<$BlogRSDUrl$>

30. júlí 2013

Kattarkvikindið kom inn með fugls grey í kvöld sem hann merkilegt nokk hafði náð. Það merkilega er að við finnum hvergi fuglinn. Á bágt með að trúa því að kötturinn hafi étið hann upp til agna. En þrátt fyrir að hafa snúið öllu við þá finnum við bara nokkrar fjaðrir á stangli. Það verður óskemmtilegt að ganga á lyktina af hræinu eftir nokkra daga. Allt svona líflegt og skemmtilegt skal ávallt gerast þegar betri helmingurinn er ekki heima ;-)

Annars er þessi skyndilega veiðiárátta Guðlaugs Lárussonar frekar svona útúr karakter. Lengi vel náði hann engu nema ánamöðkum og fugla hefur hann örsjaldan komið með inn. Mýs að mig minnir tvisvar svo ég vona að hann hafi ekki hugsað sér nýtt hobbý svona í ellinni !

Grillað í góða veðrinu í kvöld og svo fórum við Svava vinkona í góðan göngutúr um bæinn. Skoðuðum gróður og garða og týndum rusl á leiðinni sem er að verða fjölskyldu hobby !
Gagnlegt og gaman :-)

29. júlí 2013

Drjúgur dagur að baki. Átti fjölmörg góð símtöl í dag meðal annars við Ólaf Helga sýslumann þar sem ég fékk upplýsingar um stöðu embættisins en nú stendur hann frammi fyrir því að þurfa enn og aftur að fækka í liðinu. Slíkt er algerlega ólíðandi og í raun ógerlegt eigi að vera hægt að halda uppi lágmarksþjónustu og tryggja öryggi íbúa. Bæjarráð mun væntanlega fjalla um málið á fundi sínum í vikunni.

Átti nokkur símtöl vegna fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu hér í Hveragerði. Ræddi meðal annars við verkfræðistofu, fulltrúa Ríkiskaupa, bæjarstjórann í Stykkishólmi og framkvæmdastjóra Sorpstöðar Suðurlands. Það er að komast mynd á stöðuna og þá möguleika sem eru í henni.

Eftir hádegi var fundur í vinnuhópnum um skólaþjónustu í Árnesþingi. Við höfum fengið Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrv. fræðslustjóra Reykjavíkur í lið með okkur til að forma þá þjónustu sem væntanlega verður lagt af stað með. Þetta var góður og gagnlegur fundur og ljóst að við erum farin af stað í þessa vegferð.

Síðdegis var góður fundur meirihlutans þar sem fjallað var um fyrirhugaðann fund bæjarráðs í vikunni og reyndar fjölmargt annað. Það er á mörkunum að það sé fundafært vegna málaleysis en við munum samt halda fund - stefnir í 4 mál og stuttan fund :-)

Allir morgnar byrja nú á góðum spretti í sundlauginni, það er gott upphaf á deginum ! ! !

28. júlí 2013

Helgin viðburðarrík eins og oftast er reyndin á þessum bæ. Laugardagurinn byrjaði í sundlauginni eftir garðvinnu í yndislegu veðri. Kvaddi síðan einn af frumbyggjum Hveragerðis, Aðalstein Steindórsson, en útför hans fór fram frá Hveragerðiskirkju. Hann fluttist hingað með foreldrum sínum árið 1930 og hafði því búið hér lengur en flestir ef ekki allir þegar hann lést 92 ára að aldri.
Þeir hverfa einn af öðrum gömlu frumbyggjar okkar fallega bæjar.

Þessa fínu mynd tók ég af Aðalsteini árið 2010 þegar hann afhjúpaði söguskilti sem gerði grein fyrir nýtingu jarðhitans en þar var hann frumkvöðull og boraði víða í bænum eftir heitu vatni.

Síðdegis á laugardag fórum við í afar fallegt og skemmtilegt brúðkaup þegar Lárus, körfuboltaþjálfari og Eva Harðar gengu að eiga hvort annað. Mikið lifandis ósköp sem veðrið var fallegt - veislan að stórum hluta utandyra á bökkum Varmár í Brúarhvammi. Algerlega einstakt umhverfi - þar gerðist hinn einstæði atburður að ég smakkaði krækling í fyrsta sinn. Kom mér á óvart hvað hann var bragðgóður, en það er eins gott að horfa ekki á þetta ljóta dýr áður en bitið er í! Mér hefur aldrei líkað við mat sem er með undarlega lögun og form ;-) Dansað var síðan fram á nótt á gamla Hótel Hveragerði sem er án vafa einn skemmtilegasti salur sem völ er á til veisluhalda! Frábær veisla :-)

Á sunnudaginn tókum við á móti rétt tæplega 30 Bretum sem hingað eru komnir til að skoða landið og halda uppá heimsóknir Liverpool háskóla í 30 ár hingað til lands. Vinur okkar Dave er í þessum hópi sem samanstendur að mestu af jarðfræðingum. Við buðum í síðdegiskaffi með íslenskum veitingum, flatbrauð, rúgbrauð, kleinur og pönnukökur. "The Icelandic baby" vakti mikla athygli og Haraldur Fróði var myndaður í bak og fyrir. Það er ekki bara litli Georg sem vekur athygli :-) Þetta var líflegur og skemmtilegur hópur og virkilega gaman að fá þau í heimsókn. Gátum verið úti í garði allan tímann sem var hreint frábært, fór ekki að rigna fyrr en um kvöldmat...

Góðir gestir í kvöldmat en Jóhanna, Bjarki og Kristján komu og héldu okkur félagsskap fram eftir kvöldi. Það er svo gaman að fá gesti og "sumarhúsið" okkar í Hveragerði er alveg að virka :-)

Rammíslenskt kaffiboð :-)

David með Haraldi og Laufeyju.

Hópurinn allur.

What a lovely Icelandic baby :-)

Fjórir ættliðir, þarna sést vel hverjum er mest umhugað um barnið :-)

18. júlí 2013

Fundur bæjarráðs í morgun. Nokkur fjöldi mála á dagskrá en fæst stór. Núna er "gúrkutíðin" að ná hámarki í sveitarstjórnargeiranum og erindum og símtölum mun fækka stöðugt fram að verslunarmannahelgi.

Strax eftir fundinn komu hingað þau Ásmundur Friðriksson þingmaður, Halldór Hróar og Sigurður sonur hans en þeir tveir síðastnefndu reka hér fyrirtækið Feng sem framleiðir undirburð undir húsdýr og ýmsar aðrar afurðir eru nú að líta þar dagsins ljós. Þessi hópur var að velta fyrir sér nýsköpun á þessu sviði en Fengur er sérhæft fyrirtæki á sviði endurvinnslu sem gaman er að fylgjast með.

Fór í ökuferð um bæinn ásamt Guðmundi Þór, formanni bæjaráðs, til að skoða framkvæmdir og fleira. Það er gaman að sjá hversu fallega íbúar í nýjum hverfum hafa í flestum tilfellum gengið frá lóðum sínum. Þar er áberandi hversu Valsheiðin er snyrtilega og velfrá gengin og Hraunbærinn líka. Heilmiklar pælingar og vinna liggur að baki góðum garði en slíkt skilar sér líka margfalt. Má til með að nota þetta tækifæri og hrósa Lóu og Gunna í Hraunbænum fyrir einstaklega fallega aðkomu að húsinu. Þvílík vinna sem hlýtur að liggja að baki svona fallegri grjóthleðslu.

Var svo heppin að vera boðin með Kristjáni Jónssyni, dýraeftirlitsmanni, í heimsókn til Sæmundar eplabónda á Hellu. Það var mikil upplifun og sérstaklega gaman að fá tækifæri til að skoða þennan einstaka garð. Ávaxtatré af fjölmörgum gerðum prýða garðinn og þrátt fyrir leiðindaveðráttu í sumar sýnist manni að uppskeran verði allnokkur. Skemmtilegt spjall og veitingar settu síðan punktinn yfir i-ið :-)


Endirinn á góðum degi er síðan grillveisla í Gýgjarhólskoti í kvöld svo í dag verð ég búin að þvera Suðurlandið ansi duglega :-)

