<$BlogRSDUrl$>

28. apríl 2010

Undanfarin ár hefur ríkt hið þokkalegasta samkomulag milli bæjarfulltrúa A- og D-lista. Hef ég til dæmis haft fyrir sið að hafa samband við minnihlutann fyrir fundi til að fara yfir málefnin sem þar á að ræða og iðulega sendi ég þeim fundargerðina með þeim bókunum sem þar á að gera svo þau geti undirbúið sig sem best. Þetta er siður sem aldrei hefur tíðkast í Hveragerði svo ég viti til en er góður og gefur öllum tækifæri á sömu upplýsingum fyrir fundina. Fundir hafa verið léttir og skemmtilegir og þó að bókanir hafi verið þónokkrar þá gefa þær oftast ekki rétta mynd af anda fundanna. Því þykir mér leiðinlegt að verða vör við þann neikvæða tón og aðdróttanir sem nýr frambjóðandi A-listans setur fram í skrifum sínum á Facebook eftir að hafa fylgst með bæjarstjórnarfundi í gær þar sem ársreikningur var samþykktur. Það er afar erfitt að koma upplýsingum til fólks sem neitar að skilja staðreyndir!

Þetta verður enn meira áberandi við lestur greinar eftir sama frambjóðanda, Njörð Sigurðsson, í Sunnlenska í dag. Þar fjallar hann um mikilvægi skógræktarsvæðisins undir Hamrinum sem útivistarsvæðis sem við Hvergerðingar eru reyndar öll sammála um. Það þarf reyndar ekki að kenna okkur D-listamönnum neitt um gildi þessa svæðis sem útivistarsvæðis enda sú stefna löngu mörkuð. Þarna eyddi ég líka ófáum eftirmiðdögunum í gróðursetningu og umhirðu með fjölskyldunni og fleiri góðum Hvergerðingum en þar var Binna heitin óumdeildur leiðtogi. Mamma er búin að vera í stjórn Skógræktarfélagsins í óteljandi ár og höfum við fylgt henni í þeim störfum. Síðan er gaman að segja frá því að Eyþór sem nú skipar 1. sæti á D-listanum er formaður þessa sama félags. Aldrei hef ég aftur á móti orðið vör við núverandi bæjarfulltrúa eða núverandi frambjóðendur A-listans gefa af dýrmætum frítíma sínum í sjálfboðastörf í skógræktinni! Sá þá til dæmis ekki síðasta sumar þegar við fórum um 10 manna hópur og gróðursettum lifandis býsn í austasta hluta svæðisins.

Njörður leggur til í grein sinni að gaman væri að koma upp upplýsingaskiltum um gróðurinn undir Hamrinum. Því miður virðist frambjóðandinn Njörður hafa gleymt að kynna sér að þegar er búið að opna "Trjásafn" undir Hamrinum í samvinnu Hveragerðisbæjar og Skógræktarfélagsins, en það var opnað með pompi og prakt á Blóm í bæ í fyrra. Einnig virðist hann hafa "gleymt" að kynna sér þá staðreynd að það voru A-listamenn árið 2002-2006 sem lögðu fram tillögur um byggingar á Ullarþvottastöðvar reitnum og íbúar mótmæltu. Á núverandi kjörtímabili leysti bæjarfélagið til sín eignina eftir að hafa staðið frammi fyrir stórkostlegu skipulagsklúðri A-listans sem gerði þann gjörning óhjákvæmilegan. Ég verð að játa það að mér finnst ekki til of mikil mælst að frambjóðendur kynni sér málin betur áður en farið er fram á ritvöllinn með þeim hætti sem þarna er gert.

26. apríl 2010

Góður dagur á skrifstofunni. Ganga þurfti frá ýmsum málum sem komið hafa upp að undanförnu. Svara erindum og tölvupóstum sem hlaðast upp hraðar en auga á festir ef þeim er ekki svarað um hæl. Ég hef fyrir sið að flokka úr innboxinu á hverjum degi þannig að eftir sitji einungis þeir póstar sem ekki hefur verið svarað. Þannig hef ég mörgum sinnum betri yfirsýn yfir það sem eftir er að gera. Mér finnst þetta afar góð venja og þrátt fyrir allt vinnusparandi.

Auk ýmissa verkefna dagsins þá heyrði ég í nokkrum íbúum sem eins og venjulega geta auðveldlega hitt mig ef ég á annað borð er í húsi. Fékk heimsókn í dag frá íbúa sem kvartaði undan ófrágengnu húsi í næsta nágrenni við sig. Þar virðast ungmenni farin að venja komur sínar sem er ekki bara hættulegt fyrir krakkana þar sem í svona húsum geta leynst ýmsar hættur heldur gjörsamlega óþolandi fyrir nágrannana. Við svona athugasemdum verður að bregðast. Fékk einnig símtal frá íbúa sem kvartaði undan bílastæðavandamálum í kringum heilsugæsluna, þar er svo mikil aðsókn að félagi eldri borgara sem er þar á efri hæðinni að iðulega er erfitt að fá stæði fyrir þá sem eru að sækja heim heilsugæsluna og apótekið. Ég mun koma þessari athugasemd á framfæri við aðila í húsinu en að öðru leyti getur bærinn ekki aðhafst þar sem þetta er einkalóð. Fékk heimsókn frá afskaplega góðum manni sem vill frekar vinna hér í Hveragerði heldur en að sækja vinnu yfir heiðina. Vísaði honum á nokkra aðila til að ræða við og hvatti hann síðan til að fylgjast vel með í staðarblöðunum því þrátt fyrir erfitt atvinnuástand þá er verið að auglýsa eftir starfsfólki eins og best sást á síðasta Hverafugli.

Fór yfir málefni vinnuskólans og sumarvinnunnar en fjöldi ungmenna hefur sótt um sumarstörf hjá bæjarfélaginu. Það er okkur mikið kappsmál að reyna að finna öllum verkefni en það getur samt aldrei orðið þannig að allir fái vinnu við það sem þeir helst óska eftir. Afleysingar í sundlauginni eru til dæmis vinsælar en þar er um afar fáar stöður að ræða þannig að ekki allir fá sem vilja.
Varðandi sumarstörf námsmanna þá fékk ég nýlega send drög að reglum vegna atvinnuátaks ríkisstjórnarinnar fyrir námsmenn komandi sumar. Mér leist afar vel á þær hugmyndir sem þar komu fram og við munum alveg áreiðanlega sækja í þann sjóð til að gera bæjarfélaginu kleyft að ráða sem flesta námsmenn til starfa í sumar, en það er einleigur vilji bæjarfélagsins að veita sem flestum ungum vinnu en til þess þarf auðvitað að koma til fjármagn.

Í kvöld kíkti ég í heimsókn til systranna á Grund, Svövu og Gunnu, en Svava á afmæli í dag. Sátum við fram eftir kvöldi og fórum yfir landsins gagn og nauðsynjar. Við höfum þekkst alla ævi og slíkur vinskapur er ómetanlegur. Þegar ég flyt í Hveragerði rétt rúmlega eins árs þá flytjum við í gamalt hús, Varmalæk, sem stóð þar sem nú er Arionbanki. Í næsta húsi bjuggu þá Adda, Svava og Gunna og síðan þá höfum við verið vinkonur. Hér er þessi líka fína mynd af okkur öllum í garðinum á Varmalæk. Valdimar bróðir er þarna í fanginu á pabba, gamli skólinn og barnaskólinn í baksýn!

25. apríl 2010

Annasöm helgi að baki en dagarnir virðast flestir vera fullir af skemmtilegum uppákomum nú um stundir. Síðdegis á föstudag var haldinn aðalfundur Kjörís en fyrirtækið hefur haldið sjó með þokkalegum hætti undanfarið ár. Það er mikið fagnaðarefni. Á föstudagskvöldið fórum við Lárus með strákana að sjá leikritið Dúfurnar í Borgarleikhúsinu. Hin þokkalegasta skemmtun en ég var nú ekki bergnumin verð ég að viðurkenna.

Á laugardaginn skruppum við fjölskyldan norður á Sauðárkrók þar sem stórveisla var haldin til heiðurs Bjarna "afa" Haraldssyni, kaupmanni, sem varð 80 ára í mars. Þetta var frábær veisla og skemmtileg eins og Skagfirðinga er siður. Þar var mikið sungið og sagðar sögur þannig að mér sýndist fólk skemmta sér hið allra besta. Það er nú heldur ekki erfitt að tala fallega til Bjarna nú eða segja af honum skemmtilegar sögur en mörg tilsvör hans og gjörðir eru þegar orðin að þjóðsögum nyrðra. Ég setti saman smá ræðu fyrir hönd okkar fjölskyldu og áhugasamir geta lesið hana hér!

En það er alltaf gaman að koma á Krókinn og nú var þvílíkt fjör á staðnum enda stórsýning atvinnulífs Skagafjarðar haldin í íþróttahúsinu. Við Lalli komumst því miður ekki á sýninguna en strákarnir skruppu og skemmtu sér hið besta.

Þó stoppið væri stutt, en við keyrðum suður aftur um kvöldið, þá var gríðarlega gaman að hitta fjölskylduna en það hefur verið frekar stutt á milli veisluhalda hjá hópnum undanfarið en í sumar sem leið var haldið uppá 90 ára afmæli búðarinnar hans Bjarna.

Í dag sunnudag hittist framboðslistinn kl. 13 og eyddi saman deginum við að fara yfir helstu stefnumál fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí. Mjög góður og árangursríkur dagur og ekki síst skemmtilegur en í þessum hópi er mikið hlegið og mikið fjör, þannig á þetta líka að vera :-)
Næsta vika verður undirlögð vinnu hjá hópnum en nú fer tíminn að styttast til kosninga og því nauðsynlegt að haldið sé vel á spöðunum.

Ég er enn og aftur komin með einhverja leiðinda pest þannig að í dag gafst ég upp og fór á pensillín, rétt eins gott að það virki, en þetta auma heilsufar undanfarna mánuði hefur verið að gera mig verulega pirraða....

22. apríl 2010

Þegar ekkert er skrifað á bloggið þá þýðir það yfirleitt að alltof mikið sé um að vera og enginn tími til að skrifa. Það á ansi vel við nú enda tekur hvert verkefnið við af öðru þessa dagana. Í dag fögnuðu Hvergerðingar sumri með sama hætti og undanfarin ár. Skátamessa í morgun og síðan "garðyrkjuskólinn" eftir hádegi. En heimsókn í Landbúnaðarháskólann að Reykjum markar upphaf sumarkomu í mínum huga. Þar var í dag Íslandsmeistarkeppnin í blómaskreytingum, ýmis verðlaun veitt til aðila í græna geiranum og Hveragerðisbær veitti umhverfisverðalun bæjarins en í ár hlaut Golfklúbburinn þann heiður vegna umhverfisframkvæmda við völlinn í Gufudal, en golfvölurinn þar er vafalaust með skemmtilegri golfvöllum landsins. Það er alltaf skemmtilegt í skólanum þennan dag og ekki síst vegna þess að þarna hittir maður svo marga en fjölmargir hafa fyrir sið að fagna sumarkomu að Reykjum. Við Adda og Svava skruppum til skátanna í vöfflur áður en við héldum í afmæli Steinunnar og Garðars sem haldið var í Básnum en mikið fjölmenni fagnaði með þeim hjónum í tilefni af 70 ára, 75 ára og 50 ára hjúskaparafmæli þeirra.

Undir kvöldmat hittist framboðslistinn til málefnavinnu. Þetta er afskaplega flottur hópur þar sem saman er komin mikil reynsla og þekking en einnig ný sýn og hugsun þeirra sem eru að feta sín fyrstu skref í bæjarpólitíkinni. Það er gaman að heyra hversu fjölbreyttur reynsluheimur frambjóðendanna er og enginn efi í mínum huga að þessi hópur á eftir að gera góða hluti fyrir bæjarfélagið. Ég held að sjaldan hafi verið meiri þörf á að þekking og reynsla sé nýtt við stjórnun bæjarins og ég vona að bæjarbúar séu sama sinnis enda lang eðlilegast að lagt sé mat á það hvernig til hefur tekist undanfarin fjögur ár. Við óttumst ekki þá skoðun!

Eftir að málefnavinnu lauk kíktum við á Pub-quiz ungra Sjálfstæðismanna á Hoflandsetrinu. Gat ekki annað en farið til að sjá þennan fræga Magga Mix en hann var spyrill kvöldsins. Hann er frábært dæmi um mátt internetsins en hann er orðinn landsfrægur fyrir afrek sín í netheimum !
-------------------------------
Í nótt sem leið eignuðust Sigurbjörg systir mín og Helgi litla stúlku sem þegar hefur fengið nafnið Vigdís. Við ætlum að kíkja til þeirra í fyrrmálið þegar þær mæðgur eru komnar heim. Getum varla beðið! Innilegar hamingjuóskir til ykkar allra!
-------------------------------

20. apríl 2010
Yndisleg og annasöm helgi að baki. Yngsti sonurinn fermdur og var því fagnað með miklum veisluhöldum eins og vera ber. Hann var afar ánægður með daginn en það er fyrir öllu. Set hér nokkrar myndir enda segja þær meira en mörg orð. Í dag mánudag var ég í fríi til að ganga frá eftir veisluhöldin sem héldu áfram í gærkvöldi hér heima. Síðan fórum við Albert til Lýðs á Selfossi í myndatöku en ég er alveg viss um að sú myndataka verður vel lukkuð enda náðu þeir vel saman Albert og Lýður. Þetta var hin skemmtilegasta stund. Eftir það var brunað til Reykjavíkur þar sem auðvitað þurfti aðeins að kíkja á tölvuleikjadeildina í Elko...

Síðdegis var meirihlutafundur þar sem farið var yfir ýmis mál vegna bæjarráðsfundar á föstudaginn og strax að honum loknum fórum við út í Sjálfstæðishús þar sem framboðslistinn hittist til að hefja málefnavinnu vegna kosnginanna í vor. Á morgun þriðjudag verður málefna/hugmynda þing fyrir íbúa í bænum þar sem hægt verður að koma á framfæri hugmyndum um það sem betur má fara og hin ýmsu framfaramál í bænum. Vonandi að margir mæti til að taka þátt í að móta stefnuna til framtíðar. Hótel Hveragerði kl. 20 á morgun þriðjudag....

15. apríl 2010

Fleiri myndir til heiðurs fermingardrengnum!

Hér til hliðar eru Amma Dísa og Laufey amma með unga manninn á fyrsta árinu. Á myndinni fyrir neðan Laufey og Bjarni að passa bróður sinn. Síðan er það Albertinn einn og sjálfur :-)


14. apríl 2010

Það er skammt stórra högga á milli verð ég að segja.

Ég hef verið að segja strákunum að nú þurfi þeir að taka vel eftir, því aldrei hafa jafn stórir atburðir gerst hér á jafn skömmum tíma svo það er eins gott að unga kynslóðin fylgist vel með svo hún muni það sem er að gerast. Fyrst auðvitað góðærið sem var fordæmislaust og furðulegt svona eftir á að hyggja. Síðan hrunið með öllu því sem fylgdi, jarðskjálftarnir 2008, eldgos á Fimmvörðuhálsi, birting skýrslunnar og svo eldgos í Eyjafjallajökli. Ekkert er svo sem annað í spilunum en að náttúruna haldi uppteknum hætti, ef marka má skjálftana sem nú eru til dæmis í og við Vatnajökul. Svo maður minnist nú ekki á spárnar um gos í Kötlu og Heklu. Eða eins og einn góður vinur minn sagði í dag og dæsti mikið: "Það kæmi manni ekki á óvart þó að landið hreinlega klofnaði", spurning hvort hann meinti þetta í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu því auðvitað má til sanns vegar færa að þjóðin sé klofin, bara spurning hvernig náttúran hagar sér!

En svo dyggir lesendur bloggsins haldi nú ekki að ég sé eins og Robinson Crusoe þá hef ég auðvitað fylgst með umræðum um skýrsluna eins og aðrir Íslendingar. Mér hefur meira að segja dottið til hugar að kaupa hana og þá sérstaklega eftir blaðamannafundinn þar sem mér fannst nefndarmenn komast afar vel frá sínu.
Á margan hátt staðfestir rannsóknarnefndin það sem þegar hefur verið fjallað um en það er einmitt það sem er svo mikilvægt. Að hlutlausir aðilar leggi mat sitt á þá atburði sem urðu til þess að þjóðin lenti í þeirri hörmulegu stöðu sem við erum í.

Sumir hafa undrast það af hverju ég bloggaði ekki um IceSave og önnur þau mál sem hæst ber í landsmálunum á hverjum tíma. Ég hef þá svarað því til að mér dugi alveg að fjalla um og vinna að hagsmunum Hvergerðinga og því hef ég ekki skipt mér af umræðunni um þau heitu mál sem hvað mest hafa brunnið á þjóðinni. Enda svosem fátt nýtt sem ég mun bæta í umræðuna. Nægir eru nú spekúlantarnir sýnist mér. Nú get ég þó ekki orða bundist: framganga útrásarvíkinganna og bankamannanna svokölluðu er þeim til ævarandi skammar og engin blaðaviðtöl og linkulegar afsökunarbeiðnir geta bætt úr því tjóni sem þessir aðilar hafa valdið þjóðinni. Síðan vil ég nota orðalagið hennar Guðrúnar systur og segja að ég fylltist hryggð yfir dug- og ráðleysi íslenskra ráðamanna. Það stappar nærri að vera aumkunarvert að lesa um samskipti manna með þeim hætti sem þeim er lýst á síðum skýrslunnar góðu.

Ég held að margir hljóti nú að efast um rétt sinn til setu í hinum ýmsu embættum. Reyndar spurning hvort þessir hinir sömu efist nokkurn tíma um eigið ágæti...

Tók þessa flottu mynd á hverasvæðinu í morgun. Þar hafa hverirnir verið að eflast að undanförnu og eins og þið sjáið þá er Bláhver orðinn fullur af vatni en það er ekki langt síðan að hann var hálftómur. Manndrápshverinn (Dynkur) gaus heljarinnar gosi í morgun svo flæddi vel yfir göngubrýrnar en hann haggaðist ekki þegar við komum á svæðið til að taka út vegsummerki. Það er velþekkt staðreynd að hverasvæðið hér tekur breytingum sérstaklega þegar Hekla gýs svo það er spurning hvað er í gangi núna !

13. apríl 2010

Nú er orðið ansi framorðið svo bloggið verður stuttaralegt í kvöld.

Morguninn fór í að undirbúa glærusýningu og upplýsingar fyrir fund fulltrúaráðs Brunavarna Árnessýslu sem ég hitti síðan í hádeginu. Tilgangur fundarins var að kynna fyrir þeim þá kosti sem felast í því að slökkvilið Hveragerðisbæjar sinni áfram þjónustu við vesturhluta Ölfusins. Vel var tekið í kynninguna enda hafði hún þau áhrif að fulltrúaráðið hefur ákveðið að semja við okkur Hvergerðinga út árið 2010. Við Margrét Katrín, formaður stjórnar BÁ, munum núna setjast niður og ganga frá samkomulaginu sem lagt verður fyrir næsta fund bæjarráðs. Þetta er afskaplega ánægjuleg niðurstaða sem báðir aðilar geta verið ánægðir með. Slökkviliðið hér mun semsagt halda áfram að sinna útköllum eins og verið hefur, eins og hefur verið unnið að.

Eftir hádegi fór ég yfir ýmis mál með Guðmundi Baldurssyni. Hitti blómaskreyta sem geta varla beðið eftir að fá að spreyta sig á blómasýningunni Blóm í bæ. Gekk frá fundarboði bæjarstjórnar og ársreikningnum en það fór út í dag. Hitti Úlfar Andrésson sem er ungur maður sem hefur stofnað flott fyrirtæki í ferðaþjónustu og mun m.a. leigja út reiðhjól og skipulegga bæði hjólaferðir og brimbretta kennslu í sumar. Gaman að því þegar ungt fólk er svona öflugt. Einnig heyrði ég í fulltrúa iðnaðarráðuneytisins sem vill koma hingað með erlenda gesti í maí og fjölda annarra erinda þurfti að afgreiða í dag.

Eftir vinnu skruppum við niður að Hótel Hlíð en þar verður fermingarveislan hans Alberts haldin um næstu helgi. Flottur salur og gott hótel þar sem mun fara vel um stórfjölskylduna í veislunni.

Í kvöld kíkti síðan Gyrðir í kvöldkaffi og eins og alltaf var það hin skemmtilegasta kvöldstund. Er núna búin að sitja frameftir við að finna myndir af fermingarbarninu til að nota í veislunni. Ákvað að sýna ykkur nokkrar...

12. apríl 2010

Mánudagur og enn og aftur farið allt of seint að sofa í gærkvöldi. Þarf nauðsynlega að gera mér betur grein fyrir gildi góðs nætursvefns :-)

Svaraði tölvupóstum og erindum sem biðu eftir helgina en einnig höfðu nokkur orðið eftir frá því í síðustu viku, eins og gengur þegar fundahöld verða of mikil.

Fundur í hádeginu í dag með samgönguráðherra Kristjáni Möller en hann boðaði bæjarráðin og forseta bæjarstjórnar Árborgar, Hveragerðis og Ölfuss til fundar við sig til að ræða hugmyndir um flýtingu vegaframkvæmda sem við hin reyndar oftast köllum hugmyndir um vegtolla. Fór ráðherra á fundinum yfir þau sjónarmið sem hann hefur kynnt undanfarið. Við Hvergerðingarnir vorum einörð í þeirri afstöðu að hugmyndirnar væru óásættanlegar og færðum fyrir því fjölmörg rök. Til dæmis að þegar er greitt til vegagerðar í gegnum bifreiðagjöld og eldsneytisgjald en þau gjöld fara í dag ekki að fullu til framkvæmda heldur til annars reksturs ríkisins. Til að byrja með ætti að nýta þá tekjustofna í vegaframkvæmdir. Jafnræðissjónarmiðið vegur líka þungt í þessu máli, hvers vegna á ekki að fjármagna allar framkvæmdir með þessum hætti, líka innanbæjar í Reykjavík, og áfram gæti ég talið... Fundurinn var ágætur en þó saknaði ég þess að einarðari sjónarmið kæmu frá fleiri sveitarstjórnarmönnum á svæðinu. Framkvæmdin er gríðarlega mikilvæg útfrá umferðaröryggissjónarmiði og þjóðhagslega hagkvæm um það er ekki ekki deilt, það er aðferðin við fjármögnunina sem við deilum um í dag. Vona að ráðherra leiti annarra leiða til að koma þessari brýnu framkvæmd af stað.

Sund síðdegis eftir langt hlé vegna endalausra pesta. Frábært að komast aftur í laugina. Meirihlutafundur í kvöld þar sem við fórum m.a. yfir ársreikninginn sem lagður verður fyrir á fimmtudaginn.

11. apríl 2010

Mikið að gera um helgina eins og ávallt.

Við Helga hittum endurskoðanda bæjarins, Ólaf Gestsson, kl. 9 á laugardagsmorgninum og fórum yfir ársreikninga bæjarins sem nú liggja fyrir í endanlegri mynd. Niðurstaðan er örlítið betri en gert var ráð fyrir við síðustu endurskoðun fjárhagsáætlunar og tugmilljónum betri en upphafleg áætlun fyrir árið 2009 gerði ráð fyrir. Þykir mér það harla gott þó að auðvitað hefðum við viljað að tapið væri minna. Verðbólgan er síðan að gera okkur lífið leitt en hún varð 1,6 prósentustigum hærri en við áætluðum og eykur það fjármagnsliði um vel ríflega 20 milljónir. á fimmtudaginn verða ársreikningar kynntir í bæjarstjórn við fyrri umræðu. Mun fjalla nánar um reikningana síðar.

Eftir fundinn með endurskoðandanum var opið hús venju samkvæmt hjá Sjálfstæðismönnum. Það er greinilegt að það styttist í kosningar en fjöldi fólks lagði leið sína til okkar til að ræða hin ýmsu málefni. Gaman að því!

Eftir opna húsið kíkti ég út á Hótel Örk en þar voru mættir framboðslistar Sjálfstæðismanna í Kópavogi og Hafnarfirði sem tóku helgina undir vinnu við málefnaskrá. Ég stoppaði þarna í nokkra stund og ræddi við frambjóðendurnar en það er auðvitað þannig að allir eru meira og minna í sömu vangaveltunum og því er bæði gagnlegt og ekki síður skemmtilegt að bera saman bækur við önnur framboð.

Áður en ég hélt heim þá kíkti ég á markaðinn í Verslunarmiðstöðinni við Sunnumörk en þar er ávallt stærðarinnar markaður fyrsta laugardag í hverjum mánuði. Þarna var fjöldi sölubása en mér skilst að færri hafi komist að en vildu. Afskaplega fjölbreyttar vörur allt frá handverki, fatnaði, snyrtivörum til tómata og gúrkna og lífleg markaðstemning í húsinu.

Þegar heim var komið tók við undirbúningur undir strákapartý en Bjarni Rúnar bauð nokkrum vinum heim í mat í tilefni af tvítugs afmælinu í vikunni. Flottir strákar sem skemmtu sér konunglega að því að mér sýndist :-)

Í dag sunnudag komu hingað frændfólk mitt ættað frá Litlu Sandvík í Flóa til að undirbúa og skipuleggja niðjamót langafa míns og ömmu þeirra Guðmundar Þorvarðarsonar og konu hans Sigríðar Lýðsdóttur sem bjuggu í Litlu Sandvík. Við Sigríður Haraldsdóttir, Guðmundur Lýðsson og Lýður Pálsson höfum skipað okkur sjálf í nefnd til að skipuleggja mótið sem okkur leist vel á að halda næsta haust. Við efumst ekki um að þetta verði skemmtilegt en þessi ættingja hópur hefur ekki hist formlega áður.

Eftir hádegi fór stórfamilían að sjá Emil í Kattholti og er skemmst frá því að segja að sýningin er afskaplega vel lukkuð, kraftmikil, lífleg og litrík enda sást það vel á undirtektum yngstu sýningargestanna sem flestir sátu agndofa yfir prakkarstrikum Emils allan tímann. Enginn ætti að láta þessa sýningu framhjá sér en mér sýnist líka á viðtökunum að fólk ætli sér ekki að missa af þessari....

Fundur með framboðslistanum síðdegis en nú fer hið eiginlega kosningastarf á fullt enda svo sem ekki langur tími til stefnu.

Í kvöld kíktu ættingjarnir í kaffi svona rétt til að hitta Bjarna Rúnar í tilefni af afmælinu hans. Það er alltaf gaman þegar hópurinn hittist....

9. apríl 2010

Vorfundur Héraðsnefndar Árnesinga var haldinn á Flúðum í dag og í gær. Fundurinn byrjaði reyndar á Alviðru þar sem nefndin skoðaði landið og húsakynni en Alviðra er að hálfu í eigu Héraðsnefndar á móti Landvernd. Þar hefur verið rekið umhverfisfræðslusetur en eftir að kreppan tók öll völd hefur aðsókn að því dregist mikið saman. Því var það niðurstaða að eignaraðilar myndu skipa starfshóp til að skoða framtiðarskipulag og uppbyggingu á staðnum með það fyrir augum að Alviðra verði eigendum sínum til sóma. Eftir Alviðru heimsóknina var nefndin viðstödd vígslu Heilsugæslustöðvar Selfoss en þar hefur heilsugæslan nú verið flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði í nýju viðbyggingunni. Gjörbylting hvað varðar alla aðstöðu.

Héraðsnefndarfundurinn var hefðbundinn með kynningum á starfsemi þeirra stofnana sem sveitarfélögin í Árnessýslu reka sameiginlega, Tónlistarskólanum, Byggðasafninu, Héraðskjalasafninu og Listasafninu. Það er virkilega gaman að sjá hversu vel þessar stofnanir eru reknar og ekki síður hve mikinn metnað stjórnendur hafa fyrir góðu starfi. Það er aftur á móti erfitt að ekki skuli vera meiri fjármunir til ráðstöfunar því allir hefðu þörf fyrir meiri pening til rekstursins.

Þegar ég kom heim í dag tókum ég og Eyþór á móti nokkrum frambjóðendum B-listans úr Ölfusinu sem komnir voru til að kynna sér þau mál sem heitustu eru í samskiptum þessara tveggja sveitarfélaga. Leikskólamál og virkjanir var það sem helst var rætt um enda eru það málefni sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu.

Á fundi bæjarráðs á fimmtudaginn var samþykkt ályktun gegn vegtollinum sem samgönguráðherra hefur verið að kynna að undanförnu. Í kjölfarið fór ég í viðtal við síðdegisútvarpið á Rás 2 í gær og í dag í stutt viðtal við Útvarp Suðurlands. Það er alveg ljóst að mikil og heit andstaða er við þessar hugmyndir.

7. apríl 2010

Páskafríið var í alla staði yndislegt og það þrátt fyrir að pest herjaði á heimilið enn og aftur, en afskaplega þrálátt kvef virðist hafa ákveðið að eiga hreinlega heima hér á Heiðmörkinni til langframa. En það þýddi lítið að láta það á sig fá því það stóð ekki til boða að vera lasin ;-)

Fjölbreytt veisluhöld um helgina. Fórum í fermingarveislu fyrst til Sólveigar Helgu Guðjónsdóttur á Selfossi og síðan til Helgu Sunnu Sigurjónsdóttur heimasætu í Raftholti í Holtum. Myndarlegar ungar stúlkur báðar tvær og afskaplega gaman að hitta þarna ættingjana úr bæði móður og föðurætt. Á páskadag hittumst við alltaf fjölskyldan hjá Guðrúnu systur sem árlega töfrar fram páska brunch með fjölbreyttum réttum, síðan er setið og spjallað fram eftir degi. Í ár ákváðum við á Heiðmörkinni að skella okkur í Fljótshlíðina síðdegis á páskadag og skoða gosið, keyrðum þónokkuð innfyrir Þórólfsfell og sáum gosið og hraunið vel þaðan. Aðallega vakti þó umferðin athygli en gríðarlegur fjöldi bíla var í Fljótshlíðinni þetta kvöld.

Kosningastjórn hittist á annan í páskum en nú fer að styttast tíminn í sveitarstjórnarkosningar og því nauðsynlegt að nýta vel þá daga sem gefast til vors.

Nóg hefur verið að gera í vinnunni í gær og í dag enda er það yfirleitt þannig eftir svona marga frídaga. Í dag undirbjó ég bæjarráðsfund, hitti bæjarbúa sem ræða þurfti við mig, ræddi við framkvæmdastjóra Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna greiðslna úr sjóðnum sem duga áttu til að sveitarfélög bæru ekki aukinn kostnað vegna hækkunar tryggingagjalds en mér sýnist miðað við framlög að þónokkuð vanti uppá að svo sé. Mun skoða það mál áfram.

Fór um hádegi til Reykjavíkur á jarðarför Ólafs Steinssonar garðyrkjubónda hér í Hveragerði. Ólafur bjó hér í hartnær 70 ár og setti víða mark sitt á bæjarfélagið, sannur frumbyggi sem tók þátt í að móta samfélag okkar hér með öflugum hætti. Um leið og ég kom austur aftur hófst bæjarráðsfundur sem stóð til kl. 19. Á fundinum voru meðal annars samþykkt tilboð í göngustíga, hellulagningu og slátt á grænum svæðum í bænum. Minnihlutinn gagnrýndi að tilboðin væru hærri en kostnaðaráætlun en virtist ekki gera sér grein fyrir því að í svona litlum verkum er svigrúmið lítið og hér vega hrein efniskaup eins og á malbiki og hellum þungt og þar hefur verktakinn ekkert svigrúm til að lækka tilboð. Allt öðru máli gegnir þegar jarðvinna er stór þáttur í verkum en þá hafa verkatakar verið að bjóða lágt enda þar skipta aðrir þættir meira máli við verðmyndun. Síðan má ekki gleyma því að tilboðið í slátt og umhirðu er rúmlega 30% lægra heldur en upphæðin sem greidd var fyrri sama verk í fyrra. Það sparar bænum um 1,5 milljónir króna!
Bæjarráð samþykkti einnig ályktun gegn hugmyndum um vegtolla á stofnæðum útaf höfuðborgarsvæðinu en það er hreint með ólíkindum að mismuna eigi landsmönnum með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir. Bæjarráð samþykkti einnig hamingjuóskir til meistararflokks kvenna sem svo naumlega tapaði fyrir KR í úrslitaleik Íslandsmótsins í gær. Hörkuleikur sem ansi ergilegt var að tapa en stelpurnar spiluðu þó afar vel svo það voru þrátt fyrir allt stoltir Hvergerðingar sem yfirgáfu Frostaskjólið í gærkvöldi.

Eftir bæjarráðsfundinn í kvöld fór ég síðan ásamt sundfélögunum í heimsókn til Steinunnar Þórarins í tilefni af afmæli hennar. Yndisleg kvöldstund í góðum hópi. Lofaði Öldu Dagmar að senda henni kveðju á blogginu sem ég geri hér með :-)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

 • Um Aldísi ...
 • Ræður og greinar ...
 • Aftur á forsíðu...
 • Tenglar
 • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
 • Síða Sjálfstæðisflokksins
 • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
 • Sjálfstæðiskonur
 • Sjálfstæðismenn í Suður.
 • Gagnagátt Sambandsins
 • Besti ísinn!
 • Morgunblaðið á netinu
 • Vísir.is
 • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
 • Fleiri Sunnlenskar fréttir
 • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
 • Hveragerði
 • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
 • Grunnskólinn í­ Hveragerði
 • Íþróttafélagið Hamar
 • Veðurspá fyrir Hveragerði
 • Fjölbrautaskóli Suðurlands
 • Gagnasöfn Hvar.is
 • Besti bloggarinn ! ! !
 • Vefbanki Valla...
 • SASS
 • Myndir Bjössa á Bláfelli
 • Nátturan.is
 • Orðaþýðingar - frábær síða
 • Færð og veður á SV-landi
 • Leitarvélin
 • Sí­maskráin
 • Ýmsar myndir
 • Myndasíða
 • Úr reisubókinni
 • Flórída janúar 2017
 • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
 • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
 • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
 • Búkarest í Rúmení­u 2006
 • Ítalía 2007
 • Svartfjallaland 2008
 • Danmörk 2010
 • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
 • Hefur þú skoðun?
 • Hafðu samband!
  Eldri færslur
 • 1.1.2004 - 1.2.2004
 • 1.2.2004 - 1.3.2004
 • 1.3.2004 - 1.4.2004
 • 1.5.2004 - 1.6.2004
 • 1.6.2004 - 1.7.2004
 • 1.7.2004 - 1.8.2004
 • 1.8.2004 - 1.9.2004
 • 1.9.2004 - 1.10.2004
 • 1.10.2004 - 1.11.2004
 • 1.11.2004 - 1.12.2004
 • 1.12.2004 - 1.1.2005
 • 1.1.2005 - 1.2.2005
 • 1.3.2005 - 1.4.2005
 • 1.4.2005 - 1.5.2005
 • 1.5.2005 - 1.6.2005
 • 1.6.2005 - 1.7.2005
 • 1.7.2005 - 1.8.2005
 • 1.8.2005 - 1.9.2005
 • 1.9.2005 - 1.10.2005
 • 1.10.2005 - 1.11.2005
 • 1.11.2005 - 1.12.2005
 • 1.12.2005 - 1.1.2006
 • 1.1.2006 - 1.2.2006
 • 1.2.2006 - 1.3.2006
 • 1.3.2006 - 1.4.2006
 • 1.4.2006 - 1.5.2006
 • 1.5.2006 - 1.6.2006
 • 1.6.2006 - 1.7.2006
 • 1.7.2006 - 1.8.2006
 • 1.8.2006 - 1.9.2006
 • 1.9.2006 - 1.10.2006
 • 1.10.2006 - 1.11.2006
 • 1.11.2006 - 1.12.2006
 • 1.12.2006 - 1.1.2007
 • 1.1.2007 - 1.2.2007
 • 1.2.2007 - 1.3.2007
 • 1.3.2007 - 1.4.2007
 • 1.4.2007 - 1.5.2007
 • 1.5.2007 - 1.6.2007
 • 1.6.2007 - 1.7.2007
 • 1.7.2007 - 1.8.2007
 • 1.8.2007 - 1.9.2007
 • 1.9.2007 - 1.10.2007
 • 1.10.2007 - 1.11.2007
 • 1.11.2007 - 1.12.2007
 • 1.12.2007 - 1.1.2008
 • 1.1.2008 - 1.2.2008
 • 1.2.2008 - 1.3.2008
 • 1.3.2008 - 1.4.2008
 • 1.4.2008 - 1.5.2008
 • 1.5.2008 - 1.6.2008
 • 1.6.2008 - 1.7.2008
 • 1.7.2008 - 1.8.2008
 • 1.8.2008 - 1.9.2008
 • 1.9.2008 - 1.10.2008
 • 1.10.2008 - 1.11.2008
 • 1.11.2008 - 1.12.2008
 • 1.12.2008 - 1.1.2009
 • 1.1.2009 - 1.2.2009
 • 1.2.2009 - 1.3.2009
 • 1.3.2009 - 1.4.2009
 • 1.4.2009 - 1.5.2009
 • 1.5.2009 - 1.6.2009
 • 1.6.2009 - 1.7.2009
 • 1.7.2009 - 1.8.2009
 • 1.8.2009 - 1.9.2009
 • 1.9.2009 - 1.10.2009
 • 1.10.2009 - 1.11.2009
 • 1.11.2009 - 1.12.2009
 • 1.12.2009 - 1.1.2010
 • 1.1.2010 - 1.2.2010
 • 1.2.2010 - 1.3.2010
 • 1.3.2010 - 1.4.2010
 • 1.4.2010 - 1.5.2010
 • 1.5.2010 - 1.6.2010
 • 1.6.2010 - 1.7.2010
 • 1.7.2010 - 1.8.2010
 • 1.8.2010 - 1.9.2010
 • 1.9.2010 - 1.10.2010
 • 1.10.2010 - 1.11.2010
 • 1.11.2010 - 1.12.2010
 • 1.12.2010 - 1.1.2011
 • 1.1.2011 - 1.2.2011
 • 1.2.2011 - 1.3.2011
 • 1.3.2011 - 1.4.2011
 • 1.4.2011 - 1.5.2011
 • 1.5.2011 - 1.6.2011
 • 1.6.2011 - 1.7.2011
 • 1.7.2011 - 1.8.2011
 • 1.8.2011 - 1.9.2011
 • 1.9.2011 - 1.10.2011
 • 1.10.2011 - 1.11.2011
 • 1.11.2011 - 1.12.2011
 • 1.12.2011 - 1.1.2012
 • 1.1.2012 - 1.2.2012
 • 1.2.2012 - 1.3.2012
 • 1.3.2012 - 1.4.2012
 • 1.4.2012 - 1.5.2012
 • 1.5.2012 - 1.6.2012
 • 1.6.2012 - 1.7.2012
 • 1.7.2012 - 1.8.2012
 • 1.8.2012 - 1.9.2012
 • 1.9.2012 - 1.10.2012
 • 1.10.2012 - 1.11.2012
 • 1.11.2012 - 1.12.2012
 • 1.12.2012 - 1.1.2013
 • 1.1.2013 - 1.2.2013
 • 1.2.2013 - 1.3.2013
 • 1.3.2013 - 1.4.2013
 • 1.4.2013 - 1.5.2013
 • 1.5.2013 - 1.6.2013
 • 1.6.2013 - 1.7.2013
 • 1.7.2013 - 1.8.2013
 • 1.8.2013 - 1.9.2013
 • 1.9.2013 - 1.10.2013
 • 1.10.2013 - 1.11.2013
 • 1.11.2013 - 1.12.2013
 • 1.12.2013 - 1.1.2014
 • 1.1.2014 - 1.2.2014
 • 1.2.2014 - 1.3.2014
 • 1.3.2014 - 1.4.2014
 • 1.4.2014 - 1.5.2014
 • 1.5.2014 - 1.6.2014
 • 1.8.2014 - 1.9.2014
 • 1.9.2014 - 1.10.2014
 • 1.10.2014 - 1.11.2014
 • 1.11.2014 - 1.12.2014
 • 1.12.2014 - 1.1.2015
 • 1.1.2015 - 1.2.2015
 • 1.2.2015 - 1.3.2015
 • 1.3.2015 - 1.4.2015
 • 1.4.2015 - 1.5.2015
 • 1.6.2015 - 1.7.2015
 • 1.7.2015 - 1.8.2015
 • 1.8.2015 - 1.9.2015
 • 1.9.2015 - 1.10.2015
 • 1.10.2015 - 1.11.2015
 • 1.11.2015 - 1.12.2015
 • 1.12.2015 - 1.1.2016
 • 1.1.2016 - 1.2.2016
 • 1.2.2016 - 1.3.2016
 • 1.3.2016 - 1.4.2016
 • 1.4.2016 - 1.5.2016
 • 1.5.2016 - 1.6.2016
 • 1.6.2016 - 1.7.2016
 • 1.7.2016 - 1.8.2016
 • 1.8.2016 - 1.9.2016
 • 1.9.2016 - 1.10.2016
 • 1.10.2016 - 1.11.2016
 • 1.11.2016 - 1.12.2016
 • 1.12.2016 - 1.1.2017
 • 1.1.2017 - 1.2.2017
 • 1.2.2017 - 1.3.2017
 • 1.3.2017 - 1.4.2017
 • 1.5.2017 - 1.6.2017
 • 1.6.2017 - 1.7.2017
 • 1.8.2017 - 1.9.2017
 • 1.9.2017 - 1.10.2017
 • 1.10.2017 - 1.11.2017
 • 1.11.2017 - 1.12.2017
 • 1.12.2017 - 1.1.2018
 • 1.1.2018 - 1.2.2018
 • 1.2.2018 - 1.3.2018
 • 1.3.2018 - 1.4.2018
 • 1.4.2018 - 1.5.2018
 • 1.5.2018 - 1.6.2018
 • 1.8.2018 - 1.9.2018
 • 1.11.2018 - 1.12.2018
 • 1.4.2021 - 1.5.2021
 • 1.5.2021 - 1.6.2021
 • 1.6.2021 - 1.7.2021
 • 1.7.2021 - 1.8.2021
 • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet