<$BlogRSDUrl$>

27. nóvember 2009

Vikan fór í gerð fjárhagsáætlunar en hún fer fyrir bæjarráð í næstu viku. Erum á síðustu metrunum svo þetta hefur gengið vel. Þetta er svo sem ekki flókið en við náum ekki að skila jákvæðum rekstri þrátt fyrir ítrasta aðhald. Það er líka okkar markmið að skerða ekki lögbundna þjónustu og að hér verði áfram fyrsta flokks þjónusta. Það teljum við okkur geta með þeirri áætlun sem hér verður lögð fram. Eigið fé verður ekki merkilegt eftir næsta ár. En þá liggur leiðin vonandi uppá við á ný...

Fundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag og einnig fundur í alþjóðanefnd Sambandsins. Meirihlutafundur síðdegis svo ég varð klukkutíma of sein í kvöldmat hjá mömmu þar sem boðið var uppá dýrindis slátur.

Í fyrramálið ætlum við Helga Kristjáns að hittast snemma til að ganga frá gögnum og fundarboði en síðan tekur við opið hús Sjálfstæðismanna kl. 10:30. Þar mætir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingkona okkar hér í Suðurkjördæmi, svo það er um að gera að fjölmenna og heyra hennar sýn á landsmálin og málefni okkar Sunnlendinga.
------------------------------
Annars vil ég endilega hvetja alla til að mæta næsta sunnudag kl. 17, þegar kveikt verður á jólaljósunum á jólatrénu í smágörðunum við Hótel Örk. Eftir athöfnina munu skátarnir bjóða uppá kakó og kökur í nýuppgerðu húsi sínu við Breiðumörk. Þangað er örstutt að ganga svo ég vona að allir kíki þangað í heimsókn, njóti veitinganna og skoði um leið þær breytingar sem gerðar hafa verið á húsinu. Ég get því miður ekki verið viðstödd en Lalli og strákarnir ætla að halda uppi heiðri Heiðmerkurfjölskyldunnar við þetta tækifæri. Um kvöldið er síðan aðventukvöld í kirkjunni og þar munu fermingarbörnin sjá um helgileik. Ég missi því miður af því líka en ég veit að Albert og félagar munu standa sig vel. Það er nóg um að vera alla daga og því getur maður varla brugðið sér af bæ án þess að missa af einhverju.

24. nóvember 2009

Dagurinn byrjaði með fundi um möguleika í sorpurðun rétt uppúr kl. 8 en hingað mættu þá Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, Gunnar Örn Marteinsson, starfandi sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og þeir Jón Þórir og Guðjón frá Íslenska gámafélaginu. Fórum við vel yfir alla þá möguleika sem eru í stöðunni en auk þess að urða í Álfsnesi er hægt að brenna óendurvinnanlegt sorp hjá Kolku á Reykjanesi, urða á Reyðarfirði eða sigla með sorpið til brennslu í Vestmannaeyjum og fleiri möguleikar stungu upp kollinum. Möguleikarnir eru til staðar, allir eru þeir dýrir en óneitanlega misgáfulegir. Hér í Hveragerði verðum við að ná góðum árangri í flokkuninni til að minnka urðunarkostnaðinn sem fer úr 3,94 og vel yfir 15 krónurnar nú þann 1. des. Það er hækkun um 300% sem við verðum með öllum ráðum að koma í veg fyrir að lendi á íbúum sveitarfélaganna.

Eftir hádegi hittist framkvæmdaráð Almannavarna Árnessýslu hjá sýslumanni og vann í áhættugreiningu fyrir sýsluna. Eftir daginn í dag ættum við að geta klárað greininguna á einum fundi til viðbótar. Það verður gert í byrjun desember.

