28. apríl 2018
Þann 19. Apríl voru liðin 25 ár frá því að pabbi dó. Stundum líður mér eins og það hafi gerst í gær en svo man ég að það er í raun heil ævi síðan. Eiginlega öll ævin hans Bjarna Rúnars mín sem var 3 ára þegar afi hans dó og öll ævin hans Alberts míns sem var ekki einu sinni fæddur.
Ég get ennþá framkallað tilfinninguna þegar ég fékk fréttirnar um að hann hefði hnigið niður.
Áfallið þegar ég sá hann á spítalanum. Vantrúna þegar læknarnir sögðu að hann væri dáinn þrátt fyrir að vera enn með hjartslátt og öndun. Reiðina þegar læknirinn sagði að hann væri "spennandi". tilfelli. Gæti orðið fyrsti íslenski líffæragjafinn á Landspítalanum! Ég gleymi aldrei stjörnubjörtum himni og kuldanum sem mætti okkur í myrkrinu á Öldugötunni í Hafnarfirði þegar við komum út, eftir að hafa fengið símtalið! Þar sem við stöndum á tröppunum hjá Alberti móðurbróður sáum við flugvélina fljúga frá Reykjavíkurflugvelli um miðja nótt. Við vissum að þar með var þetta búið. Við höfðum gefið leyfi fyrir því að líffærin hans væru tekin og gefin öðrum. Teymið kom frá Svíþjóð og þau fóru til baka um nóttina. Ég gleymi aldrei tilfinningunni þegar við komum uppá spítala til að kveðja. Hvað hann var kaldur ! Við sem höfðum kvatt hann fyrr um kvöldið á lífi.
Ég var bara 29 ára.
Ég gleymi aldrei öldu samúðar, velvildar og hlýhugs sem umvafði okkur öll. Ég gleymi aldrei þegar við keyrðum inn í Hveragerði eftir að allt var afstaðið. Öll lömuð af sorg og úrvinda. Á hverri einustu fánastöng var flaggað í hálfa stöng. Við fundum svo greinilega fyrir því að bærinn okkar syrgði með okkur. Við þurftum svo á því að halda og það var svo dýrmætt að finna þennan hlýhug. Þá var yndislegt að eiga góða að. Vini sem komu óumbeðnir, tóku krakkana, hugsuðu um heimilin, héldu utan um mömmu og okkur öll. Nágrannar, vinir, starfsmenn Kjörís, jafnvel ókunnugir. Þetta var erfiður tími. En þegar ég horfi til baka sé ég samt hvað við vorum heppin.
Heppin að hafa átt yndislegan föður sem kenndi okkur svo margt og ekki síður dásamlega móður sem alltaf hefur verið til staðar fyrir okkur öll. Þau kenndu okkur að vera dugleg, vera góð við hvert annað og annað fólk. Vera umburðarlynd en umfram allt að vera þakklát, glöð, ánægð.
Við getum ekki vitað hversu löngum tíma við náum með fólkinu sem okkur þykir vænst um svo við skulum nýta hvern dag sem best. Pabbi ætlaði svo sannarlega að vera lengur með okkur en hann lést 59 ára árið 1993. Sakna hans alltaf en gleðst yfir því góða sem hann skyldi eftir.
Comments:
Skrifa ummæli