30. maí 2016
Undanfarnir dagar hafa verið annasamir með afbrigðum og mikið gengið á.
Í síðustu vikur þurfti ég að fara til Reykjavíkur á fundi á hverjum einasta degi en það er fátt sem slítur dagana eins kröftuglega í sundur og það! Það var fundur í stjórn Sambandsins, í Ferðamálaráði, viðtöl við umsækjendur um stöðu skólastjóra og ýmislegt annað. Á föstudaginn var ég gestur þáttarins Gömlu góðu lögin á Útvarpi Sögu og var það nokkuð skondin upplifun. En samt gaman og vonandi góð auglýsing fyrir Hveragerði. Guðmundur, 85 ára gamall, föðurbróðir minn sagði mér að hann hefði heyrt í mér í upphafi þáttarins en verið snöggur að skipta um stöð, taldi næsta öruggt að ég myndi ekki tala um neitt annað en Hveragerði, blóm og sýningar og á það ætlaði hann sko ekki að hlusta :-) Reyndar var þetta hárrétt hjá honum !
Í vikunni var ég skipuð nýr formaður ráðgjafarnefnar Orkusjóðs en sá sjóður útdeilir styrkjum sem eiga að styðja við orkusparnað og það að skipt sé úr mengandi og dýrari orkugjöfum í aðra sjálfbærari. Hitti Guðna orkumálastjóra og Jakob Björnsson sem er starfsmaður sjóðsins á fundi í liðinni viku og fórum við yfir hlutverk nefndarinnar. Þetta verður án vafa spennandi verkefni.
Helgin var yndisleg en á laugardaginn útskrifaðist Albert Ingi sem stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Hreint dásamleg athöfn og gaman að sjá hversu samheldinn og flottur þessi hópur útskriftarnema er. Við héldum veislu fyrir hann um kvöldið og síðan var stúdentinum skutlað á Selfoss þar sem skemmtanin hélt áfram fram eftir nóttu. Þetta er mikill áfangi fyrir ungt fólk og því sjálfsagt að fagna með eftirminnilegum hætti.
Í dag mánudag átti ég góðan fund með Jóhönnu menningar og frístundafulltrúa þar sem við fórum yfir verkefnin framundan. Hún er svo öflug að hún er þegar búin að flestu því sem við ákváðum á fundinum.
Eftir hádegi fylgdum við svo Ragnhildi Magnúsdóttir frá Gýgjarhólskoti síðasta spölinn. Það var falleg athöfn í hennar anda en óneitanlega er það sérstakt að þau skuli bæði hafa yfirgefið þetta jarðlíf, hjónin, á örskömmum tíma.
Meirihlutafundi í kvöld var ekki hægt að hagga svo ég missti af afar fjölmennum og skemmtilegum fundi Guðna Th sem haldinn var hér í Hveragerði í kvöld. Hefði gjarnan viljað heyra í Guðna en við vorum saman í nefnd fyrir nokkru, ráðgjafahópi um Evrópusambandsaðild Íslendinga.
Comments:
Skrifa ummæli