<$BlogRSDUrl$>

31. mars 2009

Lofaði að skrifa á bloggið í gær svo betra er seint en aldrei, kæru vinir...

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins afstaðinn og 3 árshátíðarhelgar þar á undan svo það hefur verið nóg að gera.

En aftur að landsfundi! Það er óneitanlega gremjulegt að vera búin að eyða þremur og hálfum degi við málefnavinnu og umræður um stjórnmál og upplifa það síðan að það eina sem fólk hefur áhuga á að ræða er ræðan hans Davíðs! Hvar sem ég hef komið er spurt út í ræðuna. Annað hvort efnisatriðin sem rötuðu í fjölmiðla eða þá að viðkomandi hefur áhyggjur af blöðrum í lófum eða skyndilegu gigtarkasti. Ræðan var reyndar á köflum fyndin, svona eins og Davíð sagði þetta, á þessum stað og á þessari stund. Hann eyðilagði reyndar annars hina líflegustu ræðu með ómaklegum athugasemdum um útlit og gjörvileik pólitískra andstæðinga og gerði síðan útslagið með því að ráðast á eigin flokksmenn. Merkilegt þegar hann hefði svo vel getað látið anda sinn svífa yfir vötnum fundarins og verið "The grand old man" í flokknum. Hann hefur greinilega ekki áhuga á því annars virðingarverða hlutverki.
Þegar ég hlusta á ræðuna hér heima í stofu ein og yfirgefin þá fer nú af henni mesti glansinn. Það er nú gallinn líka við að birta ræður. Þær eru nefnilega svo nátengdar því mómenti sem þær eru fluttar á!

En annars eru landsfundir hinar skemmtilegustu samkomur þar sem fólk hittist víðs vegar að af landinu ber saman bækur um landsins gagn og nauðsynjar. Umræður á göngum og í kaffistofunni eru kannski enn mikilvægari en þær sem fram fara í ræðustól.

Við Hvergerðingar lögðum nokkuð á okkur til að fá samþykkta ályktun um að nýting orkuauðlinda mætti aldrei verða til þess að skaða heilsu fólks. Vísum þar auðvitað beint í Bitruvirkjun. Á nefndarfundi var þessi annars saklausa tillaga felld með naumum meirihluta svo ég flutt hana aftur í sal Landsfundar og þar var hún samþykkt. Gott veganestir fyrir okkur Hvergerðinga til framtíðar litið. Þeir sem greiddu atkvæði gegn í nefnd voru orðnir sammála þegar fleiri urðu vitni að atkvæðagreiðslunni og var það vel. Hér má sjá ræðuna, einnig svar Ólafs Áka sem reyndar er ekki rétt eins og fram kemur í annarri ræðu minni hér. Ræðurnar voru fluttar fyrri part sunnudags ef þið viljið kíkja á þær...

Á landsfundinum fékk ég sendar fyrstu niðurstöður mælinga vegna brennisteinsvetnismengunar hér í Hveragerði en nú hefur bráðabirgðamælirinn verið staðsettur í Kambahrauni í rúman mánuð. Niðurstöður sýna svo ekki er um villst að styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti hér í Hveragerði mælist mestur í vestlægum og norðvestlægum vindáttum eða þegar vindur stendur beint af Hellisheiðarvirkjun. Mengun í austlægum og sunnanáttum er aftur á móti vart mælanleg sem þýðir að okkar eigin hverasvæði eru ekki að valda mengun. Þetta er nú samt ansi stuttur tími sem mælirinn hefur verið í notkun og ýmsar aðrar breytur þarf að skoða til að fá gleggri sýn á málið en þessar fyrstu niðurstöður styrkja okkur endanlega í þeirri vissu að Bitra getur aldrei orðið að veruleika.

Í dag þriðjudag undirbjó ég bæjarráðsfund en fundargögn fóru út í dag. Alltaf nóg af málum á dagskrá. Síðdegis hittumst við Herdís leiðtogi minnihlutans og fórum yfir þau mál sem taka á fyrir á fundinum. Milli meiri- og minnihluta er afar gott samstarf og ég hef þá trú að það hafi verið farsælt fyrir bæjarbraginn þegar okkur bar gæfa til að vinna jafn vel saman og raun er.

Fór á fund niður í Þorlákshöfn þar sem rætt var um framtíðarfyrirkomulag sorpmála en sá málaflokkur verður sífellt umfangsmeiri og flóknari. Hitti síðan Hjörleif fyrrverandi oddvita í bakaríi staðarins, en hann er alltaf mjög viðræðugóður.

Í kvöld kláraði ég síðan allar skattaskýrslur fjölskyldunnar. Nýtt viðmót Skattmanns er afar þægilegt og mikill munur að forskráðar upplýsingar skuli vera jafn miklar og raun ber vitni.

17. mars 2009

Hamars stelpur töpuðu naumlega fyrir Haukum í ótrúlega spennandi leik hér í Hveragerði í kvöld. Húsið troðfullt af fólki sem studdi dyggilega við liðið. Hundfúlt að tapa enda hefði verið frábært að ná fram oddaleik í keppninni um sætið í úrslitunum. En þær stóðu sig vel og leikurinn var hin besta skemmtun.

Síðdegis var líka fjölmenni hjá Vilhjálmi Egilssyni þegar hann kynnti skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Umræðurnar voru líflegar og komu menn skoðunum sínum skýrt og greinilega á framfæri. 34 mættu til fundar og ber húsið varla mikið fleiri. Það var óneitanlega hálf sérkennilegt að sjá að fjöldi þeirra sem mættu í dag er um fjórðungur þeirra sem kusu í prófkjörinu á laugardag. Áhuginn á því hefði mátt vera meiri! !

Skrapp í dag til Guðmundar frænda míns á Selfossi og Ásdísar konu hans. Hann frændi minn er með ólíkindum hress og hefur skoðanir og þær miklar á flestum málum. Hann er elsti bróðir pabba og hefur alltaf tekið hlutverk sitt sem stórfrænda mjög alvarlega. Við erum heppin með það systkinin. Í dag leysti hann mig út með stórum bunka af blaðaúrklippum sem hann hefur safnað um Hveragerði og pabba. Mest voru þetta greinar skrifaðar í kringum 1960 og þar má sjá að pabbi hefur strax við heimkomu úr námi í Danmörku stigið á merkilegar tær því Jónas frá Hriflu hefur skrifað afar langa grein þar sem hann gagnrýnir og hæðir það sjónarmið sem pabbi þá nýútskrifaður mjólkurtæknifræðingur setti fram um óhollustu ógerilsneyddrar mjólkur. Á öðrum stað hef ég séð langar greinar eftir Ágúst á Brúnastöðum um þau ósköp sem dundu yfir íslenska þjóð með tilkomu einkaframtaksins í mjólkuriðnaði en það var Ostagerðin góða sem pabbi rak hér um skamma hríð sem olli þeim geðvonskulegu skrifum. Vegna svona sjónarmiða verður maður Sjálfstæðismaður það er svo einfalt...

16. mars 2009

Fréttir, jarðskjálftar og fleira ...

Nýi fréttavefurinn hér á Suðurlandi sunnlendingur.is er að slá í gegn og greinilegt að Kristján Kristjáns sem heldur síðunni úti er að gera góða hluti. En auðvitað þarf að senda honum eins og öðrum fréttamönnum ábendingar um það sem er að gerast svo hægt sé að hafa puttann á púlsinum.

Ég, Elfa og Guðmundur heimsóttum jarðskjálftamiðstöðina á Selfossi í dag. Skoðuðum aðstöðuna sem er hin glæsilegasta en síðan var farið yfir helstu niðurstöður varðandi áraun á byggingar vegna jarðskjálftans í maí. Ótrúlegur munur er á áhrifunum jafnvel milli hverfa í Hveragerði. Í afar stuttu máli virðist hverasvæðið í miðbænum virka eins og dempari og því gætir áhrifa skjálftans minna þar í kring en annars staðar í bænum. Þetta er þveröfugt við það sem ég hefði haldið. Væntanlega verða niðurstöðurnar birtar þegar rannsóknum er að fullu lokið.

Náði í sund með góðum hópi kvenna sem er ómissandi tvisvar í viku og síðan var meirihlutafundur venju samkvæmt í kvöld. Dágóður tími fór í að ræða niðurstöðu prófkjörsins og starfið sem framundan er. Það gæti sett dempara á starfsgleðina að Árnessýsla á engan fulltrúa ofarlega á lista...

Annars var farið austur að Kirkjubæjarklaustri um helgina þar sem Kjörís hélt árshátíð sína. Áfangastaðurinn var Hótel Laki í Landbroti sem er rekið af miklum myndarskap af fjölskyldunni í Efri Vík. Þarna hefur risið hótel sem sóma myndi sér vel í hvaða stórborg sem er, herbergi og salarkynni er fyrsta flokks og algjörlega til fyrirmyndar. Ekki var maturinn síðri hvort sem það var krásum hlaðið hlaðborðið eða morgunmaturinn þar sem brauðið var heimabakað og afurðir úr héraði í öndvegi.
Útsýnið og umhverfið er síðan punkturinn yfir i´ið, það verður enginn svikinn af dvöl á Hótel Laka svo ég ljúki nú þessari miklu auglýsingu fyrir hótelið ;-)

Árshátíðin var vel lukkuð eins og ávallt en Kjörís hefur nú í nokkur ár tekið helgi undir árshátíðina og hefur það mælst afar vel fyrir. Takk fyrir samveruna...

15. mars 2009

Að loknu prófkjöri...

Það hefur vafalaust verið mikið spennufall á mörgum bæjum í dag þegar úrslit prófkjörsins hér í suðurkjördæmi lágu fyrir. Ragnheiður, Árni, Unnur og Íris munu leiða lista okkar Sjálfstæðismanna við næstu kosningar og óska ég þeim innilega til hamingju með árangurinn. En það dugar ekki að sitja of lengi og fagna, nú þarf að raða á listann og samþykkja hann næstkomandi laugardag. Þá tekur við hin raunverulega barátta við liðsmenn annarra flokka. Framundan eru líflegar vikur ...

13. mars 2009

Í tilefni af prófkjörinu á morgun hvet ég alla til að kynna sér síðuna www.profkjor.is þar er að finna góðar upplýsingar um alla frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins þetta árið.
-------------------------------
Verð að segja að mér leiðast mjög endalausar aðdróttanir um vanhæfi og hagsmunapot stjórnmálamanna. Í stórri hjörð má vafalaust finna svarta sauði en upp til hópa eru þeir sem bjóða sig fram til pólitískra starfa heiðarlegir einstaklingar með ríkan vilja til að gera vel fyrir land og þjóð. Það gildir um alla hvar í flokki sem menn standa. Okkur getur greint á um leiðir en rétt er að láta stjórnmálaskoðanir lita sem minnst álit okkar á einstökum persónum. Það er brýnt að þeir sem til forystu veljast tali ekki starfsfélaga og starfið sem slíkt niður heldur gegni sínum störfum af trúfestu og ábyrgð og ekki síður af ákveðinni auðmýkt fyrir þeim sem þá kusu til starfans. Þegar gengið er til prófkjörs eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Ég vona að prófkjör morgundagsins skili okkur Sjálfstæðismönnum öflugum lista sem veita mun Suðurkjördæmi þá forystu sem það á skilið.

Að þessu sögðu vil ég linka inná síðuna hans Marðar Árna en boðskapinn tel ég geta átt við menn og konur í öllum flokkum.
-------------------------
Annars var landsfundur Sambands íslenskra sveitarfélaga haldinn í dag en til hans mættu ríflega 130 sveitarstjórnarmenn. Fundurinn var líflegur enda var hálfur dagurinn undirlagður umræðuhópum og virkri vinnu fundarmanna. Slíkt skilar ávallt miklu enda gott að geta skipst á skoðunum um þau mál sem helst brenna á sveitarstjórnarmönnum. Í dag var það flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna, en viljayfirlýsing milli ráðherra og Sambandsins var undirrituð á fundinum. Fjármál, aukið lýðræði og ESB umræðan var einnig það sem helst brann á fundarmönnum. Að loknum fundinum hófst Aðalfundru Lánasjóðs sveitarfélaga á sama stað. Sjóðurinn er haldreipi sveitarstjórnarmanna á þessum síðustu og verstu tímum þegar aðgengi að lánsfé er bæði lítið og lélegt.
--------------------------
Kíkti örstutt ásamt Elfu á túlípanasýninguna sem opnaði í dag í Blómaval. Við þurfum að fylgjast með því sem aðrir eru að gera á þessu sviði en þannig undirbúum við okkur best fyrir sýninguna Blóm í bæ sem haldin verður hér í Hveragerði í lok júní.
--------------------------
Keyrði austur í vonsku veðri en náði þó áður en Heiðin lokaði alveg. Ég náði því að fylgjast með leik Hamars við Þór Þorlákshöfn sem Hvergerðingar sigruðu eftir ótrúlega spennanandi leik. Í leikslok var Hamri síðan afhentur bikar en liðið hefur nú unnið sér rétt til keppni í úrvalsdeildinni. Flott hjá strákunum - til hamingju.
--------------------------
Sigrún mágkona fagnaði síðan afmæli sínu í kvöld með boði. Afar notalegt en það er ekki síður notalegt að sitja núna inni og hlusta á storminn sem geisar fyrir utan. Allt í einu er kominn heilmikill snjór og hríðarbylur og hér sat ég á pallinum í gær og lét mig dreyma um að tímabært væri að klippa trén og byrja að vinna aðeins í garðinum....

Gróðurskemmdir af völdum virkjunar ...

Mér datt til hugar að gefa örlítið sýnishorn af því hvernig hægt er að stilla hlutum upp með mismunandi hætti í fréttum og gefa þannig nokkuð breytta mynd af því sem til umfjöllunar er. Orkuveita Reykjavíkur hefur látið vinna skýrslu um áhrif Hellisheiðarvirkjunar á mosa og gróður í kringum virkjunina.

Fréttatilkynning um skýrsluna sem OR sendi frá sér hefst með þessum hætti:

10.3.2009 Vísindaleg rannsókn leiðir í ljós að ekki er unnt að fullyrða með óyggjandi hætti að brennisteinsvetni sé að drepa mosa næst Hellisheiðarvirkjun. Vísbendingar eru þó um að það eigi þátt í mosaskemmdum í allt að 700 metra fjarlægð frá stöðvarhúsinu. Ekki er vitað um þolmörk mosa fyrir brennisteini. Í rannsókn, sem Orkuveita Reykjavíkur kallaði eftir, voru tekin sýni við þrjár jarðgufuvirkjanir á Suðvesturlandi og í Bláfjöllum, þar sem svipaðar mosaskemmdir voru greinilegar, en talið víst að áhrifa jarðhitanýtingar gætti ekki. Vísindamenn treysta sér ekki til að draga afgerandi ályktanir af þeim gögnum sem fyrir liggja um að efna- og umhverfisálag valdi meiri rofskemmdum á Hellisheiði en í Bláfjöllum og mæla með frekari rannsóknum.
Hér má lesa fréttatilkynningu Orkuveitunnar í heild sinni.

Í skýrslu vísindamannanna Dr. Árna Bragasonar jurðaerfðafræðings og Evu Yngvadóttur efnaverkfræðings kemur eftirfarandi fram í niðurstöðu kafla skýrslunnar:

Áhrif frá jarðavarmavirkjun á Hellisheiði eru sýnileg og mælanleg í mosa. Greinilegar
skemmdir eru sýnilegar á mosa í nánasta umhverfi virkjunarinnar (< 700 m) að hluta
til vegna náttúrulegs rofs og hluta vegna áhrifa frá virkjuninni. Styrkur brennisteins og kvikasilfurs hækkar fyrstu 700 m en lækkar síðan eftir það í réttu hlutfalli við fjarlægð. Í um 1500 m fjarlægð frá stöðvarhúsi til SV, við Suðurlandsveg, er styrkur brennisteins enn nokkuð hærri miðað við mældan styrk í Bláfjöllum sem bendir til að áhrifa frá útblæstri frá stöðvarhúsi gæti ennþá í þessari fjarlægð. Hins vegar benda þær skemmdir sem eru sýnilegar í mosanum á þessum stað ekki til neinna efnaskemmda þar sem enginn dauður mosi er sjáanlegur heldur virðast hér vera á ferð rofskemmdir af völdum veðráttu.

Ég er enn að velta fyrir mér hvað hugsanlega gæti valdið skemmdum á mosa og gróðri í kringum virkjunina annað en virkjunin sjálf?

Efnainnihald jarðgufunnar á Hellisheiði og í Bitru er með allt öðrum og meira mengandi hætti en á öðrum virkjunarsvæðum hér í grennd. Það er ekki útaf engu sem við berjumst gegn Bitru sem er í snaggaralegu göngufæri frá Hveragerði. Ég get aftur á móti alveg skilið að það sé erfitt fyrir marga að skilja okkar sjónarmið því aldrei áður hefur nokkrum dottið til hugar að setja niður virkjun svo til við bæjardyr stórs þéttbýliskjarna. Það veldur ágreiningi að því tagi sem fólk á ekki að venjast. Við Hvergerðingar megum síðan þola fullkomið skilningsleysi margra við okkar sjónarmið og hin undarlegustu rök eru dregin fram. Vinsælt er til dæmis að minnast á Grindavík í þessu samhengi. Því er rétt að geta þess að í jarðsjónum sem þar er virkjaður er svo til ekki hægt að finna brennisteinsvetni eða önnur þau efnasambönd sem eitruðust eru í Bitru.
---------------------------
Bæjarstjórnarfundur í dag og að honum loknum fór ég að sjá leik með kvennaliði Hamars þar sem þær öttu kappi við Haukana í öðrum leik undanúrslitanna í Íslandsmótinu. Sigruðu okkar stelpur nokkuð örugglega svo nú er jafnt í viðureigninni 1-1. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitin. Þetta er því heilmikið álaga á stelpurnar en mikið óskaplega standa þær sig vel.

Strax eftir leikinn fórum við Tim uppí Laugaskarð þar sem sunddeild Hamars stóð fyrir Guðlaugssundi. Syntu 2 og jafnvel 3 á hverri braut og þónokkrir ætluðu að synda alla 6 kílómetrana. Aðrir höfðu myndað lið og deildu sundinu bróðurlega á milli sín. Stemningin var firnagóð og afskaplega fallegt að líta yfir iðandi laugina í kvöldmyrkrinu. Ég reyndi síðan að útskýra fyrir Tim afrek Guðlaugs en mér varð eiginlega orða vant þegar ég fann að þetta var í hans augum algjörlega óskiljanlegt. Enda hvernig er hægt að skilja það að hægt sé að synda 6 kílómetra í jökulköldum sjó, ná landi en þó ekki, synda aftur á haf út áður en gengið var á land. Ganga berfættur yfir úfið hraun, brjóta þykkan ís til að ná í vatn áður en loks var komið til byggða heill á húfi. Þetta er vafalaust mesta afrek sem nokkur Íslendingur hefur unnið og held ég að þjóðin sé alltaf að gera sér betur grein fyrir því.

11. mars 2009

Sorp, tjaldsvæði, brunamál, Suðurlandsvegur og prófkjör...

Hitti forstjóra Íslenska gámafélagsins í morgun og fórum við yfir ýmsa möguleika sem fyrir hendi eru varðandi sorphirðu í bæjarfélaginu. Markmiðið er ávallt að minnka það magn sorps sem fer til urðunar enda hafa sveitarfélögin undirgengist lög Evrópusambandsins varðandi minnkun þess. Fundurinn var gagnlegur og að honum loknum for ég betur yfir útreikninga sem þar voru settir fram og heimfærði þá að okkar bæjarfélagi. Annað mikilvægt markmið hlýtur einnig að vera að nýta sem allra best þá fjármuni sem bæjarbúar setja í málaflokkinn og það munum við gera.

Hitti Þór Ólaf Hammer og undirrituðum við leigusamninginn vegna tjaldsvæðisins. Hann mun taka við rekstri þess um næstkomandi mánaðamót og reka svæðið næstu þrettán mánuði. Það verður gaman að fylgjast með nýjungum þar í sumar og óneitanlega auðveldara fyrir Heiðmerkurbúa en flesta aðra þar sem tjaldsvæðið er nánast í bakgarðinum.

Eftir hádegi hitti ég Birki Sveinsson í húsnæði KSÍ í Laugardal en þar fórum við yfir málefni grunnskólans ásamt því að undirbúa fund í Brunamálastofnun. Einnig var ég svo heppin að hann sýndi mér allt húsnæði KSÍ í nýju stúkunni við Laugardalsvöllinn en það er afskaplega vel hannað og skemmtilegt. Það segir allt um áhuga minn á fótbolta að ég hef ekki svo mikið sem komið á bílaplanið áður þannig að þetta var upplifun ;-)

Hittum síðan Björn Karlsson brunamálastjóra og Guðmund Gunnarsson yfirverkfræðing stofnunarinnar og fórum við í sameiningu yfir stöðu mála varðandi mjúkhýsið. Við höfum nú unnið að þessu máli í langan tíma og viljum fara að fá niðurstöðu svo hægt sé að halda áfram. Fundurinn var jákvæður og vona ég að skriður komist nú á málið.

Sat síðan fund Brunamálaráðs þar sem ég er varamaður Dags B. Eggertssonar. Þar ræddi ég meðal annars um það neyðarástand sem getur skapast vegna klippivinnu á þjóðvegum landsins taki ríkið ekki af skarið varðandi það hver á að sjá um þessa lífsnauðsynlegu bjargir á vegum landsins og ekki síður hver á að greiða þjónustuna. Fórum einnig yfir fjárhagsáætlun Brunamálastofnunar og ræddum meðhöndlun brunavarnagjalds sem innheimt er af öllum húseigendum í landinu og renna á til reksturs stofnunarinnar. Gjaldið hefur aftur á móti ekki runnið til stofnunarinnar sem telja verður í hæsta máta undarlegt!

Um leið og ég kom austur aftur hitti ég forsvarsmenn Vegagerðarinnar sem buðu bæjarbúum uppá kynningu á tilvonandi Suðurlandsvegi frá Hólmsá austur að Hveragerði. Eitthvað hefur kynningin farið fyrir ofan garð og neðan hjá bæjarbúum þvi ekki var fjölmenni fyrir að fara. Gögn þeirra Vegagerðarmanna aftur á móti mjög góð og gagnlegt að fara yfir málin með þeim.

Í kvöld hittu síðan bæjarfulltrúar stjórn Sjálfstæðisfélagsins til að undirbúa prófkjörið sem haldið verður næstkomandi laugardag. Þeir sem vilja taka þátt þurfa að ganga í flokkinn og það er hægt að gera hér, nú eða á kjörstað á laugardag. Nú er lag til að hafa áhrif ...

10. mars 2009

Af tækniklúðri, bjór og notuðu sjónvarpi ...

Fór á skemmtilegan fund í Lionsklúbbi Hveragerðis í gærkvöldi þar sem fjallað var um Hveragerði, stöðu og horfur til framtíðar. Hefði verið miklu mun betra ef ég hefði fengið tæknibúnaðinn til að virka en glærurnar bíða betri tíma. Stundum getur maður virkilega saknað gömlu myndvarpanna sem ekki gátu klikkað ;-)

Í dag var bæjarstjórnarfundur undirbúinn en þar verður til seinni umræðu samþykkt um byggingargjöld og lögreglusamþykkt til fyrri umræðu. Hér hefur aldrei verið sérstök lögreglusamþykkt og því tímabært að samþykkja eina slíka. Eftir síðari umræðu og áritun ráðherra verður hún sett á netið og þannig öllum aðgengileg. Á fundinum verða málefni grunnskólans einnig til umræðu sem og fundargerðir nefnda sem reyndar hefur fækkað mjög í sparnaðaraðgerðum undanfarið.

Átti nokkur góð símtöl í dag og meðal annars við Magnús nokkurn Stefánsson, Hvergerðing sem hleypti heimdraganum og flutti til Danmerkur ásamt Heiðu konu sinni. Kom heim aftur og er nú sestur að vestur á landi þar sem hann stýrir brugghúsi í Stykkishólmi sem framleiðir bjórinn Jökul. Góð ástæða til að bregða sér í Vínbúðina til að kanna hvernig Magga hefur tekist til...

Hitti einnig Steinar Garðarsson brunavörð sem bað mig endilega að grennslast fyrir um það hvort einhver góðhjartaður Hvergerðingur ætti ekki sjónvarp til að gefa Slökkviliðinu. Slíkt kæmi sér afar vel við æfingar liðsins sem getur þá nýtt sér kennsluefni með myndrænum hætti. Endilega hafið samband við Steinar eða bæjarskrifstofuna ef þið viljið losna við sjónvarp fyrir góðan málstað....

Annars lauk yfirferð Almannavarnanefndar Árnessýslu um sýsluna í gær. En þá heimsóttum við slökkvilið og björgunarsveitir Uppsveitanna og fengum góðar móttökur. Það er ótrúlegt hversu mikið fáir einstaklingar eru tilbúnir til þess að leggja á sig til að bjarga okkur hinum. Fyrir utan að sinna björgunarstörfum þá hafa björgunarfélögin komið sér upp húsnæði að mestu í sjálfboðavinnu og ótrúleg vinna farið í slíkt.

Já og Bjarni Rúnar er enn í Austur Þýskalandi hinu forna. Þar ber það helst til tíðinda að hann varð um síðustu helgi fylkismeistari í Sachsen Anhalt með undir 21 árs liðinu sínu í körfubolta. Sachsen Anhalt er semsagt eitt af 16 fylkjum Þýskalands. Nú fer liðið til Berlínar um næstu helgi til að keppa þar á sterku móti annarra fylkjameistara. Þetta er heilmikil upplifun og reynsla. Man þegar liðið hans komst fyrst í Laugardalshöllina hér heima það fannst okkur merkur áfangi. Nú er verið að keppa í Berlín ;-) Hann keppir líka með meistaraflokki USV Halle og þar er einnig barist um um efsta sætið í fylkinu. Hann hefur greinilega lent á góðum stað, mikið fjör í boltanum, nýkominn heim úr viku skíðaferð til Austurríkis og tóm hamingja á öllum vígstöðvum ! ! !

------------------------------------
Prófkjör okkar Sjálfstæðismanna fer fram næsta laugardag og hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt í því. Hægt er að ganga í flokkinn á kjörstað en prófkjörið er eingöngu opið félögum Sjálfstæðisfélaganna. Þetta er leiðin til að hafa áhrif, mæta og kjósa! Frambjóðendur hafa margir stofnað afar flottar heimasíður þar sem hægt er að fylgjast með baráttunni. Allar upplýsingar má fá á www.profkjor.is.

5. mars 2009

Fimmtudagur ...

Þegar svona langur tími líður milli færslna á bloggið þá fallast manni hendur þegar á að byrja aftur. Hvað á að skrifa, hverju á að sleppa og hvað er orðið úrelt...

Iðavellir opnuðu með pompi og pragt fyrir viku síðan. Eru þeir staðsettir í Eden eins og allir ættu nú að vita. Í dag var síðan sérstakt boð fyrir fararstjóra sem fjölmenntu í lambasteik og bernaise! Minnti mig á Hótel Sögu í den tid... Ég og Jóhanna mættum með kallana okkar til að halda uppi merkjum Hveragerðisbæjar og gekk okkur það bærilega. Inga á listasafninu var þarna líka enda safnið hennar svotil í næsta húsi svo þessir tveir staðir geta hæglega stutt hvorn annan. Ég gat ekki betur heyrt en að allir væru hæstánægðir með heimsóknina og bendir það til góðs ferðasumars. Hér má lesa frétt um ferðina á heimasíðu leiðsögumanna.

Frá hádegi og framundir sex var Almannavarnanefnd Árnessýslu á yfirreið um sýsluna að skoða húsnæði, búnað og tæki á hinum ýmsu stöðum og ekki síður að hitta forsvarsmenn björgunarsveita og slökkviliða. Við byrjuðum á Selfossi í nýju björgunarmiðstöðinni. Ég verð nú að játa að ég hef aldrei séð annað eins. Húsið hefur greinilega verið tilbúið að stórum hluta með fínu gegnheilu parketi, flísalögnum, hreinlætistækjum, vöskum í innréttingum og blöndunartækjum. Greinilega bara átt eftir að skúra út úr skrifstofunum. Allt sem hægt var að fjarlægja hefur síðan verið rifið burtu og eftir stendur húsið hálfkarað aftur og það sem þó var komið og var vandað eins og parketið skemmt á stórum svæðum. Síðan hefur þessi framkvæmd greinilega dregið þróttinn úr björgunarsveitinni, skiljanlega, svo ekki var sérlega gott hljóðið á þeim bænum. Ofboðslega sorglegt að heyra hvernig þetta mál hefur æxlast.
Heimsóttum síðan lögreglustöðina en þar er stjórnstöð Almannavarna staðsett í kjallaranum. Litum líka á fangaklefana og aðra aðstöðu sem þarna er. Hef aldrei komið þarna áður, sem betur fer kannski ;-)
Eyrarbakki var næstur á dagskrá og síðan Þorlákshöfn áður en haldið var hingað til Hveragerðis. Hér tóku Hjálparsveitarmenn á móti okkur í húsnæðinu nýja sem svo sannarlega er til mikillar fyrirmyndar. Allt eins og best verður á kosið, vandað og frágengið. Stjórnstöðvarherbergið er vel búið tækjum enda ljóst að það verður notað sem stjórnstöð fyrir björgunarsveitir Árnessýslu næstu misserin eða þar til mál leysast í Árborg. Slökkvistöðin okkar hér er auðvitað ný, vígð á haustmánuðum og því afar vel búin og falleg. Síðan finnst mér ekki síður áberandi hversu mikið og gott starf er unnið á báðum stöðum. Svona í trúnaði get ég sagt að bæjarstjórinn var afar montinn af góðu starfi Hjálparsveitarinnar og slökkviliðsins þegar þessari ferð lauk í dag.
Síðdegis á mánudag er ferðinni síðan heitið í Uppsveitirnar, það verður fróðlegt að heimsækja þá staði.
-----------------------------
Á bæjarráðsfundi í morgun var ákveðið að leigja Þór Ólafi Hammer tjaldsvæðið við Reykjamörk til eins árs. Hann og kona hans Margrét hafa miklar og góðar hugmyndir varðandi þjónustu á svæðinu svo það verður gaman að fylgjast með starfi þeirra í sumar.

Bæjarráð ákvað einnig að kaupa hluta gamla "Mjólkurbúsins" en þar eru nú staðsettar þrjár skólastofur. Bæjarfélagið hefur haft húsnæðið á leigu í nokkur ár en með kaupum þess nú munu mánaðarlegar afborganir vegna þess lækka til mikilla muna.

Umhverfisstofnun hefur lánað Hveragerðisbæ mæli sem fylgist með magni brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Frá og með 1. apríl ber síðan Orkuveitunni að setja upp mæli þar sem æskilegt væri að upplýsingar væru aðgengilegar á netinu.
--------------------------------------------

Elli hennar Laufeyjar er kominn heim frá Kashmir á Indlandi eftir mikla ævintýraferð, ef marka má myndir að utan. Tilgangur ferðarinnar var að skíða og þessi mynd af Ella var svo góð að ég nappaði henni af facebook. Ef ég færi svona yfirleitt á skíði þá þætti mér þetta freistandi umhverfi ...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

  • Um Aldísi ...
  • Ræður og greinar ...
  • Aftur á forsíðu...
  • Tenglar
  • Mjúkhýsi í Hveragerði ?
  • Síða Sjálfstæðisflokksins
  • Sjálfstæðismenn í Hveragerði
  • Sjálfstæðiskonur
  • Sjálfstæðismenn í Suður.
  • Gagnagátt Sambandsins
  • Besti ísinn!
  • Morgunblaðið á netinu
  • Vísir.is
  • DFS - Fréttasíða Dagskrárinnar
  • Fleiri Sunnlenskar fréttir
  • Mælingar á loftgæðum í Hveragerði
  • Hveragerði
  • Heimasíður fyrirtækja í Hveragerði
  • Grunnskólinn í­ Hveragerði
  • Íþróttafélagið Hamar
  • Veðurspá fyrir Hveragerði
  • Fjölbrautaskóli Suðurlands
  • Gagnasöfn Hvar.is
  • Besti bloggarinn ! ! !
  • Vefbanki Valla...
  • SASS
  • Myndir Bjössa á Bláfelli
  • Nátturan.is
  • Orðaþýðingar - frábær síða
  • Færð og veður á SV-landi
  • Leitarvélin
  • Sí­maskráin
  • Ýmsar myndir
  • Myndasíða
  • Úr reisubókinni
  • Flórída janúar 2017
  • Litháen, Armenia og Karabakh 2015
  • Serbí­a og Svartfjallaland 2005
  • Istanbul í­ Tyrklandi 2005
  • Búkarest í Rúmení­u 2006
  • Ítalía 2007
  • Svartfjallaland 2008
  • Danmörk 2010
  • Heimsreisa Laufeyjar og Elvars 2011-2012
  • Hefur þú skoðun?
  • Hafðu samband!
    Eldri færslur
  • 1.1.2004 - 1.2.2004
  • 1.2.2004 - 1.3.2004
  • 1.3.2004 - 1.4.2004
  • 1.5.2004 - 1.6.2004
  • 1.6.2004 - 1.7.2004
  • 1.7.2004 - 1.8.2004
  • 1.8.2004 - 1.9.2004
  • 1.9.2004 - 1.10.2004
  • 1.10.2004 - 1.11.2004
  • 1.11.2004 - 1.12.2004
  • 1.12.2004 - 1.1.2005
  • 1.1.2005 - 1.2.2005
  • 1.3.2005 - 1.4.2005
  • 1.4.2005 - 1.5.2005
  • 1.5.2005 - 1.6.2005
  • 1.6.2005 - 1.7.2005
  • 1.7.2005 - 1.8.2005
  • 1.8.2005 - 1.9.2005
  • 1.9.2005 - 1.10.2005
  • 1.10.2005 - 1.11.2005
  • 1.11.2005 - 1.12.2005
  • 1.12.2005 - 1.1.2006
  • 1.1.2006 - 1.2.2006
  • 1.2.2006 - 1.3.2006
  • 1.3.2006 - 1.4.2006
  • 1.4.2006 - 1.5.2006
  • 1.5.2006 - 1.6.2006
  • 1.6.2006 - 1.7.2006
  • 1.7.2006 - 1.8.2006
  • 1.8.2006 - 1.9.2006
  • 1.9.2006 - 1.10.2006
  • 1.10.2006 - 1.11.2006
  • 1.11.2006 - 1.12.2006
  • 1.12.2006 - 1.1.2007
  • 1.1.2007 - 1.2.2007
  • 1.2.2007 - 1.3.2007
  • 1.3.2007 - 1.4.2007
  • 1.4.2007 - 1.5.2007
  • 1.5.2007 - 1.6.2007
  • 1.6.2007 - 1.7.2007
  • 1.7.2007 - 1.8.2007
  • 1.8.2007 - 1.9.2007
  • 1.9.2007 - 1.10.2007
  • 1.10.2007 - 1.11.2007
  • 1.11.2007 - 1.12.2007
  • 1.12.2007 - 1.1.2008
  • 1.1.2008 - 1.2.2008
  • 1.2.2008 - 1.3.2008
  • 1.3.2008 - 1.4.2008
  • 1.4.2008 - 1.5.2008
  • 1.5.2008 - 1.6.2008
  • 1.6.2008 - 1.7.2008
  • 1.7.2008 - 1.8.2008
  • 1.8.2008 - 1.9.2008
  • 1.9.2008 - 1.10.2008
  • 1.10.2008 - 1.11.2008
  • 1.11.2008 - 1.12.2008
  • 1.12.2008 - 1.1.2009
  • 1.1.2009 - 1.2.2009
  • 1.2.2009 - 1.3.2009
  • 1.3.2009 - 1.4.2009
  • 1.4.2009 - 1.5.2009
  • 1.5.2009 - 1.6.2009
  • 1.6.2009 - 1.7.2009
  • 1.7.2009 - 1.8.2009
  • 1.8.2009 - 1.9.2009
  • 1.9.2009 - 1.10.2009
  • 1.10.2009 - 1.11.2009
  • 1.11.2009 - 1.12.2009
  • 1.12.2009 - 1.1.2010
  • 1.1.2010 - 1.2.2010
  • 1.2.2010 - 1.3.2010
  • 1.3.2010 - 1.4.2010
  • 1.4.2010 - 1.5.2010
  • 1.5.2010 - 1.6.2010
  • 1.6.2010 - 1.7.2010
  • 1.7.2010 - 1.8.2010
  • 1.8.2010 - 1.9.2010
  • 1.9.2010 - 1.10.2010
  • 1.10.2010 - 1.11.2010
  • 1.11.2010 - 1.12.2010
  • 1.12.2010 - 1.1.2011
  • 1.1.2011 - 1.2.2011
  • 1.2.2011 - 1.3.2011
  • 1.3.2011 - 1.4.2011
  • 1.4.2011 - 1.5.2011
  • 1.5.2011 - 1.6.2011
  • 1.6.2011 - 1.7.2011
  • 1.7.2011 - 1.8.2011
  • 1.8.2011 - 1.9.2011
  • 1.9.2011 - 1.10.2011
  • 1.10.2011 - 1.11.2011
  • 1.11.2011 - 1.12.2011
  • 1.12.2011 - 1.1.2012
  • 1.1.2012 - 1.2.2012
  • 1.2.2012 - 1.3.2012
  • 1.3.2012 - 1.4.2012
  • 1.4.2012 - 1.5.2012
  • 1.5.2012 - 1.6.2012
  • 1.6.2012 - 1.7.2012
  • 1.7.2012 - 1.8.2012
  • 1.8.2012 - 1.9.2012
  • 1.9.2012 - 1.10.2012
  • 1.10.2012 - 1.11.2012
  • 1.11.2012 - 1.12.2012
  • 1.12.2012 - 1.1.2013
  • 1.1.2013 - 1.2.2013
  • 1.2.2013 - 1.3.2013
  • 1.3.2013 - 1.4.2013
  • 1.4.2013 - 1.5.2013
  • 1.5.2013 - 1.6.2013
  • 1.6.2013 - 1.7.2013
  • 1.7.2013 - 1.8.2013
  • 1.8.2013 - 1.9.2013
  • 1.9.2013 - 1.10.2013
  • 1.10.2013 - 1.11.2013
  • 1.11.2013 - 1.12.2013
  • 1.12.2013 - 1.1.2014
  • 1.1.2014 - 1.2.2014
  • 1.2.2014 - 1.3.2014
  • 1.3.2014 - 1.4.2014
  • 1.4.2014 - 1.5.2014
  • 1.5.2014 - 1.6.2014
  • 1.8.2014 - 1.9.2014
  • 1.9.2014 - 1.10.2014
  • 1.10.2014 - 1.11.2014
  • 1.11.2014 - 1.12.2014
  • 1.12.2014 - 1.1.2015
  • 1.1.2015 - 1.2.2015
  • 1.2.2015 - 1.3.2015
  • 1.3.2015 - 1.4.2015
  • 1.4.2015 - 1.5.2015
  • 1.6.2015 - 1.7.2015
  • 1.7.2015 - 1.8.2015
  • 1.8.2015 - 1.9.2015
  • 1.9.2015 - 1.10.2015
  • 1.10.2015 - 1.11.2015
  • 1.11.2015 - 1.12.2015
  • 1.12.2015 - 1.1.2016
  • 1.1.2016 - 1.2.2016
  • 1.2.2016 - 1.3.2016
  • 1.3.2016 - 1.4.2016
  • 1.4.2016 - 1.5.2016
  • 1.5.2016 - 1.6.2016
  • 1.6.2016 - 1.7.2016
  • 1.7.2016 - 1.8.2016
  • 1.8.2016 - 1.9.2016
  • 1.9.2016 - 1.10.2016
  • 1.10.2016 - 1.11.2016
  • 1.11.2016 - 1.12.2016
  • 1.12.2016 - 1.1.2017
  • 1.1.2017 - 1.2.2017
  • 1.2.2017 - 1.3.2017
  • 1.3.2017 - 1.4.2017
  • 1.5.2017 - 1.6.2017
  • 1.6.2017 - 1.7.2017
  • 1.8.2017 - 1.9.2017
  • 1.9.2017 - 1.10.2017
  • 1.10.2017 - 1.11.2017
  • 1.11.2017 - 1.12.2017
  • 1.12.2017 - 1.1.2018
  • 1.1.2018 - 1.2.2018
  • 1.2.2018 - 1.3.2018
  • 1.3.2018 - 1.4.2018
  • 1.4.2018 - 1.5.2018
  • 1.5.2018 - 1.6.2018
  • 1.8.2018 - 1.9.2018
  • 1.11.2018 - 1.12.2018
  • 1.4.2021 - 1.5.2021
  • 1.5.2021 - 1.6.2021
  • 1.6.2021 - 1.7.2021
  • 1.7.2021 - 1.8.2021
  • Free Guestbook from Bravenet Free Guestbook from Bravenet