<$BlogRSDUrl$>

24. febrúar 2009

Þriðjudagur ...

Byrjaði daginn á fundi með öllum jarðvinnuverktökum bæjarins. Fórum við yfir væntar framkvæmdir ársins á vegum Hveragerðisbæjar og ekki síður yfir það sem framundan er hjá verktökunum. Ljóst er að samdráttar gætir fyrst í þessum geira og því er erfitt framundan hjá þessum aðilum. Það er ekkert brýnna en að halda atvinnulífinu gangandi og með því móti að vernda störf eins og hægt er. Þar er ábyrgð sveitarfélaga og ríkis mikil.
-------------------
Fulltrúar Búmanna komu síðan til fundar en þar var farið yfir stöðu framkvæmda við nýja Búmannahverfið. Vonandi hefjast framkvæmdir þar aftur innan tíðar en ekkert hefur verið unnið í verkinu í nokkurn tíma. Einnig fórum við yfir önnur atriði sem snúa að Búmönnum hér í Hveragerði en auk íbúðanna 43 í Smyrlaheiði þá eru hér 16 íbúðir við Réttarheiði á vegum Búmanna. Þessi búsetukostur hefur verið afar vinsæll og skýrir það miklar framkvæmdir á þeirra vegum hér í bæ.
-------------------
Gunnar Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi hefur dvalið hér í Hveragerði í nokkra daga og leit hann við á skrifstofunni í morgun. Var þá farið vítt og breitt yfir sviðið, bæði sveitarstjórnar og ekki síður á landsvísu en nú er enn og aftur upplausn á stjórnarheimilinu. Þetta er auðvitað með þvílíkum ólíkindum að engu tali tekur....
-------------------
Fundaði með öðrum aðilum í dag vegna ýmissa mála auk þess að vinna í kaupum bæjarins á mjólkurbúinu svokallaða. Vonandi náum við þar ákjósanlegri lendingu svo hægt sé að leggja samning fyrir bæjarráð í næstu viku.
Enn og aftur þarf síðan að vinna í málefnum Suðurlandsvegar þar sem ráðherra hefur nú viðrað hugmyndir um 2+1 veg á þessari leið. Algjörlega óásættanlegt að okkar mati enda löngu verið færð rök fyrir nauðsyn 2+2 vegar. Vilji menn spara væri aftur á móti kostur í stöðunni að gera hringtorg í stað mislægra gatnamóta þar sem það er hægt, svona til að byrja með. Með því móti má ná fram umtalsverðum sparnaði. Vil síðan gjarnan minna á ítrekuð loforð sem gefin hafa verið af ráðherrum og þingmönnum um að Suðurlandsvegur verði 2+2, þau voru væntanlega ekki útí loftið heldur gefin af sannfæringu um nauðsyn þessarar framkvæmdar!
-------------------
Davíð Oddsson var ótrúlega góður í Kastljósinu í kvöld. Sýndi þar að enn eru til leiðtogar sem tjá sig þannig að fólk skilji þá og beina athyglinni að því sem raunverulega skiptir máli. Hann á að veita fleiri viðtöl! Reyndar efast ég um að nokkur vilji vera spyrill í þeim viðtölum eftir kvöldið í kvöld. En þrátt fyrir allt var Sigmar ansi góður líka og lét ekki slá sig útaf laginu. Það verður aftur á móti fróðlegt að heyra hvað Davíð hefur að segja þegar hann fær aftur málfrelsið eins og hann sagði. Þá verður ekkert dregið undan ...

23. febrúar 2009

Mánudagur ...

Mér finnst alltaf athyglisvert að fylgjast með því hvaða viðhorf fólk hefur til lífsins. Hvort valið er að horfa á alla hluti með neikvæðu gleraugunum eða hvort reynt er að sjá björtu hliðarnar á umhverfi og samfélagi. Mín reynsla er sú að yfirleitt er alltaf betra að reyna að finna það jákvæða í hverri atburðarás eða aðstæðum. Reyna að sjá það jákvæða í hverjum einstaklingi og í hverjum þeim atburði sem maður lendir í. Það bæði léttir lundina og ekki síður hefur mér fundist að jákvætt viðhorf kallar fram jákvæða atburðarás.
Ekki veitir nú af þessa dagana...

