23. febrúar 2018
Í morgun gekk ég frá nokkrum starfsmannamálum, kláraði ráðningarsamninga sem ég hafði trassað og annað slíkt. Vildi óska að það gæfust stundum heilir dagar þar sem hægt væri að sökkva sér í frágang ýmissa mála. Það skeður sjaldan því það eru undantekningalaust margir fundir á dag. Einstaka sinnum gerist það þó og það er algjörlega frábært. Gaman þegar maður sér hvert verkið á eftir öðru klárast. Fundur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Þar voru reikningar samþykktir og rætt um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga ásamt öðru. Það er reyndar málið endalausa, skiljanlega. En hvað eftirtektarverðast voru tillögur settar fram af samstarfshópi til hvatningar þeim sem hyggja á kennara nám. Þar er margt athyglisvert sett fram sem nauðsynlegt er fylgja eftir.
Í kvöld hittumst við Valdi bróðir ásamt Alberti mínum útí Kjörís til að undirbúa afkomenda hitting Aldísar og Kristins frá Árnesi á Selfossi en við ætlum að hittast á morgun. Við hittumst ekkert alltof oft systkinin þó við búum í sama bæ svo það var notalegt að spjalla við bróðir. Í kvöld átti ég yndislega stund hér heima við lestur bréfa sem nýverið fundust en þau hafði Aldís amma mín skrifað til vinkonu sinnar sem bjó norður í landi. Bréfin eru skrifuð á árunum 1940 - 1964. Þetta er yndisleg lesning og lýsir svo vel lífinu á Selfossi á þessum árum og kjörum kvenna ekki síst. Mér finnst ég líka kynnast henni ömmu minni svo vel þegar ég sé hvað hún var að sýsla við og það er algjörlega yndislegt þar sem ég náði aldrei að kynnast henni en hún dó þegar ég var á öðru ári. Á morgun verða lesnir valdir kaflar úr þessum bréfum fyrir frændfólkið, vona að það þyki athyglisvert ;-)
Comments:
Skrifa ummæli