<$BlogRSDUrl$>

28. júní 2010





23. júní 2010


Dagurinn byrjaði með fundi í samstarfsnefnd EFTA um sveitarstjórnarmál. Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn allan og hin var svo skondin að ég varð að setja hana með. Mér er greinilega mikið niðri fyrir þarna. Minnir að ég hafi verið að tjá mig um aðildarumsókn Íslendinga að ESB. Á þessari slóð má sjá umfjöllun um fundinn og fleiri myndir.

Var komin austur rétt uppúr hádegi og varð þá vitni að þvílíkri stemningu í bænum okkar. Alls staðar er fólk að skreyta og dytta að. Allir virðast vera á fullu við að gera fínt fyrir sýninguna enda tekur bæjarfélagið þvílíkum stakkaskiptum á hverjum degi núna. Á hringtorginu er komin risa róla og fullt af blómabörnum sem halda á skiltum sem mynda orðin velkomin fyrir vegfarendur, bæði þá sem fara austur og vestur. Gríðarlegu magni af blómum hefur verið plantað í bæjarfélaginu og enn eru nokkrir dagar til stefnu. Tugir aðila koma að sýningunni með einum og öðrum hætti og nú hafa meira að segja fangarnir á Litla Hrauni bæst í hópinn. Lesið um það hér.

Hitti Guðjón skólastjóra eftir hádegi og fórum við yfir nokkur mál varðandi skólastarfið. Við hittumst oft og ræðum málin enda er hér enginn fræðslustjóri og bæjarstjóri því yfir fræðslumálum.

Ræddi við lögmenn Lex um gatnagerðargjöld og innheimtu þeirra. Úrskurður ráðuneytisins vegna B-gjaldanna kom okkur á óvart og nú eru lögmenn að kanna stöðu bæjarfélagsins í málinu.

Í kvöld mættum við nokkrir sjálfboðaliðar til að hjálpa til við undirbúning fyrir sýninguna Blóm í bæ. Við settum niður sólblóm í Lystigarðinn og sumarblóm við Varmahlíðarhúsið auk þess sem við rökuðum beð og hreinsuðum til. Enduðum síðan bæjarfulltrúarnir ásamt Elínborgu að hreinsa illgresi við Reykjamörkina. Þar er allt annað að sjá umhverfið núna. Á myndunum má sjá hvernig gamli barnaskólinn hefur tekið algjörum stakkaskiptum undanfarna daga...

Endaði síðan kvöldið á því að setja fuschiurnar mínar í nýjar hengikörfur og vökva garðinn, ekki veitir víst af.

Búðardrengurinn á Króknum kom síðan óvænt heim í kvöld og verður heima fram yfir helgi. Nú eru allir heimavið svo það er líflegt í húsinu :-)

Ég setti nýjan status á Facebook áðan svohljóðandi:

Nýtt á www.aldis.is annan daginn í röð...
Kraftaverkin gerast enn :-)

Örfáum mínútum síðar sendi Kristján Runólfsson mér þessa fínu vísu...

Á ritvelli er stundum sterk,
stílvopn mundar faglega.
Kunna að gerast kraftaverk,
en kannske ekki daglega.


Alltaf góður !!!!

22. júní 2010

Dagurinn byrjaði með vinnu við auglýsingar og greinaskrif fyrir Blóm í bæ. Það eru held ég allar sjónvarps og útvarpsstöðvar auk allra blaða sem gefin eru út á landinu búnar að hafa samband vegna auglýsinga fyrir sýninguna. Ég held að enginn Íslendingur komist hjá því að vita af sýningunni enda er hún auglýst stöðugt í samlesnum og leiknum auglýsingum á ríkinu. Líka í skjáauglýsingum í sjónvarpi allra landsmanna, útvarpi Suðurlands, héraðsblöðum og á morgun kemur auglýsing í Fréttablaðinu. Auk þess hefur verið þónokkur umfjöllun um sýninguna í öðrum miðlum. Nú þurfa allir sem vettlingi geta valdið að kynna sýninguna vinum og vandamönnum því enginn vill missa af þeirri upplifun sem í vændum er....

Í kvöld var fyrsta vinnukvöld sjálfboðaliða vegna sýningarinnar. Ég komst því miður ekki var upptekin annars staðar en stefni að því að mæta á morgun. Áhugasamir mæti við innganginn í Listigarðinn klukkan 20. Endilega mætið svo ég verði nú ekki ein í garðvinnunni :-)

Hitti Júlíus Rafnsson fyrir hádegi en hann er núna framkvæmdstjóri Dvalarheimilisins Áss. Hann kynnti fyrir mér framtíðarsýn stofnunarinnar en það er ljóst að nú þurfa allir að hugsa á nýjum nótum enda boðar ríkið heilmikinn niðurskurð næstu árin. Þó virðist vera jafn ljóst að rekstur Áss verður í nokkuð venjubundnum skorðum ef fram fer sem horfir og fyrir það erum við Hvergerðingar þakklátir. Þarna vinna rúmlega 100 einstaklingar auk þess sem heimilisfólk er vel á annað hundraðið. Þess vegna er þessi rekstur okkur Hvergerðingum afar mikilvægur auk þess sem þjónustan sem veitt er er framúrskarandi góð.

Hitti aðila sem bauð skemmtilega nýjung við kynningu bæjarfélagsins. Það eru ennþá til einstaklingar sem fá góðar hugmyndir sem betur fer.

Síðdegis sat ég ásamt fleiri fulltrúum frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga stofnfund sveitarstjórnarvettvangs innan EFTA /EES samstarfsins. Í EFTA eru núna fjórar þjóðir Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein. Stofnunin gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum landanna við Evrópusambandið og ekki síður við aðrar þjóðir utan þess.
Stofnfundurinn er haldinn samhliða ráðherrafundi EFTA sem nú er haldinn í Reykjavík. En á fundinum verður 50 ára afmælis EFTA minnst en 40 ár eru jafnframt frá inngöngu Íslands í samtökin. Þessi nýji vettvangur mun tryggja samráð þegar rætt er um að hvernig fella beri gerðir sem snerta sveitarstjórnarmál að EES-samningnum, stuðla að auknu samstarfi á sveitarstjórnarstigi milli þátttökulanda og gera sveitarstjórnarfólki í kleift að skiptast á skoðunum við kollega sína í Héraðanefnd ESB, eins og fram kemur á heimasíðu Sambandsins í dag.

Besta frétt dagsins var samt tilkynningin um nýja reglugerð sem umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur sett um leyfilegt magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins kemur fram að "Markmið reglugerðarinnar er að draga úr mengun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og mögulegum neikvæðum áhrifum hennar á heilsu fólks."
Með setningu þessarar reglugerðar er viðurkennt að íbúar í nágrenni virkjana skuli njóta vafans og ekki vera tilraunadýr um þolmörk einstaklinga vegna brennisteinsvetnis. Eða eins og segir í tilkynningunni: "Umhverfisráðherra segir óvissu ríkja um heilsufarsáhrif af langvarandi innöndun brennisteinsvetnis og því hafi hún talið nauðsynlegt að setja mörkin þannig að almenningur fái notið vafans. Einnig eigi þessi mörk að koma í veg fyrir megna lyktarmengun."
Hvergerðingar og aðrir íbúar á suðvesturhorni þessa lands hljóta að fagna mjög þessari nýju reglugerð enda tryggir hún að betur verður fylgst með þessum málum í framtíðinni og séð til þess að mengun rýri ekki lífsgæði fólks.

21. júní 2010

Tölvutenging heimilisins hefur verið að ergja mig undanfarið og þegar ekki er lengur hægt að komast á netið með góðu móti heimavið þá verður fátt um fína drætti á blogginu...

En undanfarið hefur verið nóg að gera. Hátíðahöldin 17. júní tókust afar vel. Blíðskaparveður og mikil ánægja með daginn. Það er eitthvað alveg sérstakt við hátíðadagskrána við sundlaugina og þetta árið skartaði laugin sínu fegursta enda nýbúið að endurnýja allt laugarkerið. Fagurblátt og fallegt! Magnús Þór Sigmundsson hlaut menningarverðlaun Hveragerðisbæjar og var hann vel að þeim heiðri kominn. Hann hefur samið mikinn fjölda laga sem mörg hver eru löngu orðin klassísk í augum þjóðarinnar. Við athöfnina fluttu ungar stúlkur héðan frá Hveragerði, Berglind, Sædís og Dagný Lísa þekktasta lag hans, Ísland er land þitt. Var það afskaplega glæsilegt hjá stelpunum. Á myndunum hér til hliðar má sjá stelpurnar ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni og Gísla Páli Pálssyni formanni menningar, íþrótta og frístundanefndar og einnig má þarna sjá glæsileg tilþrif Kents Lauritzen í Laugargríninu...

Kvennahlaupið var á laugardagsmorguninn og var það óvenjulíflegt. Pétur og Lísa sem dagsdaglega stýra hlaupahópnum höfðu veg og vanda af hlaupinu og fórst það vel úr hendi. Pétur keyrði músíkbíl Kjörís um göturnar á eftir hlaupurunum svo það var heilmikið stuð á mannskapnum. Hér í Hveragerði hlaupa karlarnir alltaf karlrembuhlaup á sama tíma en þeir hlaupa rangsælis. Það er gaman af því !

Eftir hádegi á laugardag fékk ég heimsókn, Elínborgu Ólafs og vinkonur hennar sem "gæsuðu" hana með glæsibrag þennan dag. Hún var í gervi Davíðs Oddsonsar og sótti það fast að fá formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Fannst við hæfi að ég undirritaði yfirlýsingu um stuðning við þau áform. Það var nú ekki mikið mál :-)

Á laugardagskvöldinu var Jónsmessugleði í Helguhvammi við Varmá. Yndislegt kvöld í góðum félagsskap og frábæru veðri. Takk fyrir okkur kæra fjölskylda.

Síðdegis á sunnudag brugðum við Lárus og mamma undir okkur betri fætinum og skruppum uppí Gýgjarhólskot. Þangað er alltaf gaman að koma, litum við í handverkshúsinu hjá Rönku, skoðuðum garðinn og gróðurinn og spjölluðum síðan fram eftir degi.

Að öðru leyti var helginni eytt í garðvinnu, loksins komst ég í garðinn og skemmti mér konunglega við að reyta arfa, gróðursetja og klippa tré. Ferlega ánægð með garðinn eftir þetta dugnaðarkast :-)

Í dag mánudag var þónokkur erill í vinnunni. Símtöl og heimsóknir ásamt greinaskrifum um Blóm í bæ. Viðtal á Rás2 um tafir á tvöföldun Suðurlandsvegar og mörgu fleiru þurfti að sinna. Fundur í kvöld með forseta og formanni bæjarráðs eftir hann skruppum við á rúntinn um bæinn til að skoða allt það sem er í gangi vegna garðyrkju- og blómasýningarinnar Blóm í bæ. Blómabörn á hringtorginu bjóða gesti velkomna, ævintýrahúsið í miðbænum er að taka á sig mynd, í listigarðinum við Fossflöt er komið glæsilegt beð fyrir fjölæringa, sumarblóm og runna, blómabangsi er að verða til í listigarðinum og fleira mætti telja. Það er greinilegt að hér verður nóg að sjá og njóta um næstu helgi.

9. júní 2010

Vikan hefur verið annasöm og lífleg. Fréttir bárust um áform um mikla skerðingu á framlögum ríkisins til Heilsustofnunar og við því þurfti að bregðast. Bað strax um fund með þingmönnum kjördæmisins sem haldinn var á nefndasviði Alþingis í morgun. Þar mættu auk mín framkvæmdastjóri HNLFÍ, formaður NLFÍ og yfirlæknir stofnunarinnar. Áttum við góðan og upplýsandi fund með þingmönnum sem sýndu málinu mikinn skilning. Ég hef fulla trú á því að skerðing hér verði ekki meiri en á öðrum heilbrigðisstofnunum en þar hefur verið rætt um lækkun framlaga um 4-6%. Slíkt er hægt að vinna sig útúr sem væri ekki raunin ef framlög myndu skerðast um tugi prósenta. Við munum halda áfram að vinna að því að tryggja rekstrarframlög Heilsustofnunar hér í Hveragerði næstu daga. Úr því að ég var nú komin til Reykjavíkur þá kíkti ég á verkstæði með bílinn en einhverjum hefur fundist við hæfi að rispa hann eftir endilangri hliðinni, væntanlega með lykli. Ef það er eitthvað sem ég hef enga þolinmæði fyrir þá eru það skemmdarverk! ! !

Eftir hádegi í dag hitti ég Þorstein, framkvæmdastjóra Minjaverndar, skoðuðum við gömul hús í miðbænum en þar er upprunalega götumyndin enn við lýði með Þinghúsinu, Mjólkurbúinu og Egilsstöðum (Gamla barnaskólanum. Þessi hús ásamt Varmahlíðarhúsinu eru elstu hús bæjarins byggð í kringum 1930. Nú er unnið að endurbótum á Þinghúsinu en verið er að skipta um glugga á salnum og væntanlega verður húsið málað að utan í sumar. Mjólkurbúið sem að stærstum hluta er í eigum bæjarins er í ágætis ástandi þó útlit þess myndi óneitanlega batna með viðhaldi utanhúss. Gamli barnaskólinn hefur ekki fengið neitt viðhald til fjölda ára og það sést greinilega. Fyrir blómasýninguna hefur fæðst sú hugmynd að mála það rautt, svart og hvítt og gera það þannig útlistlega að húsi Hans og Grétu. Það myndi örugglega slá í gegn.

Hitti Davíð Samúelsson sem nú hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands. Davíð var fyrir nokkrum árum síðan yfir Upplýsingamiðstöð Suðurlands sem staðsett er hér í Hveragerði. Markaðstofan hefur verið staðsett hér í Hveragerði á efri hæð Arion banka en þar fékkst afar hentugt og ódýrt húsnæði fyrir nú utan að mörgum þótti mikilvægt að Upplýsingastofan og Markaðsstofan ynnu náið saman sem þau hafa gert. Nú sagði Davíð mér að hann ætti að flytja á Selfoss og þótti mér það skjóta skökku við. Minntist þá umræðu um aðkomu Árborgar að Markaðsstofunni og ávæning um að skilyrði fyrir þátttöku þeirra væri að Markaðstofan yrði staðsett á Selfossi. Vona ég svo sannarlega að það sé ekki rétt því lágt þætti mér þá stærsta sveitarfélagið á svæðinu leggjast að leggja þannig ofurkapp á að flytja eitt, ítreka eitt stöðugildi héðan frá Hveragerði til Selfoss þar sem fjöldi opinberra stöðugilda er þegar fyrir hendi.

Þar sem ég sit hér inni heyri ég regnið dynja á húsinu. Mikið óskaplega er ég ánægð með það. Veitti ekki af vætunni hér og hvað þá þegar austar dregur. Vona bara að það rigni mikið og lengi :-)

6. júní 2010

D-listinn og stjórnir félaganna (ungir sem eldri) hittust á föstudagskvöldið og fögnuðu góðu starfi undanfarnar vikur. Þetta var frábært kvöld, mikil stemning og fjör í hópnum. Hápunkturinn óneitanlega frábært myndband sem Guðrún systir gerði um kosningabaráttu D-listans. Hún er hreinn snillingur í þessum efnum og þess vegna endursýndum við myndbandið sem hún gerði eftir kosningarnar 2006. Það var virkilega gaman að sjá hvernig útlit manna hefur breyst á ekki lengri tíma :-)

Það er auðvelt að eiga virkilega góðan dag í Hveragerði og það gerðum við fjölskyldan í gær, laugardag. Þá tók ég fyrst á móti stjórn Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands (EBÍ), sem voru á ferðalagi um Suðurland. Fyrst var farinn stuttur rúntur um Hveragerði þar sem stjórnin sá meðal annars skiltin sem hlotið hafa styrk úr styrktarsjóði félagsins. Ferðin endaði í hveragarðinum þar sem fótaböðin slógu algjörlega í gegn en EBÍ hefur einnig styrkt uppbyggingu þar með myndarlegum hætti. Það var svo einstaklega fallegt veður að það var sérlega gaman að sýna bæinn. Allir hefðu orðið heillaðir af Hveragerði þennan dag. Eftir móttökuna fórum við Lárus á röltið með strákana og skoðuðum við verslanir og veitingahús í Hveragerði. Heimsóttum handverksmarkaðinn sem er nú opinn á ný í handmenntahúsinu við Breiðumörk. Litum við í Álnavörubúðinni sem svo sannarlega hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga. Fórum þar á eftir í Kiano og hittum Friðrik, rekstraraðila þar. Það er ótrúlega skemmtilegt úrval af ullarvöru hjá þeim hjónum. Kíktum síðan á Hverablómið sem er ný glæsileg blóma- og gjafavöruverslun í RS húsinu, svokallaða, við Reykjamörk. Litum síðan örstutt við í Eden en þar er nú unnið að tiltekt en vonandi verður staðurinn opnaður um næstu helgi. Enduðum rölt okkar um bæinn í kaffi hjá Almari bakara um leið og við kíktum á handverksmarkaðinn sem haldinn er alla laugardaga í Sunnumörkinni. Um kvöldið nutum við síðan stórkostlegra tónleika í kirkjunni þar sem fyrri tónleikar Bjartra sumarnátta voru haldnir. Að öðrum ólöstuðum var það einstök upplifun að heyra Huldu Jónsdóttur leika á fiðluna en hún stundar nú nám við Juilliard í New York. Mér finnst það hafa verið í gær þegar hún svo ósköp feimin spilaði á fiðluna sína hér í grunnskólanum. Svona líður tíminn nú hratt :-)

Í dag sunnudag var síðan farinn ansi langur sunnudagsbíltúr norður á Sauðárkrók. Þar var Albert Ingi skilinn eftir hjá afa og ömmu en hann ætlar að vinna í búðinni hans afa í sumar. Lárus er svo vanur löngum bílferðum í vinnunni að þetta fannst honum nú ekki mikið mál... Skagafjörðurinn er alltaf fallegur og í dag skartaði hann sínu fegursta, brakandi sól en svolítið andkalt!

4. júní 2010

Brá mér í heimsókn í Litlu kaffistofuna í hádeginu í dag þar sem fagnað var 50 ára afmæli rekstrar á Sandskeiði. Hitti þar Stefán Þormar Guðmundsson, staðarhaldara, sem rekið hefur staðinn af miklum myndarskap til fjölda ára. Hann er bróðir hans Fúsa í Hverakaup sem margir Hvergerðingar kannast við þannig að hann hefur heilmikil tengsl hingað. Okkur hér fyrir austan fjall finnst óneitanlega notalegt að vita af Litlu Kaffistofunni hvort sem er á veturna þegar veður geta verið viðsjál eða í annan tíma þegar maður einfaldlega er að verða bensínlaus, sem hefur skeð alloft :-)
Um leið og ég renndi í hlað við Litlu kaffistofuna birtist Magnús Hlynur blaðamaður á Dagskránni og smellti þessari fínu mynd af þeirri sem þetta skrifar og Stefáni.

Hitti þónokkra hér á skrifstofunni í dag. Meðal annars vegna beitar fyrir hross, vegna óhapps sem varð í grunnskólanum fyrir nokkru síðan, ræddi málefni gufuveitunnar, vegna húsafriðunar og verndunar trjáa í bæjarfélaginu og fleira og fleira.

Átti langt samtal við Elsu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna öskufjúksins sem legið hefur yfir Suðurlandi í dag. Það er alveg ljóst að mengun í lofti er langt yfir öllum viðmiðunarmörkum og því þurfa þeir sem viðkvæmir eru fyrir loftmengun að halda sig innandyra eða nota rykgrímur. Margir hafa nælt sér í slíkar í dag. Reyndar getum við varla kvartað þegar maður sér tölurnar úr svifryksmælunum hér fyrir austan. Þar er ástandið afar slæmt svo ekki sé nú dýpra tekið í árina.

1. júní 2010

Það var frekar heimilislegt að setjast við skrifborðið í morgun vitandi það að skýrt umboð fylgdi D-listanum inní næsta kjörtímabil. Þó að formlega taki ný bæjarstjórn ekki við fyrr en 15 dögum eftir kosningar þá eru auðvitað ýmis verk sem þarf að vinna rétt eins og vanalega. Þess vegna var dagurinn hinn ljúfasti, nóg að gera og ekkert stress í gangi vegna kosninga! Það var tilbreyting :-)

Ræddi við verktaka sem hafði áhyggjur af stöðu verklegra framkvæmda í bæjarfélaginu og í landinu almennt. Það er nokkuð ljóst að framtíðin í þeim geira atvinnulífsins er ekki björt og ekki virðist hin verkkvíðna ríkisstjórn vera að gera nein kraftaverk á þeim vettvangi. Enn bíðum við til dæmis eftir gröfunum á Sandskeiðinu en þær hljóta að vera væntanlegar innan örfárra vikna enda löngu búið að bjóða verkið út. Hér í Hveragerði mun bæjarfélagið ekki eitt og sér geta haldið uppi framkvæmdum sem neinu nemur. Þar þarf fleira að koma til og þar geta fáir komið til bjargar á meðan að ríkisstjórnin heldur að sér höndum.

Ræddi málefni Grunnskólans á góðum fundi. Hitti Robert Dell sem er vísindamaður frá Bandaríkjunum sem hefur undanfarin ár stundað rannsóknir hér í Hveragerði á ræktun í upphituðum jarðvegi. Hefur með þeim hætti getað ræktað tómata úti yfir sumartímann. Afskaplega spennandi rannsókn sem nú fer fram bæði á Heilsustofnun og við Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum. Átti afar fróðlegt samtal við aðila sem kynnti fyrir mér málefni er varða húsafriðun og minjavernd. Fyrir bæjarfélög eins og okkar sem leggur áherslu á ímynd sína þá er húsavernd afar mikilvæg og því brýnt að vandað sé til ákvarðana þegar kemur að þeim málum. Hér eru nokkrar byggingar sem njóta sérstöðu, þinghúsið í miðbænum, Varmahlíðarhúsið, Mjólkurbúið, gamli barnaskólinn og Sundlaugin Laugaskarð svo nokkrar séu nefndar. Því var það sérlega ánægjulegt að sjá að nú er verið að skipta um glugga í Þinghúsinu (gamla hótelinu). Þetta er afskaplega fallegt hús þar sem eigendur hafa undanfarin misseri unnið ötullega að afar vel lukkuðum endurbótum.
Skrapp með Jóhönnu upp í Laugaskarð þar sem nú er verið að leggja lokahönd á viðgerðir laugarkersins. Þar er nú beðið eftir nýjum dúk sem á að klæða veggi laugarinnar. Þegar hann er kominn á verður kerið eins og nýtt. Stefnt er að opnun laugarinnar þann 11. júní. Fyrir þann tíma verður væntanlega búið að setja upp líkamsþjálfann sem hingað til hefur verið staðsettur við Hamarsvöllinn en hann verður núna fluttur að inngangi sundlaugarinnar. Þannig mun hann nýtast til íþróttaiðkunar fyrir þá fjölmörgu sem stunda líkamsrækt í og við sundlaugina.

Í kvöld hittust nýkjörnir bæjarfulltrúar D-listans til skrafs og ráðagerða. Skipuleggja þarf næstu skref áður en bæjarstjórn tekur formlega til starfa.

Heyrði í nokkrum bæjarstjórum í dag. Til dæmis Ásgerði á Seltjarnarnesi en þar hafa Sjálfstæðismenn lengi haft sterka stöðu og Skúla Þórðarsyni í Húnaþingi vestra. Undanfarin ár hafa myndast góð tengsl milli þessa hóps og gott er að geta borið hin ýmsu mál undir aðra sem vinna við sömu hluti.

Átti viðtal við tvo íbúa í dag um erfið mál. Það er enginn efi í mínum huga að nú verður ríkisvaldið að taka til hendinni og finna viðunandi lausnir á stöðu þeirra sem hvað erfiðast eiga þessa dagana. Til dæmis mætti byrja á því að efna loforð um þátttöku ríkis í húsaleigubótum en slíkt myndi gera sveitarfélögum kleift að hjálpa fleirum sem eiga erfitt með að greiða þá háu leigu sem krafist er á leigumarkaðnum. Heyrði í aðila sem er að leigja fjölda íbúða hér í Hveragerði og þar er miðað við að leiga sé um 1.000,- á m2. Það er ansi hátt verð að greiða þegar íbúðin er farin að halla í 100m2 og tekjurnar eru rýrar.

Fór í gönguferð um bæinn með Svövu í kvöld. Kíktum á nýja hverasvæðið en þar er nú búið að setja upp skemmtilegt upplýsingaskilti. Komum síðan við í lystigarðinum við Fossflöt og skoðuðum framkvæmdir en í vor var farið í framkvæmdir við fossflötina með það fyrir augum að reyna að þurrka hana upp enda kom vatnselgurinn í veg fyrir almenna notkun á svæðinu. Keyrt var sérstakt malarefni á flötina og hún hækkuð upp áður en tyrft var yfir aftur. Nú krossar maður fingur því ætlunin er að nýta þennan sað á sýningunni Blóm í bæ.

Það er athyglisvert að sex af tíu efstu fulltrúum á D-listanum eru á SUS aldr. Það eitt og sér er frábær árangur fyrir ungt fólk í Hveragerði sem nú hefur hug á að taka að sér enn fleiri og meira krefjandi verkefni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet