7. september 2016
Undanfarnar vikur hafa verið ansi annasamar. Fór meðal annars til Svíþjóðar í síðustu viku með nefnd sem innanríkisráðherra skipaði sem huga á að eflingu sveitarstjórnarstigsins. Með í för voru einnig fleiri sveitarstjórnarmenn sem kynntu sér stöðu sænskra sveitarfélaga og þá sérstaklega með áherslu á íbúasamráð og ákvarðanatökur. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fundaði síðan í Búðardal á föstudaginn og heimsóttum við síðan sveitarfélög á Vesturlandi fram á laugardag. Fór síðan með flugi frá Reykjavík til Vestmannaeyja á laugardeginum þar sem bróðursonur Lárusar hann Finnur Smári og konan hans hún Steinunn Hödd fögnuðu hjónabandi sínu og skírðu litlu skvísuna hana Ídu Lúcíu. Alltaf fjör í Eyjum. Þetta mikla útstáelsi þýðir auðvitað ekkert annað en að í þessari viku þarf sú sem þetta ritar að vinna myrkranna á milli :-)
Í gær sat ég átta fundi og verð að viðurkenna að hausinn snéri orðið öfugt þegar ég loksins komst heim. Allt samt bæði skemmtilegt og sumt örugglega líka gagnlegt. Það sem af er þessari viku hef ég setið fund um endurskoðun aðalskipulagsins, góðan fund með aðila sem hyggur á framkvæmdir undir Hamrinum, vinnufund vegna framkvæmda við sundlaugina Laugaskarði, fund með Davíð og Sigurdísi um málefni ferðaþjónustunnar, hitti Sævar skólastjóra vegna Grunnskólans. Átti góðan fund með þeim aðilum sem fengu úthlutað lóðunum inn við Dalakaffi. Setið fund í stjórn Sorpstöðvar Suðurlands og framkvæmdastjórn Héraðsnefndar auk þess að vera viðstödd undirskrift samnings um hjúkrunarheimili á Selfossi og marga fleiri. Í gærkvöldi kynnti ég nýjan leikskóla á aðalfundi Foreldrafélags leikskólanna, það var ansi skemmtilegt en gestir voru afskaplega áhugasamir og spurðu um margt.
Ætlaði í zumba kl. 6 í morgun en gat bara alls ekki vaknað... Ætlaði þá í ræktina síðdegis en missti af tímanum vegna fundahalda. Endaði í sundleikfimi sem var hrikalega skemmtilegt. Ætla að reyna að mæta með þeim einstaka sinnum í vetur...
Comments:
Skrifa ummæli