6. október 2016
Mér finnst svo hrikalega gaman í vinnunni enda oft svo margt skemmtilegt sem skeður.
Í dag hringdi til dæmis góður íbúi Hveragerðisbæjar hingað og ræddi við Guðrúnu í afgreiðslunni. Þessi kona var nefnilega alveg með það á hreinu að ég ætti afmæli í dag og hún var búin að semja afmælisljóð fyrir mig í tilefni dagsins. Það er svona:
Í dag hringdi til dæmis góður íbúi Hveragerðisbæjar hingað og ræddi við Guðrúnu í afgreiðslunni. Þessi kona var nefnilega alveg með það á hreinu að ég ætti afmæli í dag og hún var búin að semja afmælisljóð fyrir mig í tilefni dagsins. Það er svona:
Hún á afmæli í dag hún Aldís
Eðalbæjarstjóri og skvís
Í Hveragerði er best að búa
Meðan hún er að bænum að hlúa
Það enginn fær mig til öðru að trúa
Til hamingju Aldís
Ég á samt ekki afmæli í dag - ég á afmæli í desember, en henni var bara alveg sama þegar henni var bent á það :-)
-------------
Tuttugu og fjögur mál voru á dagskrá bæjarráðsfundar í morgun. Meðal annars var farið yfir 8 mánaða uppgjör bæjarins þar sem auðvitað kom fram, eins og við vissum, að launahækkanir hafa verið verulegar og skekkja mjög rekstrarniðurstöðu bæjarins. Samt erum við í ágætis málum sýnist okkur. En auðvitað kemur það ekki endanlega í ljós fyrir en lokaframlög Jöfnunarsjóðs berast þar sem Hveragerðisbær fær drjúgan hluta tekna sinna þaðan. Hversu hátt það framlag verður liggur ekki fyrir fyrr en undir mánaðamót.
Kjörskrá vegna Alþingiskosninga var einnig tekin til afgreiðslu á fundinum. Á kjörskrá eru 1.988 manns 997 konur og 991 karl. Jafnara getur það nú varla verið.
Fundur með starfsmönnum Byggðastofnunar eftir hádegi þar sem við Sunnlendingar fengum kynningu á vinnu við gerð nýrrar byggðaáætlunar. Margt gott sem þar kemur fram en allt ber að sama brunni. Það þarf nefnilega að veita fjármunum í verkefnin til að þau geti komið að gagni. Þar hefur í gegnum tíðina verið brotalöm þegar kemur að eftirfyglni áætlana sem gerðar hafa verið.
Comments:
Skrifa ummæli