21. ágúst 2017
Blómstrandi dagar tókust einstaklega vel og allir voru himinsælir með helgina. Veðrið lék við hvern sinn fingur og það var auðvitað ekkert minna en stórkostlegt að besta helgi sumarsins, að ég tel, hafi verið í gær. Þúsund þakkir til allra sem gerðu þessa daga jafn góða og raun bar vitni.
Átti góðan fund með Höskuldi, umhverfisfulltrúa, í morgun þar sem við fórum yfir ýmis mál er varða hans deild. Nú verðum við til dæmis að fara að hafa hraðar hendur eigi að nást að lagfæra götur eins og til stóð í sumar.
Átti stuttan fund vegna öryggismála í Hveragarðinum sem verða að vera í lagi. Ræddi einnig við arkitekta um nýja gluggann á sundlaugarhúsinu en þar hefur þeim endurbótum því miður seinkað meira en góðu hófi gegnir.
Hitti fulltrúa frá Skátafélaginu Stróki en verið er að vinna að því að fá skátaheimilið lánað fyrir frístundaskólann þar til hann flytur í gamla Undraland.
... og margt annað eins og vera ber á stóru heimili :-)
Comments:
Skrifa ummæli