8. nóvember 2017
Elska daga sem eru svo til fundalausir. Það er nefnilega algjör nauðsyn að eiga einstaka sinnum daga þar sem hægt er að pæla í gegnum tölvupóstinn og flokka hann. Ég rembist nefnilega við að vinna með tómt inbox og undanfarnar vikur hef ég alls ekki náð því. Það er vond tilfinning því þá finnst mér ég vera að gleyma einhverju og það getur meira að segja gerst. Sem er algjörlega óþolandi.
En í dag var semsagt innidagur á skrifstofunni og eini formlegi fundurinn var með fulltrúum Vegagerðarinnar sem komu til að ræða um nýtt vegstæði fyrir Suðurlandsveginn og hliðarveginn sem lagður verður meðfram Suðurlandsveginum. Væntingar eru til þess að framkvæmdir hefjist á næsta ári á ákveðnum köflum. Hveragerðisbær er landeigandi á nokkuð stórum spildum sem fara undir veginn og eins mun vegstæðið hverfa á öðrum stöðum og því þarf að ná samningum um landnotkun á þessum svæðum.
Sundleikfimi síðdegis sem er alltaf skemmtileg og heimsókn til mömmu í kvöld. Hún hræddi okkur nefnilega kröftuglega í dag, en í gær datt hún illa og í morgun var hún orðin svo slæm að sent var eftir sjúkrabíl til að flytja hana á Selfoss í rannsókn. Reyndist hún óbrotin en marin og blá og það sem verra er slæma, ónýta mjöðin er alveg búin en hún er búin að vera á biðlistanum alræmda fyrir mjaðmaskipti í alltof, alltof langan tíma. Skilaboðin sem hún fær er að hún verði bara á biðlistanum, ja, nema ef það komi drep í mjöðmina þá mögulega geti hún færst upp. Það er auðvitað eki hægt að fara svona með fólk !