Mér flaug þetta í hug þegar ég las blogg færslu á síðu Lalla og Evu í Danmörku og leyfi ég mér því að birta hana hér:

Enn um val... :)
*tvær ljósaperur sprungu í gær
*ég náði ekki að læra fyrir tímann í dag
*við gátum ekki borgað alla leiguna í þessum mánuði
*það er ógeðslega kalt úti
*SISU tapaði í gær og kemst ekki í úrslitakeppni
*ég er búin að þyngjast um 5 kíló síðan við fluttum

EÐA

*það er ótrúlega rómó að hafa bara kertaljós inn á baði
*tíminn í dag um creativity & innovation var súper skemmtilegur
*við leigjum hjá æðislegri stelpu sem er alltaf til í að gefa okkur séns
*það er svo næs þegar það snjóar, allt verður miklu bjartara úti
*nú komumst við pottþétt heim til Íslands um páskana - gengur betur næst
*uuu... hjóla meira??

Hvort veljið þið??

--------------------------

22. febrúar 2009

Á aðalfundi Hamars sem haldinn var í dag sunnudag var Fanney Lind Guðmundsdóttir, körfuknattleikskona í meistaraflokki Hamars valin íþróttamaður Hamars árið 2009. Hún er vel að titlinum komin enda íþróttakona í allra fremstu röð og hefur meðal annars verið valin í A-landsliðið kvenna í körfu að undanförnu. 
Posted by Picasa
Á fundinum var einnig í fyrsta sinn valinn heiðursfélagi Hamars en það var Kjartan Kjartansson sem hlaut þann heiður fyrstur Hvergerðinga. Hann var hér á árum áður vakinn og sofinn yfir íþróttalífi bæjarbúa og er það því vel við hæfi að hann sé heiðraður með þessum hætti. Það er alltof lítið gert af því að þakka þeim fjölmörgu sem leggja nótt við dag til að halda úti félagslífi í bænum okkar. Stjórn Íþróttafélagsins Hamars á heiður skilinn fyrir að bæta úr því.  
Posted by Picasa

 
Posted by Picasa
Í gær laugardag var nóg um að vera en fyrir hádegi var opið hús okkar Sjálfstæðismanna þar sem margir frambjóðendur í komandi prófkjöri litu við. Nú þurfa Hvergerðingar að fjölmenna í opið hús og kynna sér fyrir hvað frambjóðendurnir standa. Minni því á opnu húsin næstu laugardaga. Á myndinni má sjá þá Árna, Árna og Árna ásamt Björk sem öll kíktu í kaffi á laugardagsmorguninn 
Posted by Picasa
Að loknu opnu húsi bauð Golfklúbburinn til opnunar á nýrri æfingaaðstöðu í kjallara íþróttahússins en þar hefur nú verið útbúinn hinn flottasti púttvöllur og önnur æfingaaðstaða. Það var gaman að sjá hversu vandað hefur verið til verka og er ekki að efa að þessi aðstaða á eftir að gjörbreyta golfiðkun Hvergerðinga til hins betra. Til hamingju golfarar. Á myndinni má sjá Erling Arthúrsson, formann golfklúbbsins kynna hina nýju aðstöðu.

Síðdegis á laugardag tók ég á móti gestum á kjördæmisþingi ungra Sjálfstæðismanna og fórum við rúnt um bæinn auk þess að heimsækja Listasafnið og Kjörís. Listasafnið vekur alltaf jafnmikla aðdáun þeirra sem það sækja enda hið glæsilegasta í alla staði. Leynir reyndar á sér og því er mikilvægt að kíkja innfyrir. Það var gaman að lýsa framtíðarmiðbænum fyrir hópnum og aðrir gestir safnsins græddu á þeim fyrirlestri ;-)

20. febrúar 2009

Bæjarráð í morgun þar sem mál voru afgreidd fljótt og vel. Beiðni frá einum ágætum íbúa um að fá tjaldsvæðið á leigu. Það verður skoðað betur milli funda. Samþykktum lánasamning við Lánasjóð íslenskra sveitarfélaga uppá 70 milljónir, en þeir fjármunir eru eyrnamerktir afborgunum langtímalána svo ekki koma þeir sem innspýting inní fjárfestingu ársins. Ennfremur var samþykkt að hefja vinnu við útboðsgögn vegna gatnagerðar í Varmahíð, Bröttuhlíð og Þverhlíð. Endanleg ákvörðun um útboð verður tekin þegar fjármögnun liggur fyrir. Takist að koma malbiki á þessar götur í sumar þá verða allar götur bæjarins frágengnar og einungis tveir minni gatnastubbar eftir ófrágengnir. Þetta hefst allt að lokum! !
-------------------------
Heimsótti síðan félag eldri borgara og átti með þeim notalegan fund þar sem við fórum á léttu nótunum yfir ýmislegt í bæjarfélaginu. Það var helst að þeim fyndist þau vera of jákvæð því lítið fannst til að kvarta yfir fannst hópnum. Ég var ánægð með það.
-------------------------
Eftir hádegi átti ég fund með matsmönnum Viðlagatryggingar vegna mála tengdum jarðskjálftanum en mér finnast mál jafnvel vera að þyngjast núna þegar líður frá skjálftanum. Á nú samt ekki von á öðru en að málin verði leyst í sátt, það er best fyrir alla aðila.
-------------------------
Ég og Ragnheiður í Árborg áttum síðan skemmtilegan fund með aðilum sem vilja gera jarðskjálftanum og afleiðingum hans enn betri skil og jafnvel þá þannig að úr verði "attraktion" fyrir ferðamenn eins og danskurinn segir. Mjög athyglisverðar hugmyndir sem falla vel að því sem við erum þegar búin að setja í gang varðandi aðgengi að hverasvæðinu nýja og "hamfarabrautinni" svokölluðu. Það er alltaf gaman að hitta fólk með nýjar og frjóar hugmyndir, kveikir oft bæði umræðu og ekki síður enn fleiri athyglisverðar hugmyndir.
------------------------
Árshátíð miðstigs var haldin síðdegis og var bekkurinn hans Alberts með veitingasöluna. Þar af leiðandi bakstur og tilheyrandi í gærkvöldi og í dag. Árshátíðin var framúrskarandi, góð og vel æfð skemmtiatriði og gaman að heyra hversu mikið þeim hefur farið fram í framsögn. Það heyrðist skýrt og greinilega í öllum leikendum sem gerðu hlutverkum sínum góð skil. Það voru líka afar stoltir nemendur og foreldrar sem settust niður með brauð og kökur áður en diskóið byrjaði.
-----------------------
Fór beint af árshátðíðinni á aðalfund Hollvinasamtaka Heilsustofnunar NLFÍ sem haldinn var í kvöld. Þar er ég í stjórn ásamt afar góðu fólki. Að loknum aðalfundinum var kvöldvaka í boði Hollvinasamtakanna þar sem Árni Johnsen mætti m.a. á svæðið og sló í gegn með skemmtilegum sögum og söng. Hann er alltaf mjög bóngóður sem sést meðal annars á því að hann hefur víst í ár farið á 18 þorrablót. Held að enginn leiki þetta eftir. Annars eru frambjóðendur auðvitað á faraldsfæti núna og endasendast fram og til baka í okkar risastóra kjördæmi. Nú hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir boðið sig fram í fyrsta sæti hjá okkur Sjálfstæðismönnum og hleypir það auðvitað ákveðinni spennu í baráttuna.
----------------------------------------
Það á auðvitað ekki að þurfa að hafa orð á öllum hlutum og síst þeim sem aldrei hafa staðið til. En svona formsins vegna er sjálfsagt rétt að geta þess að ég ætla ekki í framboð til Alþingis. Ég var ásamt fleiri góðum Sjálfstæðismönnum kosin í bæjarstjórn hér í Hveragerði fyrir tæpum þremur árum. Hér hef ég fengið að gegna afskaplega skemmtilegu embætti undanfarið og hef áhuga á að gera það áfram. Tilkynni því hér með um framboð mitt til bæjarstjóra í næstu sveitarstjórnarkosningum. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið ;-)

17. febrúar 2009

Óuppgerð mál Viðlagatryggingar, Strætó, kostnaður vegna jarðskjálftans, fundarboð bæjarráðs, gatnagerð sumarsins, biðlistar leikskólans, málefni grunnskólans, endurbætt heimasíða, stækkun kirkjugarðsins, mjúkhýsið, golfarar, fréttir á heimasíðu eru dæmi um þau mál sem duttu inná borð í dag.
----------------------
Síðdegis var svokallaður gegnumgangur Arkitektafélags Íslands vegna miðbæjarsamkeppninnar. Öllum sem tóku þátt í samkeppninni var boðið en þarna fóru fulltrúar félagsins í dómnefnd yfir forsendur að baki vali dómnefndar og tækifæri gafst til að spurja út í einstök atriði. Tæplega 30 manns mættu á staðinn og var þetta bæði fróðlegt og skemmtilegt.
-----------------------
Í kvöld var fundur lista, stjórnar og nefndarmanna okkar Sjálfstæðismanna. Þar var farið yfir fjárhagsáætlun ársins 2009, áætlaðar fjárfestingar, nefndastörfin og ekki síst fyrirhugað prófkjör og kosningarnar framundan. Ef ég væri ekki varaformaður kjördæmisráðs myndi ég hafa á þeim umræðum miklar skoðanir en tel það ekki rétt í bili.

16. febrúar 2009

Ferðaþjónusta og fleira ...

Átti góðan fund á föstudaginn með Jóhanni hótelstjóra á Hótel Örk þar sem við Elfa fórum yfir mögulega aðkomu hótelsins að blómasýningunni í sumar. Fljótlega fór þó spjallið út í almennar umræður um möguleika ferðaþjónustunnar hér í Hveragerði sem eru ótrúlega miklir. Það er aftur á móti mjög mikilvægt að við kunnum að nýta okkur þá og fáum gesti okkar til að stoppa hér lengur og njóta þess sem bærinn hefur uppá að bjóða. Til þess þurfum við að koma upplýsingum betur á framfæri um afþreyingu í bænum og ekki síður að auka hana. Þjónustuaðilar þurfa að taka höndum saman og muna að saman erum við miklu sterkari og slagkrafturinn ólíkt meiri. Nú eru til dæmis væntanlegir um 1300-1500 eldri borgarar á Örkina sem ætla sér að eiga hér góða daga. Við þurfum að sjá til þess að dvölin verði þessum gestum ánægjuleg og eftirminnileg rétt eins og við viljum að allir gestir minnist Hveragerði með ánægju.

Í sumar munum við stíga enn stærri skref en áður í að auka afþreyingu í bænum en til dæmis er fyrirhugað að bæta stígakerfið enn frekar og merkja og stika göngu- og hlaupaleiðir í bænum. Meira um það síðar.
--------------------------
Halldór Ásgeirs hélt uppá fertugsafmælið sitt á föstudaginn með góðri veislu og Margrét Jóna fagnaði sama áfanga í góðra kvenna hópi á laugardagskvöldið. Þið berið aldurinn vel bæði tvö ;-) Til hamingju með það...
---------------------------
Annars var ég ánægð með mig á sunnudaginn þar sem ég tók til af miklum móð, þreif og skúraði og endaði svo á því að umpotta blómum. Á núna fullt af litlum friðar- og postulaliljum og aloe vera plöntum því ég get aldrei hent lifandi blómum. Ef ykkur vantar hina bráðómissandi aloe vera plöntu í eldhúsgluggann þá látið mig endilega vita....
--------------------------
Ný vinnuvika byrjaði með rigningu og mildu veðri sem er gott eftir alla hálkuna undanfarið. Ég gleðst auðvitað með hverjum deginum sem líður án snjómoksturs, það er óþægilega hár kostnaðarliður þegar illa árar veðurfarslega séð.

En dagurinn varð ansi drjúgur við bréfaskriftir og frágang ýmissa mála. Það er afar gott þegar koma svona fundalausir dagar inná milli en þá er gott að nota til að koma málum í farveg og fara yfir það sem framundan er. Lenti í viðtali við Morgunblaðið vegna orða samgönguráðherra um að tvöföldun Suðurlandsvegar væri óþörf nægilegt væri að leggja 2+1 veg á þessa leið. Ótrúleg skammsýni ef rétt er haft eftir ráðherranum og í hróplegu ósamræmi við allar fyrri yfirlýsingar og vilja sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi. Aftur á móti kom ég með þá hugmynd að í stað mislægra gatnamóta yrðu sett tvöföld hringtorg á Suðurlandsveginn allavega til að byrja með en slíkt myndi draga mjög úr kostnaði við framkvæmdina. Vikulega er ég líka í sambandi við Magnús Hlyn fréttamann vegna frétta úr sveitarfélaginu en ég hef átt afar gott samstarf við alla fréttamiðlana á svæðinu. Það er mikilvægt að geta komið fréttum að því sem er að gerast fljótt og vel til íbúa. Þar gegna héraðsblöðin mikilvægu hlutverki.
------------------------------

13. febrúar 2009

Hveragerði í heimsfréttunum ...

Þessi ágæti blaðamaður kom i heimsókn í fyrrasumar og tók langt og mikið viðtal við mig. Hér sést afraksturinn í örstuttu skoti í ágætis frétt sem birtist á Time. Svava Ósk vinkona mín í Danmörku sendi mér þennan link annars hefði ég aldrei tekið eftir þessu.

Þetta viðtal minnir mig á tvennt. Í fyrsta lagi þá verð ég að venja mig af þessum kæk sem ég er komin með í sjónvarpi að vera alltaf að depla augunum ;-) og í öðru lagi þá man ég að í miðju viðtalinu sem var hátt í hálftími þá tók ég eftir að ég var í vestinu úthverfu, allar tölurnar sneru inná við og saumarnir út, þarna sat ég og hugsaði, hvern fjárann á ég að gera núna, en það var svosem ekki annað að gera en að vona að það tæki enginn eftir þessu og svei mér maður gerir það ekki, ja fyrr en núna þegar ég er búin að segja alheiminum frá ....

12. febrúar 2009

Hveragerði - draumasveitarfélag ...

Viðskiptablaðið Vísbending birti sína árlegu úttekt á draumsveitarfélögum landsins í blaðinu í dag. Þar lendir Hveragerði í 5. sæti og verður það að teljast afar góður árangur. Seltjarnarnes sem fyrr í fyrsta sæti en við ekki langt undan! Það var reyndar alveg ljóst eftir að niðurstaða rekstrar árið 2007 lá fyrir að vel hafði tekist til því betri rekstrarniðurstaða hefur ekki lengi náðst hér í Hveragerði. Enda erum við ánægð með það. Greinilegt er að ritstjórar Vísbendingar eru á sama máli því Hveragerði vermir eitt af efstu sætunum þetta árið.
----------------------------
Undirbúningur fyrir sýninguna "Blóm í bæ" sem halda á hér í Hveragerði síðustu helgina í júní, er í fullum gangi og allt stefnir í veglega og skemmtilega sýningu. Samkeppni um smágarða er frágengin og komin í fullan gang. Blómaskreytar verða með og ætla að slá heimsmet í gerð lengstu blómaskreytingar í heimi, komast í Guiness bókina! Brúðkaup að heiðnum sið verður væntanlega í tengslum við Auga Óðins, markaðir bæði blóma og handverks og sýningar af ýmsum toga bæði á blómum, garðplöntum og öðrum því sem tengist gróðri og garðrækt. Ekki má síðan gleyma ráðstefnu um garðlist sem stefnt er að því að halda á Hótel Örk þessa sömu helgi. Það er allt í gangi og verður bæði spennandi og skemmtilegt. Þurfum við ekki einmitt á því að halda núna ?
----------------------------
Annars kom ég heim úr vinnunni í gær lasin og reis ekki úr rekkju fyrr en undir hádegi í dag. Hundslöpp en þó að skríða saman. Greinilegt að pestin hefur smitast í fjölskylduboðinu á mánudag því ég, Albert, Laufey og Valdimar urðum öll veik á sama tíma í gær, merkilegt...

Helga Kristjáns sótti fundina fyrir mig í dag en ég komst þó á bæjarstjórnarfundinn síðdegis þar sem þriggja ára áætlun bæjarins var til fyrri umræðu. Það er reyndar hálf tilgangslaust að eyða miklum tíma í þá áætlunargerð þar sem flestum þykir nú nóg að reyna að sjá fyrir sér þróun mála næstu þrjá mánuðina þó ekki sé reynt að spá fyrir um næstu þrjú ár! Auðvitað á ráðherra að leysa sveitarfélögin undan þessum lögum allavega tímabundið eins og ástandið er í dag. Það er lítið að marka þessar áætlanir þegar efnahagslegt umhverfi okkar getur snúist á hvorn veginn sem er á næstu mánuðum.
-----------------------------

11. febrúar 2009

Þar sem mér finnst algjörlega óskiljanlegt hversvegna Umhverfisstofnun setur ekki upp mæli hér í Hveragerði til að mæla magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti vil ég vekja athygli á upplýsingum sem eru beint af vef þeirrar ágætu stofnunar. Eins og sést á grafinu hér til hliðar þá er magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti á Grensásveginum í Reykjavík ítrekað yfir þeim mörkum sem meðvituð ríki hafa sett sér í þessum efnum. Nokkrum sinnum nú í janúar hefur magnið farið í 98 og 97 míkrógröm pr m3.



Eftirfarandi er orðrétt af vef stofnunarinnar:

Margir finna lykt af brennisteinsvetni þó styrkur þess sé mjög lítill. Í Kaliforníu hafa umhverfismörk verið miðuð við næmni fólks fyrir lykt, þar eru mörkin 42 míkrógrömm í rúmmetra sé miðað við klukkustundarmeðaltal, en rannsóknir sýna að við þann styrk skynji um 80% almennings lyktina. Mælingar frá því í febrúar 2006 til miðjan febrúar 2007 sýndu að styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík fór samtals 48 sinnum yfir umhverfismörk Kaliforníu í mislöngum tímabilum, þar af urðu 45 skipti eftir 1.september 2006. Vegna þessa hefur meira borið á hveralykt í Höfuðborginni eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett.

Vil bara enn og aftur minna á staðsetningu Hveragerðisbæjar sem er þrisvar sinnum nær upptökum mengunarinnar heldur en Reykjavík. Eins mikilvægt og það er nú fyrir Reykvíkinga að þar sé mengun mæld hefði ég haldið að það væri ennþá mikilvægara hér.

10. febrúar 2009

Ferðalög og virkjun tækifæranna ...

Komst í ansi góða skýrslu um ferðavenjur Íslendinga og ferðaplön ársins 2009. Þar kom í ljós að mikill meirihluti landsmanna ætlar að ferðast innanlands á árinu og þeir sem eru áhugasamastir um það eru þeir hinir sömu og hafa áhuga á sundi, gönguferðum, skokki, hjólreiðum, listsýningum, söfnum og tónleikum. Ég var svo ánægð að sjá þetta vegna þess að í þessu liggja sóknarfæri okkar hér í Hveragerði. Byggja upp enn betri gönguleiðir, merkja og mæla skokk brautir, markaðssetja sundlaugina í Laugaskarði, benda gestum okkar á Listasafnið og þær frábæru sýningar sem þar eru og hvetja fólk til að sækja tónleika. Af nógu er að taka og um nóg er að velja!

Í morgun fórum við María og Jóhanna til Reykjanesbæjar þar sem við skoðuðum Virkjun, miðstöð fyrir fólk í leit að tækifærum eins og þeir kalla það Suðurnesjamenn. Þarna er verið að byggja upp starfsemi fyrir íbúa á Reykjanesi sem leita nýrra tækifæra í atvinnu eða námi. En atvinnuleysi mælist nú mest á landsvísu í þessum landshluta. Virkjun er staðsett í gömlu launadeild hersins á Keflavíkurflugvelli og er húsnæðið um 1500 m2 að stærð. Endalausar raðir af skrifstofum og sölum. Svona möguleikar skapast þegar heill her yfirgefur heilt bæjarfélag. Alveg ótrúlegt að sjá þetta.
Hér í Hveragerði ætlum við að hefja starfsemi í svipuðum dúr á næstunni, en þó í aðeins minna húsnæði ;-)

Í gær áttu systkini mín afmæli, þau Guðrún og Valdimar. Þetta er afar hagstætt fyrir þau að hafa svona af okkur eina afmælisveislu árlega! ! ! En fjölskyldan er svolítið í þessum gírnum verð ég að segja. Guðbjörg hans Valdimars fædd á afmælisdaginn minn, afmæli Lárusar og Alberts þann 30. og 31. maí og tvíburarnir halda eðlilega bara eina veislu..... Til hamingju með afmælið bæði tvö :-D

4. febrúar 2009

Bæjarskrifstofan reið á vaðið ...

... með fyrstu heilsufarsmælingu starfsmanna Hveragerðisbæjar sem er liður í samningi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Allir starfsmenn sem mættir voru fóru í ítarlegt heilsufarsmat, blóðsþrýstings, kólesteról og blóðsykursmælingu mælingu. Það er afar gott að fá að heyra hver staðan er og geta þá brugðist við fyrr en ella. Gert er ráð fyrir svona mati einu sinni á ári og þannig getur maður reynt að bæta niðurstöðurnar ef þörf er á ! Það var von bæjarstjórnar að með samningnum myndu starfsmenn leggja meiri áherslu á heilbrigða lífshætti og þannig auka lífsgæði sín svona almennt.
------------------------
Fundur í Héraðsráði Árnesinga eftir hádegi en nú þurfum við sem þar sitjum að undirbúa aukafund Héraðsnefndar sem áætlaður er í maí byrjun. Á þeim fundi þarf að fara yfir forsendur fjárhagsáætlana stofnana og meta hvort bregðast þurfi við þeim aðstæðum sem þá munu ríkja í rekstri stofnananna.
--------------------------
Fundur með Davíð forstjóra Momentum síðdegis þar sem við fórum ásamt Helgu Kristjáns yfir ný lög um innheimtukostnað. Þessa dagana eru lagasetningar tíðar en samt bólar ekki á lögum samgönguráðherra varðandi gatnagerðargjöldin. Þó var breyting á þeim lögum boðuð um mánaðamótin október/nóvember en þar átti meðal annars að taka á endurgreiðslu gatnagerðargjalda. Skil ekki hvað tefur þetta brýna mál...
----------------------------
Í kvöld var síðan kynningarfundur á vegum Strætós um hið nýja fyrirkomulag almenningssamgangna. Sárafáir mættu á fundinn en það hlýtur að þýða það að auglýsingarnar og kynningarnar á Strætó hafi borið árangur. Allavega nýta fjölmargir sér Strætó og ég heyri af sífellt fleirum sem eru að prófa hvernig ferðirnar henti þeim.
----------------------------
Albert nældi sér í svæsna hálsbólgu svo hann hefur verið heima í dag. Það þýddi huggulegur hádegistími hér heima og meira heima síðdegis en oft...

Annars er ég að lesa ansi skemmtilega bók sem heitir Örlög guðanna, sögur úr norrænni goðafræði eftir Ingunni Ásdísardóttur en Kristín Ragna Gunnarsdóttir myndskreytir með afar skemmtilegum hætti. Bókin er lipurlega skrifuð og færir sögurnar í nútímamál þannig að þær verða ljóslifandi. Gefur góð fyrirheit um Auga Óðins því Ingunn er einmitt núna að setja upp sýninguna þar og Kristín vinnur allar myndirnar á svæðinu.

2. febrúar 2009

Allt á hvolfi...

... á bæjarskrifstofunni enda er nú unnið að því að tæma geymsluna og koma öllu sem í henni var fyrir á öðrum stöðum í húsnæðinu. Með þessu móti verður til fínasta skrifstofa fyrir Söndru en það er nauðsynlegt að þær sem sinna félagsmálum séu í sér rýmum vegna eðli þeirra starfa sem þær sinna.

Leit við í Eden sem brátt mun heita "Auga Óðins - Iðavellir" þar var verið í óðaönn að breyta innvolsi hússins svo það geti hýst sýningu um Ásatrúna. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig þetta kemur til með að líta út en teikningarnar lofa góðu.

Síðdegis tók ég á móti hópi norskra sveitarstjórnarmanna sem komnir voru til að skoða nýtingu jarðvarma og fyrirkomulag sveitarstjórnarmála hér hjá okkur. Ég tók á móti þeim í hverasvæðishúsinu og átti við þá gott spjall. Komst reyndar að því að það væri nær að við heimsóttum þá eftir lýsingar á þeim verkefnum sem þar eru í gangi. Í bænum þeirra Hå kommune sem er rétt fyrir neðan Stavanger er nú verið að byggja eitt stærsta mjólkurbú Noregs, tilheyrandi mjólkurbúinu verður síðan garðyrkjustöð sem mun nýta afgangsorku sem frá búinu kemur auk koltvísýrings sem fellur til við mjólkurvinnsluna. Þar á að framleiða tómata. Þetta fannst mér frábær hugmynd og spurning hvort við eigum ekki að fara jafnvel með þá orku sem við erum að nota eins og Norðmennirnir ætla sér.

1. febrúar 2009

Mikið um að vera...

... um helgina eins og endranær. Opið hús á laugardagsmorgni en þar mættu óvænt Árni Mathiesen fyrrverandi ráðherra og Kjartan Ólafsson, þingmaður. Farið var yfir stöðuna sem skapast hefur í landsmálunum og ástæður þess að svo fór sem fór. Nú hefur aftur á móti ný ríkisstjórn tekið við stjórnartaumum og það sem kemur mér mest á óvart er tvennt, annars vegar skipun Rögnu Árnadóttur sem enginn átti von á og hins vegar það að Steingrímur skuli ætla að vera fjármála, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Þó hann sé nú öflugur þá held ég tæplega að hann sé margra manna maki... Rögnu hef ég hitt nokkrum sinnum nú að undanförnu vegna mála tengdum jarðskjálftanum og þar er á ferð mjög öflug kona. Ekki spillir nú fyrir að hún er bekkjarsystir Valdimars bróður úr MA. Ragna á vafalaust eftir að standa sig vel. Verð reyndar að segja að vont er ef að Samfylkingin hefur vísvitandi staðið í vegi fyrir framgangi ýmissa mála í hinni gömlu ríkisstjórn eins og komið hefur fram að undanförnu. Það er ekki heillavænlegt að skreyta sig síðan með stolnum fjöðrum með nýjum vinum...

Hún Bíbí á Nautaflötum(Kröggólfsstöðum) hélt uppá afmælið sitt með heljarinnar veislu á laugardagskvöldið. Mikið sungið, skrafað og skeggrætt að skagfirskum sið og hápunktur gleðinnar var koma Sigfúsar Álftagerðisbróður sem kórónaði frábært kvöld. Til hamingju Bíbí og fjölskylda!

Í dag sunnudag fór fram verðlauna afhending í samkeppni um hönnun miðbæjar í Hveragerði. Um 300 manns mætti til athafnarinnar sem jafnframt var opnun sýningar á skartgripum frá Danmörku og frá Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur í Aurum. Hún er handhafi Sjónlistaverðlaunanna 2008 í flokki hönnunar.

En það voru ASK arkitektar sem urðu hlutskarpastir í samkeppninni um nýjan miðbæ. Í öðru sæti varð tillaga frá Arkís en tillaga frá arkitektur.is varð í þriðja sæti. Tvær aðrar tillögur voru síðan keyptar sem athyglisverðar. Hér má sjá tillöguna sem lenti í fyrsta sæti.

Allir sem ég hitti voru afar hrifnir af verðlaunatillögunum, fannst eins og okkur í dómnefndinni, að þær fönguðu vel þann anda sem ríkir í Hveragerði og þá sérstöðu sem bærinn getur skapað sér. Nú tekur við útfærsluvinna með ASK arkitektum sem mun án vafa skila okkur deiliskipulagi sem gefur okkur forskot á þeim sviðum sem við viljum efla.

Ég hvet alla til að kíkja á sýninguna á tillögunum í Listasafninu og skoða jafnframt gullfallega skartgripi í öðrum sölum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet