20. febrúar 2017
Ný leikskóladeild opnaði í morgun í húsnæði Apótekarans. Ég fór og skoðaði húsnæðið síðastliðinn föstudag og leist vel á. Þetta er auðvitað ekki fullkomið en samt ótrúlega skemmtilegt og verður óneitanlega tilbreyting fyrir elstu börnin. Þetta er nú samt eingöngu til bráðabirgða fram að sumarfríi leikskólans. Það er gaman að geta sagt frá því að nú rís nýr leikskóla á ógnarhraða fyrir neðan Heiðarbrúnina. Þar eru framkvæmdir þónokkuð á undan áætlun en gott veður í vetur hefur haft mikið að segja hvað það varðar. Ef allt fer samkvæmt áætlun mun leikskólinn verða afhentur tilbúinn til notkunar eigi síðar en 15. október.
Í dag er staðan sú í biðlista málum að börnum sem orðin eru 18 mánaða hefur öllum verið boðið pláss hafi þau sótt um á réttum tíma. Það telst nú bara nokkuð gott.
Fundur í höfuðborginni eftir hádegi í dag um ný lög um opinber fjármál og fjármálareglur sveitarfélaga. Það er mikilvægt að reglurnar setji ekki sveitarfélögum þannig skorður að þau geti ekki með góðu móti staðið að nauðsynlegri uppbyggingu innviða í sveitarfélögunum.
Hér fyrir austan síðdegis var síðan fundur í stjórn Bergrisans sem er byggðasamlag um málefni fatlaðs fólks hér á Suðurlandi. Það er ljóst að fjárvöntun er mikil í málaflokknum og svo til ómögulegt að byggja upp ný búsetuúrræði komi ekki nýir fjármunir inn í málaflokkinn. Þessi staða er algjörlega ólíðandi og ljóst að þessi mál verður að leysa á öðrum stöðum en á bæjarskrifstofum sveitarfélaga hér fyrir austan fjall.
Rétt náði í líkamsrækt kl. 18 - ferlega góður tími eins og alltaf !
Comments:
Skrifa ummæli