11. maí 2018
Hingað koma alltaf öðru hvoru erlendir blaða- og fréttamenn og allir vilja þeir viðtal við bæjarstjórann. Í morgun hitti ég hann Simon Ross sem er að útbúa myndband um Hveragerði fyrir Discover the World ferðaskrifstofuna. Við áttum hið besta spjall bæði með og án myndavéla. Hann er mikill áhugamaður um Hveragerði og hefur komið hingað margoft. Mér finnst aldrei leiðinlegt þegar gestir okkar segja mér í óspurðum fréttum að Hveragerði sé uppáhaldsbærinn þeirra á Íslandi. Ég er nefnilega svo sammála því ....
Á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag var tekin til afgreiðslu tilkynning frá Umhverfisstofnun um áframhaldandi lokun Reykjadals. Fyrir rekstraraðila í Hveragerði er þessi ákvörðun afar slæm enda finna þeir verulega fyrir því að ferðamönnum hefur fækkað við þessa ákvörðun. Við myndum alveg skilja þetta ef eitthvað hefði verið gert til að bæta úr hvað varðar stíginn á þessum vikum sem liðnar eru frá því að hann lokaði. En svo er nú því miður ekki. Mikilvægast af öllu að margra mati er að harðbanna með öllu umferð ríðandi fólks um dalinn og bæta síðan göngustígana með svo góðum hætti að við lendum ekki í þessu aftur. Myndin hér til hliðar er tekin inn við baðstaðinn og sýnir vel að búið er að ráðast í miklar framkvæmdir á svæðinu. Hér má lesa bókun bæjarstjórnar.
Síðdegis í dag bárust svo þær fréttir að Umhverfisstofnun myndi ekki leggja til áframhaldandi lokun á gönguleiðinni og opnar hún því í fyrramálið kl. 10:00. Mjög ánægjulegar fréttir enda var þetta að verða afar sérstakt sérstaklega þar sem fullt af öðrum gönguleiðum voru síst í betra ástandi án þess að þar stæði til lokun í heila tvo mánuði eins og stefndi í.Fram að kosningum verð ég í sumarfríi frá vinnu til að sinna framboðsmálum. Ég er aftur á móti búin að bóka á mig all nokkra fundi og viðtöl þannig að um óslitið frí verður ekki að ræða. Það er aftur á móti gott að þessir dagar eru allir skráðir sem sumarfrí, enda veitir ekki af þessa síðustu daga fyrir kosningar.
Comments:
Skrifa ummæli