21. febrúar 2018
Af fjölmenningu, heimsóknum, listasafni og búrekstri
Alþjóðlegur dagur móðurmálsins er í dag og af þvi tilefni vann hún María á bókasafninu skemmtilega samantekt. Hún hefur fundið út að hér í Hveragerði búa einstaklingar af 25 þjóðernum. Fjölmennastir eru íbúar frá Lettlandi, þá Bretar og síðan koma Danir og Þjóðverjar. Hugsið ykkur hversu mikill mannauður felst í þessum fjölbreytta menningarheimi sem hér er.
-----------
Fjölmarga hópa langar að koma hingað til Hveragerðis og oft eru þeir á vegum samtaka sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og/eða sem samfélagsleg verkefni. Við reynum eftir bestu geta að aðstoða þessa aðila enda viljum við gjarnan að fleiri en við sem hér búum fái að njóta náttúru, umhverfis og þeirra gæða sem Hveragerði býr yfir. Oftast bendi ég þeim á gististaði í bæjarfélaginu en ef þeir eiga lítinn sem engan pening þá bendi ég þeim líka á Menntaskólaselið hér inní Dal.
Hér er skemmtileg grein um menntaskólaselið sem hann afi minn Kristinn Vigfússon byggði. Þarna er líka svo ansi góð mynd af honum.
---------------------
Undanfarið höfum við Inga, safnstjóri Listasafns Árnesinga, setið fjölda viðtala við umsækjendur um stöðu fræðslufulltrúa safnsins. Tuttugu og fimm umsóknir bárust um stöðuna, hver annarri betri. Ég gerði mér enga grein fyrir því hversu margir hæfileikaríkir einstaklingar væru þarna úti sem sinnt geta þessu starfi með miklum sóma. Þarna er við lúxusvandamál að etja að velja úr hópnum.
-----------
Er búin að vera að vinna máli tengdu Friðarstöðum sem á eftir að koma mörgum skemmtilega á óvart. Hér er bæjarstjórinn ekkert inní svona búskapartengdum málum sem sjálfsagt velflestir kollegar mínir kannast vel við. Þess vegna er alltaf svo skemmtilegt þegar ég þarf að setja mig inn í eitthvað þessu tengt. Þá leita ég alltaf fyrst á sama staðinn og spyr Eirík vin minn í Gýgjarhólskoti. Hann veit allt um allt til sveita! Meira um þetta á næsta bæjarráðsfundi.
Comments:
Skrifa ummæli