22. júlí 2016
Það er alltaf svoítið átak að koma heim eftir frí og tala nú ekki um að mæta í vinnuna. Það er nú reyndar líka gott að vera byrjuð að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja en þau eru óneitanlega ærin .
Í morgun var fundur í bæjarráði þar sem hæst bar að bæjarráð hafnaði því eina tilboði sem barst í jarðvinnu bílastæðis við Hamarshöll. Þetta var í annað skiptið sem við buðum út þetta verk en ekkert tilboð barst í fyrra skiptið. Núna barst 1 tilboð og var það 190% yfir kostnaðaráætlun. Því taldi bæjarráð ekki fært að taka því og ákvað að fresta framkvæmdum þar til viðráðanleg verð fást í verkið. Það er greinilega gríðarleg þensla á þessum markaði núna og ekki sjálfgefið að fá viðráðanleg verð í verk.
Átti góðan fund með Lísu sem rekur tjaldsvæðið en hún lætur vel af sér en heilmikil aðsókn er að tjaldsvæðinu núna í sumar. Þar þarf greinilega að bæta aðstöðu ef að fram fer sem horfir og gestakomur aukast með sama hætti og verið hefur.
Fasteignamat hefur hækkað um umtalsvert á liðnu ári enda endurspeglar það verðmæti sölusamninga i sveitarfélaginu. Frétti af því í gær að íbúð við Lækjarbrún hefði selst á yfir 300.000 m2 sem er afar góð sala og vekur vonir um að nú muni fara í gang byggingar á reitum sem beðið hefur verið eftir eins og hér á móti okkur þar sem í raun er beðið eftir þeim glæsilegu íbúðum sem þar á að byggja.
Við Lárus fórum inn í Dal í kvöld og röltum þar um móana og skoðuðum umhverfið. Ferðin var nú ekki síst farin til að kíkja á réttina sem þar er verið að byggja. Hún mun alveg pottþétt verða vinsæll áfangastaður ferðamanna enda veitir hún skjól og ferðamennirnir þarna eru svo hrikalega margir. Í kvöld voru 26 bílar á bílastæðinu og stöðugur straumur fólks að gönguleiðinni.
En hér er mynd af framkvæmdum við réttina. Ég er ansi hrifin af panorama :-)
Comments:
Skrifa ummæli