19. september 2017
Fundur í stjórn Bergrisans hér í Hveragerði í morgun. Þar var fjallað um fjárhagsvanda sjálfstæðra rekstraraðila á Suðurlandi en hér búum við við þá sérstöðu að þessi heimili eru mörg og plássin sem þar eru í boði eru margfalt fleiri heldur en íbúar á svæðinu hafa þörf fyrir. Um það held ég að sé óþarfi að deila. Í ljósi þess er eðlilegt að ríkisvaldið viðurkenni að rekstur þessara heimila þarf að greiðast af fleiri svæðum heldur en Suðurlandi einu. Við höfðum vonir um að þetta mál yrði skoðað af velferðarráðherra en núna er spurning hvernig það fer.
Fundur í stjórn Almannavarna Árnessýslu í hádeginu. Fínn fundur þar sem farið var yfir fjárhagsáætlun næsta árs, almannavarnavikurnar sem framundan eru á Suðurlandi og fleiri mál.
Sameiningarnefnd Árnessýslu fundaði síðan á Skyrgerðinni strax eftir hádegi. Gaman að geta boðið sveitarstjórnarmönnum svona góða aðstöðu til fundahalda.
Rétt náði síðan á fund með fulltrúum Íbúðalánasjóðs sem kynntu gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaganna.
Hörkupúl tími hjá Lóu í Fitness bilinu - gleypti í mig vegan súpuna mína og stökk á fund meirihlutans í kvöld þar sem bæjarráðsfundur var undirbúinn og auðvitað var stjórnmálaástandið rætt. Þar sýndist hverjum sitt !
Comments:
Skrifa ummæli