28. september 2016
Hef átt marga góða fundi að undanförnu með ýmsum aðilum sem eru að velta fyrir sér ferðaþjónustu tengdum rekstri hér í Hveragerði. Það er augljóst að margir vilja hasla sér völl á þessu sviði og sem betur fér sjá þessir aðilar möguleika hér í okkar fallega bæ. Það er virkilega gaman að fylgjast með lífinu sem nú er á Skyrgerðinni og núna þegar dimmir sífellt fyrr á kvöldin er notalegt að sjá þetta gamla, fallega hús uppljómað í rökkrinu.
Í dag komu hingað austur fréttamenn frá RÚV til að fjalla um Kjörís og þá framtíð sem nú blasir við fyrirtækinu eftir samþykkt nýrra búvörusamninga og tollasamninga. Þó að þessi frétt hafi verið um Kjörís þá á hún jafnvel við um Emmess ís, bakarí, sælgætisgerðir og fleiri fyrirtæki. Einnig munu þessir samningar hafa gríðarleg áhrif á kjúklinga- og svínabændur þó að með öðrum hætti sé.
En með þessum nýju samningum eru tollar á innfluttan ís lækkaðir um tugi prósentustiga en tollar á hráefni sem mestu máli skiptir hækkaðir þrefalt. Fyrirtækið þarf því að keppa við innflutning án þess að geta keypt hráefni á bestu verðum erlendis frá. Valdimar bróðir hefur orðað það þannig að það sé erfitt að vera í rekstri þegr bæði er ráðist að manni aftan frá og að framan ! Óneitanlega svíður það að þeir sem gera þessa samninga eru í stjórnmálaflokkum sem hingað til hafa viljað styrkja og styðja við iðnað og framleiðslu. En þessir samningar eru staðreynd og það er Valdimars og þess góða starfsfólks sem vinnur hjá Kjörís að hefja vegferð og baráttu fyrir tilvist þessa fyrirtækis, enn eina ferðina. Það mun vonandi takast vel enda er þetta ekki í fyrsta og sjáflsagt ekki í síðasta sinn sem lagðir eru steinar í götu þessa rétt tæplega 50 ára fyrirtækis. Verð reyndar að bæta við að mikið þótti mér vænt um að sjá gamlar myndir af pabba sem lagði allt undir til að byggja upp Kjörís. Hann naut aldrei þess erfiðis enda lést hann langt fyrir aldur fram. Valdimar er aftur á móti sláandi líkur honum, það er gaman að því !
Stjórn Sorpstöðvar fundaði í dag á Hvolsvelli. Byrjuðum á skoðunarferð á gámavöllinn á Strönd, skoðuðum einnig skólphreinsistöðina þeirra og seyrumeðhöndlun áður en við áttum góðan fund með Stefáni Gíslasyni, umhverfis sérfræðingi. Hann er væntanlega að taka að sér verkefni fyrir Sorpstöðina þar sem vinna á greiningu á flokkunarmöguleikum og framtíð málaflokksins hér fyrir austan fjall.
Í gær var boðið upp óskilhross sem ráfaði inn í Hveragerði síðastliðinn vetur. Kostnaður við uppihald og ýmis konar umsýslu nam hátt í 200.000 krónum. Ég átti von á að einhverjir myndu bjóða í hrossið enda var uppboðið auglýst bæði í blöðum, á heimasíðunni og á samfélagsmiðlum og klárinn ágætur, að því að mér skyldist. En, nei, hrossið var slegið á 5.000 krónur. Maður er alltaf að læra og þetta voru gríðarleg mistök. Hefðum að sjálfsögðu átt að bjóða í hestinn sjálf - í fyrsta lagi er þetta ekkert verð fyrir hest og í öðru lagi eru þetta um 400 kíló af hakki, bjúgum og steikum sem þarna fór á engan pening ! ! !
Comments:
Skrifa ummæli