Við Helga sátum síðan yfir fjárhagsáætlun fram yfir kvöldmat enda stendur til að klára í vikunni. Forstöðumenn stofnana eru að standa sig feiknavel og allir starfsmenn eru ótrúlega jákvæðir þrátt fyrir að við nú þurfum öll að velta hverri krónu. Það er mikill auður fólginn í því að svona góður hópur skuli vinna við það að veita íbúum bæjarins eins góða þjónustu og mögulegt er.
-------------------------------------------

Boðskapur þingmanna á fundinum í gær var kannski örlítið með öðrum hætti en ég gerði grein fyrir í bloggi gærdagsins en hér er fréttin af heimsíðu Samgönguráðuneytisins:

Nýjar samgönguframkvæmdir boðnar út á næstunni
11.11.2009
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vegna útboða á samgönguframkvæmdum. Meðal framkvæmda eru fyrsti áfangi í breikkun Suðurlandsvegar, samgöngumiðstöð í Reykjavík og Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd.
1. Suðurlandsvegur
Fyrsti áfangi er breikkun á 6,5 km kafla milli Lögbergsbrekku og Draugahlíðarbrekku austan við Litlu kaffistofuna í 2+2 veg. Vestari kaflinn tengist núverandi þriggja akreina vegi um Lögbergsbrekku og að austan tengist hann núverandi 2+1 vegi um Svínahraun. Gerð útboðsgagna er langt komin en auglýsa þarf verkið á Evrópska efnahagssvæðinu. Miðað er við að verkið verði hefðbundin ríkisframkvæmd en mögulegt er að síðari áfangar verði boðnir út í einkaframkvæmd og jafnvel að framangreindur kafli falli inn í þá fjármögnun á síðari stigum. Breikkun Suðurlandsvegar er eitt þeirra verkefna sem rætt hefur verið um að lífeyrissjóðir komi að.


Virðist vera sem verkið hafi ekki enn verið boðið út en unnið er að úboðsgögnum. Ég trúi því aftur á móti að héðan í frá komist skriður á málið enda fá verkefni skynsamlegri þegar litið er til atvinnusköpunar, öryggis og þjóðhagslegrar hagkvæmni.
---------------------------
Guðrún systir sendi mér link á þessa skemmtilegu frétt af heimasíðu Starfsafls. Gaman að sjá að það gengur vel hjá Kjörís og ekki skemmir nú þessi fína mynd fyrir ;-)

23. nóvember 2009

Glæsilegur hópur þingkvenna Suðurkjördæmis mætti hér á bæjarskrifstofuna rétt fyrir hádegi og eitt augnablik hélt ég að konur hefði nú endanlega tekið völdin ;-)
En fljótlega mættu þeir Sigurður Ingi og Björgvin svo Ragnheiður, Unnur, Eygló, Margrét og Oddný voru ekki alveg einar á báti. En fundurinn var snarpur og góður, náðum að fara yfir mörg mál sem vonandi rata öll í réttan farveg. Landamál eru eðli máls alltaf fyrirferðamikil á fundum sem þessum semog Bitra og virkjanirnar. Í dag ræddum við einnig um tvöföldun Suðurlandsvegar en Vegagerðin hefur nú boðið út fyrsta áfanga tvöföldunar sem er á milli Lögbergsbrekku og Litlu kaffistofunnar. Þar eiga framkvæmdir að hefjast næsta sumar. Mikil frétt sem hefur fengið litla umfjöllun. En það er gott að hitta þingmennina reglulega og skerpa línur, þannig að ég er afar ánægð að þau skyldu gefa sér tíma til að líta hér við.

Eftir hádegi var fundur á Selfossi um stöðu mála eftir jarðskjálftann. Enn eru mál óafgreidd þannig að nauðsynlegt er að halda sömu ferlum og ákveðnir voru strax í upphafi.

Hitti Lárus, varaformann Hjálparsveitarinnar, í dag. Sveitin hér er afar öflug eins og best sést á húsnæði hennar sem er gríðarlega flott og vel tækjum búið. Félagar í sveitinni eru duglegir og hafa sinnt fjölda útkalla ásamt uppbyggingu hússins og sveitarinnar með aðdáunarverðum hætti. Hjálparsveitin er svo sannarlega að inna að hendi ómetanlegt starf fyrir bæjarfélagið og íbúa þess.

Annars eyddum við Helga öllum öðrum lausum stundum dagsins í fjárhagsáætlunargerðina sem mjakast áfram þessa dagana.

Í kvöld hittumst við vinkonurnar úr MA eins og við gerum reglulega. Ómetanlegar stundir í góðum hópi ....

22. nóvember 2009

Á föstudaginn skrapp ég í kaffi útí Kjörís en þar fór fram súkkulaðiköku keppni milli Tona og Betu. Þau höfðu greinilega lagt sál sína í baksturinn þannig að smökkun samstarfsmanna var afar fagleg og atkvæði greidd samviskusamlega. Beta sigraði með dýrindis franskri súkkulaðiköku en Tona fannst nú reyndar að taka hefði átt tillit til verðs hráefnis en þá hefði hann unnið ;-)

Eftir hádegi var framhaldsaðalfundur Sorpstöðvar Suðurlands haldinn á Þingborg. Þar tókst að klára þau mál sem tekin voru fyrir í góðri einingu aðildarsveitarfélaganna. Enn stendur þó útaf samningur milli Sorpstöðvarinnar og Sorpu vegna urðunar Hvergerðinga, Flóamanna og Skeiða- og Gnúpverja á Álfsnesi. Þar hefur okkur ekki enn tekist að ná sáttum vegna þess aukaálags sem til stendur að leggja á þau sveitarfélög sem mest flokka. Hvers vegna okkur er gert að borga langt umfram aðra er erfitt að skilja. Þessi mál skýrast í næstu viku enda eins gott þar sem urðun verður hætt á Kirkjuferjuhjáleigu þann 1. desember.

Opið hús hjá Sjálfstæðismönnum fyrir hádegi í gær, laugardag. Þar viljum við endilega sjá sem flesta enda gefst þarna gott tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við bæjarfulltrúana en alltaf mæta einhverjir þeirra og oftast allir.
Blaðstjórn sat eftir opna húsið og skipulagði jólablaðið sem Sjálfstæðisfélagið gefur út árlega. Það stefnir í að verða stórt þetta árið...

Í gær viðraði vel til útivistar og því var það sem eftir lifði af dagsbirtu notað til garðvinnu. Þetta er nú alveg einstakt að vera enn að dytta að garðinum og það er að koma desember! ! Tókum líka smárúnt til að skoða það sem unnið hefur verið að undanfarið í bæjarfélaginu. Skoðuðum framkvæmdirnar við hlið Óskalands en þar er nú kominn myndarlegur hóll og göngustígar þvers og kruss yfir óræktarsvæði sem áður var til engra hluta nytsamlegt. Þetta verður fallegt svæði þegar trén taka við sér. Skoðuðum líka nýja Búmanna hverfið sem er orðið afskaplega snyrtilegt enda er þar búið að helluleggja allar gangstéttar og stíga og tyrfa græn svæði. Unnið er að lokafrágangi 26 íbúða og lítur þetta afar vel út. Restin verður kláruð að utan en innrétting látin bíða. Það er gaman að skoða þessa framkvæmd og hvet ég sem flesta til að gera það enda er allt annað að labba um á milli húsanna heldur en að skoða svæðið út um bílgluggann...

Í dag sunnudag hittist meirihlutinn og fór yfir fjárhagsáætlun. Tók það drjúgan tíma eins og gefur að skilja. Í ár þarf ekki að eyða löngum tíma í að ákveða fjárfestingar og framkvæmdir því fjárhagurinn gefur ekki mikið svigrúm í svoleiðis lagað á næsta ári. Aftur á móti fór drjúgur tími í að reyna að skera niður enda er það nauðsynlegt eins og nú árar.

21. nóvember 2009

Á facebookinu gladdist ég yfir jólaljósunum bæjarins sem kveikt var á í gær, föstudag. Þá fékk ég þetta ljóð sent frá Kristjáni Runólfssyni, Skagfirðingi og skáldi, sem býr hér í Hveragerði. Gullfallegt ljóð sem hann samdi í tilefni ljósanna hér í Hveragerði ...

Kvikna ljúfu ljósin skær,
lýsa upp myrkrið svart,
nú er orðinn bjartur bær,
búinn í jólaskart.
Eins skal lyfta huga hátt,
heims um víðust ból,
hefja bæn á helgri nátt,
halda friðarjól.

