30. mars 2017
Átti góðan fund í morgun með Almari bakara varðandi áform um uppbyggingu og breytingar sem framundan eru hjá fyrirtækinu. Gríðarleg aukning er í sölu í bakaríinu og gaman að fylgjast með hversu vel gengur. Starfsmenn eru núna ríflega 20 og verða yfir 30 þegar ferðamannatími sumarsins brestur á. Svona til gamans má geta þess að smurða brauðið nýtur mestra vinsælda í þessu glæsilega bakaríi sem við erum svo lánsöm að njóta Hvergerðingar.
Nýlega var haldinn fundur um gróðarstöðvarnar hér í Hveragerði. Niðurstaða fundarins verður lögð fyrir bæjarstjórn í apríl. En á þessum fundi var minnst á útskriftarverkefni Högnu Sigurðardóttur
arkitekts, frá því um miðbik síðustu aldar sem var um „garðyrkjubýli í Hveragerði“.
Mér
fannst þetta svo áhugavert að ég fór að grennslast fyrir um þetta og fann eftirfarandi á netinu:
Með lokaverkefni sínu, Garðyrkjubýli í Hveragerði, sló hún tón í
byggingarlist sinni sem átti eftir að þróast og þroskast á afar persónulegan
hátt og kristallast í frumlegum byggingum bæði hérlendis og í Frakklandi.
„Það sem ég gerði,“ segir Högna, „voru gróðurhús og híbýli fyrir þann
mann sem átti gróðurhúsin. Hinir ýmsu hlutar byggingarinnar voru tengdir saman
svo myndaðist eins konar innra flæði á milli plantnanna og íbúðarhússins. Ég
hugsaði um að setja hana inn í landslagið þannig að það félli að henni. Ég
notaði eftir föngum efni sem er á staðnum og leyfði byggingarefnunum að koma fram
í sem óbreyttastri mynd.“
Nú leitum við að þessum teikningum og höfum grun um að þær séu á Þjóðskjalasafninu eftir viðkomu hjá Listasafni Reykjavíkur. Þar eru hæg heimatökin með bæjarfulltrúa í yfirmannsstöðu þar á bæ.
----------------------
Comments:
Skrifa ummæli