4. apríl 2018
Nýverið samþykkt bæjarráð að selja Þórsmörk 1A fyrir 48,7 m.kr. Einhverjum kann að finnast kaupverðið ansi hátt. En húsið er afar stórt og á góðum stað þannig að það skýrir að mestu hátt verð. En vonandi munu nýir eigendur verða ánægðir með kaupin. Hveragerðisbær eignaðist húsið Mel nýlega. Er það litla gula húsið við Hveramörk sem stendur stakstætt á stótrri lóð. Það var skýr vilji bæjarfulltrúa að bærinn myndi eignast þetta hús með tilheyrandi lóð enda er hún aðliggjandi að Hveragarðinum og það er aldrei að vita hvenær sú starfsemi þarf aukið rými.
Í dag var ég gestur á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Valhöll. Þetta var sérlega góður fundur og sköpuðust þarna afar góðar umræður. Fundargestir voru forvitnir um Hveragerði og greinilegt að bæjarfélagið okkar er orðið þekkt fyrir góða þjónustu og frábært umhverfi. Það var gaman að því að ég fékk fjölmargar spurningar um Hamarshöllina sem fundargestir voru afar forvitnir um og hrifnir af.
Síðdegis hittist framboðslistinn til myndatöku. Enduðum á pizzu á Ölverk þar sem við áttum saman skemmtilegt kvöld. Ég er afar ánægð með það hvernig skipast hefur á framboðslistann. Gott fólk og skemmtilegt í hverju sæti.
Comments:
Skrifa ummæli