19. nóvember 2009

Bæjarráðsfundur í morgun þar sem tekjuforsendur ársins 2010 voru meðal annars samþykktar. Það er okkur mikið kappsmál að reyna eins og hægt er að halda gjöldum eins hagstæðum og hægt er og teljum við að þokkalega hafi tekist til þrátt fyrir slæmt fjárhagslegt árferði sem er öllum erfitt. Engin breyting verður á álagningu fasteignagjalda þannig að fasteignamatið sem breyttist í sumar ræður því hvort húseigendur greiða meira eða minna í fasteignagjöld. Allir Hvergerðingar ættu nú að kannast við umræðuna um sorphirðu og urðunargjöld en ákveðið var í morgun að þessi gjöld yrðu samanlagt 24.000 á heimili. Leikskólagjöldin hækka um 5% en korterin og tíminn milli 16 og 17 þó meira. Með þessu móti er hækkunum á hinn breiða hóp haldið í skefjum en aukaþjónustan verðlögð með öðrum hætti. Rétt er þó að halda til haga að verðlag hefur hækkað um rúm 32% frá því leikskólagjöldin voru síðast hækkuð. Ég hvet alla til að skoða fundargerð bæjarráðs og kynna sér þær breytingar sem samþykktar voru í morgun. Tekjuforsendur voru samþykktar með þeim fyrirvara að þær gætu breyst þegar fjárhagsáætlunarvinnan kemst á lokastig.

Bæjarráð samþykkti einnig í morgun að öllum bæjarbúum yrðu færðar körfur undir lífrænan úrgang ásamt maíspokum til að hafa í eldhúsinu. Útboð öryggismyndavéla er komið í ákveðinn farveg og bæjarfélagið mun leysa til sín lóðirnar að Varmahlíð 17 og Breiðumörk 26 en á þeim eru altjónuð hús vegna jarðskjálftans.

Í dag fór þónokkur tími í að ræða við ýmsa aðila vegna framhaldsaðalfundar Sorpstöðvar Suðurlands sem haldinn verður á morgun. Þar á að reyna að klára fundinn sem frestað var á Höfn í október. Ef raunverulegur vilji er fyrir hendi þá er hægt að ná lendingu í þeim málum sem þar standa útaf og vona ég að það verði raunin.

Í kvöld hitti bæjarráð slökkvilið Hveragerðisbæjar á ágætum fundi þar sem farið var vítt og breitt yfir stöðu mála nú þegar Ölfusingar hætta þátttöku í slökkviliðinu hér. Þeir hafa greitt 35% af rekstrarkostnaði en útköll hafa verið miklu mun fleiri á þeirra svæði heldur en það hlutfall gefur til kynna. Það er mikilvægt í framhaldinu að sérþekking liðsins hér verði nýtt áfram og þá er sérstaklega horft til klippivinnu í slysum á Suðurlandsveginum. Þar getur hver mínúta skipt sköpum og því mikilvægt að það lið sem er næst sé kallað út í slysin. Hef trú á því að forsvarsmenn Brunavarna átti sig á þeirri nauðsyn sem slíkur samningur er eigi að tryggja vegfarendum öryggi.

18. nóvember 2009

Í dag var tæknin nýtt til hins ítrasta með tveimur fjarfundum í gegnum tölvu þar sem aðilar yfirtóku tölvuskjáinn minn og sýndu gögnin sín þar á meðan samskiptin fóru að öðru leyti í gegnum síma. Ótrúlega sniðugt og sparar bæði tíma og peninga. Það fer að líða að því að maður þurfi aldrei að stíga uppúr stólnum því allt getur farið fram í gegnum tölvuna. Eins eru símafundir hrein snilld en þar getur maður hóað saman hópi fólks og farið yfir ákveðin mál án þess að eyða tíma í akstur milli staða. Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðismanna sem skipuð er aðilum frá Reykjanesi og austur á Höfn nýtir þetta fundaform til dæmis svo til eingöngu. Að öðrum kosti væri svo til vonlaust að ná stjórninni saman til fundar. Við í meirihlutanum notum þetta líka stundum þegar taka þarf ákvarðanir með stuttum fyrirvara eða upplýsa um einhver mál. Miklu fljótlegra heldur en að hringja í hvern og einn.

