10. apríl 2018
Vinna við drög að nýjum reglum vegna úthlutunar lóða tóku ansi langan tíma í dag. Það virðist vera óumflýjanlegt þegar maður er að vinna að svona löguðu að það er einhvern veginn endalaust hægt að bæta við, breyta og lagfæra en samt nær maður ekki utan um allt það sem mögulega getur komið upp þegar vinna á eftir reglunum. En núna erum við að reyna að gera þetta eins skothelt og nokkur er kostur. Allavega til mikilla bóta frá því sem nú er. Kláraði einnig önnur gögn vegna fundar bæjarstjórnar í vikunni en fundarboðið fór út í dag.
Átti fundi í dag vegna tryggingamála en einnig viðtöl við tvo aðila sem báðir höfðu hug á að fá lóðir hér í Hveragerði. Endaði svo vinnudaginn á fundi í stjórn Listasafns Árnesinga en þar samþykkti stjórn ársreikninginn.
Á leiðinni í vinnuna fór ekki fram hjá mér að nú er byrjað að grafa fyrir tveimur einbýlishúsum hér rétt ofar í götunni. Þar eru nú að hefjast eða hafnar framkvæmdir við 9 einbýlishús/parhús og í auglýsingu eru fjórar lóðir til viðbótar. Gárungarnir eru farnir að kalla hverfið 101 Hveragerði enda ekki skrýtið þar sem það er á besta stað í bænum og örstutt í alla þjónustu.
Í kvöld þreif ég örugglega vel á annað hundrað blómapotta og bakka enda fer að koma að því að ég þurfi að prikkla öllu sem ég er búin að sá. Þarf bara nauðsynlega nýjan rafmagnsofn í gróðurhúsið því sá gamli gaf upp öndina. Um leið og því er reddað verður prikklað.
Comments:
Skrifa ummæli