17. júlí 2013

Tók á móti ungri konu sem er að gera masters verkefni um sjálfbærni í ferðaþjónustu við háskóla í Kaupmannahöfn. Við áttum afar skemmtilegt spjall þar sem við fórum vítt og breitt um möguleika ferðaþjónustunnar, sjálfbærni, þolmörk svæða, gjaldtöku og fleira. Skemmtilegt og ég vona að þetta viðtal hafi verið gagnlegt.
Vann í starfslýsingum en núna í júlí ætla ég gjarnan að klára starfslýsingar stjórnenda. Þarf síðan að vinna nýtt skipurit og ný erindisbréf nefnda í kjölfar nýrra samþykkta. Það eru alltaf næg verkefni í skriffinnskunni :-)
Átti langan og góðan fund með Kristni umhverfisfulltrúa þar sem við fórum yfir hans starfslýsingu og ræddum umhverfismál og framkvæmdir í bæjarfélaginu.
Fundur bæjarráðs er í fyrramálið og því þurfti að undirbúa þann fund, það eru engin stórmál sem þar fara fyrir en þó er það ánægjulegt að Skipulagsstofnun tilkynnir að hún geri ekki athugasemdir við að hverfisvernd verð minnkuð við Varmá í kringum Frost og funa. Sú breyting skiptir miklu máli fyrir þann rekstur sem þar er en skerðir ekki á neinn hátt aðgengi að ánni.
Hjólaði góðan hring í bænum eftir vinnu í dag og tók nokkrar myndir í góða veðrinu. Rótaðist síðan í garðinum í allt kvöld og ætlaði aldrei að tíma að fara inn, veðrið er svo yndislegt - loksins :-)Til stendur að tyrfa í kringum Mjólkurbúið, það verður mikill munur.Nú er unnið hörðum höndum við klæðningu handmenntastofanna. Þetta kemur betur út en ég þorði að vona.Grænt og gróskumikið á H57. "Villisvæðið" ...


16. júlí 2013

Á meirihlutafundi í gærkvöldi var fundur bæjarráðs í vikunni undirbúinn. Í dag hélt sá undirbúningur áfram. Við Jóhanna menningar- og frístundafulltrúi bæjarins fórum yfir málefndi félagsmiðstöðvar ungmenna í bænum en á næstunni verður auglýst eftir starfsmanni sem þar á að móta nýjar áherslur með gjarnan aukinni samvinnu við unga fólkið okkar. Við Jóhanna fórum einnig yfir ýmis atriði varðandi Blómstrandi daga en þar er dagskrá að taka á sig endanlega mynd.

Eftir hádegi leit Gunnsteinn Ólafsson við en hann er nýráðinn sveitarstjóri í Ölfusinu. Við ræddum ýmislegt en fæst alvarlegt. Fórum síðan í góða bílferð um Hveragerði og Ölfushluta Hveragerðis eins og gárungarnir kalla svæðið hér handan ár. Við enduðum ferðina í Dalakaffi þar sem var þröngt á þingi. Bílastæðið var alveg troðfullt af bílum og lagt langt meðfram veginum að hesthúsunum. Það er alveg ljóst að umferð inn Reykjadal hefur aukist gríðarlega og eftir því sem orðspor dalsins fer víðar mun hún aukast enn frekar. Nú eru framkvæmdir hafnar við göngustíginn í Rjúpnabrekkum en það er Guðni Tómasson sem hefur veg og vanda af þeirri vinnu. Þorsteinn Hannibals er honum til halds og trausts hef ég heyrt. Tveir þrautreyndir þar á ferð. Verð reyndar að nota þetta tækifæri og biðjast afsökunar á hrikalega vondum veginum inn að bílaplani. Þar verðum við að bæta um betur og það hið fyrsta.

Síðdegis hitti ég Kollu og Róbert sem búa í Álfahvammi en þau og fjölskylda þeirra var þar samankomin til að minnast 100 ára ártíðar Gunnars í Álfafelli. Af því tilefni gróðursóttu þau myndarlegan alpareyni í útjaðri Listigarðsins og gáfu Hveragerðisbæ 150.000 sem nýttar hafa verið í kaup á trjám sem plantað hefur verið í Varmárgilið. Fallegt og skemmtilegt framtak og góð minning um einn af frumbyggjum bæjarins.


Hluti afkomenda Gunnars og Ingimaríu í Álfafelli við Alpareyninn.

Komst að því að við höfðum verið bekkjarsystur sennilega í 9 ára bekk. Helen sem kom frá Skotlandi. Ég, sem man nú ekki neitt frá mínum skólaárum, mundi eftir henni af því hún mætti í skólabúning í barnaskólann. Það fannst okkur merkilegt á sínum tíma.
Kolla og Róbert eru búin að útbúa þetta fína gufu útieldhús í garðinum hjá sér og þar mallaði grænmetissúpa af bestu gerð.

8. júlí 2013

Þessi flotta mynd af Haraldi Fróða með foreldrum sínum, öfum og ömmu var tekin á nafnadaginn hans. Verð bara að grobba mig örlítið af drengnum :-)

7. júlí 2013

Föstudagur og óvanalega margir sem vildu ræða við bæjarstjórann.  Erindin jafn mismunandi og þau voru mörg.  Allt frá því að einstaklingar vilja koma hingað með fjarstýrða báta og til lóðaúthlutunar og umhverfismála.   
 
Mikið fjör á Heiðmörkinni um kvöldið en hingað komu í mat James og Mandy ásamt Louie og Ellie.  En þau tvö fyrrnefndu giftu sig hér á Íslandi í fyrra en Louie spilaði með Hamri í körfunni síðsta tímabil.  Setið lengi, mikið spjallað og hlegið!  Hvítt - rautt og koníak spillti nú ekki fyrir :-)  Virkilega gaman og gaman að hafa kynnst  jafn hressum Bretum og þessari góðu fjölskyldu.  Enduðum kvöldið uppí Dal undir miðnætti þar sem við kíktum á brúðkaupsgjöfina þeirra sem dafnar ágætlega !

Laugardagurinn var líflegur eins og við var að búast.  Nú var búið að kortleggja mest allt sem var að gerast í Hvergerði í dag en það var eins og endranær þónokkuð.  Grillið hjá Möggu var með opnunarhátíð, hoppukastala, pylsur og hamborgara eins og hver gat í sig látið.  Við misstum reyndar af veitingunum þar því hér var ákveðið að fara á Ásatrúarblót í Listigarðinum.  Það var athyglisvert - jákvæður og góður boðskapur. Þarna gekk hún Katla Sigurðardóttir í Ásatrúarsöfnuðinn með viðhöfn. Flott ung kona þar á ferð. 
Á eftir var glæsilegt kaffihlaðborð á vegum félagsins á Veitingahúsinu Varmá.  Sá staður á vafalaust eftir að slá í gegn.  Staðsetningin einstök og veitingarnar glæsilegar, hvort sem er kaffi eða matur. Vorum svo heppin að hitta Elfu og hún sýndi okkur framkvæmdirnar á neðri hæðinni en þar er verið að innrétta heilsulind.  

Lukka okkur var nú ekki alveg uppurin því við fengum að passa Harald Fróða og tókum við hann með í bíltúr niður í Hótel Hlíð en þar hafa Björgvin G. Sigurðsson og eiginkona hans tekið við rekstrinum.  Þar var eins og við var að búast mikið mannval, alltaf gaman að spjalla við Össur Skarphéðinsson, tvíburarnir hennar Katrínar Júl vildu eiga Harald alveg einir og Hrafn Jökulsson tók myndir af öllu saman.

Bjarni Stefán Konráðsson, stór Skagfirðingur, hélt okkur síðan selskap frameftir kvöldi og það var nú ekki síður skemmtilegt. Meira hvað allir vinir okkar eru skemmtilegir !

4. júlí 2013

Fundur bæjarráðs í morgun. Það er gúrkutíð víðar en á fjölmiðlunum og því lítið um stór mál til afgreiðslu.  Fjallað var um biðlista mál við leikskólana, hraðakstur á götum, málefni sérfræðiþjónustu skóla svo fátt eitt sé talið.  Í lok fundar var rætt lengi um málefni Íbúðalánasjóðs sem er mál málanna þessa dagana. 

Hitti Kristinn umhverfisfulltrúa og Árna Svavars í dag og fórum við yfir starfsmannamál og nokkur atriði sem aðkallandi eru í umhirðu bæjarins.  Það er vaskur hópur sem sér um þessi mál hjá okkur enda má vel sjá það á bænum að þar er umhirða með ágætum. 

Hitti Ólaf sem rekur tjaldsvæðið, áttum alltaf eftir að skrifa undir samning um leiguna á tjaldsvæðinu sem bæjarstjórn gekk frá fyrir löngu.  Nú er það frágengið.  Ræddum síðan málefni tjaldsvæðisins og möguleika í ferðaþjónustu almenn í bænum. 

Guðjón skólastjóri leit við eins og hann gerir oft og áttum við gott spjall.
Það átti ég líka við Júlíus Rafnsson, forstjóra Dvalarheimilisins Áss.  Fórum yfir hjúkrunarrýmismál en hér  er hugur í mönnum og vilji til að fjölga hjúkrunarrýmum á Ási.  Ræddum einnig önnur brýn mál en það er afar gott að hitta forsvarsmen fyrirtækja hér í Hveragerði nokkuð reglulega.  Á morgun kemur til dæmis framkvæmdastjóri Heilsustofnunar til mín svo að lokinni vikunni hef ég kortlagt ástandið nokkuð vel.  

Rakst nefnilega líka á Jakob hótelstjóra á Örkinni í hjólatúrnum í kvöld.  Hann lét vel af sér enda aukning í gestakomum og fjölmargir stórir hópar á ferðinni. 3. júlí 2013

Miðvikudagur og fréttirnar  

Átti góðan fund með Fanneyju nýráðnum skólastjóra grunnskólans í morgun. Fórum við yfir ýmis mál og ræddum vítt og breitt um skólamál. Ekki hvað síst um möguleika sem ný tækni skapar á sviði upplýsingaöflunar og tölvukennslu. Það verður gaman að ræða þau mál áfram.

Hitti einnig Kolbrúnu Gunnarsdóttur sem er dóttir Ingimaríu og Gunnars sem vour garðyrkjubændur í Álfafelli fyrir margt löngu. Þann 16. júlí hefði Gunnar orðið 100 ára og það væri gaman ef við gætum gróðursett trén sem þau hjón, Kolbrún og Róbert gáfu bænum fyrir þann tíma. Ég lofaði því reyndar og verð að standa við það !

Átti nokkuð mörg og löng símtöl vegna sérfræðiþjónustunnar í Árnesþingi utan Árborgar. Nú stefnir í fund oddvita og sveitarstjóra næstkomandi mánudag þar sem við munum vonandi ráða ráðgjafa til starfa sem forma mun þjónustuna með okkur.

Svaraði bréfum og erindum svo þetta varð nokkuð drjúgur dagur í skrifstofu vinnu. Þeir eru nauðsynlegir öðru hverju.

Fórum í göngu í kvöld og skoðuðum hús og garða. Hér er nokkuð af tómum húsum og flest þeirra eru í egigu Íbúðalánastjóðs eða bankanna sem vilja hvorki leigja né selja. Afar óeðlilegt ástand. "Óeðlilegt" er reyndar nákvæmlega orðið sem manni dettur til hugar þegar hlustað er á fréttir dagsins - og eins og góð kona sagði "maður fyllist hryggð að verða vitni að þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í opinberum stofnunum."

2. júlí 2013

Þriðjudagur og sólin skín ... 

Fór á tvo fundi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í dag. Fyrst með skólafólki skrifstofunnar og síðan með kjaramálanefnd. Í tilefni af þessari fundaröð færði ég starfsmönnum súkkulaði toppís frá Kjörís sem er að mínu mati einn albesti ís fyrirtækisins. Það mæltist svona líka vel fyrir og fékk ég senda þessa flottu mynd að hluta hópsins.

Hér fyrir austan átti ég síðan fund um launaáætlanir stofnana og hversu vel þær standast rauntölur. Það er alltaf erfitt að áætla fyrir öllum þeim óvæntu útgjöldum sem komið geta upp og því ákvað bæjarstjórn að setja til hliðar 17 mkr til að ráðstafa vegna óvæntra veikinda og annars sem aukið getur launaútgjöld stofnana. Mér sýnist ekki af veita...

Síðdegis kom hingað stjórn Listvinafélags Hveragerðis sem ég þreytist ekki á að hrósa fyrir frábært starf. Í lok fundar var smellt af þessari ljómandi sumarlegu mynd af hópnum :-)

... og nú er "bloggerinn" enn og aftur búinn að rugla í kerfinu og því koma myndirnar svona stórar inn! ! ! Verð að fara að fá mér almennilega heimasíðu :-)
------
Fótboltaleikur inní Dal í kvöld. Hjóluðum uppeftir, ótrúlegur næðingur alltaf á þessum velli :-( Dó næstum úr kulda og fór heim um miðjan seinni hálfleik, krókloppin! Gunnar á Völlum var á svæðinu og rakst á mig á leiknum. Það verður skrautlegt!

1. júlí 2013

Mánudagur - bloggað aftur :-) 

Það þarf meiriháttar viljastyrk til þess að byrja aftur að blogga.  Það er allt annað að skrifa langar ferðasögur þegar allt er nýtt og framandi heldur en að láta sér detta eitthvað snjallt til hugar á venjulegum mánudegi eftir ofur langan vinnudag...
Ferðasagan var aðallega skrifuð fyrir okkur sjálf til að við myndum ekki gleyma hvaða staði við heimsóttum og hvað við sáum, það er nefnilega merkilegt hversu fljótt fennir yfir slík atriði í minninu.  Vona að þið hafið haft eitthvað gaman af þessu lika :-)
-----
En nú er orðið ansi langt um liðið síðan við komum heim og ekkert verið skrifað síðan.  Verð að bæta úr því - geri það hér með.  Spurning að taka upp aftur 10 mín. bloggið - þá er ákveðinn tími settur í að blogga og ekki sekúnda umfram það.  Eykur pressuna og minnkar tímann sem fer í að hugsa !

Helgin sem leið var ansi notaleg.  Á föstudagskvöldið fórum við systkinin með mömmu og mökum okkar á Veitingahúsið Varmá sem opnaði hér í Hveragerði nýverið. Mjög notalegur staður, virkilega góður matur, útsýnið einstakt og litadýrðin í kring engu lík.  Veitingahús í Varmárgilinu er frábær hugmynd.  Til hamingu með það Elfa Dögg,  sú kona er ekkert minna en snillingur :-)

Á laugardaginn var vaknað með kollinn fullan af góðum ásetningi og stefnan sett á Reykjadal í góðu gönguveðri.  Við Lárus og Helga Kristjáns. fórum af stað uppúr hádegi og kölluðum reisuna rannsóknarleiðangur enda tilgangurinn að taka myndir af umhverfinu og göngustígnum eftir rigningu og mikinn átroðning daganan á undan.  Verð að viðurkenna að stígurinn er nær því horfinn í for á stórum köflum og varla fær gangandi vegfarendum.  Þarna verður að gera bragarbót á hið allra fyrsta ef ekki á illa að fara. Umhverfiið og upplifunin er aftur á móti engu lík.  Við lágum í heitum læknum í óratíma og það var ótrúlega notalegt !  Það er ekki skrýtið þó að erlendir sem innlendir ferðamenn streymi þúsundum saman inní dalinn - þetta er einstök upplifun :-)

Sunnudeginum var eytt í garðvinnu eftir bröns með broti úr stórfjölskyldunni. Sátum úti í blíðskaparveðri sem var ekki leiðinlegt!  Það var sólbrenndur og ánægður garðeigandi sem loksins kom inn seint um kvöldið eftir frábæran dag í garðinum.  Hingað var þá mættur Haraldur Fróði - ömmugull - þar með kemst ekkert annað að!
----------------------
Í dag mánudag var fundur um gönguleiðina inn Reykjadal og þar sýndi ég afrakstur göngunnar á laugardaginn.  Það var gagnlegt fannst mér að sjá ástandið með myndrænum hætti.  Hitti líka Robert Dell sem er prófessor frá New York.  Hann kemur hingað árlega og stýrir verkefni er felst í upphitun jarðvegs og ræktun í honum.  Honum hefur tekist að fá rauða og þroskaða tómata utandyra og að láta banana plöntur lifa úti sumarlangt. Athyglisvert.  

Meirihlutafundur síðdegis og gerð minnisblaða fyrir bæjarráðsfund á fimmtudaginn að honum loknum.  
-------------
Hjóluðum inní Dal seint í kvöld - þar erum við Lárus með tvö tré í fóstri sem af sérstökum ástæðum þarf að nostra við þessa dagana.  Mega alls ekki drepast - það væri heldur verra  :-)


This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet