<$BlogRSDUrl$>

30. maí 2010


Kærar þakkir öll fyrir stuðninginn í gær og takk fyrir allar góðu kveðjurnar sem borist hafa síðastliðna nótt og í dag. Þetta var ein sú alskemmtilegasta kosningabarátta sem ég hef tekið þátt í. Mikill fjöldi fólks lagði hönd á plóg, framboðslistinn, stjórn félagsins og stjórn Asks félags ungra, fjölskyldurnar á bak við fólkið og ekki síður stór hópur einstaklinga sem lagði nótt við dag til að sigur mætti vinnast hér í Hveragerði. Þetta var sigur hópsins, jákvæðninnar og gleðinnar sem réði ríkjum allan tímann. Nú hefur okkur verið falin mikil ábyrgð. Fylgi D-listans nær langt út fyrir raðir Sjálfstæðismanna. Nú ríður á að allir bæjarfulltrúar vinni saman að góðum málum og eflingu Hveragerðisbæjar. Við munum ekki bregðast því mikla trausti sem okkur er sýnt. Hjartans þakkir enn og aftur fyrir stuðninginn.

Úrslitin hér í Hveragerði fóru langt fram úr björtustu vonum. Fimm bæjarfulltrúar af sjö og 64,4% atkvæða. Langbesti árangur D-lista á landsvísu er staðreynd og einn stærsti sigur landsins á heildina litið einnig. Stórkostlegur árangur sem setur ábyrgð og skyldur á herðar okkur bæjarfulltrúunum. Ninna Sif Svavarsdóttir er nýr bæjarfulltrúi sem nú tekur óvænt sæti í bæjarstjórn, enginn gerði ráð fyrir því að sú gæti orðið staðan. Það verður virkilega gaman að vinna með Ninnu á þessum vettvangi. Það er skemmtilegt að geta þess að konur verða í meirihluta í bæjarstjórn hér í Hveragerði. Einnig er gaman að geta þess að í bæjarstjórn verða tveir guðfræðingar, Ninna Sif og Jóhanna Ýr !

En í dag sunnudag hittist hópurinn klukkan 1 og gekk frá kosningaskrifstofunni. Tæmdi húsnæðið, tók niður allar auglýsingar og skúraði allt út. Við höfum þetta fyrir venju að ganga frá öllu um hádegi daginn eftir kosningar. Þá eru öll ummerki um þær úr sögunni um leið og úrslit liggja fyrir og ekkert sem minnir fólk á þá baráttu sem fór fram. Þátttakendum í kosningunum finnst líka gott að geta klárað dæmið strax því það er erfiðara að ná hópnum saman eftir því sem lengra líður.

Við buðum síðan stórfjölskyldunni í síðdegis kaffi á pallinum og venju samkvæmt var mikið skeggrætt um landsins gagn og nauðsynjar og auðvitað um úrslit kosninganna. Á mörgum stöðum urðu óvænt úrslit svo maður er enn að melta niðurstöðurnar. Þannig er það líka þegar kosninganóttinni er eytt í miklu fjörí á kosningavöku :-)

Hér má sjá myndir sem Eyþór tók í kosningamiðstöð D-listans á kjördag og eins myndir teknar á kosningavökunni um kvöldið. Þar réði gleðin ríkjum ....

28. maí 2010

Föstudagur og kosningar á morgun....

Í gærkvöldi héldu D-listakonur hér í Hvergerði glæsilegt dömukvöld og við erum ennþá í skýjunum :-) Í salnum voru um 170 konur sem allar skemmtu sér konunglega. Jóna Hrönn Bolladóttir talaði um traust af einlægni og innsæi, Silfurparið í samkvæmisdönsum sýndi listir sínar, Jógvan Hansen heillaði alla uppúr skónum og frambjóðendur stigu á stokk og sýndu á sér alveg nýjar hliðar ;-) Fullt af dömum fóru heim með vinninga í happdrættinu og allar fóru vona ég heim með gleði í hjarta eftir frábæra kvöldstund. Glæsilegar veitingar voru töfraðar fram af Eyjólfi formanni Sjálfstæðisfélagsins og frábærum konum sem aðstoðuðu hann. Aðrar skreyttu salinn, pökkuðu gjöfum, redduðu happdrættisvinningum eða aðstoðuðu á annan hátt. Risa stór hópur kom að undirbúningi þessa glæsilega kvölds undir styrkri stjórn, Guðrúnar Hafsteins, Helgu Sigurðar, Elínborgar Ólafs og Berglindar Sigurðardóttur. Þúsund þakkir þið elskulegu konur !

Þúsund þakkir líka til myndarlegu strákanna á framboðslistanum sem báru borð og stóla, sóttu dansgólf útí sveit og þjónuðu dömunum síðan til borðs í gærkvöldi. Þetta var frábær lokahnykkur á kosningabaráttu sem farið hefur afar skemmtilega fram hér í Hveragerði. Skoðið endilega myndir frá kvöldinu hér.

Í dag, föstudag, verða frambjóðendur á ferð og flugi um bæjarfélagið. Með gleði og sól í sinni! Þið sem hyggið á ferðalög um helgina endilega muna að kjósa áður en lagt er af stað. Hvert einasta atkvæði skiptir máli !

24. maí 2010

Sérhvert vinarorð vermir
sem vorsólarljós
Sérhver greiði og góðvild
er gæfunnar rós.

Hvort sem leiðin þín liggur
um lönd eða höf
gefðu sérhverjum sumar
og sólskin að gjöf.
(Þ.Þ.Þ.)

Ætlaði að setja þetta í greinarkorn en síðan féllu þessar fallegu vísur ekki nógu vel að textanum. Varð of langt! Birti þær hér sem leiðarljós inní síðustu daga kosningabaráttunnar.

Höfum þetta öll til hliðsjónar nú þegar baráttan stendur sem hæst. Jákvæðni, gleði, sanngirni og heilindi er það sem ávallt hefur reynst fólki best.

Annars var fjölskylduhátíð D-listans haldin í miklu blíðskaparveðri í dag. Hundruðir lögðu leið sína til okkar og gæddu sér á grilluðoum pylsum, gosi, ís og bláu krapi. Fólk afslappað og tók því rólega á grasbölunum umhverfis kosningaskrifstofuna. Börnin alsæl með hoppukastalann og léku sér dátt allan daginn. Þetta var afar góður dagur.

Í kvöld erum við að leggja lokahönd á greinar í blöð, síðustu forvöð! Fjórir dagar til kosninga og nóg að gera þá daga alla. Í hópnum ríkir feikilega góður andi og allir leggjast á eitt. Fjöldi fólks hefur bæst í hópinn og sérstaklega er gaman að sjá hversu öflugir ungir eru. Sá hópur er ótrúlegur, það er ljóst að landið verður í góðum höndum til framtíðar litið ef allir eru eins og unga fólkið okkar hér í Hveragerði.

Vinnustaðafundir á morgun og trúið því eður ei... Dansæfing kvennanna á listanum kl. 17:30. Altså fyrir konukvöldið sem haldið verður á fimmtudagskvöldið. Frábær dagskrá, góðar veitingar, happdrætti og gjöf fyrir allar konur, og allt ókeypis. Húsið opnar kl. 19:30, dagskrá hefst kl. 20. Það ætti engin að missa af þessu. Þetta er klárlega hápunktur kosningabaráttunnar í Hvergerði hvar í flokki sem við stöndum.

22. maí 2010

Kosningabaráttan á lokasprettinum. Nú er svo sannarlega nóg að gera. Lögð er áhersla á að ræða við sem flesta íbúa hér í Hveragerði. Sem betur fer fáum við fjölmarga gesti á skrifstofuna og í gærkvöldi var til dæmis stöðugt rennirí og aftur er það sama uppá teningnum í dag. Þessi staðsetning skrifstofunnar er að virka afar vel en fjölmargir rölta hér við um leið og farið er í kvöldgöngu og oft eru ferfættir vinir tjóðraðir hér fyrir utan á meðan eigandinn skreppur inn í kaffi.

Allur framboðslistinn hittist í morgun kl. 10 og vann ötullega til kl. 13:30 þá var farið í kjúklingasúpu sem framreidd var að hætti Tryggva á skrifstofunni. Síðan streymdu inn veitingar allan daginn þannig að ekki væsti um mannskapinn. Það er svo merkilegt að veitingarnar bara birtast! Einhver skellir í köku og hún á hvergi betur heima en akkúrat hjá D-listanum :-) Þetta er alveg stórkostlegt! En andinn er líka svo skemmtilegur og góður, það hafa allir fengið nóg af slíku. Við kynnum það sem hefur verið gert og ræðum það sem við helst viljum gera til framtíðar litið.

Í dag var útför Rannveigar Hjálmarsdóttur gerð héðan frá Hveragerðiskirkju. Við Svava vinkonu fórum saman en við vorum með Rannveigu í ITC allan þann tíma sem deildin Rós starfaði hér í Hveragerði, yndisleg kona og hagmælt mjög. Eftir hana liggur til dæmis textinn Byggðin mín sem mér finnst svo fallegur. Kór eldri borgara söng þetta lag afskaplega fallega við útförina.

Byggðin mín

Byggðin mín er ímynd alls
er óskar hugur manns.
Allt ber vitni austanfjalls
um alúð skaparans.
Líkt og ilm í blíðum blæ
blessun hans ég finn.
Í Hveragerði, blómabæ
er bústaðurinn minn.

Í heiðar skjóli og Hamars vörn
er hugljúft gróðurvé.
Hérna vaxa upp broshýr börn,
blómaskrúð og tré.
Hveragerði heiðurs sess
hljóti sí og æ,
yndisfríð er ásýnd þess,
ég elska þennan bæ.

(Lag: Love me tender)

---------------------------------------
Í gær kvöddu Hvergerðingar Berglindi Bjarnadóttur, kennara við Grunnskólann sem lést langt fyrir aldur fram eftir erfið veikindi. Eiginmanni, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum sendi ég samúðarkveðjur.

Þegar óbærileg sorg knýr að dyrum finnur maður best hversu mikils virði góðir vinir eru. Samstarfsfólk Berglindar í Grunnskólanum sýndi aðdáunarverða samheldni og dugnað í gær, slíkt er ómetanlegt á erfiðum stundum.

21. maí 2010

Heimsóttum vinnustaði í dag og fengum fínar viðtökur. Síðasti bæjarráðsfundurinn var síðan síðdegis í dag. Hann tók ekki nema um 20 mínútur enda ekki mörg mál á borðinu. Nú tekur við hörkuvinna fram að kosningum þannig að ég er komin í sumarfrí frá vinnunni. Ætla samt að kíkja á skrifstofuna öðru hverju og lesa póstinn og ganga frá erindum.

Fengum góða heimsókn á kosningaskrifstofuna í kvöld en þangað mættu forsvarsmenn knattspyrnudeildar til að ræða aðstöðu til fótboltaiðkunar. Áttum góðar samræður um þessi mál og báðir hópar urðu nokkurs vísari um afstöðu hins.

Hitti unga sjálfstæðismenn seint í kvöld og sýndum við snilldartilþrif í að líma miða á bréf :-)

Viðburðir næstu dag:
Á mánudaginn, annan í hvítasunnu, verður fjölskyldustemning við kosningaskrifstofuna, grillaðar pylsur, ís og gleði kl. 14! Leiktæki fyrir yngstu kynslóðina. Allir að mæta :-)


Á miðvikudaginn verður borgarafundur í Gamla hótel Hveragerði kl. 20.

Á fimmtudaginn verður dömukvöld D-listans haldið í Gamla Hótel Hveragerði

18. maí 2010

Öflugur dagur í dag. Gekk frá fundarboði fyrir fund bæjarráðs sem haldinn verður næsta fimmtudag. Það verður síðasti fundur kjörtímabilsins. Kjörskrána sem er nýkomin í hús verður að samþykkja áður en hún er lögð fram og það gerist á morgun. Því var boðað til aukafundar í bæjarstjórn sem hófst kl. 18:30. Sá fundur stóð reyndar ekki nema í 10 mínútur enda ekki lengi gert að samþykkja eina fundargerð, kjörskrána og eitt veitingaleyfi. Þetta var síðasti bæjarstjórnarfundurinn því bæjarráði var falin fullnaðarafgreiðsla á öllum kærum vegna kosninganna. Á reyndar ekki von á að þær verði margar því fáir uppfylla þau skilyrði að hægt sé að kæra inn á kjörskrá.

Á fundinum var gefin jákvæð umsögn um veitingaleyfi fyrir Eden aldingarði en vonir standa til að þar geti hafist veitingarekstur í byrjun júní. Verður spennandi að sjá hvernig nýir rekstraraðilar haga rekstrinum.

Átti nokkur símtöl vegna lausagöngu hunda en Kristján Jónsson, hundafangari, stendur sig afar vel í starfi. Það er fengur að manni með jafn mikla reynslu og hann hefur. Lausaganga hunda hefur líka minnkað enda er hart tekið á henni núna og margir sem hafa lent í því að þurfa að ná í hundinn sinn niður í Flóa og reiða af hendi sekt vegna lausagöngunnar. Skilningur verður að ríkja á þeirri staðreynd að fullt af fólki er logandi hrætt við hunda og sum börn þora ekki út úr húsi ef þau eiga á hættu að mæta lausum hundi.

Eftir fund á kosningaskrifstofunni síðdegis og í kvöld fór ég aðeins á rúntinn að skoða aðstæður í nýju hverfunum vestast í bænum. Þar hafa garðar og hús tekið miklum stakkaskiptum en hverfið er orðið afar skemmtilegt. Mér fannst líka gaman að sjá hversu fallegt er orðið í kringum nýja Búmanna hverfið. Allt hellu- og graslagt og frágengið að utan. Mjög snyrtilegt og þeim til mikils sóma sem standa að byggingunum.

Á morgun verður borinn út nýr Bláhver. Við finnum alls staðar jákvæða strauma í okkar garð en nú þurfa allir að muna eftir að kjósa. Þeir sem ekki verða heima á kjördag geta kosið hjá sýslumanni og komið atkvæðinu á bæjarskrifstofuna. Endilega hvetjið þá sem þið þekkið og eru að fara í burtu til að greiða atkvæði sem fyrst. Eins þeir sem eru í útlöndum, því það tekur tíma að koma atkvæðinu heim. EN hvert atkvæði skiptir máli ....

17. maí 2010

Eftirfarandi setning dúkkar upp á skjánum hjá mér oft á mínútu. Your browser appears to be offline. Please check your internet connection and try again. ... sem aftur gerir það að verkum að það er ekki vinnandi vegur að vera á netinu hér heima ! ! ! Þetta er vægast sagt frekar þreytandi. Man aldrei eftir að kanna ástæður þessa á dagvinnutíma þegar einhver snillingur gæti aðstoðað mig við að laga þetta...

Annars var dagurinn góður. Skrifaði undir samning við Þór Ólaf Hammer um leigu á tjaldsvæðinu næstu tvö árin. Það eru nokkrar vikur síðan bæjarstjórn samþykkti samninginn en við Óli höfum ekki náð saman fyrr en í dag sem auðvitað var löngu tímabært. Óli og Margrét ráku tjaldstæðið í fyrra og held ég að engu sé logið um að aðsóknin jókst stórlega. Ferðamenn eru löngu farnir að mæta á svæðið þetta vorið og greinilegt að margir hafa tekið miklu ástfóstri við Hveragerði.

Setti einnig slatta af fréttum á heimasíðu Hveragerðisbæjar, nóg er um að vera svo það verður að dreifa þeim aðeins svo þær fari ekki allar á síðuna sama daginn. Mér fannst fréttin um kerrupúlið sérlega skemmtileg enda greinilegt að þetta er afskaplega skemmtilegur félagsskapur. Myndirnar af fyrirhugaðri viðbyggingu við grunnskólann eru líka afar flottar og ég hvet alla til að kíkja á þær. Hér má finna heimasíðu bæjarins.

16. maí 2010

Kosningabaráttan er nú að komast á lokastig enda styttist óðum í kosningadaginn þann 29. maí. D-listamenn eru búnir að bera út stefnuskrá í öll húsin í bænum en það tók miklu lengri tíma en við héldum þar sem við stoppuðum lengi í mörgum húsum. Í staðinn var þetta afskaplega skemmtilegt og virkilega gaman að heyra viðhorf fólks til stjórnunar bæjarfélagsins. Viðbrögðin voru afar jákvæð en þó er það ljóst að vel þarf að halda á spöðunum fram á kjördag en andstæðingar okkar fylkja nú liði, Samfylking, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn, með það sem meginmarkmið að fella núverandi meirihluta. Það er þó sérstakt að hópurinn vill ekki kannast við flokkana sem bakvið framboðið standa! En á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku var fundargerðum kjörstjórnar skipt út þar sem í þeim stóð að Alistinn væri framboð Samfylkingar, Framsóknar og Vinstri grænna. Það mátti alls ekki standa í fundargerð þó óumdeilt sé að þessir flokkar standi að framboðinu. Þessa mátti heldur ekki geta á kjörseðlunum sjálfum þannig að ekki eru frambjóðendurnir ýkja stoltir af upprunanum!

Vaknaði annars óvanalega snemma í morgun og fyrir klukkan tíu var ég búin að taka til í húsinu, ganga frá þvotti og fleira nauðsynlegt. Þá labbaði ég hringinn undir Reykjafjalli en veðrið var alveg dásamlegt. Fíflar og hófsóleyjar prýddu götukantinn og öll tré eru að verða laufguð. Yndislega fallegur morgun. Stoppaði hjá Geira og Reyni í sundlauginni og dáðist að nýbónuðum gólfum og nýmúraðri stétt og máluðum pottum um leið og við ræddum viðgerðina á laugarkerinu sem er ansi umfangsmikil. Viðlagatrygging kemur að þeirri framkvæmd enda eru skemmdirnar að stærstu leyti vegna skjálftans 2008. Vonandi líða ekki margar vikur áður en hægt verður að opna laugina að nýju en þegar hefur líkamsræktin, pottarnir og gufan verið opnað almenningi.

Eftir hádegi fórum við Albert Ingi í fermingarveislu Birgis Rúnars og Árna Þórs Steinarssona Busk. Þetta var hin fínasta veisla, flottar veitingar, skemmtilegir gestir og sérlega myndarlegir fermingardrengir. Til hamingju öll í tilefni dagsins :-)

Eftir veisluna var farið beint á kosningaskrifstofuna en þar var heilmikið líf eins og alltaf er. Það er mikið um að fólk komi við um leið og það skreppur í gönguferð eða fer út að hjóla. Staðsetningin er líka sérlega góð, þarna í gamla miðbænum. Á kosningaskrifstofunni er ekki bara drukkið kaffi og borðaðar kökur, heldur fer þar fram heilmikil vinna. Núna þurfum við að vakta alla þá sem eru að fara í burtu og hugsanlega verða ekki heima á kjördag. Það eru mýmörg dæmi um það að kosningar hafi tapast á örfáum atkvæðum, við ætlum ekki að láta það gerast hér...

Listinn var í myndatöku í góðviðrinu í gær. Þessi fína mynd var þá tekin af þeirri sem þetta skrifar. Mikið lifandis býsn er ég ánægð að hafa tekið mataræðið jafn vel í gegn og raun var á fyrir um ári síðan. Þá hryggðarmynd sem ég þá var orðin getið þið séð á hinni myndinni. Það munar um 15 kíló eins og hér sést hvað best :-)

6. maí 2010

Var að koma heim eftir frábæra tónleika með söngsveit Hveragerðis. Þar fóru Álftagerðisbræður á kostum og Margrét stjórnandi syngur alltaf eins og engill. Ég hef undanfarin ár alltaf reynt að mæta á tónleikana þeirra enda finnst mér þetta hin besta skemmtun.

Fyrir kvöldmat dreifðum við Gummi stefnuskrám í Dalsbrún og nokkrar íbúðir í Lækjarbrún. Við verðum sennilega alla vikuna að þessu en þetta er líka ótrúlega skemmtilegt. Í dag hittum við fólk sem er nýflutt og aðra sem hafa búið hér lengi. Einnig fólk sem á íbúð í Lækjarbrún sem það nýtir sem sumarhús en allir voru jafn áhugasamir um bæjarmálin og vildu gjarnan ræða málin. Reyndar er farið að gera grín að því hversu lengi ég er í hverju húsi og að enginn vilji ganga með mér því ég tali svo mikið! Skil það ekki :-)

Hitti Gunnvöru og Guðlaugu á leikskólanum Óskalandi í morgun. Fórum yfir starfsmannamál en þónokkrar breytingar eru fyrirsjáanlegar. Skólaganga, barneignir og búferlaflutningar gera að verkum að auglýsa þarf eftir nokkrum starfsmönnum sem tekið gætu til starfa eftir sumarfrí. Ræddum einnig ýmis önnur mál er snúa að starfsemi leikskólans en gott er að fara yfir þessi mál öll með reglulegum hætti.

Annars var ansi mikill erill í dag. Ræddi við lögmann Sambandsins vegna hæstaréttardóms sem féll bænum í óhag og gjörbreytt getur innheimtu gatnagerðargjalda í sveitarfélögum almennt. Verður fróðlegt að heyra hvernig staða þeirra mála er almennt í sveitarfélögunum. Fór yfir málefni sundlaugar en þar er nú unnið að viðgerðum á laugarkerinu í samvinnu við viðlagatryggingu. Opna á nýja aðstöðu á hverasvæðinu með pomp og prakt í næstu viku og það þarfnast undirbúnings. Nokkur erindi bárust frá íbúum sem þurfti að sinna og ótrúlegur fjöldi tölvupósts barst í dag. Nóg að gera og því líflegt á bæjarskrifstofunni eins og endranær...

Renndi yfir grein um skuldastöðu sveitarfélaga á Suðurlandi sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Þar vakti það helst athygli mína að unnið er með tölur úr fjárhagsáætlun ársins 2010 en ekki rauntölur ársins 2009 sem nú liggja fyrir í öllum sveitarfélögum. Við fyrstu sýn skildi ég hvorki upp né niður í þeim tölum sem lagðar voru til grundvallar í greininni en sá svo hvernig í pottinn var búið. Skuldastaða Hveragerðisbæjar er heldur meiri en meðaltalið en óralangt frá þeim sem skulda mest. Þessi umræða sem nú er í gangi um gríðarlegar skuldir bæjarfélagsins er vægast sagt sérkennileg og þó að ég geti alveg setið undir því sem þar er skrifað og sagt, enda löngu komin með harðan skráp, þá þykir mér verra þegar allt sem ég segi er rangtúlkað eða lagt út á versta veg. Þetta er ekki síst slæmt fyrir bæjarfélagið sem annars hefur vakið athygli fyrir þann einhug og samstöðu sem hér hefur tekist að byggja upp að undanförnu.

4. maí 2010

Yndislega fallegt veður í dag, hlýtt og logn, nú sér maður trén laufgast og gróðurinn taka við sér. Þetta er einn alskemmtilegasti árstíminn og besta stundin er akkúrat þegar maður tekur eftir grænu slikjunni sem skyndilega er komin á öll trén hér í Heiðmörkinni! Á kosningaári verða garðverkin því miður að mestu leyti að bíða fram í júní en nágrannar okkar eru þegar byrjuð að vinna í sínum garði. Það er alltaf ansi hvetjandi að verða vitni að því :-)

Í dag heimsóttum við María sambýlið við Birkimörk hér í Hveragerði. Það opnaði að mig minnir síðla árs 2006 en þarna eiga heima fimm einstaklingar sem glíma við mismikla fötlun. Húsnæðið er auðvitað nýtt og því afskaplega fallegt en enn betra er að öll aðstaða og aðbúnaður er með allra besta móti. Þarna vinna 15 starfsmenn í 10 stöðugildum og ég gat ekki annað heyrt en að starfsandi væri afskaplega góður. Við hittum Steinunni forstöðukonu og nokkra starfsmenn. Fræddumst hjá þeim um starfsemina og fórum síðan yfir þær væntingar sem við allar höfum til yfirfærslunnar á málefnum fatlaðra en þessi málaflokkur mun flytjast yfir til sveitarfélaganna í byrjun næsta árs. Ég hef þá trú að það muni verða gæfuspor og þá ekki síst fyrir þá einstaklinga sem þjónustunnar njóta.

Hitti Valgeir formann Knattspyrnudeildar Hamars í dag en hann kom með erindi sem lagt verður fyrir bæjarráð í vikunni. Notuðum tækifærið og ræddum einnig um þau áform sem uppi eru um framtíðaruppbyggingu aðstöðu til knattspyrnuiðkunar. Það er einlægur vilji meirihlutans að aðstaðan verði bætt en til þess gætum við þurft að áfangaskipta framkvæmdum. Slíkt er aftur á móti ekki frágangssök en sýnir viljann i verki.

Náðum ekki nema rétt rúmum hálftíma í stefnuskrár dreifingu í kvöld enda Lalli á næturvakt. Á morgun ætlum við Lalli fyrir kvöldmat í Lækjarbrúnina og eftir kvöldmat förum við Elsa í restina af Heiðarbrúninni. Ég er svo þakklát fyrir þær góðu móttökur sem við erum að fá. Fólk er afar kurteist og vill gjarnan spjalla og benda okkur um leið á ýmislegt sem má bæta en ekki síður á það sem gott hefur verið gert. Fékk góða athugasemd frá karlmanni á miðjum aldri í kvöld: "þetta með bæjarstjórnina er eins og hjónabandið, grasið er einfaldlega ekkert grænna hinu megin"

Vil síðan endilega deila með ykkur þessari skondnu mynd af okkur Guðna Péturssyni núverandi bæjarstjóra í Ölfusinu. Hún var tekin á hverasvæðinu um daginn en þarna erum við nýbúin að prófa leirinn sem verið er að koma þar fyrir. Unnið er að opnun svæðisins í næstu viku og búið er að koma fyrir fótaböðum og leirböðum fyrir hendur og fætur, síðan hitti ég 5 fiðraða tilvonandi íbúa svæðisins í dag þar sem þeir voru staddir í skottinu á bílnum hennar Elfu :-)

3. maí 2010

Öflugur dagur í vinnunni. Fór yfir öryggismál og nágrannavörsluna með Guðmundi Baldurssyni en nú þarf að gangast í þau atriði sem útaf standa áður en fundir verða haldnir með götustjórunum. Ætlum til dæmis að hafa skiltin og límmiðana tilbúna áður en fundirnir hefjast. Einnig þarf að ýta á eftir uppsetningu myndavélanna við innkeyrslurnar og tengingu þeirra. Vonandi að skriður komist nú á þessi mál öll.

Gladdist mjög þegar ég sá að malbikunarvélarnar voru mættar í bæinn. Nú er planið við Hverakaup orðið eggslétt og flott og eins er búið að malbika Varmahlíðina, en þar hafa íbúar sýnt ótrúlega biðlund á meðan að framkvæmdir í götunni stóðu yfir. Stefnt er að fullnaðarfrágangi í þessum mánuði, nú á eftir að steypa kantsteininn áður en hægt verður að malbika gangstéttina. Um leið og það verður gert þá verður gangstéttin upp Gossabrekku malbikuð og einnig gangstéttin meðfram Grænumörkinni. Löngu tímabærar framkvæmdir sem íbúar hafa beðið eftir til fjölda ára.

Framkvæmdir eru víða í gangi í bænum en sundlaugin er til dæmis lokuð vegna viðgerða á laugarkerinu. Það var víða sprungið eftir jarðskjálftann svo þeim sprungum þarf að loka og síðan þarf að mála kerið. Heilmikil framkvæmd og því er laugin lokuð í hálfan mánuð ef vel gengur. Einnig er unnið að því að drena Fossflötina sem því miður hefur verið svo til ónothæf vegna bleytu í flötinni. Vonandi að þessar aðgerðir beri árangur.

Síðdegis var fundur í Almannavarnanefnd Árnessýslu þar sem áhættumat og greining fyrir sýsluna var samþykkt. Þetta hefur verið heilmikil vinna sem hvað mest hefur mætt á Ólafi Helga Kjartanssyni, Oddi Árnasyni og Kristjáni Einarssyni. Vettvangstjórnir hafa verið skipaðar í hverjum byggðakjarna og þar er valinn maður í hverju rúmi.

Í kvöld fórum við Elsa Busk og bárum út stefnuskrána í Heiðarbrúnina og Grænumörk. Þetta er afskaplega skemmtilegt en við bönkum uppá og spjöllum við fólkið um leið og við kynnum stefnuskrána. Í gær fórum við Lárus "sjötti" í miðbæinn og á morgun munum við halda áfram með Heiðarbrúnina og restina af miðbænum. Síðan er kosningaskrifstofan opin alla daga svo þangað er tilvalið að bregða sér að kvöldi til, þiggja tíu dropa úr nýju flottu kaffivélinni hans Eyþórs og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar...

2. maí 2010

Í gærkvöldi var haldinn vorfagnaður Hljómlistarfélags Hveragerðis. Mikið fjör enda fyrirtækin í bænum og framboðin með atriði í "eitís" stíl. D-listinn flutti tunglskinsdansinn með Stuðkompaníinu og við skemmtum okkur allavega ferlega vel :-)
Elínborg er auðvitað frábær söngkona og Birkir átti sterka innkomu á einhjólinu!
Þrátt fyrir þrotlausar æfingar og að mikið væri lagt í búninga, útlit og sviðsframkomu unnum við samt ekki, skrýtið! Skilst að það hafi heldur ekki verið hægt að toppa Heilsustofnun sem vann með glæsibrag Þetta ball er skemmtilegur siður og gaman að sjá að það virðist vera að ná aftur fyrri vinsældum.

Fór í morgun, laugardag, og hitti nýja aðila sem eru að ganga frá samningum um leigu á Eden. Þeir eru með hugmyndir um reksturinn sem ég held að eigi að geta gengið upp og eftir þennan fyrsta fund þá hef ég heilmikla trú á því að þeir eigi að geta rifið upp reksturinn. Eden er afar mikilvægur staður fyrir okkur Hvergerðinga og því er mikilvægt að fá reksturinn þar aftur í gang. Það var merkilegt að upplifa það að þennan stutta tíma sem ég stoppaði inní Eden þá var stöðugur straumur ferðamanna að húsinu, það er því ljóst að orðsporið lifir enn góðu lífi ...

Í dag opnaði D-listinn kosningaskrifstofuna með pompi og pragt. Við erum í þetta skiptið í húsnæði við miðbæjartorgið eða við hliðina á rýminu sem áður hýsti Miss Klipper. Fínn staður og gaman að sjá hvað það er mikið rennirí í miðbænum. Við viljum alltaf helst vera þar enda erum við þeirrar skoðunar að skrifstofurnar eigi að lífga uppá umhverfið! Það munum við örugglega gera næstu vikur í miðbænum. Fullt af fólki kíkti við í dag og þáði kökur af hlaðborðinu sem boðið var uppá. Hjálmar Jónsson, fyrrverandi þingmaður og Dómkirkjuprestur, kom í heimsókn og sagði nokkrar skemmtisögur, Jón Ingi og Ómar spiluðu á nikkurnar og Máney barnabarn Ómars söng nokkur lög. Síðan tróð listinn upp með atriði gærkvöldsins viðstöddum til mikillar gleði :-)
Héðan í frá verður skrifstofan opin milli kl. 12 og 18 um helgar og frá 18-22 á virkum dögum. Endilega kíkið við sem flest, það er alltaf heitt á könnunni en Eyþór mætti galvaskur í morgun með þessa fínu sjálfvirku kaffihúsakönnu öllum þeim sem drekka kaffi til mikillar gleði...

Haldið var uppá afmæli Hafrúnar Kemp Helgadóttur í dag en hún litla frænka mín er nú orðin 2 ára. Þetta var frábær veisla enda félagsskapurinn góður! Litla systirin hún Vigdís svaf svo til allan tímann en Aldís frænka fékk nú samt aðeins að sinna litla yndinu sem í dag var 8 daga gömul.

Í kvöld hitti ég unga Sjálfstæðismenn á kosningaskrifstofunni en hópurinn vinnur nú ötullega að kosningaundirbúning. Þau eru afar öflug og eru að gera virkilega góða hluti.

Klukkan er orðin vel rúmlega tólf og enn ómar söngurinn af tjaldsvæðinu hingað heim. Það er greinilega mikið fjör enda fjölmargir húsbílar á svæðinu. Mér finnst næstum því eins og þessi vertíð nái saman enda hafa verið húsbílar á svæðinu í allan vetur. Það er ánægjulegt að sjá að ferðamönnum líður vel hér hjá okkur og ekki pirrar söngurinn minn nokkurn skapaðann hlut, langaði helst að dansa við harmonikku undirleikinn hér á pallinum norðan við hús :-)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet