3. febrúar 2017
Fundur í dag í starfshópi sem falið var að endurskoða samþykktir Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skemmtilegur fundur enda farið djúpt og ítarlega í efnisatriði samþykktanna. Ýmislegt þarf að íhuga og margt er hægt að bæta þegar á annað borð er byrjað að endurskoða.
Skrifaði undir leigusamning bæjarins um húsnæði Apótekarans í dag. Við munum fá húsnæðið afhent um hádegi á mánudag og þá er hægt að hefja undirbúning að flutningi elstu barna Undralands þangað yfir. Þar sem þetta er bráðabirgða lausn á húsnæðisvanda leikskólans þá munum við ekki fara í miklar framkvæmdir enda er okkur það ekki heimilt skv. samningnum. En ég efast ekki um að þetta á eftir að verða skemmtileg tilbreyting fyrir stóru börnin sem mörg hver eru örugglega orðin svolítið leið á leikskólaumhverfinu eftir langa dvöl.
Það var einnig afar gaman að fá að sjá nýstandsett húsnæði Apótekarans í Verslunarmiðstöðinni. Miklu stærra húsnæði en á fyrri staðnum, aukið vöruúrval og betri vinnuaðstæður. Opnunartíminn lengist til kl. 18 alla daga svo flutningurinn þýðir aukna þjónustu fyrir bæjarbúa.
Á fimmtudag í næstu viku er fundur bæjarstjórnar og erindi eru farin að raðast á fundinn. Þetta verður efnisríkur fundur sem hefst með fundi með lögreglustjóra um löggæslumál með sérstakri áherslu á Hveragerði.
Comments:
Skrifa ummæli