1. febrúar 2017
Stanslausir fundir í allan dag með fjölda fólks. Það er rífandi gangur í mörgum verkefnum núna en í dag hittum við fulltrúa Orteka Partners sem félagið fékk úthlutað lóðum inní Ölfusdal. Þar er nú unnið að skipulagningu aðstöðu eins og til dæmis bílastæða og þjónustuhúss en jafnframt er unnið að skipulagi baðlóna, gististaða og fleira en þessar hugmyndir voru allar kynntar íbúum á opnum íbúafundi í desember. Þeir aðilar sem hyggja á uppbyggingu á Eden reitnum og Tívolí reitnum kynnti frumdrög að að uppbyggingarhugmyndum á fundi í dag. Unnið er að deiliskipulagi beggja reitanna og ef allt gengur eins og best verður á kosið er vonast til að framkvæmdir við byggingar á Eden reitnum geti hafist á haustmánuðum. Það verður afar þakklátt verkefni ef allt útlit er fyrir að þar muni rísa nokkrir tugir íbúða. Það er mikil eftirspurn eftir húsnæði í Hveragerði og íbúum fjölgar stöðugt þrátt fyrir að það sé ekki nokkur leið að skilja hvar nýir íbúar hafa fengið húsnæði. Bæjarfélagið mun úthluta lóðum fyrir 28 íbúðir í 14 parhúsum við Hjallabrún á vormánuðum og þar mun því myndast nýtt skemmtilegt hverfi á afskaplega góðum stað. Er sannfærð um að það muni byggjast hratt og vel upp.
Í tengslum við þetta er gaman að geta þess að í dag brast 2.500 íbúa múrinn en íbúafjöldi 1. febrúar 2017 er 2.505. Við höfum lengi gert það okkur til skemmtunar að setja okkur markmið í íbúafjölda og núna féll þetta. Spurning um að stefna að því að íbúar verði orðnir 2.700 þann 1. febrúar 2019. Held reyndar að það verði ekki vandi að ná því :-).
Comments:
Skrifa ummæli