Eftir hádegi var fundur með forsvarsmönnum Búmanna en þar er nú unnið hörðum höndum að því að klára fyrstu þrjá áfanga nýja Búmannahverfisins en í þeim eru 26 íbúðir. Ennfremur verður lóðin fullkláruð semog bílakjallarinn og samkomuhúsið í miðju svæðisins. Aðrar byggingar á svæðinu verða fullkláraðar að utan en innréttaðar þegar betur árar í þjóðfélaginu.

Við Helga hittum endurskoðendur bæjarins í dag en nú er endurskoðun að hefjast jafnframt sem unnið er að fjárhagsáætlun.

Í kvöld hittumst við stelpurnar í vinnunni hjá Kötu, fyrrverandi samstarfskonu okkar. Nú erum við miklu fróðari um heilsudrykki, kjarnaolíur og ýmislegt sem snýr að betri heilsu og líðan en hún er að læra um allt um þessi mál. Skemmtilegt kvöld í góðum hópi. Spurning hvort við hættum okkur í grænu heilsudrykkina og hvað þá leirdrykkina í bráð ;-)

17. nóvember 2009

Gekk frá þremur minnisblöðum og tillögum til bæjarráðs í morgun. Einu vegna öryggisgæslu hér í Hveragerði en til stendur að setja upp myndavélar við innkeyrslur bæjarins, ennfremur mun bæjarfélagið fara í samstarf við VÍS sem er tryggingafélag okkar varðandi nágrannagæslu en lagt er til að bæjarfélaginu verði skipt upp í fjögur hverfi sem skipuleggi sína nágrannagæslu á sameiginlegum íbúafundum undir styrkri stjóri afbrotafræðings. Einnig verður á bæjarráði lögð fram tillaga um að öll heimili fái körfu og maíspoka til að hafa í eldhúsinu þar sem í er safnað lífrænum úrgangi. Þessu yrði þá dreift um leið og tunnunum í lok mánaðarins. Ræddi við starfsmenn Íslenska gámafélagsins vegna þessa og um leið fékk ég að heyra hversu vel Hvergerðingar taka starfsmönnum félagsins sem nú ganga í hús. Svo til allir taka þeim afar vel og vilja gjarnan fræðast um kerfið en eins og þeir orðuðu það þá eru neikvæðir aðilar í ca. 20. hverju húsi. Þetta eru miklu betri viðbrögð en við þorðum að vonast eftir ;-) Ég setti líka grein í Dagskrána sem fjallar um kerfið og mikilvægi þess að allir taki þátt. Ég vona að fólk gefi sér nokkrar mínútur til að renna yfir hana.

Bæjarráðsfundarboðið sem fór út í dag er ansi þykkt og efnismikið svo það er nóg um að vera. Á fundinum verður einnig lagt til að bærinn leysi til sín nokkrar lóðir í samræmi við samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og Hveragerðisbæjar vegna jarðskjálftans í maí 2008. Þarna er um að ræða hús sem farið hafa í altjón og ekkert útlit er fyrir að verði endurbyggð á sama stað. Til að koma í veg fyrir mikil sár í götumynd bæjarins er mikilvægt að bærinn hafi möguleika á því að leysa eigendur úr þeirri stöðu sem þeir eru í með verðmæti liggjandi í óseljanlegum lóðum og í sumum tilfellum óbyggilegum.

Eftir hádegi hittum við, Guðmundur Baldursson, fulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur en við vinnum nú að því að finna leiðir til lausnar á nokkrum málum sem útaf standa í samskiptum bæjarins og OR. Þetta er þungt en hlýtur að hafast á endanum. Meðal annars er unnið að lausn vegna þeirra heimila sem nú eru að tengjast Austurveitunni svokölluðu og ekki fá þá tvöfalt dreifikerfi í sín hús í bráð. Ekki verri lausn tel ég en kallar á kostnað íbúanna sem þeir eru, eðlilega, ekki tilbúnir að bera. Þessar samningaumleitanir hafa nú staðið um nokkra hríð og því er brýnt að lausn finnist hið fyrsta.

Fékk í kvöld heimsókn frá Sigurði dýralækni á Selfossi og sátum við og ræddum málefni presta, kirkjunnar og Bitru en hann verður aðal ræðumaður á aðventukvöldi Hveragerðiskirkju þann 29. nóvember.

14. nóvember 2009

Sinnti alls konar bréfaskriftum og símtölum í morgun og kom mörgu í verk sem kannski hafði beðið of lengi. Ég og Helga hittum síðan Gunnvöru og Sesselju sem eru leikskólastjórar hér í bæ og fórum við ítarlega yfir þá afslætti sem í gangi eru á leikskólunum. Það er ljóst að hér er gert afar vel við barnafólk hvað það varðar en afslátt af gjöldum fá námsmenn, einstæðir foreldrar, foreldrar sem hafa sótt hafa foreldrafærninámskeið og síðan er í gildi umtalsverður systkinaafsláttur sem gildir milli dagmæðra, leikskóla og frístundaskóla. Margir falla jafnvel undir fleiri en einn af þessum flokkum og afslátturinn stighækkar við það. Mörg önnur sveitarfélög hafa aftur á móti þá reglu að hvert barn fellur einungis undir einn afsláttarflokk. Hér geta foreldrar aftur á móti náð umtalsverðum afslætti þegar allt er talið saman. Ekki má heldur gleyma því að elsti árgangur leikskólans fær 6 klukkustundir gjaldfrjálsar á dag og munar um minna. Í kjölfar þessa fundar verður skoðað hversu há upphæðin er sem gefin er í afslátt og í framhaldinu þarf að skoða þær reglur sem gilda um afslættina, þó ekki væri nema til að hafa þær aðgengilegri og skiljanlegri öllum.

Eftir hádegi var ég boðin á fund í Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftafræðum á Selfossi. Þar var mætt Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, til að kynna sér starfsemina. Ég og Ragnheiður Hergeirs vorum sérstaklega boðnar til fundarins væntanlega vegna staðsetningarinnar í Árborg og hins umfangsmikla nets jarðskjálftamæla sem staðsett er hér í Hveragerði. Ég þreytist aldrei á að dásama þær niðurstöður sem það net gaf eftir skjálftann en fjöldi vísindamanna gæti unnið árum saman að úrvinnslu þeirra gagna og dygði tæplega til.
-----------------------
Í kvöld fórum við Lárus, mamma og strákarnir í Borgarleikhúsið að sjá Fjölskylduna. Þetta er í stuttu máli stórkostleg sýning og vorum við öll sammála um að hún væri ein sú besta sem við hefðum séð hér á landi. Fjórir klukkutímar í leikhúsinu, tvö hlé og maður hefði gjarnan setið í tvo í viðbót... Það á enginn að láta þessa sýningu fram hjá sér fara. Leikhópurinn frábær en að öðrum ólöstuðum þá vinna þær Margrét Helga Guðmundsdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir stórkostlega leiksigra í þessari sýningu það var því ekki skrýtið þó að fagnað væri með standandi lófaklappi og húrrahrópum í lok sýningar. Stórkostleg upplifun ! !
---------------------------

Í dag var dagur hinna villtu sokkabuxna í vinnunni. Afraksturinn má sjá á myndinni hér til hliðar. Það er á svona dögum sem Guðmundi Baldurssyni er virkilega vorkunn að vera eini karlmaðurinn á vinnustaðnum ;-)

12. nóvember 2009

Breytingar ...

Í dag byrjuðu starfsmenn Íslenska gámafélagsins að ganga í hús til að kynna bæjarbúum fyrirkomulagið við þriggja tunnu flokkunarkerfið sem tekið verður upp hér í Hveragerði um næstu mánaðamót. Mér skilst að hópnum hafi verið afar vel tekið í svo til öllum húsum en auðvitað er það þannig að það eru aldrei allir ánægðir. Breytingar taka alltaf tíma en það er nú samt alltaf mikilvægt að taka þeim með opnum huga. Það veit ég að Hvergerðingar gera hér.

Mannvirkja- og umhverfisnefnd ákvað á síðasta fundi sínum að breyta til og hafa jólatré okkar Hvergerðinga á torginu við smágarðana. Á gamla miðbæjartorginu verður áfram tré en heldur minna. Þessi ákvörðun mælist misjafnlega fyrir en mín skoðun er sú að ef þetta reynist ómögulegt nú þá skiptum við bara um skoðun aftur og setjum tréð á gamla staðinn á næsta ári. Það er svosem ekki mikið mál. En kannski þykir okkur þetta bara betra þegar upp er staðið.

Önnur breyting sem mæltist ákaflega illa fyrir var stytting opnunartíma sundlaugarinnar um þrú kortér á morgnana. Áður opnaði laugin kl. 6:45 en bæjarráð hafði samþykkt að ekki skyldi opnað fyrr en kl. 7:30. Þetta var hugsað til sparnaðar fyrst og fremst en breytingin olli heilmiku fjaðrafoki. Bæjarstjórn ákvað aftur á móti á fundi sínum í dag að breyta ákvörðun bæjarráðs þannig að nú verður sundlaugin opnuð kl. 7 á morgnana.

Ein breyting enn er framundan en menningar og frístundanefnd ákvað á fundi sínum nýlega að bæjarhátíðin Blómstrandi dagar yrði haldin dagana 19.-22. ágúst 2010. Jafnframt hefur nefndin ákveðið að framvegis skuli hátíðin haldin þriðju helgi eftir Verslunarmannahelgi. Ekki verður horft til annarra hátíðahalda jafnvel þótt að menningarnótt í Reykjavík lendi á þessari helgi strax á næsta ári. Þannig verður það bara og við Hvergerðingar erum sannfærð um slíkt mun ekki hafa nein áhrif á okkar hátíðahöld.

En svona er þetta; sífelldar breytingar sem við þurfum öll að venjast!
Hver hefði svosem líka trúað því að við þyrftum sem þjóð að venjast þeim breytingum sem á okkur dynja þessi misserin. Hver hefði trúað því fyrir tveimur árum að Orkuveita Reykjavíkur væri í ruslflokki lánalega séð. Rætt væri um 47% tekjuskatt og yfir 50% hátekjuskatt. Að dollarinnn kostaði 125 kall og að gengisvísitalan nálgaðist 240 kallinn. Að verðmiðinn á göng til Eyja væri eins og skiptimynt og að kostnaður við tvöföldun Suðurlandsvegar væri afskrifaður í formi skulda eins fyrirtækis á kortéri. Að flest fyrirtæki væru tæknilega gjaldþrota og að skuldir okkar væru mældar í þúsundum milljarða og að ríkisvaldið setti núna fingraför sín á svotil allt sem gerist í okkar ágæta samfélagi.

Í samanburði við þær breytingar sem eru að verða á umhverfi okar almennt þá eru þessar smávægilegu breytingar okkar hér í Hveragerði varla í frásögu færandi...

11. nóvember 2009

Alltof langt síðan bloggað var síðast og þá er alltaf erfitt að byrja aftur. Ég er greinilega með eindæmum vanaföst og ef ég dett úr gírnum þá er skrambi erfitt að komast í gang aftur. Ætla ekki einu sinni að reyna að týna til helstu afköst undanfarinna daga en verð þó að minnast á nokkur eins og til dæmis kynninguna í Listasafninu um síðustu helgi þar sem Guðrún og Einar á www.natturan.is kynntu grænkorta gerð. Kíkið endilega á það góða framtak á síðunni þeirra. Skemmtileg tilviljun að Laufey Sif var einmitt að vinna grænkort af hluti Akraneskaupstaðar í náminu sínu þessa sömu helgi. Á föstudaginn síðasta hófst sýning Örvars Árdal og Péturs Reynissonar í Bókasafninu. Ég vissi alveg að Örvar er snillingur í list sinni en Pétur kom mér á óvart enda hafði ég ekki hugmynd um að þar leyndust hæfileikar í þessa átt. Gaman þegar fólk prufar nýja hluti með svona líka góðum árangri. Við Lárus og Biggi fórum í 60 ára afmælið hans Sigga Tryggva á sunnudaginn sem var haldið í einstaklega flottum bústað á Minni Borg. Skemmtileg veisla í góðum hópi sem kom ekki hvað síst afmælisbarninu á óvart enda vissi hann ekki hvað til stóð ;-)
Um helgina fögnuðu síðan krosssaumskonur nýjasta afreki Heiðmerkurhúsmóðurinnar á sviði hannyrða með góðri veislu á laugardagskvöldið. Afskaplega gaman enda hópurinn góður.

Í vinnunni hefur fjárhagsáætlunargerð tekið yfir flest annað enda stefnum við að því að loka dæminu fyrir jól. Þetta verður snúið enda allt útlit fyrir aukinn kostnað, hærri verðbólgu og minnkandi tekjur. Þetta er nú staðan sem við sem þjóð búum við og því er nauðsynlegt að allir snúi nú bökum saman og finni leiðir sem létt geta róðurinn næstu misserin. Það er líka mikilvægt að halda gleðinni og jákvæðninni og það finnst mér reyndar hafa tekist hér. Í dag miðvikudag heimsótti bæjarráð allar stofnanir bæjarins og það sem kom mér helst á óvart var það hversu létt var yfir mannskapnum og jákvæðni ríkjandi. Fólk virtist staðráðið í því að láta ekki kreppuna kýla sig niður og það er gott viðhorf að hafa.

2. nóvember 2009

Alsælir feðgar komnir heim eftir góða ferð til Grindavíkur. Þar vann Hamar verðskuldaðann sigur 87-77 en enginn átti reyndar von á því fyrirfram. Grindavík spáð einu af efstu sætunum í deildinni en Hamri spáð 10. sætinu. Ljúft að vinna þennan leik en Hamar hefur ekki unnið Grindavík á útivelli síðan árið 2000 svo það var tímabært. Ungu strákarnir fara þetta á leikgleðinni en liðið er meira og minna skipað ungum strákum sem eru uppaldir í Hamri. Nú mæta allir á næsta heimaleik en það er bikarleikur gegn Mostra, sunnudaginn næsta kl. 19.15. Sýnt var frá leiknum í tíufréttum Rúv, nokkuð skondið myndbrot verð ég að segja ;-)
----------------------
Annars var ég í allan dag á ráðstefnu um skólamál á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mjög áhugaverð en fjöldi fyrirlesara fjallaði um það hvernig við getum bætt skólastarfið þrátt fyrir það ástand sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar. Ég flutti lokaorð ráðstefnunnar en þar tók ég saman það sem uppúr stóð eftir daginn. Erindin á ráðstefnunni er hægt að hlusta á hér. En ræðuna mína má lesa hér til hliðar undir linknum "Ræður og greinar".
Þetta er í þriðja sinn sem ráðstefna sem þessi er skipulögð af Sambandinu en tilgangurinn er að auka og bæta samskipti og skilning allra þeirra sem að skólastarfinu koma.
-----------------------
Í kvöld var meirihlutafundur venju samkvæmt og fórum við yfir dagskrá bæjarráðsfundar næsta fimmtudag. Einnig ræddum við ýmis önnur mál sem brenna á hópnum og verða tekin fyrir síðar nú eða ekki eftir atvikum.

1. nóvember 2009

Kjördæmisþing Sjálfstæðismanna var haldið í Vestmannaeyjum um helgina. Grímur Gíslason úr Eyjum er nýr formaður en Sigurður Valur Ásbjarnarsson, hætti eftir tíu ár í embætti. Dágóður tími það enda er hann óumdeildur leiðtogi hópsins. Ég hef verið varaformaður stjórnarinnar undanfarin ár en ákvað að hætta núna enda er þetta orðið gott. Fullt af nýju öflugu fólki komið í stjórnina sem án vafa á eftir að setja mark sitt á starf okkar næstu árin. Fór með Herjólfi á laugardagsmorgninum og heim aftur með fyrri ferðinni í dag sunnudag. Fullt af sjóveiku fólki í laugardagsferðinni enda var búið að vera ansi mikið rok daginn áður, það hlýtur að vera erfitt að vera háður svona ferðamáta, ekki skrýtið þó beðið sé með eftirvæntingu eftir Landeyjahöfninni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet