4. júlí 2013
Fundur bæjarráðs í morgun. Það er gúrkutíð víðar en á fjölmiðlunum og því lítið um stór mál til afgreiðslu. Fjallað var um biðlista mál við leikskólana, hraðakstur á götum, málefni sérfræðiþjónustu skóla svo fátt eitt sé talið. Í lok fundar var rætt lengi um málefni Íbúðalánasjóðs sem er mál málanna þessa dagana.
Hitti Kristinn umhverfisfulltrúa og Árna Svavars í dag og fórum við yfir starfsmannamál og nokkur atriði sem aðkallandi eru í umhirðu bæjarins. Það er vaskur hópur sem sér um þessi mál hjá okkur enda má vel sjá það á bænum að þar er umhirða með ágætum.
Hitti Ólaf sem rekur tjaldsvæðið, áttum alltaf eftir að skrifa undir samning um leiguna á tjaldsvæðinu sem bæjarstjórn gekk frá fyrir löngu. Nú er það frágengið. Ræddum síðan málefni tjaldsvæðisins og möguleika í ferðaþjónustu almenn í bænum.
Guðjón skólastjóri leit við eins og hann gerir oft og áttum við gott spjall.
Það átti ég líka við Júlíus Rafnsson, forstjóra Dvalarheimilisins Áss. Fórum yfir hjúkrunarrýmismál en hér er hugur í mönnum og vilji til að fjölga hjúkrunarrýmum á Ási. Ræddum einnig önnur brýn mál en það er afar gott að hitta forsvarsmen fyrirtækja hér í Hveragerði nokkuð reglulega. Á morgun kemur til dæmis framkvæmdastjóri Heilsustofnunar til mín svo að lokinni vikunni hef ég kortlagt ástandið nokkuð vel.
Rakst nefnilega líka á Jakob hótelstjóra á Örkinni í hjólatúrnum í kvöld. Hann lét vel af sér enda aukning í gestakomum og fjölmargir stórir hópar á ferðinni.
Comments:
Skrifa ummæli