13. ágúst 2017

Vitið þið hvers ég sakna mest þegar ég blogga ekki ?
Það er að geta ekki sagt meira og tjáð mig betur en ég geri á facebook eða á snappinu. Þar þarf ég líka alltaf að vera að svara og því nenni ég oftast nær alls ekki...

Ég til dæmis las frétt á dv.is í gær sem vakti mig til umhugsunar. Þar sagði frá manni sem hafði farið í Krónuna og séð eldri mann róta í ruslatunnu í leit að flöskum og dósum. Viðkomandi taldi gefið að þetta væri einhvern sem væri í mikilli neyð að næla sér í flöskur til að selja. Kannski var það rétt en kannski var þetta bara einhver sem vill ekki að peningum sé hent! Þetta hefði getað verið Valdimar afi ef hann væri á lífi. Kannski muna einhverjir Hvergerðingar eftir honum en hann flutti til okkar fljótlega eftir að Guðrún amma mín dó og hann bjó hjá okkur í á annan áratug eða alltf þar til hann fékk heilablóðfall og lamaðist. Valdimar afi minn var fæddur árið 1900 og alinn upp í stórum systkinahópi og fátækt á litlum bæ í Holtunum. Hann vann eins og berserkur alla ævi og var ofboðslega duglegur og öflugur. Snaggaralegur og snar í snúningum allt til loka. Afi minn fór afar vel með peninga og kenndi okkur barnabörnunum það líka. Hann vissi að flöskur voru peningar og þess vegna fór hann oft í viku í gönguferð um Hveragerði og týndi allar flöskur sem hann fann. Ekki af því að hann vantaði peninga heldur af því hann vildi ekki að peningum væri hent. Hann dundaði sér líka við að rétta nagla sem hann fann kengbogna, ekki af því að hann vantaði alla þessa nagla heldur af því maður hendir ekki nöglum sem geta verið nýtanlegir! Ég týni líka flöskur og dósir ef ég sé þær á götunni. Ég róta reyndar ekki í ruslinu af því ég kann ekki við það en stundum langar mig til þess þegar ég sé hvað fólk hendir miklu af dósum. Auðvitað ekki af því að mig vanti pening. Heldur miklu frekar af því ég lærði það þegar ég var lítil að maður hendir ekki peningum. Dósasjóðurinn á mínu heimili fer síðan í íþróttafélögin með einum eða öðrum hætti !
Ég kenni líka barnabörnunum að týna dósir, það er umhverfisvænt og kennir þeim að bera virðingu fyrir fjármunum. Guðni á Þverlæk í Holtum týnir líka dósir. Hann týnir dósir meðfarm þjóðvegum Rangárvallasýslu og afraksturinn gefur hann til HSK. Sigga Kristjáns og Gústi safna dósum og gefa skátafélaginu afraksturinn. Einu sinni heyrði ég frétt frá Úrvinnslusjóði um að andvirði rúmra 200 mkir færi í ruslið á ári í formi dósa og flaskna sem ekki er skilað inn til endurvinnslu. Það er óþarflega miklir fjármunir að mínu mati. Þess vegna eigum við ekki að henda dósum og týnum þær sem við sjáum á götunni !

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet