<$BlogRSDUrl$>

22. febrúar 2007

Gatnagerð og þriggja ára áætlun

Skrifaði í dag undir samning við Klæðningu um gatngagerð næsta sumars. Við erum afar ánægð með hagstætt tilboð fyrirtækisins en tilboð þeirra hljóðaði uppá 99 milljónir á meðan að kostnaðaráætlun Verkfræðistofu Suðurlands var 137 milljónir króna. Alltaf notalegt þegar tilboðsverð eru með þessum hætti.

Fundaði um fyrirhugaða byggð í Kambalandinu en það er svæðið fyrir ofan vesturhluta bæjarins frá þjóðvegi að Hamrinum og að Kömbum. Verið er að vinna að skipulagi á svæðinu en þarna er stefnt að lágreistri byggð fyrir um 1000 íbúa. Á von á því að ekki líði á löngu áður en skipulagsuppdrættir verða lagðir fyrir skipulags- og bygginganefnd.

Aukafundur bæjarstjórnar vegna þriggja ára áætlunar var haldinn síðdegis. Það kom mér á óvart að fulltrúar minnihlutans skyldu gagnrýna áætlunina með þeim hætti sem þeir gerðu. Við gerum í áætluninni ráð fyrir mikilli fjölgun íbúa. Tókum meðaltalsfjölgun síðustu 3 ára sem er 5%, lækkuðum hana um 1% og bættum síðan við áætlaðri íbúatölu Eyktarsvæðisins, eins og hún er sett fram í samningi fyrri meirihluta við fyrirtækið. Þetta er auðvitað djörf áætlun og gríðarlegur vöxtur eins bæjarfélags. En gagnrýnin er undarleg komandi frá þeim sem skrifuðu undir Eyktarsamninginn og þau fylgigögn sem honum fylgdu. Það læddist að okkur á fundinum sá grunur að fyrri meirihluti hefði ekki ætlað sér aðra uppbyggingu næstu árin en á svæðinu austan Varmár.
Hvort þau haldi að enginn muni til dæmis flytja í húsin í Valsheiðinni, öll raðhúsin í Hraunbænum og í Búmannaíbúðirnar 43 verða þau að svara sjálf. En ég og aðrir meirihlutamenn höfum þá trú á bæjarfélaginu að hér muni fjölga stöðugt næstu árin. Fyrirhuguð tvöföldun Suðurlandsvegar mun ekki síst verða til þess að sóknarfæri Hveragerðisbæjar verða með allt öðrum hætti en verið hefur undanfarið.

Í þriggja ára áætluninni er gert ráð fyrir mikilli fjárfestingu og þá sérstaklega á sviði skóla- og íþróttamála. Sundlaugin í Laugaskarði þarfnast orðið sárlega viðhalds og nýtt íþróttahús er ráðgert að vígja á kjörtímabilinu. Viðbygging við grunnskólann verður að veruleika svo fátt eitt sé talið. Leiðinlegt að minnihlutinn skuli ekki vilja standa að þeirri uppbyggingu með okkur.

Í gærkvöldi sótti ég Skátafélagið Strók heim en þau héldu afmæli félagsins hátíðlegt með miklu fjöri. Rifjaði upp nokkra löngu gleymda hreyfisöngva og skemmti mér konunglega. Kíkti síðan á fund Sögufélags Árnesinga sem haldinn var á Hótel Hveragerði. Fjöldi fólks alls staðar að af Suðurlandi hlýddi þar á fróðlega fyrirlestra um sögu Mjólkurbús Ölfusinga og Sögu Mjólkurbús Flóamanna. Gaman að heyra það að fyrsti stjórnandi MÖ gerði tilraunir með ís og ísframleiðslu þannig að saga ísgerðar í Hveragerði er lengri en mig grunaði.

21. febrúar 2007

Öskudagur ...

Hér var mikið fjör í dag, heilmargir hópar komu, sungu fyrir starfsmenn og fengu sælgæti fyrir. Veðrið lék reyndar ekki við ungu kynslóðina því í rokinu uppúr hádegi fór að snjóa þannig að heldur var hráslagalegt að sjá krakkana hrekjast undan veðrinu eftir Breiðumörkinni. Þau reyndar létu það nú ekki á sig fá og mættu í hvert fyrirtæki og hverja verslun galvösk og glöð. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn tók virkan þátt í gleðinni dulbúinn sem hermaður með orðu og dátahúfu ættaða frá Serbíu ! Frænka hans, jafngömul, lenti í útvarpsviðtali í vikunni þar sem hún var spurð út í öskudagsbúninga og slíkt. Okkur fjölskyldunni fannst mjög skondið svarið um að oftast hefði hún verið læknir, hjúkrunarfræðingur nú eða Kjörís maður. Útvarpsmaðurinn staðsettur í Reykjavík skildi ekki þetta góða starfsheiti og áttaði sig eðlilega ekki á því hversu fjölbreytt notkun getur falist í hvítum slopp og hárneti utan úr ísgerð. Öll börn í fjölskyldunni hafa verið Kjörís menn með pinnakassa dinglandi á maganum. Þetta er nefnilega svo ansi fljótgerður búningur og það er ómetanlegt í stressinu sem fylgir þessum degi.

Mamma sýnir nú á bókasafninu listmuni sem hún hefur unnið í gegnum tíðina. Hún hefur alla tíð málað og skreytt hina ýmsu muni með listaverkum og til dæmis hafa barnabörnin notið þeirra forréttinda að geta leitað til ömmu með skreytingar á muni sem þau hafa smíðað í handmennt í skólanum. Það er virkilega gaman að sjá þessa fallegu hluti sem ég þekki svo vel skyndilega komna á sýningu.

18. febrúar 2007

Helgin var viðburðarík...

... og lífleg eins og þær eru reyndar flestar.
Stelpurnar á skrifstofunni fóru í bústað um helgina sem var svo þægilega staðsettur að Helga, Katrín og ég löbbuðum þangað á föstudaginn. Þó skömm sé frá að segja hef ég aldrei áður labbað meðfram Reykjafjalli og út í Ölfus en endastöðin var stórglæsilegur bústaður Kvenfélagsins Bergþóru að Gljúfri. Gönguferðin var frábær enda heilmikið landslag á leiðinni og á leiðarenda biðu glæstar veitingar sem entust örugglega vel frameftir helginni.

Grundarsystur hóa árlega saman vinkonum sínum til hannyrða og skemmtunar og nú var komið að því! Við byrjuðum laugardagsmorguninn á Heilsustofnun en þar er afskaplega góð aðstaða til afslöppunar og sunds. Þarna eru misheitir nuddpottar, þurr gufa og blaut gufa, víxlböð,innilaug og útilaug þannig að það voru ánægðar konur sem mættu svo í fiskisúpu og tertu útá Grund. Ég gat því miður ekki verið með þeim allan daginn þar sem bikarúrslitaleikur KKÍ fór fram seinnipartinn í gær. Mikið fjör og gríðarlega spennandi leikur. ÍR´ingar náðu aldrei stóru forskoti þar sem Hamar/Selfoss var aldrei langt undan. En herslumuninn vantaði og þá sérstaklega hittni úr vítaskotum :-( En strákarnir stóðu sig vel og þeir sem lögðu leið sína í Höllina voru ekki sviknir af leiknum þó að auðvitað hafi það verið vonbrigði að geta ekki farið með bikarinn austur fyrir fjall. Það fréttist meira að segja af einstaka Hvergerðing sem varla komst austur aftur vegna þunglyndis yfir úrslitunum.

Aðalfundur Hamars var haldinn á sunnudag en þar voru útnefndir íþróttamenn hinna einstöku deilda og íþróttamaður Hamars. Stór hópur ungra og efnilegra íþróttamanna hlaut viðurkenningu fyrir afburða árangur á árinu en að lokum var Hafrún Hálfdánardóttir, körfuknattleikskona, valin íþróttamaður Hamars. Mjög góð íþróttakona sem var vel að titlinum komin. Hún er reyndar líka íþróttamaður Hveragerðis þannig að hún sópar til sín titlunum þessa dagana.

MA stelpur hittust hjá Herdísi síðdegis og var það fjörugt eins og alltaf. Mæti næst með dreifibréf frá Flokknum til að skerpa áherslur í umræðunni, kæru vinkonur :-)

15. febrúar 2007

Einar Njáls og Orri Hlöðvers í sleik ...

Óhugsandi fyrirsögn finnst flestum! En þegar ég las Sunnlenska fréttablaðið í gær þá blasti við mér fyrirsögnin "bæjarstjórar í sleik" og undir voru myndir af mér og Ragnheiði Hergeirs bæjarstjóra í Árborg. Ætli fyrrum félögum okkar Ragnheiðar í embætti hefði verið skemmt ef þeir hefðu séð þetta á prenti? Held ekki!!! Enda hef ég grun um að þetta hefði aldrei verið sett á blað í því tilfelli. En við eigum að taka athugasemdum sem þessum með brosi á vör og finnast þær fyndnar. Ætli það geti verið vegna þess að við erum konur? Það læðist að manni sá grunur að það sé grynnra á kvenfyrirlitningunni heldur en nokkurn hefði grunað. Allavega þá er nú verið að dreifa lagi á netinu þar sem þessi skilaboð eru í viðlaginu. Lagið er birt undir þeim formerkjum að vera lag stuðningsmanna Hamars/Selfoss og samið í tilefni af bikarleiknum næstkomandi laugardag. Það er alveg með ólíkindum að falla í svona barnalega gryfju við textasmíði sem gerir það að verkum að lagið þykir óhemju hallærislegt fyrir vikið og í kjölfarið ónothæft sem lag stuðningsmanna Hamars. Reyndar er lagasmíðin ekki á vegum íþróttafélagsins þó annað megi halda af kynningunni og öllum er frjálst að semja texta og lög til dreifingar á netinu. En eftir situr sú hugsun að karlkyns bæjarstjórum yrðu seint send þessi skilaboð.

13. febrúar 2007

Af gatnagerð og íþróttum ...

Fyrir hádegi í dag voru opnuð tilboð í gatnagerð næsta sumars. Boðin var út í einu lagi gatnagerð í Klettahlíð, Gróðurmörk, Smyrlaheiði og Dalsbrún. Mikill fjöldi tilboða barst eða 12 talsins. Lægsta tilboð átti fyrirtækið Klæðning sem bauð 99 milljónir en kostnaðaráætlun var 137 milljónir. Hveragerðisbær má vel við una en við gerðum ráð fyrir umtalsvert hærri fjárhæð heldur en 99 milljónum til verksins á fjárhagsáætluna ársins.

Undirbúningur fyrir bikarúrslitaleikinn á laugardaginn er í fullum gangi og heimilið á Heiðmörkinni fer ekki varhluta af því. En annar bikarúrslitaleikur er í uppsiglingu því stelpurnar í 9. flokki kvenna unnu Keflavík í undanúrslitum í kvöld og munu því keppa til úrslita í bikarkeppninni fljótlega. Glæsilegur árangur hjá stelpunum sem hafa verið að standa sig frábærlega í vetur.

Nú er verið að reyna að taka líkamsræktina föstum tökum. Mæti í ræktina rétt fyrir hálf sjö á morgnana en við Magga Gyða rekum hvor aðra áfram með harðri hendi. Mætum 4 sinnum í viku og síðan er farið út að ganga þess á milli. Verst að árangur skuli vera litill sem enginn enn sem komið er....

12. febrúar 2007

Vegagerðin og fleiri fundir ...

Fundur með Vegagerðinni og fulltrúum Eyktar í morgun þar sem farið var yfir vegtengingar á Sólborgarsvæðinu. Nú sér fyrir endann á skipulagsvinnunni en þetta er langt og mikið ferli sem lögum samkvæmt verður að fara fram.

Viðtöl eftir hádegi en síðdegis renndi ég á Selfoss í bráð skemmtilegt kaffiboð í Fjölbrautaskólanum. Þar var verið að fagna 80 ára afmæli Hjartar Þórarinssonar sem lengi var formaður skólanefndar en hann er einnig núverandi formaður Hollvarðasamtaka skólans. Við Hjörtur höfum verið sessunautar á útskriftarhátíðum undanfarin ár en sú hefð hefur skapast að við afhendum saman verðlaun fyrir bestan námsárangur. Ótrúlegt að hann skuli nú hafa fyllt áttunda tuginn, hefði frekar haldið að þeir væru 7 ! ! !

Gat ekki stoppað lengi í veislunni þar sem fundur í stjórn Háskólasetursins hófst kl. 16. Þetta er fyrsti fundurinn sem ég sit í stjórninni og var það mjög fróðlegt. Gaman að kynnast því sem verið er að fást við og ræða þá möguleika sem eru varðandi starfsemina á næstunni. Deginum lauk svo með meirihlutafundi sem var fjörugur að venju. Við fundum yfirleitt sex efstu á listanum en hópurinn er mjög samstilltur og nær vel saman þannig að oft er mjög líflegt á fundum meirihlutans.

Samgönguáætlun var kynnt í dag og samkvæmt fréttum er orðalag varðandi Suðurlandsveginn ansi loðið. Sveitarstjórnarmenn hér fyrir austan munu biðja um nánari útskýringar varðandi útfærslu, tímasetningar og fjármögnun áður en lengra er haldið.

11. febrúar 2007

Körfubolti, námskeið og bæjarstjórn...

Það er helst á sunnudagskvöldum sem tími gefst til að setja nokkrar línur inná heimasíðuna. Tel mig nú samt hafa verið í þokkalegum gír undanfarið en það má ekki mikið útaf bregða og þá eru margir dagar liðnir án skrifa á heimasíðuna.

Helgin hvarf hratt eins og þær gera allar. Körfuknattleiksdeildin stóð fyrir móti fyrir yngstu iðkendurna á Selfossi og var það vel lukkað. Sá tvo leiki með Alberti og félögum og stóðu þeir sig vel, síðan kom allur hópurinn hingað í gærkvöldi til að sjá leik Hamars/Selfoss við Grindavík, sem endaði reyndar ekki alveg nógu vel :-(
Auddi Blöndal kynnti leikmenn fyrir leik og var með atriði í hléi og greinilegt að hann er vel þekktur hjá krökkunum. Albert fer ekki í bað næstu daga úr því eiginhandaráritunin lenti á handleggnum á honum ! ! !
Við systur enduðum kvöldið í bíói á Selfossi en þar er nú verið að sýna Little Miss Sunshine sem er mjög skemmtileg og mannleg mynd. Gaman að sjá síðan í kvöld allar tilnefningarnar sem myndin fékk á Bafta hátíðinni. Alan Arkin frábær í hlutverki afans svo það kom ekki á óvart að hann hampaði verðlaunum.

Á föstudaginn sótti ég námskeið um vinnuveitendahlutverk og fjármál sveitarfélaga. Fjölmargir sveitarstjórnarmenn af Suðurlandi sátu á skólabekk þann daginn og þó að ég hafi nú farið á svipuð námskeið áður þá er umhverfið sífellt að breytast þannig að alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Bæjarstjórnarfundur á fimmtudaginn síðasta. Þar var þriggja ára áætlun lögð fram til fyrri umræðu. Þetta er metnaðarfull áætlun sem byggir á væntingum um íbúafjölgun og uppbyggingu í bæjarfélaginu. Það var svolítið sérkennilegt að heyra fulltrúa minnihlutans gagnrýna spár um íbúafjölgun þar sem þær byggja að mestu á þeirra eigin spám um hraða uppbyggingu á Sólborgarsvæðinu. Enn sem komið er höfum við ekki annað að byggja á en þær greinargerðir sem lagðar voru fram með samningnum varðandi fjölgun íbúa. Á fundinum lagði meirihlutinn fram í einni bók stefnu og verkefni út kjörtímabilið en þar er fjallað um þau verkefni sem við ætlum okkur að fara í, þau tímasett og brotin niður í verkþætti. Við erum strax byrjuð að vinna eftir bókinni góðu en það er mikill munur að hafa öll stefnumálin og verkefnin aðgengileg á einum stað.

Sá að Sturla Böðvarsson mun kynna samgönguáætlun á fundi vestur á Ísafirði á morgun. Það verður fróðlegt að sjá hver verða örlög tvöföldunar Suðurlandsvegar þar. Ég hef reyndar þá trú að hann muni kynna vegbætur sem okkur Sunnlendingum hugnast vel. Ráðherra eins og aðrir er vel meðvitaður um mikilvægi þessa vegar og því efast ég ekki um að hann muni taka rétta ákvörðun í þessu máli.

5. febrúar 2007

Fór í dag yfir nokkur mál sem tengjast annars vegar umhverfismálum og hins vegar skólamálum. Tveir stórir málaflokkar sem skipta miklu máli í rekstri bæjarfélags. Fræðslumál taka til sín yfir helming af tekjum bæjarins og er það í takt við það sem gerist í öðrum sveitarfélögum. Hér er unnið mjög gott starf í grunnskólanum og fjölbreyttara heldur en margan grunar. Ég kíkti aðeins á félagsmiðstöðina síðdegis í dag en hún er rekin í húsakynnum skólans. Það var virkilega gaman að sjá allan þann fjölda af krökkum sem þar voru mætt. Starfsemin er fjölbreytt og margt við að vera en í dag var greinilegt að tölvurnar áttu hug þeirra allan.

Bekkjarkvöld hjá Alberti og félögum í 5. bekk var vel lukkað. Fjöldi skemmtiatriða flutt fagmannlega af nemendum og ekki var kaffiborðið síðra. Hér er til siðs að foreldrar leggi til veitingar á sameiginlegt kaffihlaðborð á bekkjarkvöldum og í einni svipa verður til gríðarleg veisla í mötuneyti skólans. Góður og skemmtilegur siður.

Meirihlutafundur í kvöld og símafundur í stjórn kjördæmisráðs að honum loknum.
Símafundirnir eru frábær uppfinning. Í stjórn kjördæmisráðs situr fólk úr hverjum kima kjördæmisins svo það má rétt ímynda sér þann tíma sem það tæki fyrir stjórnarmenn ef það ætti að stefna öllum á einn stað í hvert skipti sem þarf að funda. Þarna reynast símafundir ómetanlegir og spara ótrúlegan tíma sem annars færi í akstur um þvert og endilangt kjördæmið.

4. febrúar 2007

Steinbarn í maganum

Þar sem Bjarni Harðar kom upp á forsíðu Mbl.is nú áðan þá renndi ég yfir hugleiðingar hans um hugsanlega óléttu sem reyndist síðan vera upphafið að flensu þegar betur var að gáð. Sem betur fer því annars hefði Bjarni vinur minn sett ný viðmið í auglýsingamennsku fyrir kosningar sem aldrei er að vita til hvers hefði leitt ! !

En þessi umræða hans minnti mig á sígilda ræðu sem ég fæ reglulega að heyra hjá föðurbróður mínum á Selfossi. Hann telur okkur stjórnmálamennina nefnilega alla ólétta... Að við sveitarstjórnarmenn séum með barni. Steinbarni, sem kallast alþingismaður. Um leið og sá draumur fólks verður að veruleika verður alþingismaðurinn óléttur að öðru steinbarni. Það steinbarn heitir ráðherra. Þannig telur frændi minn okkur vera í sífellu óánægða með núverandi stöðu. Ég þarf varla að taka fram hve ósammála frænda mínum ég er. Það er til gnægð sveitarstjórnarmanna sem lítur ekki á sveitarstjórnarstigið sem annars flokks, heldur sé þar hinn raunverulegi vettvangur til að koma góðum málum á rekspöl. Hraði framkvæmda, ákvarðana og uppbyggingar með allt öðrum og sprækari hætti en gerist hjá ríkinu og þó að einhverjum finnist hægt ganga í stjórnsýslu sveitarstjórna þá er það nú ekkert miðað við það sem alþingismenn þurfa að búa við.

En svo ég víki aftur að upphafinu þá verð ég að ítreka gleði mína yfir því að Bjarni Harðar sé ekki óléttur. Furða mín yfir því að hann skuli vera Framsóknarmaður er nægileg þó hann taki ekki uppá því að fjölga þeim í ofanálag.

3. febrúar 2007

Hafliði tekur sífellt á sig nýjar myndir ...Fyrir þá sem ekki lesa "besta bloggarann" reglulega þá er hér mynd af nýjasta afreki dótturinnar fyrir austan. Hún er örugglega alþekkt ef ekki alræmd á slóðum Austfirðinga akandi um á þessu endingargóða ökutæki.

Útvarpið, RKÍ og söngvakeppnir ...

Heimsótti Valdimar Bragason í vikulokaþátt útvarps Suðurlands síðdegis á föstudag. Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Mýrdal var einnig gestur Valdimars og vorum við bæði sammála um að þessar 20 mínútur sem þættinum eru úthlutaðar voru alltof fljótar að líða. Maður kemur ekki broti af öllu því sem markvert var í vikunni að á svona stuttum tíma. Tvöföldun Suðurlandsvegar var áberandi í umræðunni enda ekki von á öðru þar sem nú er beðið eftir ákvörðun stjórnvalda varðandi framhald málsins. Það er reyndar beðið eftir niðurstöðu margra mála núna á síðustu dögum kjörtímabils Alþingis þar á meðal ákvörðunar um framhald skólastarfs á Reykjum en nefnd sem skipuð var til að fara yfir framhald garðyrkjumenntunar í landinu á að skila af sér um miðjan Apríl. Fjölmargir bíða niðurstöðu þeirrar nefndar.

Rétt náði á námskeið hjá Rauða Krossinum eftir útvarpsþáttinn. Eftir góða törn á laugardeginum náði ég þeim ágæta árangri að útskrifast sem fjöldahjálparstjóri. Það var bæði gaman og gagnlegt að sitja námskeiðið. Farið var í þaula yfir skipulag fjöldahjálpar á neyðartímum en ekki veitir af að vera þokkalega meðvituð um það sem ber að gera ef vá ber að höndum.

Nú styðjum við okkar fólk og á föstudagskvöldinu hittist stórfjölskyldan hér og fylgdist með Hildi og Rakel í X-faktor. Þær stóðu sig frábærlega og halda áfram í næsta þátt. Á meðan þær eru í keppninni er horft á þáttinn á Heiðmörkinni enda erum við ákafir stuðningsmenn systranna. Söngvakeppnir voru teknar með trompi þessa helgina því ég sá líka, í fyrsta sinn þetta árið, Söngvakeppni sjónvarpsins, lögin voru bara hreint ágæt flest hver þannig að annað hvort var þetta kvöld óvenju gott eða ég svona áköf Evróvision manneskja nema bæði sé.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet