2. febrúar 2017
Dagurinn byrjaði á fundi bæjarráðs þar sem helst bar til tíðinda að Viktor Sveinsson og Valgarð Sørensen kynntu hugmyndir um uppbyggingu á lóðinni Austurmörk 6-10. Þið sjáið lóðina á myndinni hér við hliðina. Vonandi ganga hugmyndir þeirra eftir enda voru teikningarnar sem lagðar voru fram metnaðarfullar og flottar.
Sólarkaffi síðdegis í Hamarshöllinni. Þar hefur sú hefð skapast að Steinar býður í vöfflur þann dag sem sólin skín fyrst á húsið í upphafi árs. Í gær var sem sagt dagurinn. Skemmtilegur hópur mætti ! Starfsmenn áhaldahúss, íþróttamannvirkja og nokkrir aðrir. Afar skemmtiegur siður og vöfflurnar og selskapurinn voru til fyrirmyndar.
Það var sérstaklega gaman að heyra þarna af afrekum Berglindar Soffíu Blöndal sem unnið hefur í íþróttamannvirkjum undanfarin ár. Hún er núna að ljúka meistaranámi í næringarfræði sem hún hefur stundað meðfram ríflega fullri vinnu. Strax mun hún byrja á doktorsnámi og er viðfangsefni hennar afskaplega spennandi en hún ætlar að skoða næringu eldra fólks og ýmislegt því tengt. Fréttin í þessu öllu er aftur á móti sú staðreynd að hún og leiðbeinandinn hennar voru að fá styrk til þessarar rannsóknar frá Rannís og fengu þau 54 mkr sem skiptast á 3 ár. Þetta þóttu mér afar ánægjuleg tíðindi og frábært hjá þessari ungu og duglegu konu. Ef einhver blaðamaður er að lesa þetta þá ættir þú að heyra í Berglindi Soffíu - niðurstöðurnar hennar eru sláandi og klárlega fréttaefni ! ! !
Comments:
Skrifa ummæli